Úrlausnir

Gagnaafhending til barnaverndarnefndar

Mál nr. 2014/756

27.11.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað um að vinnsla barnaverndarnefndar á upplýsingum um heilsufar og lögregluafskipti í tengslum við könnun barnaverndarmáls hafi samrýmst lögum nr. 77/2000.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 22. október var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2014/756:

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 30. apríl 2014 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna miðlunar persónuupplýsinga um hana frá Heilbrigðisstofnun [X] og lögregluyfirvöldum til barnaverndarnefndar [Z]. Í kvörtuninni sagði m.a. að upplýsingum úr sjúkraskrá kvartanda, þ.e. úr viðtölum kvartanda við lækna og sálfræðinga, ásamt upplýsingum úr dagbók og málaskrá lögreglu hefði verið miðlað til nefndarinnar. Telur kvartandi að umrædd miðlun hafi farið út fyrir valdheimildir barnaverndarnefndar.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 26. júní 2014, var barnaverndarnefnd [Z] tilkynnt um kvörtunina og boðið að koma á framfæri skýringum til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var svarfrestur veittur til 10. júlí 2014 og síðan framlengdur til 18. s.m. að beiðni nefndarinnar.

Svarbréf barnaverndarnefndar [Z], dags. 15. júlí 2014, barst Persónuvernd þann 18. júlí s.á. Í bréfinu segir að til þess að geta rækt lögbundin verkefni sín, samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sé barnaverndarnefndum veittar rúmar rannsóknarheimildir í lögunum, sbr. 21. og 22. gr. laganna. Þá sé í 44. gr. barnaverndarlaga mælt fyrir um skyldu hinna ýmsu stofnana til að veita barnaverndarnefndum upplýsingar um ýmis atriði. Sú skylda gangi framar lögum og siðareglum um þagnarskyldu einstakra starfssétta, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.

Þá kemur fram að gagnaöflun sú er kvörtun beinist að hafi farið fram í tengslum við vinnslu [tiltekins] máls sem barnaverndarnefnd [Z] höfðaði á hendur kvartanda [...], sbr. dóm [...] þar sem Hæstiréttur féllst á þá kröfu. Hefði nefndin aflað upplýsinga hjá ýmsum aðilum líkt og fylgigögn bréfsins berðu með sér. Er síðan rakið hvaða upplýsinga óskað var eftir í einstökum tilvikum. Meðal annars var um að ræða ósk um upplýsingar frá [Z] um [...] kvartanda og annað sem starfsmenn [Z] vildu koma á framfæri. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra, lögreglunni [Æ] og lögreglunni [X] um lögregluafskipti af kvartanda. Einnig óskaði nefndin eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins um [...] kvartanda, hegðun hennar og líðan auk upplýsinga um [...]. Þá óskaði hún eftir upplýsingum frá Landsspítala-Háskólasjúkrahúsi um  m.a. ástæður innlagnar, ástand við komu og framvindu mála hjá kvartanda.

Varðandi lagaheimildir fyrir umræddri upplýsingaöflun var vísað til þess að barnaverndarnefndir hefðu lögbundið eftirlitshlutverk, sbr. 1. tölul. 12. gr. laga nr. 80/2002, sem kveður á um að þær skuli kanna aðbúnað, hátterni og uppeldisskilyrði barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður, sæti illri meðferð eða eigi í alvarlegum félagslegum erfiðleikum. Hefði sú vinnsla persónuupplýsinga sem fram fór verið nauðsynleg til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki barnaverndarnefndarinnar og hún því heimil á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, enda væri sérstaka heimild til vinnslunnar að finna í 44. gr. laga nr. 80/2002. Þá segir:

„Varnaraðili telur að þær upplýsingar sem aflað var hafi verið nægilegar, viðeigandi og á engan hátt umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Þvert á móti voru umbeðnar upplýsingar nauðsynleg varnaraðila í því skyni að framkvæma heildstætt mat, byggt á málefnalegum forsendum og sinna þannig löbundnu eftirlitshlutverki sínu, sbr. 3. tölul. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ljóst að umrædd upplýsingaöflun samrýmdist fyrirmælum laga nr. 77/2000 og allra reglna var gætt í hvívetna af hálfu varnaraðila við vinnslu málsins.“


Með bréfi, dags. 19. ágúst 2014, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar barnaverndarnefndar [Z] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var svarfrestur veittur til 2. september s.á.

Í svarbréfi kvartanda, dags. 2. september 2014, kemur fram að hún telji að í bréfi barnaverndarnefndar [Z], dags. 18. júlí 2014, sé ekki að finna svör við þeim spurningum sem óskað hafi verið eftir. Því sé ósvarað af hverju málaskrá lögreglu hafi verið lögð fram sem gögn í málinu. Vísað er til þess að í málaskrá lögreglu megi finna ósannaðar staðhæfingar um einstaklinga og því velt upp hvort umrædd notkun skrárinnar feli í sér dylgjur. Þá er sú spurning orðuð hvort það að leggja tugi blaðsíðna úr sjúkraskrá kvartanda fyrir barnaverndarnefndina rúmist innan ramma laganna, og hvers vegna ekki sé nóg að afla upplýsinga um hvaða lyf kvartandi hafi fengið ávísað eða biðja um læknabréf. Þá er spurt um ástæður þess að eitt stakt viðtal sálfræðings við kvartanda sé á meðal gagnanna. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að eðlilegt hafi verið að barnaverndarnefndin aflaði upplýsinga um aðbúnað [barns] kvartanda. Hins vegar telji kvartandi að réttur nefndarinnar til upplýsingaöflunar um hana hljóti að vera takmörkunum háður og að kvartandi eigi einhvern rétt til friðhelgi einkalífs þrátt fyrir deilu hennar við barnaverndarnefndina.

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Kvörtun þessi lýtur að miðlun upplýsinga úr sjúkraskrá kvartanda, þ.e. viðtöl kvartanda við lækna og sálfræðinga, ásamt upplýsingum úr dagbók og málaskrá lögreglu, til barnaverndarnefndar [Z]. Af framangreindu er ljóst að öflun persónuupplýsinga af hálfu barnaverndarnefndar [Z] fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

2.

Lögmæti vinnslu


Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. upplýsingar um heilsuhagi, lyfja,- áfengis- og vímuefnanotkun og upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.) og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 gegna barnaverndarnefndir því hlutverki að kanna aðbúnað barna og meta þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður. Skulu þær beita þeim úrræðum samkvæmt lögunum sem best þykja eiga við hverju sinni til að tryggja hagsmuni og velferð barna.

Í 44. gr. laga nr. 80/2002 er fjallað um upplýsingaskyldu gagnvart barnaverndarnefnd. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er öllum heilbrigðis- og sjúkrastofnunum, sérfræðingum sem veita félagslega þjónustu, geðdeildum, meðferðarheimilum auk annarra aðila skylt, eftir að barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um könnun máls, að láta nefndinni í té „upplýsingar og afrit af nauðsynlegum gögnum um heilsu barns, foreldra þess og annarra heimilismanna, þar á meðal upplýsingar um ástand viðkomandi og batahorfur, auk annarra upplýsinga sem nefndin telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins.“ Í 3. mgr. ákvæðisins segir svo: „Þá skulu lögregla og sakaskrá ríkisins með sama hætti láta nefndinni í té upplýsingar og afrit nauðsynlegra gagna sem þessar stofnanir búa yfir um barn, foreldra þess og aðra heimilismenn sem varðað geta málið.“

Í 22. gr. laga nr. 80/2002 segir að markmið könnunar máls sé að afla upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði. Í því skyni skuli nefndin kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, þ.á.m. um hagi foreldra þess. Í athugasemdum við ákvæði 22. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 80/2002, segir að það ráðist af eðli og umfangi hvers máls hversu víðtæk könnun er. Þá segir í 2. mgr. 41. gr. laganna að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur, sbr. einnig 7. mgr. 4. gr. sömu laga sem kveður á um þá meginreglu barnaverndarstarfs að beita skuli vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. og 2. tölul. 9. gr. laga nr. 77/2000 er heimilt að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar ef sérstök heimild stendur til þess samkvæmt lögum. Verður að líta svo á að í 44. gr. laga nr. 80/2002 sé að finna slíka heimild.

Af orðalagi 1. mgr. 44. gr. má ljóst vera að bæði sálfræðingum og læknum getur verið skylt að veita upplýsingar á grundvelli ákvæðisins. Þá er beinlínis tekið fram að upplýsingar um heilsufar og batahorfur foreldris sé á meðal þess sem upplýsingaskyldan tekur til. Í athugasemdum við ákvæði 44. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 80/2002, kemur fram að upplýsingar um heilsufar og batahorfur foreldra geti vissulega skipt miklu máli þegar gera þarf áætlun um framtíð barns og stuðningsaðgerðir í þágu þess. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd meti hvaða upplýsinga er nauðsynlegt að afla í hverju tilviki fyrir sig. Við það mat verður hún þó að gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsynlegt er miðað við það markmið sem að er stefnt, sbr. 2. mgr. 41. gr. og 7. mgr. 4. gr. laganna auk 7. gr. laga nr. 77/2000.

Fyrir liggur að þegar beiðnirnar voru settar fram vann barnaverndarnefndin að [...]máli gagnvart kvartanda. Verður því að telja að mikilvægt hafi verið að málið væri rannsakað vel. Með vísan til framangreinds og þess hvernig einstakar upplýsingabeiðnir barnaverndarnefndarinnar voru settar fram verður að líta svo á að barnaverndarnefnd [Z] hafi verið innan valdheimilda sinna þegar hún aflaði upplýsinga um kvartanda úr sjúkraskrá kvartanda og viðtölum sálfræðinga við hana.

Með sömu rökum verður einnig að telja að barnaverndarnefnd [Z] hafi verið heimilt á grundvelli 3. mgr. 44. gr. laga nr. 80/2002 að afla upplýsinga um lögregluafskipti af kvartanda úr dagbók og málaskrá lögreglu.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla barnaverndarnefndar [Z] á upplýsingum um heilsufar og lögregluafskipti af [A] í tengslum við könnun máls á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 samrýmdist lögum nr. 77/2000.



Var efnið hjálplegt? Nei