Úrlausnir

Eftirlitsmyndavél í dreifbýli

Mál nr. 2017/1338

22.8.2018

Persónuvernd hefur úrskurðað að rafræn vöktun með eftirlitsmyndavél við bæinn [X] hafi ekki samrýmst ákvæðum laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006. Kvörtun laut nánar tiltekið að því að kvartandi, sem er næsti nágranni íbúa á bænum [X], taldi að hann væri í mynd í nærumhverfi sínu, en vélinni var m.a. beint að húsi kvartanda og í allar áttir, m.a. þar sem kvartandi og fjölskylda hans eiga leið um land sitt. Var þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila að breyta sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavélarinnar þannig að hún vísi ekki að svæðum á almannafæri eða eignum nágranna.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 26. júní 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/1338:

I.
Málsmeðferð

 

1.
Tildrög máls

Þann 21. september 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) vegna rafrænnar vöktunar með myndavél, sem snýst 360 gráður með aðdráttarlinsu. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að linsan snúist allan sólarhringinn og að vélin sé staðsett á hárri stöng á húsi nágranna kvartanda, [X]. Séu kvartandi og fjölskylda hans íbúar á [Y], og þar með næstu nágrannar íbúa á [X]. Telji kvartandi sig í mynd í nærumhverfi sínu, en vélin beinist að húsi kvartanda og í allar áttir, víða þar sem kvartandi og fjölskylda hans séu á ferð um land sitt og telji kvartandi því að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Telji kvartandi þessa vöktun vera langt umfram þörf þeirra aðila sem ákváðu fyrirkomulag hennar með þessum hætti. Vélin vakti ekki eingöngu nærumhverfi þeirra og ekki hafi verið haft neitt samráð við nágranna. Telji kvartandi vöktunina gróft inngrip í friðhelgi einkalífs síns og fleira fólks á svæðinu.

 

2.
Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 23. október 2017, var [B], ábyrgðaraðilum vöktunarinnar og íbúum á [X], boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi þeirra, dags. 6. nóvember s. á., kemur fram að þessar vélar hafi verið settar upp til að verja þau, heimili þeirra, land og eignir vegna íbúa [Y]. Þá kemur fram að skyggt sé fyrir nærumhverfi þeirra.

Með bréfi, dags. 29. nóvember 2017, óskaði Persónuvernd eftir nánari skýringum ábyrgðaraðila, m.a. um tilgang vöktunarinnar; hvernig vöktunin samrýmdist reglum nr. 837/2006, um rafræna vöktun; hvernig sjónarhorni myndavélarinnar væri háttað, auk skjáskota af upptökum úr myndavélainni, sem sýna myndu öll þau svæði sem myndavélin næmi; hvort myndavélin sneri að svæðum á almannafæri og ef svo væri hvernig sú vinnsla samrýmdist 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga; og meðferð myndefnisins.

Í svarbréfi [C], hdl., f.h. [B], dags. 22. janúar 2018, segir m.a. að umbjóðendur hennar hafi látið setja upp eftirlitsmyndavél til að gæta að persónulegu öryggi sínu og verja eigur sínar. Búi þeir fjarri byggð og sé heimili þeirra berskjaldað. Tilangurinn sé því tvenns konar, annars vegar að verja heimilið gegn innbrotum og hins vegar að verja eigur þeirra og þau sjálf gegn áreiti nágranna þeirra á [Y], en þau hafi um langt tímabil óttast um eigið öryggi og öryggi eigna sinna. Hafi þau tekið til þess ráðs að koma upp rafrænum vöktunarbúnaði í kjölfar morðhótunar, sem hafi verið kærð til lögreglu, auk skemmda á eigum og landi. Þá segir að um sé að ræða vöktun á einkalandi, svæði þar sem takmarkaður hópur fólks fari jafnan um. Önnur svæði hafi verið skyggð og sé því ekki haft eftirlit með öðrum einstaklingum en þeim sem eigi leið um landið. Sé því ekki um að ræða íhlutun í einkalíf annarra einstaklinga en umbjóðenda hennar. Um sé að ræða rafræna vöktun, sem hvorki feli í sér söfnun myndefnis né annarra persónuupplýsinga. Sé eftirlitið nauðsynlegt til að tryggja persónulegt öryggi umbjóðenda hennar og eigna þeirra. Þá er tekið fram að ekki hafi verið unnt að ná markmiðum umbjóðenda hennar með öðru úrræði, en þau telji ljóst að öryggi þeirra og eigna þeirra sé ekki tryggt með öðrum hætti. Hvað varðar sjónarhorn myndavélarinnar segir að myndavélin sé 360 gráðu myndavél sem sýni einkaland umbjóðenda hennar. Vélin nái að vegi og þar af leiðandi óhjákvæmilega að litlum hluta til óræktaðs lands íbúa [Y]. Einnig hafi á myndavél verið skyggt fyrir íbúðarhús og nærumhverfi íbúa [Y], auk þess sem hóll skyggi einnig á nærumhverfi þeirra. Þá komi fram að eftirlit nái til vegar sem íbúar [Y] aki eftir, sem sé í óskiptri sameign með íbúum [Y] og íbúum [X]. Sé því ógerlegt að koma í veg fyrir það að með því að vakta veginn sjáist í svæði utan lóðamarka umbjóðenda hennar, en þó sé aðeins um að ræða óræktað svæði, en ekki nærumhverfi íbúa [Y]. Nauðsynlegt sé fyrir umbjóðendur hennar að vakta veginn, enda tvær aðkomur að heimili þeirra og nauðsynlegt fyrir þau að geta haft eftirlit með því hverjir fari og komi að heimilinu. Hvað varðveislu myndefnisins varðar, kemur fram að umbjóðendur lögmannsins kaupi þjónustu af öryggisfyrirtækinu Securitas. Þjónustunni fylgi forrit sem geymi upptökur að hámarki í 45 daga. Að þeim tíma loknum sé myndefni eytt sjálfkrafa. Þá útvegi Securitas umbjóðendum hennar myndavélabúnað, sem þegar hafi verið forstilltur á þann veg að íbúðarhús og nærumhverfi íbúa [Y] sé skyggt. Upptökutæki taki síðan upp allt myndefni. Það myndefni sem tekið sé upp sé því háð því hvernig myndavélin sé stillt. Ekki sé hægt að afskyggja þá hluta sem þegar hafi verið skyggðir.

Í svarbréfinu er þess óskað að myndbandsupptaka, sem sýnir sjónarhorn myndavélarinnar, og fylgdi bréfinu, verði ekki afhent kvartanda, þ.e. íbúum [Y]. Segir að umbjóðendur lögmannsins upplifi að öryggi sínu og eignum sé ógnað af íbúum [Y], en því til stuðnings er vísað til kæru til Lögreglustjórans [Z] vegna hótana, sem jafnframt fylgdi bréfinu. Sé því farið fram á að trúnaður ríki um efni upptökunnar.

Meðfylgjandi svarbréfinu, dags. 22. janúar 2018, fylgdi jafnframt staðfesting frá vörustjóra tæknilausna hjá Securitas, send með tölvupósti til [C] hdl. þann 15. s.m., þess efnis að myndavéladeild Securitas hafi séð um að skyggja út hluta af sjónsviði vélarinnar. Skyggingin fari fram í myndavélinni sjálfri, en ekki upptökuhugbúnaðinum, og því sé ekki mögulegt að fjarlægja skygginguna af myndefni sem þegar hafi verið tekið upp.

Með tölvupósti þann 19. febrúar 2018 upplýsti Persónuvernd lögmann ábyrgðaraðila um að ekki væri unnt að verða við beiðni um að trúnaður ríkti um efni framangreindrar upptöku, þar sem aðili máls á rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða, sbr. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sé þessi aðgangur nauðsynlegur til að tryggja rétt hans til að koma að skýringum og leiðrétta framlögð gögn. Var upplýst að stofnunin ráðgerði að senda kvartanda skjáskot úr eftirlitsmyndavélinni ásamt fyrrgreindu svarbréfi, og veita kvartanda kost á að tjá sig um efnið í samræmi við ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga.

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2018, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við fram komnar skýringar lögmanns [B]. Meðfylgjandi bréfi Persónuverndar voru framangreind skjáskot úr eftirlitsmyndavélinni. Svarbréf kvartanda, dags. 11. apríl s.á., barst með tölvupósti þann 13. s.m. Kemur þar fram varðandi tilgang vöktunarinnar, að heimili ábyrgðaraðila sé ekki berskjaldaðra en annarra í nágrenninu. Hafi ekki verið vandamál með innbrot þar sem fólk býr á svæðinu og er með fasta búsetu allt árið um kring. Hvað varðar sjónarmið ábyrgðaraðila um að þau séu að gæta að persónulegu öryggi sínu og verja eigur sínar tekur kvartandi fram að íbúar á [X] séu að reyna að koma höggi á hann og konu sína, og um sé að ræða meiðyrði af verstu gerð. Er lýst fyrri samskiptum þeirra fyrir lögreglu og dómstólum, og kvartandi tekur fram að hann hafi ekki kært íbúa [X] þótt ærin ástæða hafi verið til. Þá er mótmælt öðrum fullyrðingum í bréfi lögmanns kvartanda, svo sem varðandi það að svæði sem sjáist utan lóðamarka teljist óræktað svæði og ekki í nærumhverfi íbúa [Y]. Sé allt land kvartanda nærumhverfi íbúa [Y], en íbúar fari um allt landið. Séu hross þeirra á landinu og þau sinni þeim allan ársins hring. Þá er mótmælt öðrum fullyrðingum íbúa [X], m.a. varðandi veg sem liggi í landi [Y], en sé um að ræða einkaland kvartanda. Ítrekar kvartandi rétt sinn og fjölskyldu sinnar til einkalífs og friðhelgi, og þá skoðun að þessi vöktunarbúnaður sé langt umfram þörf. Upplifi kvartandi sig undir stöðugu eftirliti, þótt vitað sé að um einhverjar skyggingar sé að ræða. Mótmæli kvartandi að hann og fjölskylda hans þurfi að búa við að vera vöktuð með myndavél á hárri stöng uppi á húsþaki. Ítreki hann því kröfu sína um að eftirlitsmyndavélin verði fjarlægð og vöktuninni hætt. Þá sé hér um að ræða vöktun á almannarými, þótt um einkaland sé að ræða, þar sem þetta sé víðátta í dreifbýli og vöktun á slíku svæði eigi eingöngu að vera í höndum lögreglu.

II.
Forsendur og niðurstaða

 

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga og rafræna vöktun sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til teljast íbúar á [X],  [B], vera ábyrgðaraðilar að umræddri vinnslu.

 

2.
Lögmæti vinnslu

Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000. Þar er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fari um að jafnaði, sé jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að slík vinnsla sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 77/2000, að vera fullnægt. Í því tilviki sem hér um ræðir reynir einkum á 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Meðferð persónuupplýsinga sem til verða í tengslum við vöktun verður, auk framangreinds, m.a. að samrýmast meginreglum 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á m. þeim reglum að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skuli samrýmast vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.). Draga má efni þessara reglna saman í eina grunnreglu þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera sanngjörn og ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu lögmæts og málefnalegs tilgangs.

Með stoð í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 hefur Persónuvernd sett reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Samkvæmt 4. gr. þeirra reglna verður rafræn vöktun að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, s.s. í þágu öryggis eða eignavörslu. Þá segir í 5. gr. reglnanna að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skuli gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

Af skjáskotum úr umræddri öryggismyndavél má greina að hún er hreyfanleg. Af skjáskotunum og gögnum málsins verður enn fremur ráðið að sjónarhorn hennar snýr að eignarlóð í eigu kvartanda. Jafnframt má sjá að stór hluti sjónarhornsins snýr að svæðum á almannafæri. Íbúðarhús kvartanda er skyggt þannig að ekki er hægt að greina sjálft húsið. Mannaferðir á umræddum svæðum má þó greina.

Ágreiningur kvartanda og ábyrgðaraðila er borinn hefur verið undir lögreglu fellur utan valdsviðs Persónuverndar. Er hér eingöngu tekin afstaða til lögmætis þeirrar rafrænu vöktunar sem fram fer af hálfu ábyrgðaraðila, með eftirlitsmyndavél sem sett hefur verið upp af þeirra hálfu. Almennt verður að líta svo á að ábyrgðaraðila sé heimil vöktun á yfirráðasvæði sínu, þ.e. innan eignarlóðar og að því gefnu að ekki ræði um svæði þar sem gildir réttur til frjálsrar umferðar samkvæmt IV. kafla laga nr. 50/2013, um náttúruvernd. Aftur á móti hefur Persónuvernd talið að rafræn vöktun á almannafæri skuli einungis vera á hendi lögreglunnar, sbr. úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2015/1060. Þegar einstaklingar eiga leið um svæði í kringum [X], getur þeim ekki verið ljóst að þeir sæti rafrænni vöktun. Sú ráðstöfun að skyggja framangreint myndefni, sem Securitas sér um að gera, dugar ekki til þess að einkaaðilum sé heimil rafræn vöktun á almannafæri sem ströng skilyrði gilda um. Auk þess er slík skygging ekki nægileg til þess að rafræn vöktun að [X] teljist uppfylla skilyrði um meðalhóf í 5. gr. reglna um rafræna vöktun, sbr. einnig 3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar eru önnur vægari úrræði í boði til að tryggja öryggi og eignarvörslu á lóð að [X]. Breyting á sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavélarinnar þannig að hún taki ekki upp efni utan eignarlóðar að[X] , er úrræði sem nær því markmiði án óþarfa íhlutunar í einkalíf þeirra sem leið eiga um þetta svæði.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að rafræn vöktun með eftirlitsmyndavél að [X], samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006, um rafræna vöktun. Beinir stofnunin þeim fyrirmælum til ábyrgðaraðila að breyta sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavélarinnar þannig að hún vísi ekki að svæðum á almannafæri eða eignum nágranna. Skal staðfesting á að það hafi verið gert send Persónuvernd eigi síðar en 1. ágúst 2018.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Rafræn vöktun með eftirlitsmyndavél að [X], samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006. Beinir stofnunin þeim fyrirmælum til [B] að breyta sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavélarinnar þannig að hún vísi ekki að svæðum á almannafæri eða eignum nágranna. Eigi síðar en 1. ágúst 2018 skal Persónuvernd hafa borist staðfesting á að það hafi verið gert.



Var efnið hjálplegt? Nei