Úrlausnir

Birting persónuupplýsinga í Alþingismannatali

Mál nr. 2018/406

21.2.2019

Kvartað var yfir birtingu persónuupplýsinga um kvartanda í Alþingismannatali, sem aðgengilegt er á vef Alþingis. Um er að ræða almennar lýðskrárupplýsingar um kvartanda, s.s. nafn, fæðingardag, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, menntun, svo og opinberar stöður sem viðkomandi hefur gegnt. Í niðurstöðu Persónuverndar er vísað til þess að almenningur hafi af því verulega hagsmuni að vera upplýstur um tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa á Alþingi og að ekki hafi verið sýnt fram á annað en að hagsmunir almennings af birtingunni gangi framar hagsmunum kvartanda af því upplýsingarnar séu ekki birtar. Var því komist að þeirri niðurstöðu, að heimilt sé að birta í Alþingismannatali almennar lýðskrárupplýsingar um kvartanda, s.s. nafn, fæðingardag, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, menntun, svo og opinberar stöður sem viðkomandi hefur gegnt. Þá var talið heimilt að birta upplýsingar um hvaða þingflokk kvartandi hefur setið á Alþingi fyrir.

Úrskurður



Á fundi stjórnar Persónuverndar 31. janúar 2019 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2018/406:

I.

Málsmeðferð


1.

Tildrög máls

Hinn 6. mars 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá Alþingi. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að á vefsíðu Alþingis sé haldið úti svokölluðu Alþingismannatali. Fram kemur einnig að kvartandi, sem setið hefur á Alþingi en féll út af þingi í síðustu kosningum, hafi leitað eftir því við Alþingi að persónuupplýsingar um hann í Alþingismannatali verði fjarlægðar en að þeirri beiðni hafi verið hafnað. Þá kemur fram að kvartandi geti ekki fellt sig við það að eftir að þingsetu sé lokið séu þar birtar upplýsingar um foreldra, skólagöngu, starfsferil, maka og börn.


2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dagsettu 12. júní 2018, var Alþingi boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um það hvort og þá hvernig gætt hefði verið að ákvæðum laga um persónuvernd. Svarað varð með bréfi, dags. 26. júní 2018. Þar kemur fram að sú framkvæmd að halda skrá yfir þá sem tekið hafa sæti á Alþingi sé yfir 100 ára gömul. Alþingismannatal muni hafa verið gefið út af skrifstofu Alþingis og hafi náð til áranna frá 1845 til dagsins í dag. Fram kemur í svari Alþingis að í vefútgáfu Alþingismannatals, sem hér sé til skoðunar, séu birt æviágrip þingmanna frá 1845 í samfelldri stafrófsröð. Umræddar upplýsingar séu einnig aðgengilegar í handbókum Alþingis, sem gefnar hafa verið út frá árinu 1984, en rafrænt frá árinu 1999. Vísað er til þess að þessi framkvæmd byggist á því viðhorfi að almenningur skuli hafa sem bestar upplýsingar um þá sem kjörnir hafa verið til setu á Alþingi. Að því búi að baki þau sjónarmið að Alþingi sé fulltrúasamkoma lýðræðiskjörinna fulltrúa í opnu og lýðræðislegu samfélagi. Slíkar upplýsingar varpi ljósi m.a. á uppruna og bakgrunn þingmanna, viðfangsefni þeirra og tengsl þeirra við hagsmunaaðila. Það séu því fyrst og fremst almannahagsmunir sem liggi til grundvallar birtingunni, sem og hagsmunir Alþingis sem heildar, fremur en hagsmunir þeirra sem kjörnir hafa verið til setu á Alþingi. Vísað er til þess að þær upplýsingar sem um ræðir séu að mestu einnig aðgengilegar í stéttartölum. Fram kemur það mat Alþingis að sterk rök mæli með því að umræddar upplýsingar varði störf Alþingis sem fulltrúasamkomu. Er í þessu samhengi vísað til heimildar 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, sem heimilar vinnslu persónuupplýsinga í þágu almannahagsmuna (nú 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018). Er ennfremur vísað til þess að stuðst hafi verið við almennar og viðurkenndar ritstjórnarreglur við ritun æviágripa og afstöðu þingmanna til þeirra. Vísað er til þess að Alþingi telji sér skylt að fylgja áðurnefndum ritstjórnarreglum sem skjalfestar hafi verið af forsætisnefnd sem ákveðið hafi útgáfuna, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis, sem kveður á um að forsætisnefnd setji almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Vísað er til þess að kvartandi hafi við alþingiskosningar 28. október 2017 hlotið kosningu sem [...] varamaður síns lista í [...]kjördæmi og því eigi við hann ákvæði 122. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, taki hann sæti á Alþingi sem varamaður. Kvartandi hafi ekki sagt af sér varaþingmennsku. Enn fremur er vísað til þess að orðið hafi verið að ósk kvartanda um breytingar á skráningu hans í Alþingismannatal í febrúar 2017. Eins er vísað til þess að kappkostað sé að vinna með umræddar upplýsingar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti. Að lokum er vísað til þess að frekari svara sé að vænta í kjölfar fundar forsætisnefndar Alþingis.

Viðbótarsvör bárust með bréfi Alþingis, dags. 16. október 2018. Þar kemur fram að mál kvartanda hafi verið tekið fyrir á fundi forsætisnefndar, þann 15. október 2018. Í bréfinu er vísað til þess að vinnsla æviágripa þingmanna sé þríþætt. Í fyrsta lagi fari hún fram við útgáfu Handbókar Alþingis, sem gefin er út að liðnum hverjum Alþingiskosningum. Í öðru lagi við endurskoðun og útgáfu Alþingismannatals og í þriðja lagi við vefútgáfu á æviágripi. Fram kemur að Alþingi telji umrædda vinnslu falla innan gildissviðs laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vísað er til fyrra svars hvað varðar tilgang vinnslu og áréttað að hann sé sá að almenningur hafi sem bestar upplýsingar, annars vegar um alþingismenn sem kjörnir hafa verið til setu á Alþingi að liðnum hverjum Alþingiskosningum og hins vegar um þá alþingismenn sem tekið hafa sæti á Alþingi, þ.m.t. varaþingmenn. Fram kemur sú afstaða Alþingis að vinnsla þessi hafi byggt á 7. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, (nú 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018). Einnig er vísað til þess að þeirra upplýsinga sem birtar eru í Alþingismannatali hafi verið aflað hjá kvartanda sjálfum. Enn fremur er vísað til þess að í 4. og 5. gr. reglna forsætisnefndar Alþingis, frá 28. nóvember 2011 sé mælt fyrir um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings og hagsmunatengslum alþingismanna að öðru leyti, sbr. einkum 8. og 9. gr. siðareglna Alþingis fyrir alþingismenn. Að lokum er vísað til þess að slíkar upplýsingar geti haft þýðingu þó svo að þingmaður sitji ekki lengur á þingi og er í því sambandi m.a. vísað til þess að viðkomandi kunni m.a. að taka sæti á þingi sem varaþingmaður.

Með bréfi, dagsettu 19. nóvember 2018, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Alþingis. Svarað var með bréfi, dags. 29. nóvember 2018. Þar ítrekar kvartandi kvörtun sína.


II.

Forsendur og niðurstaða


1.

Lagaskil

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem giltu þegar kvörtun í máli þessu barst, voru leyst af hólmi með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem tóku gildi 15. júlí 2018. Þau lögfestu jafnframt reglugerð (ESB) 2016/679 um persónuvernd, eins og hún var aðlöguð og tekin upp í EES-samninginn.

Þar sem kvörtun þessi beinist að ástandi sem enn er til staðar, þ.e. efni Alþingismannatals, auk þess sem þær reglur laga um persónuvernd sem á reynir hafa ekki breyst efnislega, verður leyst úr málinu á grundvelli laga nr. 90/2018.

2.

Gildissvið laga nr. 90/2018

Ábyrgðaraðili

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, en einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, s.s. með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti, sbr. 2. tölulið 3. gr. laganna. Þá er með vinnslu átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, s.s. söfnun, skráningu, flokkun, kerfisbindingu, varðveislu, aðlögun eða breytingu, heimt, skoðun, notkun, miðlun með framsendingu, dreifingu eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtengingu eða samkeyrslu, aðgangstakmörkun, eyðingu eða eyðileggingu, sbr. 4. tölulið sömu greinar.

Mál þetta lýtur að vinnslu Alþingis á upplýsingum um þingmenn, fyrrverandi þingmenn og fjölskyldur þeirra. Þar sem vinnslan er ekki beinu sambandi við þau störf sem Alþingi fer með lögum samkvæmt er hún ekki undanþegin gildissviði laganna skv. 5. mgr. 4. gr. laga 90/2018. Að því virtu og með hliðsjón af framangreindum ákvæðum varðar mál þetta vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölulið 3. gr. laganna er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Eins og hér háttar til telst Alþingi vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

3.

Lögmæti vinnslu

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. laga nr. 90/2018. Þá þarf ávallt að vera fullnægt einhverju af viðbótarskilyrðum 1. mgr. 11. gr. sömu laga svo að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar, en þar undir falla t.a.m. upplýsingar um stjórnmálaskoðanir, sbr. a-lið 3. tölul. 3. gr. laganna. Af heimildum 9. gr. laganna telur Persónuvernd að einkum geti átt við 5. og 6. tölul., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða hún sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra. Þá telur Persónuvernd að af heimildum 1. mgr. 11. gr. til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar komi einkum til álita 5. tölul., þess efnis að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar sem hinn skráði hefur augljóslega sjálfur gert opinberar. Nánar tiltekið er þá litið til þess að í Alþingismannatali eru birtar upplýsingar um þau framboð sem alþingismenn hafa boðið sig fram fyrir, en með því hafa þeir sjálfir gefið stjórnmálaskoðanir sínar til kynna.

Auk heimildar samkvæmt framangreindu er áskilið í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, að öll vinnsla persónuupplýsinga skuli fullnægja þeim grunnkröfum sem þar eru tilgreindar. Er þar m.a. kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða (1. tölul.), að þær skuli fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi (2. tölul.), að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.) og að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingum, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli eytt eða þær leiðréttar án tafar (4. tölul.). Í ljósi hlutverks Alþingis, eins og það er afmarkað m.a. í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, verður að ætla þinginu nokkurt svigrúm til vinnslu upplýsinga er varða störf þess.

Telja má, með vísan til 5. og 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, að skrá megi í Alþingismannatal almennar lýðskrárupplýsingar, s.s. nafn og fæðingardag, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt, og gera þær aðgengilegar almenningi, nema fram komi rökstudd andmæli hins skráða sem réttmætt sé að taka tillit til. Með vísan til framangreindra ákvæða 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. einnig 5. tölul. 11. gr. sömu laga, verður að ætla að í Alþingismannatal megi skrá upplýsingar um hvaða flokka þingmenn hafa setið á þingi fyrir. Umrædd vinnsla verður þó ávallt að fara fram með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, þegar litið er til efnis, framsetningar og þess samhengis sem persónuupplýsingar birtast í.

Telja verður að almenningur hafi af því verulega hagsmuni að vera upplýstur um tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa á Alþingi og ekki hefur verið sýnt fram á annað en að hagsmunir almennings af birtingunni gangi framar hagsmunum kvartanda af því upplýsingarnar séu ekki birtar. Persónuvernd telur, með vísan til ofangreinds, að heimilt sé að birta í Alþingismannatali almennar lýðskrárupplýsingar um kvartanda, s.s. nafn, fæðingardag, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, menntun, svo og opinberar stöður sem viðkomandi hefur gegnt. Þá telur Persónuvernd heimilt að birta þar upplýsingar um hvaða flokk hann hefur setið á þingi fyrir.

Að framangreindu virtu er niðurstaða Persónuverndar sú að vinnsla Alþingis á persónuupplýsingum um kvartanda vegna Alþingismannatals samrýmist lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.


Ú r s k u r ð a r o r ð:



Vinnsla Alþingis á persónuupplýsingum um [A] vegna Alþingismannatals samrýmist lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.



Var efnið hjálplegt? Nei