Úrlausnir

Álit um upptöku og birtingu símtala við starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands

Mál nr. 2020123085

4.4.2022

 

Efni: Svar við beiðni Sjúkratrygginga Íslands um heimild einstaklings til að taka upp símtöl við starfsmenn stofnunarinnar og birta þau á samfélagsmiðli

1.
Erindi álitsbeiðanda

Persónuvernd vísar til erindis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 14. desember 2020, þar sem óskað er álits stofnunarinnar á þeirri fyrirætlan einstaklings að birta upptökur af símtölum við starfsmenn Sjúkratrygginga á samfélagsmiðli, þ.e. Facebook. Greint er frá því í erindinu að viðkomandi einstaklingur hafi sent Sjúkratryggingum upptöku af símtali við starfsmann stofnunarinnar í tölvupósti hinn 3. desember 2020 og tekið fram að hann ætti fleiri upptökur af símtölum við starfsmenn hennar, svo og að hann hygðist birta upptökurnar. Þá segir að einstaklingurinn hafi ekki upplýst starfsmenn um upptökurnar þegar þær fóru fram.

 

Með vísan til þessa er í bréfi Sjúkratrygginga óskað svara um eftirfarandi:

 

  1. Hvort viðkomandi hafi verið heimilt að taka upp símtöl við starfsmenn Sjúkratrygginga án þess að upplýsa þá um að símtölin væru tekin upp. Vísa Sjúkratryggingar í því sambandi til 48. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti þar sem fjallað er um skyldu þess sem tekur upp símtal til að tilkynna viðmælanda sínum um upptökuna fyrirfram.
  2. Hvort viðkomandi sé heimilt að birta upptökurnar á Facebook-síðu sinni.

2.
Svar Persónuvernda
r

1. Um hvort heimilt hafi verið að taka upp samtöl við starfsmenn Sjúkratrygginga

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þarf hún ávallt að falla undir heimild samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, nema vinnslan falli undir takmörkun á gildissviði löggjafarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Þegar einstaklingur tekur upp símtöl við starfsmenn opinberrar stofnunar án samþykkis þeirra getur reynt á 6. tölul. 9. gr. laganna, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna nema hagsmunir eða grundvallarréttindi hins skráða vegi þyngra. Gæti meðal annars þurft að meta í slíkum tilvikum hvort einstaklingur teldist hafa lögmæta hagsmuna af sönnun um hvað átt hefur sér stað í samskiptum við opinbera stofnun og hvort þeir vegi þyngra en hagsmunir starfsmanns af að þurfa ekki að sæta upptöku við störf sín.

 

Að auki ber að líta til grunnkrafna 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, þ. á m. um að við vinnslu persónuupplýsinga skal þess gætt að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum gagnvart hinum skráða (1. tölul. ákvæðis laganna og a-liður ákvæðis reglugerðarinnar). Í þessu felst krafa um að vinnsla persónuupplýsinga fari ekki fram með leynd, svo og að vinnsla fari fram í samræmi við þær réttarreglur sem við eiga hverju sinni. Eins og hér háttar til reynir þá sérstaklega á 48. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 sem eins og fyrr greinir er vísað til í erindi Sjúkratrygginga. Í 1. mgr. ákvæðisins er að finna þá meginreglu að sá aðili að símtali sem vill hljóðrita símtal skuli í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun sína.

Tekið skal fram í þessu sambandi að þegar um ræðir hljóðupptöku einstaklings á símtölum getur reynt á 2. mgr. 4. gr. laganna, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að löggjöfin gildi ekki um vinnslu einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Alla jafna ætti þessi takmörkun á gildissviði persónuverndarlöggjafar ekki við þegar einstaklingur vinnur með persónuupplýsingar með það í huga að birta þær síðar. Þá kann hins vegar eftir atvikum að reyna á mörk réttarins til friðhelgi einkalífs og verndar persónuupplýsinga annars vegar og tjáningarfrelsisins hins vegar, sbr. þau sjónarmið sem birtast í 6. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 85. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Persónuvernd hefur litið svo á að það falli í hlut dómstóla að leysa úr málum þar sem svo háttar til.

Að öðru leyti vísast til almenns álits sem Persónuvernd hefur gefið út um persónuvernd og tjáningu einstaklinga á Netinu, dags. 25. janúar 2022, í máli nr. 2021091863.

2. Um hvort birting á upptökum sé heimil

Hér reynir á sömu réttarreglur og raktar eru í 1. kafla hér að framan, svo og sjónarmið um beitingu þeirra. Gæti því meðal annars reynt á hvort birting teldist þáttur í tjáningarfrelsi einstaklings. Þá skal tekið fram að ef upptaka teldist hafa verið óheimil myndi birtingin alla jafna teljast það líka, en í því sambandi gæti þó reynt á margvísleg álitaefni, allt eftir atvikum hverju sinni. Má þar nefna það mál sem leyst var úr með úrskurði Persónuverndar, dags. 22. maí 2019 (mál nr. 2018/1741). Var þar komist að niðurstöðu um að tiltekin upptaka með leynd hefði verið óheimil, en jafnframt var tekið tillit til sjónarmiða um tjáningarfrelsi við ákvörðun um hvort lögð skyldi á stjórnvaldssekt samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni. Hljóðskeið úr upptökunni sem um ræddi höfðu verið birt í fjölmiðlum, en ekki var kvartað sérstaklega yfir þeirri birtingu. Ef svo hefði verið er ljóst að taka hefði þurft afstöðu til valdsviðs Persónuverndar í tengslum við birtinguna í ljósi tjáningarfrelsissjónarmiða.

- - - - - - - - - - - - - - - - -


Að lokum skal tekið fram að umfjöllun í bréfi þessu felur í sér almenna leiðbeiningu um beitingu persónuverndarlöggjafar við aðstæður eins og lýst er í erindi Sjúkratrygginga. Er því ekki um að ræða bindandi afstöðu Persónuverndar til tiltekins máls verði hugsanlegum ágreiningi í tengslum við það skotið til úrlausnar stofnunarinnar.


Persónuvernd, 30. mars 2022

 

Þórður Sveinsson                                 Rebekka Rán Samper

 Var efnið hjálplegt? Nei