Leyfisveitingar og móttaka tilkynninga

Persónuvernd afgreiðir leyfisumsóknir, tekur við tilkynningum og mælir, eftir því sem þurfa þykir, fyrir um ráðstafanir að því er varðar tækni, öryggi og skipulag vinnslunnar þannig að hún verði í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

Með gildistöku núgildandi laga um persónuvernd var dregið verulega úr leyfisveitingum, enda þótti eldra fyrirkomulag þungt í vöfum. Þess í stað er lögð áhersla á sjálfsákvörðunarrétt hins skráða og tilkynningarskyldu ábyrgðaraðilans.

Í tilkynningarskyldunni felst að sá sem hyggst hefja vinnslu persónuupplýsinga skal tilkynna Persónuvernd um vinnsluna áður en hún hefst með því að fylla út rafrænt eyðublað sem er að finna á þessari heimasíðu. Þegar Persónuvernd hefur veitt tilkynningu viðtöku gefst færi á að grípa inn í atburðarásina ef þess er talin þörf. Tilkynningarskyldunni er þó fyrst og fremst ætlað að tryggja gagnsæi og tilkynningin er færð í opinbera tilkynningarskrá sem haldin er samkvæmt lögum. Því er mikilvægt er að hafa í huga að móttaka tilkynningar felur hvorki í sér staðfestingu á né samþykki við því sem þar kemur fram heldur eru allar aðgerðir ábyrgðaraðila á hans eigin áhættu.

Þrátt fyrir að dregið hafi verið úr leyfisveitingum er vinnsla persónuupplýsinga þó í sumum tilvikum háð leyfi Persónuverndar. Hafa ber í huga að Persónuvernd getur ekki gefið út afturvirk leyfi og því er nauðsynlegt að sækja um leyfi áður en vinnsla hefst.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica