Um Persónuvernd

Persónuvernd er sjálfstæð stofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir innanríkisráðherra. Ráðherra skipar bæði forstjóra og stjórn Persónuverndar. Forstjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi hennar en að öðru leyti ákveður stjórn skiptingu starfa á milli hennar og skrifstofu. Í því skyni hefur stjórn sett reglur nr. 231/2012 um skiptingu starfa á milli stjórnar og starfsmanna Persónuverndar.

Skipurit Persónuverndar


Skrifstofa Persónuverndar er að Rauðarárstíg 10, 105 Reykjavík. Hún er opin kl. 9-12 og 13-15. Svarað er í síma 510 9600 á opnunartíma skrifstofunnar. Símatími lögfræðinga er kl. 10-12 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.

Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna settra samkvæmt þeim. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2001. Samhliða gildistöku þeirra féllu úr gildi lög nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, en tölvunefnd hafði haft eftirlit með framkvæmd þeirra laga.

Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga hér á landi. Hún getur fjallað um einstök mál að eigin frumkvæði eða samkvæmt erindi þess sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar um hann í samræmi við lög um persónuvernd, reglur settar samkvæmt þeim eða einstök fyrirmæli.

Þau verkefni sem Persónuvernd eru falin eru meðal annars að afgreiða leyfisumsóknir, taka við tilkynningum og gefa fyrirmæli varðandi tækni, öryggi og skipulag vinnslu persónuupplýsinga. Enn fremur er Persónuvernd falið að hafa eftirlit með því að farið sé að reglum um vinnslu persónuupplýsinga og bætt sé úr annmörkum og mistökum; að fylgjast með þróun á sviði persónuupplýsingaverndar á erlendum jafnt sem innlendum vettvangi og hafa yfirsýn yfir og kynna helstu álitaefni sem tengjast vinnslu persónuupplýsinga; að skilgreina og afmarka hvar persónuvernd er hætta búin og veita ráð um leiðir til lausnar; að leiðbeina þeim sem ráðgera að vinna með persónuupplýsingar, eða þróa kerfi fyrir slíka vinnslu, um persónuvernd. Þá ber Persónuvernd að tjá sig um álitamál varðandi meðferð persónuuplýsinga og veita umsagnir við setningu reglna er þýðingu hafa fyrir persónuvernd. Loks ber Persónuvernd að birta árlega skýrslu um starfsemi sína.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica