Myndbirtingar

Myndbirtingar

Hvaða reglur gilda um myndbirtingar á netinu? Má t.d. setja mynd, sem tekin var af mér á Internetið?

10.8.2006


Í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eru persónuupplýsingar skilgreindar sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.

Af skilgreiningunni leiðir að myndir geta fallið hér undir ef hægt er að bera kennsl á þann er birtist á mynd og segja má að myndin beri með sér upplýsingar um hann.
Birting slíkra mynda á Internetinu getur talist vera rafræn vinnsla persónuupplýsinga og verður þá að uppfylla skilyrði laga nr. 77/2000.

Engar sérstakar reglur er að finna í lögum nr. 77/2000 um myndbirtingar á Internetinu. Því gilda almennar reglur laganna um þær. Í 8. gr. laganna er talið upp hvenær má vinna með almennar persónuupplýsingar. Ef setja á mynd sem inniheldur persónuupplýsingar á netið verður eitthvert þeirra sjö skilyrða sem talin eru upp í 8. gr. að vera uppfyllt. Ef myndin er hins vegar viðkvæm á einhvern hátt getur verið að einnig þurfi að vera uppfyllt eitthvert af skilyrðum 9. gr.

Hér verður þó að hafa í huga að birting mynda á Internetinu getur tengst tjáningarfrelsinu. Þá ber að líta til 5. gr. laganna en hún segir að víkja megi frá ákvæðum laganna þegar menn vinna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þ.e.a.s. þá víkja lögin að því marki sem nauðsynlegt er til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og rétt til tjáningarfrelsis hins vegar. Í vissum tilvikum getur birting mynda úr mannlífinu, s.s. "af djamminu", fallið hér undir og þá eiga 8. og. 9. gr. ekki við.

Engu að síðar gilda alltaf meginreglurnar í 1. og 4. tl. 7. gr. laganna um það hvernig skuli farið með persónuupplýsingar. T.d. reglur um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skuli vera í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga.

Þar af leiðandi getur í skjóli tjáningarfrelsisins verið heimilt að setja mynd sem tekin er af þér "á djamminu" á netið án þess að spyrja þig fyrst um leyfi - en ef myndbirtingin er t.d. meiðandi fyrir þig getur verið um að ræða brot á þessum reglum.

Internetið er hins vegar miðill sem nota má á margan hátt. Oft tengist notkun þess á engan hátt tjáningarfrelsi og er líklegt að þá þurfi sá sem notar netið að hafa heimild í 8. eða 9. gr. til að birta þar upplýsingar um fólk.

Að lokum má geta þess að danska Persónuverndarstofnunin hefur gefið út leiðbeinandi álit á því hvenær heimilt sé að birta myndir af einstaklingum á Internetinu, þ.e. án þeirra samþykkis. Þar er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða mynd af viðburði (situationsbilleder), s.s. mynd tekin af hópi áhorfenda á íþróttaleik, eða mynd af tilteknum jafnvel nafngreindum einstaklingi (portrætbillede). Telur danska persónuverndarstofnunin að þær fyrrnefndu megi alla jafna birta án samþykkis viðkomandi einstaklinga en annað eigi við um birtingu þeirra síðarnefndu. Danska álitið má lesa í heild hér.Þetta vefsvæði byggir á Eplica