Upplýsingar um IP-tölur

Mega fjarskiptafyrirtæki afhenda lögreglu upplýsingar um notendur IP-talna án dómsúrskurðar?

Mega fjarskiptafyrirtæki afhenda lögreglu upplýsingar um notendur IP-talna án dómsúrskurðar?

Skv. 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 ber fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði, m.a. til þess að unnt sé að upplýsa hver af viðskiptavinum fyrirtækisins hafi verið notandi tiltekinnar IP-tölu á tilteknum tíma.

Í 7. mgr. 47. gr. sömu laga segir síðan:

"Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Fjarskiptafyrirtæki er þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu). Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal að öðru leyti fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála."

Af þessu leiðir að lögregla þarf ekki dómsúrskurð til þess að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtæki um hver var eða er notandi tiltekinnar IP-tölu ef upplýsinganna er aflað í þágu rannsóknar opinbers máls. Þetta var umdeild breyting á fjarskiptalögum og Persónuvernd lagðist gegn henni á sínum tíma.

Eins og sést af orðalagi ákvæðisins er það skilyrði fyrir afhendingu upplýsinganna að hún fari fram í þágu rannsóknar opinbers máls, þ.e.a.s. sakamáls. Af því leiðir að lögregla og fjarskiptafyrirtæki verða að koma sér upp verklagi við samskipti sín á milli sem tryggir að haldið sé utan um hvaða upplýsingar eru afhentar og á hvaða grundvelli það er gert. Í samræmi við það er í 7. mgr. 42. gr. fjarskiptalaga kveðið á um að fjarskiptafyrirtæki skuli setja sér verklagsreglur um meðferð persónuupplýsinga og eyðingu gagna í samræmi við ákvæði 42. gr. laganna. Þá má geta þess að árið 2005 upplýsti lögreglusjórinn í Reykjavík Persónuvernd um að embættið hygðist setja sér sérstakar verklagsreglur um samskipti við fjarskiptafyrirtæki.Þetta vefsvæði byggir á Eplica