Börn

Upplýsingar á heimasíðum grunnskóla

7.9.2006

Hvaða upplýsingar er heimilt að birta um nemendur á heimasíðum grunnskólanna?

Persónuvernd hefur ekki gert athugasemdir við birtingu bekkjalista með nöfnum og heimilisföngum út frá sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs, enda er þar um almennar lýðskrárupplýsingar að ræða. Hins vegar er rétt að benda á að almenn öryggissjónarmið mæla með því að gætt sé varúðar við birtingu upplýsinga um börn á Netinu. Þá er bent á að margir kjósa að skrá símanúmer sín ekki í símaskrá og því er ekki rétt að birta slík símanúmer án samþykkis viðkomandi.

Ef fyrirhugað er að birta bekkjalista á Netinu er rétt að forsjármenn hafi vitneskju um það og að fullt tillit sé tekið til andmæla þeirra ef einhver eru.

Ef tilgangurinn með birtingu bekkjalistanna er fyrst og fremst sá að forsjármenn geti nálgast upplýsingar um hvernig hægt er að hafa samband við bekkjarfélaga barna sinna er bent á þann möguleika að læsa þessum hluta heimasíðunnar fyrir óviðkomandi aðilum.

Þá ber að gæta varúðar við birtingu mynda af börnum á Netinu. Almennt verða ekki gerðar athugasemdir við birtingu ýmissa tækifæris- og hópmynda úr skólastarfinu, en ekki ætti að birta myndir, t.d. andlitsmyndir, af tilteknu barni án þess að forsjármaður þess hafi samþykkt slíkt. Þetta vefsvæði byggir á Eplica