Viðburðir

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn 28. janúar

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn verður haldinn hátíðlegur þann 28. janúar næstkomandi. Af því tilefni mun Persónuvernd taka þátt í og koma að ýmsum viðburðum.

UTmessan 2. og 3. febrúar

Persónuvernd mun taka þátt í UTmessunni sem haldin er 2. og 3. febrúar næstkomandi. UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Tilgangurinn er ekki síst til að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikil þessi grein er orðin hér á landi. Á UTmessuna mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.

Á fyrri ráðstefnudeginum verður mögulegt að hlýða á málsmetandi sérfræðinga á sviði persónuverndar, en þar ber einna hæst Marc Rotenberg, framkvæmdastjóra „Electronic Privacy Information Center“ (EPIC). Þá munu fjórir aðrir sérfræðingar á sviði persónuverndar halda tölu á sérstakri persónuverndarlínu, þar á meðal Bjørn Erik Thon, forstjóri norsku Persónuverndarstofnunarinnar.

Persónuvernd mun vera með sérstakan sýningarbás á seinni ráðstefnudeginum sem almenningur getur heimsótt. Þar gefst almenningi kjörið tækifæri til þess að tala við lögfræðinga stofnunarinnar um persónuvernd og þær miklu hræringar og áskoranir sem eru framundan á sviði persónuverndar. Þá mun stofnunin útdeila bæklingum sem útlista annars vegar nýjar og breyttar skyldur fyrir fyrirtæki og stofnanir sem nýja persónuverndarlöggjöfin mun hafa í för með sér og hinsvegar rétt einstaklinga til persónuverndar.

Málþing Orators í samstarfi við ELSA: Ný persónuverndarlöggjöf

Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, í samstarfi við ELSA Ísland, stendur fyrir málþingi miðvikudaginn 31. janúar 2018 í stofu HT-102 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands.

Yfirskrift málþingsins er „Ný persónuverndarlöggjöf - Í hverju felast breytingarnar?“

Framsögumenn á málþinginu verða Björg Thorarensen, formaður stjórnar Persónuverndar og prófessor við Háskóla Íslands. Björg mun fjalla um þær breytingar sem reglugerðin hefur í för með sér og hvernig þær verða innleiddar í íslenskan rétt

Davíð Þorláksson, lögmaður og forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins og.  Í erindi sínu mun Davíð lýsa sjónarmiðum atvinnulífsins varðandi löggjöfina, þeim vanköntum sem kunna að vera uppi varðandi innleiðingarferlið og fjalla almennt um innleiðingar á EES gerðum.

Salka Sól Styrmisdóttir, lögfræðingur hjá Landslögum. Í erindi sínu mun Salka fara stuttlega yfir þær breytingar á reglugerðinni sem hafa mestar afleiðingar í för með sér fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir og einnig mun hún fjalla um svokallaða GDPR ráðgjöf sem lögmannsstofur og lögfræðingar hafa verið að þjónusta fyrirtæki og opinberar stofnanir með undanfarin misseri. 

Ársskýrsla Persónuverndar 2017

Persónuvernd mun gefa út ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2017. Skýrslan verður aðgengileg á vefsíðu Persónuverndar.


Var efnið hjálplegt? Nei