X gert að stöðva vinnslu persónuupplýsinga notenda sinna í þágu þjálfunar gervigreindartólsins „Grok“
Írska persónuverndarstofnunin (e. Data Protection Commission, DPC) hefur náð samkomulagi við X (áður Twitter) um að fyrirtækið stöðvi vinnslu á persónuupplýsingum úr opinberum færslum notenda X-forritsins á Evrópska efnahagssvæðinu sem fyrirtækið vann frá 7. maí til 1. ágúst 2024 í þeim tilgangi að þjálfa gervigreindartólið „Grok“. Samkomulagið var gert eftir að stofnunin lagði málið fyrir Hæstarétt landsins vegna brýnna hagsmuna einstaklinga á Evrópska efnahagssvæðinu.
Þetta er í fyrsta skipti sem persónuverndarstofnun grípur til slíkra aðgerða en málið var lagt fyrir dómstólinn eftir umfangsmikil samskipti DPC og X um þjálfun gervigreindarmódelsins. Stöðvunin mun vara á meðan DPC skoðar ásamt systurstofnunum í Evrópu að hvaða marki vinnslan er í samræmi við almennu persónuverndarreglugerðina.