Fréttir

Vinnsla Creditinfo Lánstrausts hf. á upplýsingum um fyrri skráningar á vanskilaskrá við gerð skýrslna um lánshæfi kvartanda

17.8.2020

Persónuvernd hefur úrskurðað um að Creditinfo Lánstrausti hf. hafi verið heimilt að notast við upplýsingar um fyrrum skráningar kvartanda á vanskilaskrá við gerð skýrslna um lánshæfi kvartanda. Vísaði Persónuvernd til þess að stofnunin hefði áður tekið afstöðu til umrædds álitaefnis með úrskurðum, sbr. í því sambandi úrskurð, dags. 26. janúar 2017, í máli nr. 2016/950, úrskurð, dags. 6. desember 2016, í máli nr. 2016/580, úrskurð, dags. 28. september 2017, í máli nr. 2016/1138 og úrskurð, dags. 31. maí 2018, í máli nr. 2017/537. Í öllum framangreindum úrskurðum taldi Persónuvernd að Creditinfo væri heimilt að nýta upplýsingar um færslu á vanskilaskrá félagsins við gerð skýrslna um lánshæfi kvartenda, í fjögur ár frá skráningu slíkra upplýsinga. Taldi Persónuvernd sömu rök eiga við í þessu máli og því hafi vinnslan verið heimil með vísan til 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Þá taldi Persónuvernd lög ekki gera þá kröfu að Creditinfo eigi að líta til upplýsinga um tekjur og eignir einstaklinga við gerð skýrslna um lánshæfi einstaklinga en það falli fremur í hlut viðkomandi lánveitanda að taka mið af slíkum upplýsingum þegar greiðslugeta viðkomandi lántaka er skoðuð í tengslum við gerð greiðslumats. Loks taldi Persónuvernd vinnsluna ekki hafa brotið í bága við meginreglur 8. gr. laga nr. 90/2018. 

Úrskurður PersónuverndarVar efnið hjálplegt? Nei