Fréttir

Über sektað í mörgum Evrópulöndum vegna gagnaleka

8.1.2019

Leigubílafyrirtækið Über hefur verið sektað um háar fjárhæðir í Bretlandi, Frakklandi, Hollandi og Ítalíu vegna rangra viðbragða við gagnaleka.

Persónuverndarstofnanir nokkurra Evrópuríkja, m.a. Bretlands, Frakklands, Hollands og Ítalíu, hafa sektað leigubílafyrirtækið Über um hundruð þúsunda evra hver, fyrir að bregðast rangt við gagnaleka.

Persónuupplýsingum milljóna viðskiptavina fyrirtækisins var stolið úr skýjaþjónustu móðurfyrirtækisins í Bandaríkjunum. Tölvuþrjótarnir notuðu stolin notendanöfn og lykilorð til að komast í gögnin í október og nóvember 2016.

Viðskiptavinum og bílstjórum fyrirtækisins var ekki sagt frá gagnalekanum í meira en ár. Þess í  stað greiddi Über tölvuþrjótunum 100.000 bandaríkjadali fyrir að eyða gögnunum sem þeir höfðu stolið. 

Brotið var framið í gildistíð eldri persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins frá 1995, en ný persónuverndarlöggjöf tók gildi á árinu 2018. Viðbrögð Über voru talin auka hættu á fjársvikum gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins og því var ekki talið þjóna hagsmunum viðskiptavinanna að halda brotunum leyndum. Upplýst var um brotin og viðbrögðin við þeim í yfirlýsingu fyrirtækisins í nóvember 2017.Var efnið hjálplegt? Nei