Fréttir

Tilkynningar til Persónuverndar vegna öryggisbrests í vefkerfinu Mentor

19.2.2019

Tilkynningar til Persónuverndar vegna öryggisbrests í vefkerfinu Mentor eru nú til skoðunar hjá stofnuninni.

Persónuvernd hefur borist fjöldi tilkynninga um fyrrnefndan öryggisbrest í vefkerfinu Mentor, sem notað er í mörgum skólum hérlendis. Líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum liggur fyrir að óviðkomandi aðili fékk aðgang að persónuupplýsingum rúmlega fjögur hundruð barna í gegnum vefkerfið Mentor. Ekki var um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar.

Þegar öryggisbrestur af þessu tagi uppgötvast hvílir sú skylda á ábyrgðaraðilum, sem í þessu tilviki eru skólarnir sem nota kerfið, að tilkynna öryggisbrestinn til Persónuverndar innan 72 klukkustunda frá því að hans varð vart. Þær tilkynningar sem þegar hafa borist Persónuvernd vegna málsins eru nú til skoðunar hjá stofnuninni. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta.


Var efnið hjálplegt? Nei