Fréttir

Þrjár ákvarðanir vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við Covid-19

29.11.2021

Persónuvernd hefur lokið þremur málum sem öll varða vinnslu heilbrigðisupplýsinga í tengslum við Covid-19. Um er að ræða ákvarðanir sem snerta starfsemi sóttvarnalæknis, Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar og samspil þessara aðila á tímum heimsfaraldurs.

Vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við skimanir fyrir SARS-CoV-2-veirunni og mótefni við henni

Persónuvernd hefur lokið frumkvæðisathugun sinni á vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við skimanir fyrir SARS-CoV-2-veirunni og mótefnum við henni. Niðurstaða athugunarinnar var að farið hefði verið að ákvæðum persónuverndarlöggjafarinnar í meginatriðum, þar á meðal ákvæðum um fræðsluskyldu. Þó hefði þurft að veita almenningi betri upplýsingar um tilgang skimunarinnar. Þá var vinnslusamningur sóttvarnalæknis og Landspítala ekki talinn samrýmast núgildandi löggjöf að öllu leyti og voru sóttvarnalækni því veitt fyrirmæli um að gera fullnægjandi vinnslusamning við Landspítalann.

Öflun samþykkis COVID-19-sjúklinga fyrir notkun blóðsýna í þágu vísindarannsóknar á vegum Íslenskrar erfðagreiningar

Persónuvernd hefur lokið frumkvæðisathugun sinni á öflun samþykkis COVID-19-sjúklinga á Landspítala fyrir notkun blóðsýna þeirra í þágu vísindarannsóknarinnar Faraldsfræði SARS-CoV-2-veirunnar og áhrif erfða og undirliggjandi sjúkdóma á COVID-19-sjúkdóminn sem hún veldur og framkvæmd var af Íslenskri erfðagreiningu. Er það niðurstaða Persónuverndar að vinnsla persónuupplýsinga Landspítala og Íslenskrar erfðagreiningar í aðdraganda viðbótar við umrædda vísindarannsókn, hafi ekki samrýmst persónuverndarlögum.

Öryggi persónuupplýsinga hjá þeim hluta sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans sem staðsettur var á starfsstöð Íslenskrar erfðagreiningar

Persónuvernd hefur lokið úttekt sinni á öryggi persónuupplýsinga hjá þeim hluta sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans sem staðsettur var á starfsstöð Íslenskrar erfðagreiningar frá ágúst 2020 til febrúar 2021. Er niðurstaða Persónuverndar annars vegar að ekkert liggi fyrir um að öryggi persónuupplýsinga sem unnar voru á starfsstöð ÍE hafi verið ábótavant. Hins vegar er það niðurstaða Persónuverndar að mat á áhrifum á persónuvernd hafi ekki fullnægt kröfum persónuverndarlaga. 



Var efnið hjálplegt? Nei