Fréttir

Samtökum fjármálafyrirtækja veittar leiðbeiningar um vinnslu persónuupplýsinga barna vegna fyrirhugaðra Fjármálaleika 2021

25.2.2021

Í tilefni af ábendingu sem Persónuvernd barst um vinnslu persónuupplýsinga barna vegna fyrirhugaðra Fjármálaleika 2021 á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) veitti Persónuvernd samtökunum leiðbeiningar með bréfi, dags. 19. febrúar 2021. Persónuvernd veitti samtökunum jafnframt svar við almennri fyrirspurn í tölvupósti og í tveimur símtölum.

Af hálfu SFF var fyrirhugað að halda svokallaða Fjármálaleika 3. - 21. mars 2021 þar sem börn í 10. bekk geta tekið þátt í rafrænum leik tengdum fjármálafræðslu. Á vefsíðunni www.fjarmalaleikar.is var vísað til þess að skráning í leikinn færi fram í gegnum Facebook aðgang þátttakanda eða aðgang foreldris og gefa þurfti upp nafn, skóla og netfang.

Í bréfinu er SFF bent á tilmæli Persónuverndar frá 6. september 2018, áréttuð 2. júlí 2020, um að þeir sem koma að starfi með börnum noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn. Þrátt fyrir að SFF sé ekki sjálft að miðla persónuupplýsingum um börn á Facebook er að mati Persónuverndar litið svo á að með því að gera kröfu til þátttakenda um að skráning þurfi að fara fram í gegnum Facebook aðgang hafi SFF verið að hvetja til notkunar á samfélagsmiðlinum án þess að kanna öryggi og afleiðingar þess nánar líkt og persónuverndarlög gera kröfu um. Jafnframt eru veittar almennar leiðbeiningar um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga og skyldu til að veita fræðslu til bæði barna og forsjáraðila við skráningu á þátttöku í fjármálaleikana.

Með vísan til framangreinds voru tilmæli Persónuverndar áréttuð og Samtökum fjármálafyrirtækja leiðbeint um að nýta sér aðrar og öruggar lausnir við skráningu á þátttöku í fjármálaleikum samtakanna.

Þar sem SFF hefur brugðist skjótt við ábendingum Persónuverndar með því að fjarlægja tengingu við Facebook af vefsíðunni og upplýst stofnunina um að samtökin hyggist nýta aðra lausn til þátttöku en auðkenningarþjónustu Facebook telur stofnunin ekki tilefni að svo stöddu til að hefja frumkvæðisathugun vegna málsins. Berist stofnunni kvörtun eða ábending um að umrædd vinnsla sé hafin á ný með fyrri hætti má búast við því að málið verði tekið til rannsóknar.

Bréf Persónuverndar.



Var efnið hjálplegt? Nei