Fréttir

Persónuvernd sendir fræðsluefni um persónuvernd barna í grunnskólana

12.3.2021

Persónuvernd sendi á dögunum bréf og fræðslubækling fyrir börn í alla grunnskóla landsins með kennslu á yngri stigum. Í bréfinu eru skólastjórnendur hvattir eindregið til þess að kynna efnið fyrir öllum nemendum á yngsta og miðstigi skólanna, en meðfylgjandi því voru umræðupunktar fyrir kennara.

Persónuvernd mun halda áfram að setja málefni barna í forgang og unnið er að því að útbúa meira fræðsluefni í því skyni. 

Persónuvernd og friðhelgi einkalífs eru ein mikilvægustu mannréttindi sem til eru. Á tímum stafræns veruleika þar sem persónuupplýsingar eru orðnar einn helsti gjaldmiðill samfélagsins er nauðsynlegt að allir, ekki síst börn og ungmenni, þekki helstu réttindi sín og skyldur.

Mikið starf hefur þegar verið unnið í vitundarvakningu um persónuvernd, en betur má ef duga skal. Í framlagðri tillögu til þingsályktunar um menntastefnu til næstu 10 ára sem nú er til meðferðar á Alþingi er þess sérstaklega getið að lögð skuli áhersla á að nemendum sé veitt tækifæri til að auka þekkingu sína á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Þá hafa nýlegar kannanir sýnt fram á að bæði börn og foreldrar setja vernd einkalífs og persónuupplýsinga í efstu sætin yfir það sem þau vilja vita meira um.

Sem lið í því lögbundna hlutverki Persónuverndar að efla vitund almennings um persónuvernd sendi stofnunin á dögunum bréf og fræðslubækling í alla grunnskóla landsins með kennslu á yngri stigum. Í bréfinu eru skólastjórnendur hvattir eindregið til þess að kynna efnið fyrir öllum nemendum á yngsta og miðstigi skólanna. Þá var mennta- og menningarmálaráðuneytinu og umboðsmanni barna sent afrit bréfsins.

Vorið 2019 sendi Persónuvernd fræðsluefni í alla grunnskóla landsins fyrir eldri nemendur og starfsfólk skólanna. Auk þess hefur Persónuvernd m.a. haldið málþing fyrir öll skólastigin, gefið út tilmæli vegna samfélagsmiðlanotkunar í skólum og frístundastarfi, gefið út leiðbeiningar til íþrótta- og tómstundafélaga, flutt erindi víða og fjallað um efnið í fjölmiðlum.

Persónuvernd mun halda áfram að setja málefni barna í forgang og unnið er að því að útbúa meira fræðsluefni í því skyni.


BæklingurinnSpurðu áður en þú sendir!“ fjallar á einfaldan hátt um hvað persónuupplýsingar og persónuvernd eru. Þá er fjallað um mikilvægi þess að gæta þess hvaða efni er deilt með öðrum á Netinu og að ávallt skuli fái leyfi áður en sendar eru upplýsingar um aðra, t.d. ljósmyndir.

Bæklingurinn er miðaður að börnum frá 8-12 ára en efni hans á vel erindi við enn yngri börn þar sem notkun barna á Netinu og snjalltækjum hefst oftar en ekki á leikskólaaldri.



Var efnið hjálplegt? Nei