Fréttir

Persónuvernd óskar eftir upplýsingum frá dómstólum um birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í dómsúrlausnum á Netinu

26.5.2021

Persónuvernd hefur undanfarið haft til athugunar birtingu dómstóla á persónuupplýsingum í dómsúrlausnum á vefsíðum dómstólanna. Málið er til komið vegna ábendinga sem borist hafa stofnuninni um að í úrskurðum og dómum sem birtir eru á vefsíðu dómstólanna megi í einhverjum tilvikum finna persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga, þar sem þær ættu að hafa verið afmáðar.

Persónuvernd hefur fram til þessa verið í samskiptum við dómstólasýsluna vegna þessa en nú hefur jafnframt verið óskað eftir skýringum frá dómstólum landsins (þ.e. héraðsdómstólum, Landsdómi, Hæstarétti og Félagsdómi), meðal annars um það hvernig birting tiltekinna dóma samrýmist ákvæðum persónuverndarlaga nr. 90/2018, laga nr. 50/2016 um dómstóla og reglna dómstólasýslunnar nr. 3/2019 um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna. Þá er einnig til skoðunar hvernig birting persónuupplýsinga í eldri dómum, sem upphaflega voru birtir í gildistíð eldri laga og reglna, samrýmist persónuverndarsjónarmiðum. Var efnið hjálplegt? Nei