Fréttir

Opnun starfsstöðvar Persónuverndar á Húsavík

9.9.2021

Síðastliðið vor var tekin í notkun ný starfsstöð Persónuverndar á Húsavík en formleg opnun hennar fór fram í dag, 9. september.

Mynd af dómsmálaráðherra, sýslumanni og forstjóra Persónuverndar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, opnuðu starfsstöðina formlega og fluttu ávörp. 

Af því tilefni sagði dómsmálaráðherra:

Persónuvernd er nauðsynleg til að tryggja hagsmuni einstaklingsins í lýðræðissamfélagi. Möguleikar tækninnar mega ekki trompa rétt okkar til friðhelgi einkalífsins. En það eru líka möguleikar tækninnar sem gera okkur kleift að setja niður störf án staðsetningar.

Forstjóri Persónuverndar sagði jafnframt:

„Við höfum fundið fyrir miklum velvilja gagnvart þessu verkefni bæði í fjórðungnum og utan hans. Ég bind vonir við að hægt verði að tryggja áframhaldandi fjármögnun verkefnisins, til hagsbóta bæði fyrir Persónuvernd og landsbyggðina.“


Uppsetning starfsstöðvarinnar hefur farið fram í góðu samstarfi við embætti sýslumannsins á Norðurlandi eystra en útbúin hefur verið aðstaða fyrir starfsmenn Persónuverndar á aðalskrifstofu embættisins á Húsavík. 

Flutti Svavar Pálsson, sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, ávarp af því tilefni. Í máli Svavars kom fram að þetta samstarf sýni að krefjandi opinber störf, þar sem sérþekkingar og háskólamenntunar er krafist, sé auðveldlega hægt að staðsetja á landsbyggðinni, þegar víðsýni og stafrænar lausnir fari saman. Var efnið hjálplegt? Nei