Fréttir

Nýr dómur Evrópudómstólsins um sameiginlega ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga

20.8.2019

Evrópudómstólinn kvað nýverið upp dóm sem hefur afleiðingar fyrir allar vefsíður sem nota Facebook Like-hnapp og svipaðar viðbætur.

Málið varðaði vefverslunina Fashion ID, sem hafði innleitt svokallaðan Facebook Like-hnapp. Hnappurinn er viðbót sem sendir persónuupplýsingar til Facebook um leið og fólk heimsækir vefsíðu, hvort sem viðkomandi er skráður notandi á Facebook eða ekki og óháð því hvort smellt sé á hnappinn. Dómstóllinn tók afstöðu til þess hvort Fashion ID teldist ábyrgðaraðili þessarar vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt persónuverndartilskipuninni, sem hefur nú verið leyst af hólmi með hinni nýju persónuverndarreglugerð, sem hefur verið lögfest hér á landi.

Samkvæmt Evrópudómstólnum eru Fashion ID og Facebook sameiginlegir ábyrgðaraðilar að þeirri vinnslu að safna og miðla persónuupplýsingunum til Facebook, enda þótt Fashion ID hafi ekki haft aðgang að umræddum upplýsingum. Á hinn bóginn teljist Fashion ID ekki ábyrgðaraðili að frekari vinnslu persónuupplýsinganna af hálfu Facebook.

Þrátt fyrir að dómurinn varði túlkun á eldri persónuverndarlöggjöf vegna tiltekinnar viðbótar, má búast við að hann hafi þýðingu fyrir skýringu á samsvarandi reglu í hinni nýju löggjöf, þegar vefsíður nota svipaðar viðbætur, enda hefur ekki orðið efnisleg breyting á reglunni.

Dóminn í heild má nálgast hér.



Var efnið hjálplegt? Nei