Fréttir

Nýr bæklingur um persónuvernd barna 8-12 ára

26.3.2020

Persónuvernd hefur útbúið nýjan bækling um persónuvernd barna. Bæklingurinn „Spurðu áður en þú sendir!“ er ætlaður börnum 8–12 ára og fjallar á einfaldan hátt um hvað persónuupplýsingar og persónuvernd eru. Þá er jafnframt fjallað um mikilvægi þess að gæta þess hvaða efni er deilt með öðrum á Netinu og að ávallt skuli fái leyfi áður en sendar eru upplýsingar um aðra, t.d. ljósmyndir.

Það er mat Persónuverndar að mikilvægt sé að fræðsla um persónuvernd og netöryggi verði hluti af daglegu lífi barna strax frá frumbernsku. Er það í samræmi við þá hröðu tækniþróun sem við búum við í stafrænum heimi þar sem stafræn fótspor barna byrja jafnvel að myndast áður en þau fæðast og netnotkun hefst sífellt fyrr á æviskeiðinu. Til að stuðla að því markmiði heldur Persónuvernd áfram að setja málefni barna í forgang og er útgáfa þessa fræðslubæklings liður í því.

Vorið 2019 sendi Persónuvernd bréf ásamt tveimur fræðslubæklingum í alla grunnskóla landsins þar sem skólastjórnendur voru hvattir til kynna bæklingana annars vegar fyrir kennurum og öðru starfsfólki og hins vegar fyrir nemendum í eldri bekkjum. Með bréfinu fylgdu umræðupunktar fyrir kennara til að skapa umræðu og fræða nemendur um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins voru meðfylgjandi bréfi Persónuverndar.

Persónuvernd hyggst gera slíkt hið sama með nýja bæklinginn en í ljósi aðstæðna í samfélaginu verður það ekki gert að sinni. Þar til svo verður gert er hægt að hafa samband á netfangið postur [hjá] personuvernd.is og óska eftir að fá bæklinginn sendan ásamt því að það má nálgast bæklinginn á PDF-sniði hér.





Var efnið hjálplegt? Nei