Fréttir

Almenn fyrirspurn um birtingu dóma á Netinu

16.11.2009

Svarað hefur verið almennri fyrirspurn um heimildir til að setja héraðsdóma í refsimálum á Netið.

Svarað hefur verið almennri fyrirspurn um heimildir til að setja héraðsdóma í refsimálum á Netið. Persónuvernd veitti umbeðið almennt svar um þau lög og þær reglur sem líta yrði til. Þar sagði m.a.:

"Um birtingu dóma er fjallað í 16. og 17. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 3. mgr. 16. gr. er mælt fyrir um að ef dómur er birtur skuli, ef sérstök ástæða er til, afmá úr honum atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Í f-lið 17. gr. segir að Dómstólaráð, sem hefur með höndum ýmsa umsýslu vegna héraðsdómstóla, setji nánari reglur um birtingu dóma, t.d. á vefsíðum. Í slíkum reglum skuli m.a. mælt fyrir um hvaða upplýsingar skuli ekki birtar.

Dómstólaráð hefur sett reglur um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna sem fram koma í tilkynningu ráðsins nr. 2/2009. Í 1. gr. reglnanna segir að dómar skuli birtir á sameiginlegri vefsíðu dómstólanna með þeim undantekningum og takmörkunum sem kveðið er á um í reglunum.

Í 1. og 2. mgr. 3. gr. reglnanna er fjallað um hvenær gæta skuli nafnleyndar við birtingu dóma í sakamálum. Þar segir:

"Ef ákærði er sýknaður í máli eða birting á nafni hans getur talist andstæð hagsmunum brotaþola skal nafnleyndar gætt um ákærða. Ef ákært er fyrir brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot) skal gæta nafnleyndar um brotaþola og aðra sem geta persónugreint hann. Skal þess þá jafnframt gætt að má út úr dómi aðrar upplýsingar sem gera kleift að persónugreina viðkomandi, svo sem heimilisföng og staðanöfn.

Gæta skal nafnleyndar í sakamáli gagnvart vitni þegar fjallað er um viðkvæm persónuleg málefni þess sem eðlilegt er að leynt fari."

Í 4. gr. reglnanna er fjallað um hvaða atriði skuli afmá úr dómsúrlausnum. Þar segir m.a. að afmá skuli úr dómum í sakamálum atriði sem eðlilegt er að fari leynt með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna í samræmi við áðurnefnt ákvæði 2. mgr. 14. gr. laga um meðferð sakamála. Áður en dómari sendi dóm til birtingar meti hann hvort afmá beri atriði úr dómsúrlausninni og beri hann ábyrgð á því að birting samrýmist framangreindu ákvæði 2. mgr. 16. gr. laganna. Gæta skuli þess að það sem eftir standi leiði ekki til þess að lesa megi þær upplýsingar úr dómnum sem ekki eiga að koma fram.

Tekið er fram í 1. gr. að ef birting dóms sé sérstaklega íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi sé rétt að taka úr dómi frekari upplýsingar en þær sem ekki skal birta samkvæmt reglunum.

Af framangreindu leiðir að heimilt getur verið að birta dóma í sakamálum á Netinu með þeim hætti að nöfn sakborninga komi fram. Í ákveðnum tilvikum skal það hins vegar ekki gert, bæði tilvikum sem sérstaklega eru talin upp í umræddum reglum dómstólaráðs, sem og í öðrum tilvikum þar sem birting á nöfnum verður ekki talin eðlileg í ljósi aðstæðna.

Telji einstaklingur að í dómi séu birtar upplýsingar um hann, sem ekki ætti að birta, getur hann leitað til viðkomandi dómstóls og beðið um að fyrirkomulagi við birtingu dóms verði breytt.

Að lokum skal bent á að lög um meðferð sakamála má sjá hér: http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008088.html, og umræddar reglur dómstólaráðs hér: http://www.domstolar.is/files/Tillk.nr.2-2009%20Tilkynning%20um%20birtingu%20héraðsdóma%20á%20heimasíðu%20héraðsdómstólanna_1263841772.pdf"




Var efnið hjálplegt? Nei