Fréttir

Aðgangur ættingja að tölvupósti látins manns

11.11.2008

Maður, sem hafði tölvupóstfang hjá x, lést og óskuðu ættingjar eftir að fá aðgang að tölvupóstinum hans.

18Maður, sem hafði tölvupóstfang hjá x, lést og óskuðu ættingjar eftir að fá aðgang að tölvupóstinum hans. Maðurinn hafði ekki verið starfsmaður x, en hafði þó haft tölvupóstfang þar. Þótti ljóst að enginn vinnupóstur væri í tölvupósthólfinu heldur aðeins einkapóstur.

Í svari Persónuverndar kemur fram að hýsing á tölvupósti einstaklings telst til rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir persónuverndarlög óháð því hvort viðkomandi einstaklingur er lífs eða liðinn. Sé um að ræða látinn einstakling reyni þó á sérsjónarmið við túlkun laganna, en í felst að litið er til þess að hagsmunir af vernd upplýsinga um látna eru ekki að öllu leyti hinir sömu og af vernd upplýsinga um lifandi menn.

Persónuvernd leit til ákvæða fjarskiptalaga nr. 81/2003 um þagnarskyldu þeirra sem starfa við fjarskiptavirki. Þar er m.a. ákvæði sem felur í sér að öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, sé skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafi átt sér stað og á milli hverra. Óheimilt er að veita óviðkomandi aðilum, í skilningi fjarskiptalaga, aðgang að upplýsingum sem lúta þagnarskyldu.

Persónuvernd taldi nánustu ættingja látins manns óviðkomandi aðila í þessum skilningi nema alveg sérstakar ástæður réttlættu annað. Yrði m.a. að líta til einkalífshagsmuna þeirra sem viðkomandi einstaklingur hefði átt tölvupóstsamskipti við. Þá skipti máli að ekki lá fyrir hvers vegna óskað var eftir aðgangi að umræddum gögnum, en tilgangurinn hefur áhrif á það hvaða lagaskilyrði eiga við.

Svar Persónuverndar.




Var efnið hjálplegt? Nei