Fréttir

Alþjóðafundur forstjóra persónuverndarstofnana í Cardiff

2.10.2002

Þann 9. - 11. september sl. var haldinn í Cardiff, Wales, 24. alþjóðleg ráðstefna forstöðumanna persónuverndarstofnana.

Þann 9. - 11. september sl. var haldinn í Cardiff, Wales, 24. alþjóðleg ráðstefna forstöðumanna persónuverndarstofnana. Af Íslands hálfu sóttu fundinn Sigrún Jóhannesdóttir forstjóri Persónuverndar og Páll Hreinsson formaður stjórnar Persónuverndar. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar:

A) Fulltrúar yfir 50 persónuverndarstofnana sóttu 24. Alþjóðlega Ráðstefnu forstöðmanna Persónuverndarstofnana í Cardiff í Wales, sem haldin var í sameiningu af persónuverndarstofnunum á Írlandi, Jersey, Guernsey, Isle of Man og Stóra-Bretlandi.

Forstöðumennirnir og fulltrúar þeirra ræddu mörg sameiginleg áhyggjuefni, allt frá einkalífsvernd á vefsíðum til myndavélaeftirlits með fólki, á almannafæri jafnt sem annars staðar. Mestur tími fór þó í athugun á mismunandi viðbrögðum ríkja við hryðjuverkaárásinni hinn 11. september 2001.

Voru forstöðumennirnir sammála um nauðsyn þess að vernda þjóðfélög gegn slíkum illvirkjum, en mörg ríki hafi þó mögulega farið fram úr því sem hæfilegt megi teljast til að bregðast hættu á hryðjuverkum, og feli það í sér ógn við friðhelgi einkalífsins. Forstöðumennirnir voru á einu máli um að stofnana þeirra biði brýnt verkefni við að tryggja einkalífvernd í tengslum við slíkar aðgerðir. Ef nálgun stjórnvalda miðar ekki að því að meta réttilega mikilvægi persónuupplýsinga- og einkalífsverndar, er veruleg hætta á að þau muni grafa undan því grundvallarfrelsi einstaklinga sem þau leitast við að vernda.

B) Það er forstöðumönnum Evrópskra Persónuverndarstofnana áhyggjuefni að í þriðju stoð Evrópusambandsins1) eru til umfjöllunar frumvörp/tillögur um skyldu til kerfisbundinnar varðveislu upplýsinga varðandi allar tegundir fjarskipta (s.s. um tíma, stað og númer, varðandi notkun síma, faxtækja, tölvupósts og aðra notkun internetsins) um eins árs tímabil eða lengur, til að tryggja lögreglu- og öryggisyfirvöldum mögulegan aðgang að þeim.

Forstöðumenn Evrópskra Persónuverndarstofnana draga stórlega í efa réttmæti og lögmæti svo víðtækra ráðstafana. Þeir vilja einnig vekja athygli á þeim gífurlega kostnaði sem það hefði í för með sér fyrir fjarskipta- og internetfyrirtæki, og því, að í Bandaríkjunum hefur ekki verið gripið til slíkra ráðstafana.

Forstöðumenn Evrópskra Persónuverndarstofnana hafa margsinnis áréttað að slík varðveisla upplýsinga feli í sér óásættanlega röskun á þeim grundvallarréttindum sem einstaklingum eru tryggð með 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur útfært (sjá álit 4/2001, Vinnuhóps skv. 29. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 95/46/EB, og Stokkhólmsyfirlýsinguna frá apríl 2000).

Vernd fjarskiptaupplýsinga er nú einnig tryggð með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/58/EB, um einkalífsvernd í rafrænum samskiptum (Stjórnartíðindi EB L202/37) , en þar er kveðið á um að vinnsla fjarskiptaupplýsinga sé að meginstefnu aðeins heimil í tengslum við greiðslur fyrir millitengingar og reikningagerð. Eftir langar og ítarlegar umræður, var ákveðið að setja ströng skilyrði um varðveislu fjarskiptaupplýsinga vegna lögreglustarfa, sjá 1. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar, þ.e. þær megi aðeins varðveita í ákveðinn tíma og einungis ef nauðsyn ber til í hverju tilviki, og með hliðsjón af því sem viðeigandi og hæfilegt má teljast í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Þegar varðveita á fjarskiptaupplýsingar í sérstökum tilvikum, þarf slíkt bersýnilega að vera nauðsynlegt, varðveislutíminn skal vera eins stuttur og mögulegt er og verklagið skal vera lögbundið, þannig að viðeigandi öryggisráðstafanir gegn ólögmætum aðgangi og annarri misnotkun upplýsinganna verði viðhafðar. Kerfisbundin varðveisla alls kyns fjarskiptaupplýsinga í eitt ár eða meira væri augljóslega langt umfram það sem hæfilegt má teljast og því óásættanlegt í sérhverju tilviki.

Forstöðumenn Evrópskra Persónuverndarstofnana vænta þess að vinnuhópur skv. 29. gr. tilskipunar 95/46/EB verði hafður með í ráðum við val á ráðstöfunum sem leiða kunna af umræðum í þriðju stoð, áður en þær verða að lögum.


1) Undir þriðju stoð fellur innanríkisstarfsemi aðildarríkjanna, s.s. á sviði dómsmála og lögreglumála og samstarf þeirra á þessum sviðum.





Var efnið hjálplegt? Nei