Fréttir

Nýtt samkomulag um flutning persónuupplýsinga milli Bandaríkjanna og Evrópu

14.7.2016

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í fyrradag, þann 12. júlí 2016, um nýtt samkomulag varðandi flutning persónuupplýsinga milli Bandaríkjanna og Evrópu, en samkomulagið hefur hlotið nafnið EU-US Privacy Shield.

Reykjavík, 14. júlí 2016


Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt um nýtt samkomulag varðandi flutning persónuupplýsinga milli Bandaríkjanna og Evrópu, en samkomulagið hefur hlotið nafnið EU-US Privacy Shield.

Samkomulaginu er ætlað að veita persónuupplýsingum sem fluttar eru frá Evrópu til Bandaríkjanna fullnægjandi vernd. Það kemur í stað eldra samkomulags um öruggar hafnir (e. Safe-Harbour agreement) sem Evrópudómstóllinn dæmdi ólögmætt með dómi sínum frá 6. október 2015. Nánari upplýsingar um flutning persónuupplýsinga úr landi, dóm Evrópudómstólsins og afleiðingar hans fyrir ábyrgðaraðila sem flytja persónuupplýsingar úr landi má finna hér.

Privacy Shield samkomulagið tekur til allra fyrirtækja sem vinna persónuupplýsingar innan Evrópusambandsins og skapar grundvöll fyrir flutning persónuupplýsinga milli álfanna. Þar sem persónuverndarlöggjöf ESB er hluti af EES-samningnum þá mun samkomulagið einnig gilda um flutning persónuupplýsinga frá Íslandi til tiltekinna fyrirtækja í Bandaríkjunum.

Samningurinn tók gildi þriðjudaginn 12. júlí 2016  og samkvæmt b-lið í punkti 5-e í XI. viðauka við EES-samninginn hefur hann einnig tekið gildi á Íslandi og í öðrum ríkjum EES-svæðisins. Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna mun frá 1. ágúst nk. hefja skráningu á fyrirtækjum sem undirgangast skilyrði samningsins fyrir vernd persónuupplýsinga.

Flutningur persónuupplýsinga verður einungis heimill til þeirra fyrirtækja sem hafa verið skráð hjá bandaríska viðskiptaráðuneytinu. Ef flytja á persónuupplýsingar til annarra fyrirtækja en þeirra sem þar eru skráð eftir 1. ágúst nk., þá bendir Persónuvernd á almennar leiðbeiningar um flutning persónuupplýsinga úr landi, en þær má finna hér.

 

Frekari upplýsingar má finna á eftirfarandi tenglum:

Fréttatilkynning Evrópusambandsins um samþykkt Privacy Shield

Privacy Shield samningurinn og viðaukar við samninginn

Fréttatilkynning 29. gr. vinnuhópsins um Privacy Shield samninginn frá 1. júlí 2016.

Skýringarbæklingur um helstu atriði samningsins frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Spurt og svarað um efni samningsins á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins

Frekari upplýsingar um saminginn á heimasíðu bandaríska viðskiptaráðuneytisins



Var efnið hjálplegt? Nei