Fréttir

Nýjar hættur og ógnir við vinnslu og meðferð persónuupplýsinga

Ársskýrsla Persónuverndar 2015

12.7.2016

Persónuvernd hefur birt ársskýrslu fyrir árið 2015. Umbylting hefur orðið í því hvernig hægt er að nálgast og safna persónuupplýsingum – og gera þær upplýsingar að verðmætri söluvöru. Þessi bylting er sýnileg í sífellt vaxandi málafjölda Persónuverndar sem hefur nærri þrefaldast frá árinu 2002.

Reykjavík, 12. júlí 2016

 

Tæknibylting undanfarinna ára hefur leitt til þess að nýjar hættur og ógnir steðja að vinnslu og meðferð persónuupplýsinga. Umbylting hefur orðið í því hvernig hægt er að nálgast og safna persónuupplýsingum – og gera þær upplýsingar að verðmætri söluvöru. Þessi bylting endurspeglast í auknum málafjölda Persónuverndar, en málafjöldi Persónuverndar hefur nærri þrefaldast frá árinu 2002. Á árinu 2015 var stofnunin með 1.961 mál til meðferðar.

Einnig hafa umfangsmestu breytingar á evrópskri, og þ.a.l. íslenskri, persónuverndarlöggjöf í meira en 20 ár, verið samþykktar. Ný Evrópulöggjöf sem kemur til framkvæmda á árinu 2018 mun verulega styrkja rétt einstaklinga til að hafa stjórn á persónuupplýsingum sínum. Breytingarnar munu auka mjög verkefni og skyldur Persónuverndar, m.a. hvað varðar samvinnu við aðrar persónuverndarstofnanir í Evrópu.

Breytingarnar munu einnig leggja umtalsvert auknar skyldur á fyrirtæki og stofnanir á sama tíma og breytingarnar munu einfalda samskipti við eftirlitsstofnanir og af þeirri ástæðu draga úr kostnaði fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vinna persónuupplýsingar. Þá verða eftirlitsstofnunum veittar víðtækar heimildir til að leggja háar stjórnsýslusektir á aðila sem gerast brotlegir við persónuverndarlög. Fyrrnefndar sektarfjárhæðir geta numið allt að 4% af heildar ársveltu fyrirtækja eða 20 milljónum evra. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ávarpi Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar í ársskýrslu stofnunarinnar sem hefur verið birt á heimasíðu Persónuverndar í dag. 

Skýrslan er í fyrsta skipti einungis gefin út á rafrænu formi en hana má nálgast hér.



Var efnið hjálplegt? Nei