Fréttir

Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir dæmd ógild af Evrópudómstólnum

7.10.2015

Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir sé ógild. Á grundvelli ákvörðunarinnar hefur fyrirtækjum í Evrópu verið talið heimilt að flytja persónuupplýsingar til fyrirtækja í Bandaríkjunum sem teljast s.k. öruggar hafnir.

Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir sé ógild. Á grundvelli ákvörðunarinnar hefur fyrirtækjum í Evrópu verið talið heimilt að flytja persónuupplýsingar til fyrirtækja í Bandaríkjunum sem teljast s.k. öruggar hafnir.

Upphaf málsins má rekja til þess að einstaklingur, búsettur í Austurríki, kvartaði yfir flutningi persónuupplýsinga um sig frá Facebook á Írlandi til Bandaríkjanna. Írska persónuverndarstofnunin vísaði kvörtuninni frá þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir fæli í sér að Bandaríkin teldust veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd. Hæstiréttur Írlands óskaði í kjölfarið eftir forúrskurði Evrópudómstólsins um málið. Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að tilvist ákvörðunarinnar komi ekki í veg fyrir eða takmarki valdheimildir persónuverndarstofnanna til að leggja sjálfstætt mat á hvort persónuupplýsingum sé veitt fullnægjandi vernd í þriðja landi á grundvelli tilskipunarinnar eða laga þess lands. Þá kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin sé ógild, m.a. á þeirri forsendu að sú staðreynd að bandarískar eftirlitsstofnanir hafi almennan aðgang að persónuupplýsingum vegi að friðhelgi einkalífs borgaranna. Þá telur dómstóllinn að framkvæmdastjórnin hafi ekki haft fullnægjandi heimildir til að taka ákvörðun sem hamli evrópskum persónuverndarstofnunum að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvort að fullnægjandi vernd persónuupplýsinga sé veitt hjá bandarískum fyrirtækjum.

Í fréttatilkynningu frá Evrópudómstólnum í gær, 6. október, kemur fram að niðurstaða dómsins hafi þær afleiðingar að írska persónuverndarstofnunin skuli taka kvörtun einstaklingsins til meðferðar og kanna hvort að látið skuli af flutningi persónuupplýsinga um evrópska notendur Facebook til Bandaríkjanna. Þá hefur Vinnuhópur skv. 29. gr. tilskipunar 95/46/EB einnig gefið út fréttatilkynningu þar sem fram kemur að forstjórar evrópskra persónuverndarstofnana muni hittast á næstu dögum til að ræða hvernig brugðist verði við niðurstöðu dómsins.

Dóminn má nálgast hér.

Fréttatilkynningu Evrópudómstólsins má nálgast hér.

Fréttatilkynningu 29. gr. vinnuhópsins má nálgast hér.

 



Var efnið hjálplegt? Nei