Fréttir

Norræn mál um notkun tölvuskýjalausna Microsoft Office 365 og Google Apps

5.11.2012

Til fróðleiks er hér birt stutt umfjöllun um tvö mál varðandi notkun tölvuskýja hjá hinu opinbera. Er annað frá Danmörku og hitt frá Noregi. Í báðum niðurstöðunum er rík áhersla lögð á gerð vinnslusamnings við tölvuskýjaveitanda - að undangengnu áhættumati og að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Til fróðleiks er hér birt stutt umfjöllun um mál hjá Datatilsynet í Danmörku og Datatilsynet í Noregi um notkun tölvuskýjaþjónustu hjá hinu opinbera. Í málunum er rík áhersla lögð á gerð vinnslusamnings við tölvuskýjaveitanda, sem uppfyllir skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal um gerð áhættumats.


Notkun IT-háskóla Kaupmannahafnar á Microsoft Office 365

Fyrr á þessu ári gaf Datatilsynet í Danmörku út álit um notkun IT-háskólans í Kaupmannahöfn á tölvuskýjaþjónustu Microsoft, þ.e. Office 365. Í málinu hafði Datatilsynet m.a. óskað svara frá Microsoft við ítarlegum spurningum um vinnslu og meðhöndlun persónuupplýsinga í Microsoft Office 365, og gefið til kynna þær kröfur sem ábyrgðaraðili vinnslu verður að uppfylla þegar nota skal tölvuskýjaþjónustu á borð við Office 365.

Datatilsynet taldi að það væri á ábyrgð háskólans að sjá til þess að notkunin væri í samræmi við dönsk lög, m.a. með því að gera fullnægjandi vinnslusamning við Microsoft, í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga, og reglna um öryggi persónuupplýsinga hjá hinu opinbera, sem og að framkvæma áhættumat. Þá var sérstök áhersla lögð á það að það félli í hlut háskólans, sem ábyrgðaraðila gagnanna, að tryggja að óviðkomandi þriðji aðili fengi ekki aðgang að þeim.

Niðurstaða málsins var sú að Datatilsynet gerði ekki athugasemdir við notkun háskólans á Office 365, að því gefnu að meðferð háskólans á persónuupplýsingum, við notkun á Office 365, væri í samræmi við samninginn.

Álit Datatilsynet frá 10. júlí 2012.


Notkun tveggja sveitarfélaga í Noregi á Google Apps og Microsoft Office 365

Í lok september sl. birti Datatilsynet í Noregi niðurstöður sínar í tveimur stefnumarkandi málum varðandi notkun tveggja sveitarfélaga á tölvuskýjaþjónustu, n.t.t. Google Apps og Microsoft Office 365.  Niðurstaða stofnunarinnar var sú að sveitarfélagi væri heimilt að nota Google Apps, en öðru sveitarfélagi voru veittar leiðbeiningar varðandi notkun þess á Microsoft Office 365.

Í báðum málunum gerði Datatilsynet ekki athugasemdir við notkun sveitarfélaganna á tölvuskýjaþjónustu, en í báðum málunum lá fyrir áhættumat og vinnslusamningur við veitendur tölvuskýjaþjónustunnar, í samræmi við norsk lög.

Álit Datatilsynet frá 21. september 2012 um sveitarfélagið Moss.

Álit Datatilsynet frá 21. september 2012 um sveitarfélagið Narvik.



Var efnið hjálplegt? Nei