Mega stjórnmálaflokkar vinna með persónuupplýsingar mínar í kosningabaráttu?

Stjórnmálaskoðanir þínar eru viðkvæmar persónuupplýsingar og um vinnslu þeirra gilda strangari reglur en um aðrar persónuupplýsingar. Ef persónuupplýsingar þínar eru skráðar hjá stjórnmálasamtökum, verður að upplýsa þig með skýrum hætti um hver sé tilgangur skráningar og hvernig eigi að nota upplýsingarnar. Sem dæmi má nefna að við skráningu netfanga verður að liggja fyrir hvort þau verða notuð til að senda félagsmönnum tölvupóst eða hvort nota eigi netföngin til að ná til þeirra á samfélagsmiðlum. Auk þess þarf að vera skýrt hver eða hverjir mega nota persónuupplýsingarnar.

Þú átt rétt skv. reglum nr. 36/2005 á að andmæla þessari vinnslu og getur skráð þig á bannskrá Þjóðskrár og/eða látið bannmerkja (x-merkja) þig í símaskránni. Þeir sem vinna með upplýsingarnar eiga að bera lista sína saman við bannskrá Þjóðskrár og við merkingar í símaskránni áður en hafist er handa við markaðssetningu. Þá hefur Fjarskiptastofa gefið út leiðbeiningar vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga.

Stjórnmálasamtök mega ekki afhenda eða miðla til þriðja aðila, svo sem samfélagsmiðla, persónuupplýsingum félagsmanna sinna án þess að fyrir liggi afdráttarlaust og upplýst samþykki þeirra fyrir því hvaða persónuupplýsingum þeirra megi miðla, hvert og í hvaða tilgangi.

Kosningabaráttur eru í auknum mæli háðar á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar safna ítarlegum upplýsingum um notendur, til dæmis um staðsetningu þeirra, aldur, hvað þeim líkar við, skrifa ummæli um eða deila. Þannig eru markhópar afmarkaðir með nákvæmari hætti en áður hefur þekkst og auðvelt er að birta notendum auglýsingar sem höfða sérstaklega til þeirra.

Í auglýsingasafni Facebook (e. Ad Library) getur þú flett upp auglýsingum sem birtast á fréttaveitu Facebook og fengið upplýsingar um þær. Meðal annars getur þú séð hver greiðir fyrir auglýsinguna, hversu mikið greitt er og hver útbreiðsla hennar er. Safnið nær til allra auglýsinga á Facebook og allir auglýsendur þurfa að undirgangast skráningu og auðkenningu í því.

Þegar þú sérð auglýsingu á fréttaveitu Facebook geturðu ýtt á þrjá litla punkta í hægra horni auglýsingarinnar. Við það birtist valmöguleikinn „Af hverju sé ég þessa auglýsingu?“ Kemur þá viðeigandi skýring, svo sem sú að auglýsandinn sé að reyna að ná til notenda sem Facebook telji að hafi áhuga á því sem sé auglýst. Má þá sjá markhóp þess sem auglýsir, svo sem áhugamál, aldur og staðsetningu. Þá birtist einnig valmöguleiki þar sem þú getur falið allar auglýsingar frá aðilanum (e. Hide all ads from this advertiser) og þannig haft áhrif hvaða auglýsingar þú vilt sjá.

Að lokum bendir Persónuvernd á að Fjölmiðlanefnd hefur gefið út fræðslu í tengslum við kosningarVar efnið hjálplegt? Nei