Fréttir

Lok úttektar Persónuverndar á tilnefningu persónuverndarfulltrúa hjá opinberum aðilum

30.8.2019

Á fundi Persónuverndar með norrænum systurstofnunum sínum sem haldinn var í Kaupmannahöfn dagana 7. og 8. maí 2018 var ákveðið að stofnanirnar myndu hver og ein hefja úttekt á því hvort opinberir aðilar hafi tilnefnt persónuverndarfulltrúa, líkt og skylt er samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.

Persónuvernd afmarkaði úttektina að sínu leyti við þá aðila, sem er skylt að tilnefna persónuverndarfulltrúa á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 90/2018. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ábyrgðaraðilar og vinnsluaðilar skuli tilnefna persónuverndarfulltrúa í sérhverju tilviki þar sem vinnsla er í höndum stjórnvalds. Stofnunin hefur nú lokið úttektinni.

Alls hafa um 91% þeirra ríkisstofnana sem úttekt Persónuverndar náði til tilkynnt um tilnefningu persónuverndarfulltrúa, eða 157 af 172. Nær öll sveitarfélög landsins, eða 71 af 72, hafa tilnefnt persónuverndarfulltrúa. Hafa því rúmlega 93% þeirra opinberu aðila, sem úttekt Persónuverndar náði til, sinnt lögboðinni skyldu sinni til að tilnefna persónuverndarfulltrúa.

Fljótlega eftir að úttekt Persónuverndar hófst varð ljóst að smæð sumra stofnana og sveitarfélaga gæti reynst þeim fjötur um fót við ráðningu persónuverndarfulltrúa. Við þessu hafa ýmsir brugðist með því að nýta heimild laga nr. 90/2018 til að sameinast um persónuverndarfulltrúa. Persónuvernd telur sérstaka ástæðu til að fagna öflugu starfi sveitarfélaga landsins á sviði persónuverndar sem birtist hve skýrast í því að persónuverndarfulltrúi er starfandi við 99% þeirra.

Þeim stjórnvöldum, sem tilkynnt hafa um tilnefningu persónuverndarfulltrúa til Persónuverndar, mun á allra næstu dögum berast bréf um lúkningu málsins að því er þau varðar. Þá mun Persónuvernd senda bréf til þeirra stjórnvalda sem ekki hafa tilkynnt um tilnefningu persónuverndarfulltrúa þar sem veittur verður eins mánaðar frestur til að sinna lögboðinni skyldu til þeirrar tilnefningar. Verði ekki orðið við því má gera ráð fyrir því að til beitingar stjórnvaldssekta komi. Var efnið hjálplegt? Nei