Fréttir

H&M í Þýskalandi sektað um 5,7 milljarða

2.10.2020

H&M hefur verið sektað af persónuverndarstofnuninni í Hamborg, Þýskalandi, fyrir ólögmæta vinnslu persónuupplýsinga um starfsmenn félagsins.

Systurstofnun Persónuverndar í Hamborg, Þýskalandi hefur sektað fyrirtækið H&M í Nurnberg um 35,2 milljónir evra (rúmlega 5,7 milljarða króna) fyrir ólögmæta vinnslu persónuupplýsinga um starfsmenn félagsins.

Í niðurstöðu stofnunarinnar segir að til fjölda ára hafi H&M unnið með umfangsmiklar persónuupplýsingar um starfsmenn sína. Upplýsingum hafi verið safnað með starfsmannaviðtölum sem haldin voru eftir öll frí og veikindaleyfi starfsmanna. Að viðtölum loknum voru upplýsingarnar skráðar í rafræn kerfi, auk upplýsinga um m.a. heilsufar og trúarskoðanir starfsmannanna.

Þá vann fyrirtækið með ítarlegar upplýsingar um vinnuskil viðkomandi starfsmanna í þeim tilgangi að útbúa persónusnið af starfsmönnunum sem var meðal annars notað til að taka ákvarðanir um stöðu starfsmannsins hjá fyrirtækinu. Upp komst um vinnsluna þegar upplýsingar urðu aðgengilegar öllum innan fyrirtækisins í kjölfar öryggisbrests.

Eins og framan greinir var fyrirtækið af þessum sökum sektað um 35, 2 milljónir evra. Fyrirtækið hefur jafnframt gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að tryggja persónuvernd starfsmanna sinna í framtíðinni auk þess sem það hefur boðið viðkomandi starfsmönnum bætur vegna brotsins.

Fréttatilkynning persónuverndarstofnunarinnar í Hamburg.Var efnið hjálplegt? Nei