Fréttir

Fræðslustefna Persónuverndar árið 2023

13.12.2022

Markmið

Ísland stendur frammi fyrir áskorunum þegar kemur að uppbyggingu stafrænnar þróunar þar sem persónuvernd og upplýsingaöryggi leika lykilhlutverk. Aðrar áskoranir eru þær að umhverfi vinnslu persónuupplýsinga sem og hlutverk Persónuverndar hefur tekið stakkaskiptum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Vinnsla persónuupplýsinga eykst stöðugt og óteljandi möguleikar myndast á aukinni dreifingu, miðlun og vinnslu upplýsinga. Samhliða hraðri tækniþróun sækja bæði einstaklingar og þeir sem vinna með persónuupplýsingar í auknum mæli í ráðgjöf og leiðbeiningar frá Persónuvernd.

Tækifæri í aukinni fræðslu til almennings og þeirra sem vinna með persónuupplýsingar eru í nánum tengslum við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að vinna verði markvisst að því að auka traust almennings á upplýsingatækni með áherslu á netöryggi, persónuvernd, upplýsingarétt, tjáningarfrelsi og upplýsingaöryggi. Þessir þættir byggja einnig á velsældarmarkmiði ríkisstjórnarinnar um grósku í nýsköpun og betri samskiptum við almenning. Framangreint fellur einnig vel að því lögbundna hlutverki Persónuverndar að efla vitund og skilning almennings á áhættu, reglum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.

Með vísan til framangreinds hefur Persónuvernd sett sér eftirfarandi markmið á árinu 2023. Með stefnunni fylgir einnig ítarleg fræðsluáætlun:

Aukin vitund og skilningur almennings á áhættu, reglum og réttindum við vinnslu persónuupplýsinga

  • Persónuvernd hyggst halda áfram að auka vitund og skilnings almennings á áhættu, reglum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.
  • Aukin áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum á einfaldan og hnitmiðaðan hátt í gegnum vefsíðu stofnunarinnar, á mannamáli.
  • Áhersla verður einnig lögð á að miðla upplýsingum með öðrum hætti, t.d. með gerð myndbanda, með reglulegum greinaskrifum og þátttöku í almennri umræðu um persónuverndarmál og fundaherferðum.

Aukinn skilningur og leiðbeining til þeirra sem vinna með persónuupplýsingar

  • Persónuvernd mun halda áfram að upplýsa og leiðbeina þeim sem vinna með persónuupplýsingar, hvort sem um er að ræða stofnanir, fyrirtæki eða aðra aðila.
  • Áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um bestu þekkingu um framkvæmd persónuverndarlöggjafar, en fræðsluefni mun annars vegar byggjast á samræmdum leikreglum innan EES sem og þeim lærdómi sem hlýst af eftirliti Persónuverndar með vinnslu persónuupplýsinga.

Markviss samskipti við hagsmunaðila

  • Aukin áhersla verður á markviss samskipti við hagsmunaaðila, bæði opinbera aðila og einkaaðila, t.d. með reglulegum fundum.
  • Tilgangur slíkra samskipta er tvíþættur. Annars vegar að auka skilning hagsmunaaðila á starfsemi Persónuverndar og hins vegar að auka skilning stofnunarinnar á þeim tækifærum og áskorunum sem þeir sem vinna með persónuupplýsingar standa frammi fyrir.
  • Áhersla verður lögð á að ná til þeirra sem vinna með umfangsmikið magn persónuupplýsinga eða viðkvæmar persónuupplýsingar og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Öllum er þó frjálst að óska eftir fundum með Persónuvernd.



Var efnið hjálplegt? Nei