Fréttir

Foreldri dæmt til refsingar fyrir birtingu myndar af barni sínu á Facebook

11.4.2019

Lagmannsréttur í Hálogalandi í Noregi hefur sakfellt konu fyrir brot gegn hegningarlögum, með því að hafa birt persónuupplýsingar sjö ára gamals barns hennar á Facebook. Var hún dæmd til greiðslu sektar að fjárhæð 12.000 NOK.

Málsatvik voru þau að ágreiningur var uppi á milli konunnar og barnaverndaryfirvalda vegna forsjársviptingar. Konan stofnaði opinn Facebook hóp, sem hafði það að markmiði að koma barninu „heim“. Í umræddum hópi birti konan meðal annars myndir og myndskeið af barninu í viðkvæmum aðstæðum, svo og bréf frá barnaverndaryfirvöldum sem innihéldu afar viðkvæmar upplýsingar um einkahagi barnsins.

Á það reyndi í málinu hvort konunni hafi verið heimilt að birta upplýsingar um barnið, í ljósi þess að henni væri falið að lögum að taka ákvörðun um samþykki slíkrar birtingar. Dómstóllinn sló því föstu að birting svo viðkvæmra upplýsinga varðandi barn félli utan ákvörðunarréttar foreldris, þar sem börn nytu ella ekki verndar gegn ólögmætri birtingu upplýsinga um einkahagi þeirra af hálfu foreldra. Dómstóllinn benti jafnframt á að svo ung börn skorti jafnan skilning á því hver langtímaáhrif slíkrar birtingar kunni að vera og afstaða þeirra hafi því ekki úrslitaþýðingu um það hvort birting geti talist heimil.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni á vefsíðu dómstólsins í Noregi en til að fá aðgang að þeirri síðu þarf að skrá sig sérstaklega.



Var efnið hjálplegt? Nei