Fréttir

Eigum við rétt á því að vera andlitslaus á tímum andlitsgreiningartækni?

28.1.2020

Í dag er alþjóðlegi persónuverndardagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Í tilefni af því hefur Persónuvernd birt nýjar leiðbeiningar á vefsíðu sinni um ýmis málefni tengd persónuvernd auk þess sem efni eldri leiðbeininga hefur verið uppfært eftir þörfum. Er hér m.a. um að ræða fræðsluefni um valdheimildir Persónuverndar, innbyggða og sjálfgefna persónuvernd, vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, varðveislu og eyðingu gagna, öryggisbresti, tölvuský og ýmislegt fleira.

Sjaldan höfum við staðið á öðrum eins tímamótum og þeim sem tækniframfarir síðustu ára hafa kallað yfir okkur. Það er ekki seinna vænna að átta sig á því að heimurinn eins og hann var er liðin tíð. Heimurinn eins og hann er orðinn felur meira í sér en margan hefði nokkru sinni grunað. Allt okkar daglega líf fer núorðið fram með aðstoð nettengdra tækja sem skrá athafnir okkar með ítarlegri hætti en flestir gera sér grein fyrir – og keppst hefur verið við að snjalltækjavæða sem flest svið samfélagsins. Framþróun tækninnar getur leitt margt gott af sér en að sama skapi geta afleiðingar misnotkunar persónuupplýsinga verið miklar og alvarlegar. Þegar til verða fleiri og fleiri gagnagrunnar með viðkvæmum sem og almennum persónuupplýsingum þá skiptir miklu að öryggi þeirra sem og aðrar grunnreglur persónuverndarlaga séu virtar. Að sama skapi þarf að svara stórum spurningum um hvert skal halda.

Á hverri alþjóðlegu persónuverndarráðstefnunni á fætur annarri er spurt spurninga sem snúa að nýju tækninni. Hversu langt má gervigreindin ganga í að meta okkur sem einstaklinga – hegðun okkar, heilsu og tilfinningar? Eigum við rétt á því að vera andlitslaus á tímum andlitsgreiningartækni, hvernig má best verja börn fyrir misnotkun upplýsinga um þau og hversu langt mega lögregluyfirvöld ganga í eftirliti á almannafæri?

Í mótmælunum sem staðið hafa yfir í Hong Kong undanfarna mánuði hefur gervigreind verið beitt þannig að hún breytir valdahlutfallinu. Þar, sem og annars staðar, er gervigreind tæki til að stjórna. Þar mæta mótmælendur með grímu á mótmæli og hafa samt sem áður áhyggjur af því að stjórnvöld nái að greina göngulag þeirra eða rödd. Þar valda reykingar á stöðum þar sem reykingar eru bannaðar því að viðkomandi greiðir hærra gjald fyrir lestarferðir. Enn hærra verður gjaldið ef flokknum hefur verið hallmælt og því náð á upptöku. Þetta eru staðreyndir sem íbúar í Asíu finna á eigin skinni. Þessi veruleiki er hins vegar ekki svo langt í burtu og því þurfa íbúar á EES-svæðinu að vakna betur til vitundar um hvað snjallvæðing getur haft í för með sér. Snjallvæðing heilu borganna, heimilanna og leikfanganna er okkur ekki til hagsbóta nema grundvallarreglum um persónuvernd sé fylgt. Í upphafi skyldi því endinn skoða og huga þyrfti að frekari leiðum fyrir fyrirtæki og aðra til að fá upplýsingar sem nýtast í starfseminni án þess að þær séu persónugreinanlegar.

Í Persónuvernd, 28. janúar 2020,

Helga Þórisdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei