Fréttir

Breytingar á skipuriti Persónuverndar

15.9.2021

Skipurit-Personuverndar-002-Ákveðnar hafa verið breytingar á skipuriti Persónuverndar, aðallega til að takast betur á við hlutverk hennar sem eftirlitsstjórnvalds, en einnig til að efla vitund ábyrgðaraðila og vinnsluaðila um skyldur sínar. Breytingarnar felast í því að aukin áhersla verður framvegis lögð á að Persónuvernd sinni lögbundnu frumkvæðiseftirliti og úttektum, auk þess sem á ný verður hjá stofnuninni staða yfirlögfræðings, sem hefur það hlutverk að tryggja gæði og samræmi í málsmeðferð og niðurstöðum mála.

Fyrirhugað er að birta á næstunni áætlun um fyrirhugaðar úttektir á vegum Persónuverndar.

Þórður Sveinsson lögfræðingur hefur tekið við stöðu yfirlögfræðings hjá Persónuvernd. Þórður lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og hefur starfað hjá Persónuvernd frá þeim tíma. Hann hefur m.a. gegnt stöðu yfirlögfræðings, sviðsstjóra úttekta og nú á ný stöðu yfirlögfræðings. Þórður hefur yfirburðaþekkingu á almennum reglum persónuverndar og hefur sérþekkingu á málefnum tengdum vinnslu persónuupplýsinga í heilbrigðiskerfinu sem og vinnslu fjárhagsupplýsinga. Þeim sviðum mun hann sérstaklega sinna ásamt því að tryggja gæði og samræmda málsmeðferð hjá Persónuvernd. Þórður hefur kennt lögfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, ásamt því að vera prófdómari í persónuverndarrétti við Háskóla Íslands. 

Valborg Steingrímsdóttir lögfræðingur hefur fengið stöðu sviðsstjóra öryggis og úttekta hjá Persónuvernd. Valborg lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og LL.M.-gráðu frá Berkeley-háskóla í Kaliforníu árið 2011. Hún hefur m.a. starfað hjá Orkustofnun og sem aðstoðarmaður dómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hún hefur unnið hjá Persónuvernd frá ársbyrjun 2018 en fékk leyfi frá störfum um nokkurra mánaða skeið til að sinna afleysingum sem aðstoðarmaður dómara í Landsrétti.

Þá verður Vigdís Eva Líndal áfram sviðsstjóri erlends samstarfs og fræðslu og Helga Sigríður Þórhallsdóttir sviðsstjóri eftirlits. 
Var efnið hjálplegt? Nei