Fréttir

Brexit: Aðgerðir vegna flutnings persónuupplýsinga til Bretlands

18.12.2020

Um áramót lýkur aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Það þýðir meðal annars að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) mun ekki gilda lengur um Bretland frá og með 1. janúar 2021. Á þessari stundu liggur ekki fyrir samkomulag um hvernig framtíðarsambandi Bretlands og ESB verður háttað en heimildir til flutnings persónuupplýsinga frá Íslandi til Bretlands ráðast meðal annars af því. Þess vegna þurfa ábyrgðaraðilar og vinnsluaðilar að grípa til viðeigandi ráðstafana varðandi flutning persónuupplýsinga frá Íslandi til Bretlands eftir áramót.

Frá og með 1. janúar 2021 verður Bretland ekki lengur hluti af innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og verður því flutningur persónuupplýsinga þangað ekki lengur frjáls. Um flutning persónuupplýsinga til Bretlands munu því gilda ákvæði V. kafla persónuverndarreglugerðarinnar (ESB) 2016/679 um flutning persónuupplýsinga úr landi, sérstaklega ákvæði 46. gr. reglugerðarinnar.

Í tengslum við útgöngu Bretlands úr sambandinu samþykkti Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) á fundi sínum 15. desember 2020 yfirlýsingu um lok aðlögunartímabilsins. Í yfirlýsingunni er farið yfir helstu afleiðingar þess fyrir ábyrgðaraðila og vinnsluaðila innan EES. Einkum er lögð áhersla á atriði er varða flutning persónuupplýsinga til þriðju landa og afleiðingar í tengslum við eftirlit og kerfi einnar afgreiðslu (e. One-Stop-Shop mechanism).

Eins og áður segir lýkur aðlögunartímabilinu þann 31. desember 2020 en fram að þeim tíma tekur persónuverndarstofnunin í Bretlandi þátt í stjórnsýslusamstarfi innan EDPB.

Þar að auki samþykkti EDPB bréf sem inniheldur upplýsingar um flutning persónuupplýsinga samkvæmt persónuverndarreglugerðinni eftir lok aðlögunartímabilsins.

Persónuvernd leggur áherslu á að allir þeir aðilar, sem flytja persónuupplýsingar til Bretlands hugi sérstaklega að því að tryggja að slíkur flutningur persónuupplýsinga frá og með 1. janúar 2021, styðjist við fullnægjandi heimildir í V. kafla reglugerðarinnar.

Yfirlýsing EDPB.

Upplýsingabréf EDPB.

Fyrri leiðbeiningar Persónuverndar vegna Brexit.

Upplýsingasíða bresku persónuverndarstofnunarinnar vegna Brexit.

Upplýsingasíða utanríkisráðuneytisins vegna Brexit.  



Var efnið hjálplegt? Nei