Fréttir

Bretland samþykkt sem öruggt þriðja land

8.7.2021

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt tvær jafngildisákvarðanir um að Bretland fullnægi kröfum um persónuvernd – önnur samkvæmt almennu persónuverndarreglugerðinni (GDPR) og hin samkvæmt tilskipun um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Nú er heimilt flytja persónuupplýsingar frá Evrópusambandinu til Bretlands þar sem þær njóta jafngildrar verndar þar og í löndum ESB.

Bretland telst fullnægja kröfum persónuverndarlaga og er því öruggt land fyrir flutning persónuupplýsinga samkvæmt samþykkt framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þá var helst litið til þess að persónuverndarkerfi Bretlands byggir áfram á sömu reglum og þegar Bretland var aðildarríki ESB og fylgir áfram mannréttindasáttmála Evrópu um vernd einstaklinga með tilliti til sjálfvirkrar vinnslu persónuupplýsinga.

Báðar ákvarðanir voru samþykktar með ákveðnum varúðarráðstöfunum. Má þar nefna svokallað sólarlagsákvæði, en í því felst að ákvörðunin fellur sjálfkrafa úr gildi eftir fjögur ár. Er þetta í fyrsta sinn sem jafngildisákvörðun er samþykkt með slíku ákvæði. Það þýðir að eftir þann tíma má endurskoða ákvörðunina og endurnýja hana ef Bretland sýnir fram á áframhaldandi öryggi persónuupplýsinga. Fylgst verður náið með þróun breska kerfisins í framtíðinni og gripið inn í ef breytinga verður vart.

Jafngildisákvörðunin tekur einnig gildi strax hjá EES-EFTA ríkjunum, sbr. e-lið 2. mgr. 1. gr. ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar og er því miðlun persónuupplýsinga til Bretlands heimil án hindrana frá Íslandi.


Fréttatilkynning framkvæmdastjórnar ESB.



Var efnið hjálplegt? Nei