Fréttir

Árétting á tilmælum Persónuverndar til þeirra sem koma að starfi með börnum vegna notkunar samfélagsmiðla við birtingu persónuupplýsinga um börn, m.a. myndir

2.7.2020

Persónuvernd áréttar tilmæli stofnunarinnar frá 6. september 2018 um að þeir sem koma að starfi með börnum, m.a. skólar og íþróttafélög, noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða. Er þar fyrst og fremst átt við miðla þar sem ábyrgðaraðilinn hefur ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn samkvæmt þeim skilmálum sem gilda um miðilinn, sbr. Facebook. Öðru máli gegnir hins vegar um vefsíður eða hugbúnað sem tryggja ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er, m.a. til að eyða myndum þaðan ef beiðni berst þar að lútandi. Þannig geta ábyrgðaraðilarnir sjálfir gert umræddar myndir aðgengilegar fyrir hlutaðeigandi aðila með öruggum hætti, t.d. með aðgangsstýringu. 

Nú er genginn í garð sá tími ársins þar sem mikið er af ýmsum íþróttaviðburðum og tómstundanámskeiðum sem börn sækja. Það gleður bæði börn og aðstandendur þeirra að sjá myndir af börnunum við leik og störf.

Að ýmsu er að huga fyrir ábyrgðaraðilana þegar kemur að vinnslu persónuupplýsinga um börn, m.a. varðandi miðlun og birtingu ljósmynda. Ábyrgðaraðila ber ávallt að tryggja að vinnslan styðjist við heimild í persónuverndarlögum (lögum nr. 90/2018), eftir því sem við á hverju sinni, t.d. samþykki eða lögmæta hagsmuni. Þá þurfa íþróttafélög, rekstaraðilar tómstundanámskeiða og aðrir að huga að því hvort um sé að ræða opna viðburði eða lokaða, almennar myndir af viðburðinum eða sérstakar ljósmyndatökur, hvort og þá hvernig myndbirtingu skuli háttað og hvort vinnsla sé talin vera í markaðssetningarskyni, t.d. af styrktaraðilum. Sérstaklega er áréttað að börn ætti aldrei að sýna á óviðeigandi hátt eða í erfiðum aðstæðum, t.d. grátandi eða slösuð. Er því rétt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á barnið.

Í ákvörðun Persónuverndar um fyrirhugaða birtingu Arion banka á liðsmyndum af fótboltamóti barna á Facebook síðu bankans frá 27. júní sl. var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið til staðar ótvírætt samþykki foreldra og forráðamanna barnanna fyrir myndbirtingunni á Facebook-síðu bankans þar sem lágmarksfræðsla hefði ekki verið veitt. Þá var ekki talið að Arion banki gæti átt lögmæta hagsmuni af myndbirtingunni, en við það mat var meðal annars litið til eðlis þeirrar vinnslu sem um ræddi og þeirrar staðreyndar að hin skráðu voru börn.

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga þeirra. Þessi sérstaka vernd á einkum við um notkun persónuupplýsinga barna í markaðssetningarskyni.

Í ljósi fyrrgreindrar ákvörðunar Persónuverndar telur stofnunin tilefni til þess að árétta tilmæli um notkun á samfélagsmiðlum - til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga og annarra opinberra aðila og einkaaðila sem koma að starfi með börnum frá 6. september 2018. Í fyrrgreindum tilmælum beinir Persónuvernd því til framangreindra aðila að þeir noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða.

Hafa ber í huga að í skilmálum Facebook sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað í gegnum Facebook er því samtímis miðlað til Facebook en fyrir liggur að miðillinn deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við nánar tilgreindar aðstæður. Þeir sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn. Öðru máli gegnir hins vegar um vefsíður eða hugbúnað sem tryggja ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er, m.a. til að eyða myndum þaðan ef beiðni berst þar að lútandi. Þannig gætu ábyrgðaraðilarnir sjálfir, þ.e. íþróttafélög og rekstraraðilar tómstundanámskeiða, gert umræddar myndir aðgengilegar fyrir hlutaðeigandi aðila með öruggum hætti, t.d. með aðgangsstýringu.Var efnið hjálplegt? Nei