Fréttir

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn 2021: greinar, tölfræði yfir öryggisbresti, ný fræðsla

28.1.2021

Í tilefni af alþjóðlega persónuverndardeginum ritar forstjóri Persónuverndar greinar í þrjá fréttamiðla, auk þess sem Persónuvernd birtir í dag tölfræði yfir tilkynnta öryggisbresti á árinu 2020, uppfærða fræðslu um öryggisbresti fyrir fyrirtæki og stjórnsýslu sem og nýja og bætta fræðslu um lánshæfismat og vanskilaskrá fyrir einstaklinga. Þá tók Persónuvernd einnig þátt í gerð myndbands hjá Evrópska persónuverndarráðinu (EDPB) vegna dagsins í dag.

Fyrsti alþjóðlegi samningurinn á sviði persónuverndar er 40 ára í dag - Evrópuráðssamningurinn um vernd einstaklinga vegna vélrænnar vinnslu persónuupplýsinga. Ísland hefur verið aðili hans frá upphafi. Í dag fagna áhugamenn um persónuvernd því alþjóðlegum persónuverndardegi og hérlendis fögnum við einnig 20 ára starfsafmæli Persónuverndar!

Persónuverndardagurinn á nokkrum tungumálum

Margt hefur gerst á þessum tíma og nú er staðan sú að verðmætustu fyrirtæki heims eru gagnafyrirtæki sem byggja rekstur sinn alfarið á upplýsingum sem geta verið persónugreinanlegar. Flestir opinberir aðilar, sveitarfélög og aðrir eru einnig að efla stafræna þjónustu sína og hér undir eru oft og tíðum persónuupplýsingar, sumar hverjar mjög viðkvæmar, og eiga því ekki erindi við alla.

Það er því ekki síst á tímum sem þessum sem persónuverndarmál þurfa að vera í öndvegi hjá öllum þeim sem vinna með persónuupplýsingar.

Greinar forstjóra og myndband frá EDPB

Í tilefni af persónuverndardeginum í ár ritar Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, greinar í þrjá miðla:

Fögnum alþjóðlegum persónuverndardegi! – grein birt á Vísir.is 

Hver fylgist með okkur? – grein í Fréttablaðinu 

Hvernig heimi viljum við lifa í? – grein í Morgunblaðinu

Þá hefur Evrópska persónverndarráðið gefið út myndband í tilefni dagsins:

EDPD_Iceland.mp4
Tölfræði vegna tilkynntra öryggisbresta á árinu 2020

Persónuvernd hefur tekið saman tölfræði yfir tilkynnta öryggisbresti á árinu 2020. Í tölfræðinni er annars vegar greint á milli öryggisbresta eftir tilkynnendum þeirra og hins vegar eftir tegundum þeirra. Er þetta hluti af þeirri stefnu stofnunarinnar að gera starfsemi hennar gagnsærri gagnvart þeim sem vinna með persónuupplýsingar. Fyrirhugað er að birta tölfræðina mánaðarlega frá og með 1. mars 2021.

Tölfræði yfir tilkynnta öryggisbresti.

Uppfærð fræðsla vegna tilkynningarskyldra öryggisbresta

Evrópska persónuverndarráðið gaf nýlega út nýjar leiðbeiningar um öryggisbresti. Persónuvernd hefur þýtt helstu atriði leiðbeininganna yfir á íslensku og bætt við áðurútgefna fræðslu á vefnum fyrir fyrirtæki og stjórnsýslu.

Leiðbeiningar um öryggisbresti - raunhæf dæmi.

Ný og bætt fræðsla um lánshæfismat og vanskilaskrá

Undir fræðslu fyrir einstaklinga hefur nú verið bætt við umfjöllun um lánshæfismat og vanskilaskrá. Fræðslan byggir á þeim fyrirspurnum sem Persónuvernd berast reglulega og er ætlað að svara öllum helstu spurningum sem einstaklingar geta haft varðandi slíkar skráningar.

Spurt og svarað um vanskilaskrá og lánshæfismat.

Persónuvernd óskar öllum gleðilegs og öruggs persónuverndardags! Var efnið hjálplegt? Nei