Fréttir

Álit – Persónuvernd og tjáningarfrelsi fjölmiðla

6.10.2020

Persónuvernd berast reglulega erindi er varða umfjöllun fjölmiðla um einstaklinga, jafnt í formi kvartana sem almennra fyrirspurna. Af þeirri ástæðu og með vísan til eftirlitshlutverks Persónuverndar hefur stofnunin nú gefið út álit á lagaumhverfi fjölmiðla með tilliti til persónuverndar, mörkum valdheimilda Persónuverndar að því leyti og á þeim sjónarmiðum sem fjölmiðlar þurfa að líta til við vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku.

Í álitinu er fjallað um ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem mælir meðal annars fyrir um að víkja megi frá lögunum og reglugerð (ESB) 2016/679 í þágu fjölmiðlunar að því marki sem nauðsynlegt er til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Jafnframt er fjallað um 2. mgr. 6. gr. laganna sem kveður á um að einungis tiltekin ákvæði þeirra og reglugerðarinnar skuli gilda um vinnslu persónuupplýsinga sem er einvörðungu í þágu fréttamennsku. Þá er í álitinu fjallað um valdsvið Persónuverndar gagnvart fjölmiðlum og öðrum er starfa við fréttamennsku með hliðsjón af framangreindum ákvæðum. Sérstaklega er vikið að meginreglunum um lögmæti, sanngirni og gagnsæi og um áreiðanleika, en þær eru meðal þeirra reglna sem ber að fylgja við vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku.

Niðurstaða álitsins er sú að vinnsla persónuupplýsinga á vegum fjölmiðla og annarra aðila í þágu fréttamennsku fellur að miklu leyti utan valdsviðs Persónuverndar. Er stofnunin því ekki bær til þess að úrskurða með bindandi hætti um hvort vinnsla persónuupplýsinga á þeim vettvangi samrýmist ákvæðum laganna og reglugerðarinnar. Fellur það í hlut dómstóla að meta hvort fjölmiðlar hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns eða gerst brotlegir við ákvæði laga nr. 90/2018 og reglugerðarinnar eða eftir atvikum önnur ákvæði laga.

Álit Persónuverndar má lesa hér .Var efnið hjálplegt? Nei