Fréttir

Ákvörðun um fyrirhugaða birtingu Arion banka á ljósmyndum af liðum á fótboltamóti barna á Facebook-síðu bankans

30.6.2020

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun í frumkvæðisathugunarmáli stofnunarinnar varðandi fyrirhugaða birtingu Arion banka á ljósmyndum af liðum í Arion banka-mótinu í fótbolta barna 2019, á Facebook-síðu hans. Bankinn taldi sér þetta þetta heimilt á grundvelli samþykkis foreldra og forráðamanna, sbr. 1. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem og lögmætra hagsmuna, sbr. 6. tölul. sömu lagagreinar. 

Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið til staðar samþykki foreldra og forráðamanna barnanna fyrir myndbirtingunni á Facebook-síðu bankans þar sem lágmarksfræðsla hafi ekki verið veitt. Þá er ekki talið að Arion banki geti átt lögmæta hagsmuni af myndbirtingunni, en við það mat er meðal annars litið til eðlis þeirrar vinnslu sem um ræðir og þeirrar staðreyndar að hin skráðu eru börn. Vitnað er í 38. lið formálsorða reglugerðar (ESB) 2016/679 þar sem fram kemur að persónuupplýsingar barna eigi að njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunni að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu þeirra. Þessi sérstaka vernd eigi einkum að eiga við um notkun persónuupplýsinga barna í markaðssetningarskyni. Jafnframt felist í þessari vernd meðal annars að réttur til eyðingar persónuupplýsinga sé mjög ríkur gagnvart börnum og geti þau þannig átt ríkari rétt en fullorðnir til þess að upplýsingum um þau sé eytt, t.d. á Netinu. Í skilmálum Facebook, sem notendur miðilsins samþykkja, komi fram að Facebook safni þeim upplýsingum sem miðlað sé í gegnum síðuna. Fyrir liggi að Facebook deili persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum, við nánar tilgreindar aðstæður.

Loks er minnt á að í tilmælum Persónuverndar frá 6. september 2018 vegna notkunar samfélagsmiðla í skóla- og frístundastarfi er mælst til þess að allir opinberir aðilar og einkaaðilar, sem koma að starfi með börnum, noti ekki Facebook eða sambærilega miðla, fyrir miðlun persónuupplýsinga um börn.

Ákvörðun Persónuverndar má lesa hér.



Var efnið hjálplegt? Nei