Fréttir

Ákvörðun um aðgengi hins skráða að upplýsingum um sig í Schengen-upplýsingakerfinu

5.5.2021

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun í máli einstaklings sem kvartaði yfir því að hafa ekki fengið aðgang að upplýsingum um sig sem skráðar höfðu verið í Schengen-upplýsingakerfið. Forsaga málsins er sú að árið 2017 hafði kvartandi komið til Íslands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Kvartandi dró síðar til baka þá umsókn og var í kjölfarið gert að yfirgefa landið innan sjö daga frests, skv. ákvörðun Útlendingastofnunar. Það gerði kvartandi ekki og var því í kjölfarið fylgt úr landi af lögreglu.

Þar sem kvartandi hafði ekki yfirgefið landið innan tilskilins frests, var hann settur í tveggja ára endurkomubann til Íslands, sem skráð var í Schengen-upplýsingakerfið. Tæpum tveimur árum síðar sendi kvartandi beiðni til embættis ríkislögreglustjóra, ásamt afriti af vegabréfi, þar sem farið var fram á upplýsingar um skráningar er vörðuðu hann í Schengen-upplýsingakerfinu auk þess sem farið var fram á að slíkum upplýsingum yrði eytt. Í svari til kvartanda kom fram að umræddar upplýsingar væru ekki afhentar með tölvupósti, heldur væri gerð sú krafa að hinn skráði kæmi í eigin persónu á starfsstöð embættis ríkislögreglustjóra eða í næsta sendiráð Schengen-ríkis og framvísaði þar persónuskilríkjum.

Varð það niðurstaða Persónuverndar að vinnsla embættis ríkislögreglustjóra á persónuupplýsingum um kvartanda hafi samrýmst lögum nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Þó hyggst Persónuvernd rita dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu bréf þar sem vakin verður athygli á þeim vanda sem einstaklingar, sem skráðir eru í Schengen-upplýsingakerfið, geta staðið frammi fyrir þegar þeir reyna að neyta réttinda sinna, með því að sækjast eftir upplýsingum um skráningar er varða þá sjálfa, og mælst til þess að upplýsingagjöf verði samræmd að því marki sem hægt er milli þeirra aðila sem veita upplýsingar til hinna skráðu.

Ákvörðun Persónuverndar má lesa hér.



Var efnið hjálplegt? Nei