Fréttir: 2015

Fyrirsagnalisti

16.12.2015 : Pólitísku samkomulagi náð um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd

Í gær, hinn 15. desember 2015, birtist fréttatilkynning á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem fram kemur að samþykktar hafi verið tillögur að endurbótum á evrópskri persónuverndarlöggjöf. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögur að endurbótum í janúar 2012 sem áttu að nútímavæða löggjöfina og aðlaga hana að stafrænni öld upplýsingatækninnar. Í gær náðust samningar um slíka löggjöf milli Evrópuþingsins og ráðherraráðs Evrópusambandsins, í kjölfar lokaviðræðna þingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar.

11.11.2015 : Upplýsingar til hlutaðeigandi fyrirtækja um safe-harbour-dóm Evrópudómstólsins 

Upplýsingar til hlutaðeigandi fyrirtækja um safe-harbour-dóm Evrópudómstólsins í máli C-362/14 og afleiðingar þess að safe-harbour-ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er dæmd ólögmæt

22.10.2015 : 89 sóttu um stöðu lögfræðings hjá Persónuvernd

Helga Sigríður Þórhallsdóttir og Gísli Páll Oddsson hafa verið ráðnir lögfræðingar hjá Persónuvernd. Staða lögfræðings hjá Persónuvernd var auglýst laus til umsóknar 21. ágúst sl. og sóttu 89 einstaklingar um. Helga Sigríður lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2013. Hún var lögfræðingur Húseigendafélagsins frá 2010 til 2014 og hefur síðan þá starfað hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Gísli Páll lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og skipstjórnarprófi 2. stigs frá Stýrimannaskóla Reykjavíkur árið 1997. Gísli Páll kemur frá lögfræðisviði Fiskistofu, þar sem hann hefur sinnt ýmsum verkefnum frá árinu 2010.

7.10.2015 : Ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir dæmd ógild af Evrópudómstólnum

Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um öruggar hafnir sé ógild. Á grundvelli ákvörðunarinnar hefur fyrirtækjum í Evrópu verið talið heimilt að flytja persónuupplýsingar til fyrirtækja í Bandaríkjunum sem teljast s.k. öruggar hafnir.

21.9.2015 : Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um öflun fjárhagsupplýsinga einstaklings

Hinn 7. júlí 2015 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) dóm um öflun yfirvalda í San Marínó á fjárhagsupplýsingum einstaklings í þágu rannsóknar sakamáls, en viðkomandi hafði ekki stöðu sakbornings í málinu. Þar sem hann átti ekki kost á réttarúrræði til að kæra upplýsingaöflunina var talið brotið gegn grunnreglunni um friðhelgi einkalífs.

2.9.2015 : Nýr forstjóri

Þann 1. september 2015 tók Helga Þórisdóttir við embætti forstjóra Persónuverndar. Helga var skipuð í embættið af Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, þann 1. júní sl.

21.8.2015 : Staða lögfræðings laus til umsóknar

Laus er til umsóknar staða lögfræðings hjá Persónuvernd. Um er að ræða fullt starf og umsóknarfrestur er til og með 14. september nk. Frekari upplýsingar um starfið og menntunar- og hæfniskröfur má nálgast hér.

9.6.2015 : Persónuvernd lokar á hádegi 19. júní 2015 vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna

Að tillögu framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna 2015 samþykkti ríkisstjórnin að hvetja vinnuveitendur, jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum, til þess að gefa starfsmönnum frí eftir hádegi föstudaginn 19. júní, að því marki sem kostur er, svo þeir megi taka þátt í skipulögðum hátíðarhöldum sem þá eru áformuð.

Skrifstofa Persónuverndar verður því lokuð frá kl. 12.00 föstudaginn 19. júní næstkomandi.

2.6.2015 : Helga Þórisdóttir skipuð forstjóri Persónuverndar

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur skipað Helgu Þórisdóttur, staðgengil forstjóra og sviðsstjóra lögfræðisviðs Lyfjastofnunar, í embætti forstjóra Persónuverndar. Tekur Helga við embættinu 1. september næstkomandi.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur skipað Helgu Þórisdóttur, staðgengil forstjóra og sviðsstjóra lögfræðisviðs Lyfjastofnunar, í embætti forstjóra Persónuverndar. Tekur Helga við embættinu 1. september næstkomandi.

11.5.2015 : Persónuvernd fyrirmyndarstofnun 2015

Persónuvernd hlaut þriðju hæstu einkunn sem stofnun ársins 2015, í flokki lítilla stofnanna, í starfsánægjukönnun SFR stéttarfélags. Fær stofnunin af þeim sökum nafnbótina Fyrirmyndarstofnun 2015.

Síða 1 af 2


Var efnið hjálplegt? Nei