Fréttir: 2014

Fyrirsagnalisti

18.12.2014 : Starfsmenn Persónuverndar hljóta vottun sem stjórnendur úttekta á upplýsingaöryggiskerfum

Eitt af hlutverkum Persónuverndar er að gera úttektir á öryggi persónuupplýsinga hjá þeim sem vinna með slíkar upplýsingar. Til þess að vera betur í stakk búin til að sinna þessu hlutverki sóttu fjórir starfsmenn á vegum stofnunarinnar námskeið til að fá vottun sem stjórnendur úttekta á upplýsingaöryggiskerfum sem byggð eru upp samkvæmt ÍST/ISO 27001:2013. Vottunin, sem starfsmennirnir fengu, er viðurkennt af IRCA sem er alþjóðaskrá viðurkenndra úttektaraðila.

8.12.2014 : Ný lög um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði taka gildi um áramót

Persónuvernd minnir rannsakendur á að þann 1. janúar 2015 verður aðgangur að sjúkraskrám ekki lengur leyfisskyldur sérstaklega hjá Persónuvernd, heldur Vísindasiðanefnd. Persónuvernd mun þess í stað fá yfirlit yfir umsóknir sem berast Vísindasiðanefnd. Í kjölfarið mun Persónuvernd meta hvort tilefni sé til þess að taka einstakar umsóknir til nánari skoðunar.  Af þessum ástæðum vill Persónuvernd leiðbeina rannsakendum að snúa sér til Vísindasiðanefndar frá og með 1. janúar 2015, hyggist þeir óska aðgangs að sjúkraskrám í þágu vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Persónuvernd mun nú í desember leggja sérstaklega áherslu á að afgreiða leyfisumsóknir, sem þegar hafa borist henni. Ef rannsakendur, sem ekki hafa sent inn leyfisumsókn nú þegar, sjá ekki fram á að geta hafið rannsókn sína fyrir áramót leiðbeinir Persónuvernd þeim um að beina beiðnum sínum til Vísindasiðanefndar frá og með 1. janúar 2015. Starfsmenn Persónuverndar munu veita nánari upplýsingar í gegnum síma óski rannsakendur frekari upplýsinga.

Þá bendir Persónuvernd á að ákveðnar tegundir vinnslu eru enn leyfisskyldar hjá stofnuninni til samræmis við 4. gr. reglna nr. 712/2008. Hin nýju lög taka einungis til aðgangs að sjúkraskrám í þágu vísindarannsókna á heilbrigðissviði.

28.11.2014 : Notkun dróna og persónuvernd

Drónar hafa verið áberandi í umræðunni um persónuvernd í Evrópu síðastliðnar vikur og mánuði. Í auknum mæli hefur þessi tækni staðið einstaklingum til boða sem nota þá t.d. til myndatöku á stöðum sem myndavélar ná yfirleitt ekki til. Að gefnu tilefni minnir Persónunvernd á að við vinnslu myndefnis sem tekið er með aðstoð dróna er mikilvægt, sem endranær, að huga að sjónarmiðum tengdum persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

9.10.2014 : Bilun í tilkynningakerfi hefur verið lagfærð

Þann 8. október sl. kom upp bilun í tilkynningakerfi Persónuverndar. Um var að ræða bilun hjá hýsingaraðila kerfisins sem hefur nú verið lagfærð. Stofnunin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu hlaust.

Þann 8. október sl. kom upp bilun í tilkynningakerfi Persónuverndar. Um var að ræða bilun hjá hýsingaraðila kerfisins sem hefur nú verið lagfærð. Stofnunin biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu hlaust.

6.8.2014 : Innleiðing staðla hjá framkvæmdastjórn ESB vegna dróna

Persónuvernd vill vekja athygli á yfirlýsingu Evrópuráðsins frá 8. apríl sl. um innleiðingu staðla vegna svokallaðra dróna ("remotely piloted aircraft sytems" – RPAS). Staðlarnir eiga að ná til ýmissa sviða sem notkun dróna geta átt við, t.d. upplýsingaöryggi og persónuvernd. Markmið staðlanna er að gera evrópskum iðnaði mögulegt að sækja fram á þessum markaði en tryggja á sama tíma að allra öryggissjónarmiða sé gætt. Yfirlýsing framkvæmdastjórnarinnar er aðgengileg hér.

1.8.2014 : Álit 29. gr. starfshópsins um eftirlit leyniþjónustustofnana

Hinn 10. apríl sl. samþykkti 29. gr. starfshópurinn álit hvað varðar eftirlit leyniþjónustustofnana. Í álitinu kemur m.a. fram að leynilegt, viðamikið og tilviljunarkennt eftirlit samrýmist ekki grundvallarlagareglum og verði ekki réttlætt með vísan til baráttu gegn hryðjuverkum og öðrum alvarlegum ógnum við þjóðaröryggi. Skerðingar á grunnréttindum borgaranna komi því aðeins til greina að brýn nauðsyn krefjist þeirra í lýðræðisþjóðfélagi og að meðalhófs sé gætt. Auk þess kemur fram af hálfu starfshópsins að Evrópureglur um vernd persónuupplýsinga heimili ekki víðtæka miðlun persónuupplýsinga til nota við slíkt eftirlit sem hér um ræðir. Lögð er á það áhersla að tillögur að nýrri persónuverndarlöggjöf ESB öðlist gildi og að sem fyrst hefjist viðræður um alþjóðasamning um vernd persónuupplýsinga.

1.8.2014 : Að gefnu tilefni - myndbirtingar úr eftirlitsmyndavélum

Það sem af er ári hefur Persónuvernd nokkrum sinnum orðið þess vör að myndir úr eftirlitsmyndavélum hafi verið birtar opinberlega, t.d. í fjölmiðlum. Í mörgum tilvikum er tilgangurinn sá að reyna að hafa uppi á sökudólgum þegar grunur leikur á um að refsivert athæfi hafi átt sér stað á vöktuðu svæði. Af þessu tilefni vill Persónuvernd árétta þær reglur sem gilda um slíka birtingu.

27.6.2014 : Hvernig komið er í veg fyrir að Facebook deili upplýsingum um sögu netvafurs í auglýsingaskyni - leiðbeiningar.

Leiðbeiningar Persónuverndar um það hvernig notendur Facebook geta komið í veg fyrir að fyrirtækið deili upplýsingum um sögu netvafurs þeirra (e. browsing history), þ.e. upplýsingum um netvafur innan samfélagsmiðilsins og utan hans, með þriðju aðilum. Leiðbeiningarnar ná bæði til tölva, snjallsíma og spjaldtölva.

23.5.2014 : Evrópudómstóllinn staðfestir rétt manna „til að gleymast“

Hinn 13. maí sl. felldi Evrópudómstóllinn dóm þar sem fallist var á kröfu manns um að niðurstöðu á leitarsíðu Google skyldi eytt. Dómurinn hefur ekki í för með sér að sjálfu efninu, sem laut að manninum, skyldi eyða heldur aðeins leitarniðurstöðunni sjálfri.

31.3.2014 : Setning forstjóra

Innanríkisráðuneytið hefur sett Hjördísi Stefánsdóttur sem forstjóra Persónuverndar frá og með 1. apríl 2014 til og með 31. mars 2015. Hjördís er lögfræðingur og hefur starfað í innanríkisráðuneytinu.

Síða 1 af 2


Var efnið hjálplegt? Nei