Fréttir: 2013

Fyrirsagnalisti

31.12.2013 : Ársskýrsla Persónuverndar 2012 komin út

Ársskýrsla Persónuverndar fyrir árið 2012 er komin út. Þar eru birtar almennar upplýsingar um stofnunina, starfsemi hennar og rekstur, yfirlit yfir útgefin leyfi, helstu álit og úrskurðir og samantekt um erlent samstarf, lög og reglur.

Athygli vekur að fleiri mál en nokkurn tíma áður bárust stofnuninni á árinu 2012, eða 1489, þar af 551 tilkynning. Til samanburðar má nefna að árið 2008 voru ný mál hjá Persónuvernd skráð 985 en árið 2010 voru þau 1221. Á sama árabili voru fjárveitingar til stofnunarinnar skornar verulega niður.

Ársskýrsluna má nálgast á pdf-formi hérna.

Á líðandi ári hefur málum enn fjölgað hjá stofnuninni og starfsmönnum fækkað. Er svo komið að stofnunin sinnir einungis litlum hluta sinna lögboðnu verkefna. Nýsamþykktar fjárheimildir fyrir árið 2014 eru hins vegar umtalsvert rýmri en fjárheimildir undanfarinna ára og því horfir til bjartari tíðar í rekstri stofnunarinnar á komandi ári.

Persónuvernd óskar landsmönnum gleðilegs árs.

3.12.2013 : Leiðbeiningar til skrárhaldara um afhendingu gagna

Persónuvernd hefur útbúið leiðbeiningar til skrárhaldara vegna afhendingar persónuupplýsinga til rannsakanda í þágu vísindarannsóknar og yfirlýsingu hans þess efnis. Leiðbeiningarnar má nálgast í dálknum „Algengar spurningar og svör“ sem finna má hér neðar á forsíðu heimasíðu Persónuverndar.

22.10.2013 : Hádegisverðarfundur Ský: "Hvar eiga viðkvæmar persónuupplýsingar heima?"

Persónuvernd minnir á hádegisverðarfund um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga sem haldinn verður á Grand hóteli á morgun, miðvikudaginn 23. október kl. 12-14. Starfsmaður Persónuverndar mun fjalla um lagaramma viðkvæmra persónuupplýsinga.  Hægt er að skrá sig á fundinn hér.

16.10.2013 : Hádegisverðarfundur Ský: "Hvar eiga viðkvæmar persónuupplýsingar heima?"

Miðvikudaginn 23. október 2013 kl. 12-14 á Grand hóteli standa Fókus, faghópur Ský um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu og öryggishópur Ský sameiginlega að hádegisfundi um meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Meðal þeirra sem flytja erindi á fundinum er starfsmaður Persónuverndar sem mun fjalla um lagaramma viðkvæmra persónuupplýsinga. Fundurinn er öllum opinn en það þarf að skrá sig á hann fyrirfram.

27.6.2013 : Viðbrögð ESB við PRISM-verkefni Bandaríkjastjórnar

Í kjölfar frétta af  PRISM-verkefni Bandaríkjastjórnar, sem gerir ráð fyrir víðtæku eftirliti með einstaklingum á netinu, hefur Evrópusambandið gert athugasemdir við að Bandaríkjamenn safni upplýsingum um einstaklinga innan ESB með verkefninu.  Ákveðið hefur verið að setja á fót vinnuhóp ESB og Bandaríkjanna og er gert ráð fyrir að formaður 29. gr. starfshópsins, sem sinnir ráðgjafarhlutverki um persónuverndarmálefni hjá ESB, verði meðal nefndarmanna. Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn taki til starfa í júlí.

2.4.2013 : Setning forstjóra

Innanríkisráðuneytið hefur sett Hörð Helga Helgason sem forstjóra Persónuverndar frá og með 1. apríl 2013 til og með 31. mars 2014. Hörður Helgi er lögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar Landslaga.

11.3.2013 : Leyfi forstjóra

Innanríkisráðherra hefur góðfúslega fallist á ósk forstjóra um ársleyfi frá störfum. Leyfið hófst hinn 1. mars sl. Forstjóri mun koma aftur til starfa í apríl á næsta ári. Þórður Sveinsson er staðgengill forstjóra.

21.2.2013 : Yfirlýsing frá frönsku persónuverndarstofnuninni

Franska persónuverndarstofnunin birti nýverið á heimasíðu sinni yfirlýsingu, fyrir hönd evrópsku persónuverndarstofnananna, varðandi stefnu Google í tengslum við friðhelgismál. Í yfirlýsingunni kemur fram að Google gaf engin svör við þeim fyrirspurnum sem evrópsku persónuverndarstofnanirnar sendu til fyrirtækisins vegna trúnaðarstillinga þess.
Munu evrópsku persónuverndarstofnanirnar stofna vinnuhóp sem mun þrýsta á að Google bregðist við þeim ábendingum sem að þeim var beint.

28.1.2013 : Evrópski persónuverndardagurinn 2013 – eru þínar upplýsingar öruggar?

Í dag er Evrópski persónuverndardagurinn haldinn hátíðlegur í sjöunda skipti. Dagurinn er haldinn hátíðlegur þennan dag þar sem Evrópuráðssamningur um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónupplýsinga var gerður þennan dag árið 1981. Ætlunin með Persónuverndardeginum er að vekja athygli almennings á réttinum til persónuverndar og friðhelgi einkalífs.
Síða 1 af 2


Var efnið hjálplegt? Nei