Fréttir

17. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 28.-29. janúar 2020

13.2.2020

Dagana 28.-29. janúar 2020 fór fram 17. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) en hann sitja fulltrúar allra persónuverndarstofnana innan EES og evrópsku persónuverndarstofnunarinnar (EDPS).

17. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 28.-29. janúar 2020

Á fundinum voru að venju fjölmörg atriði til umræðu en þau helstu voru:

Álit á skilyrðum fyrir faggildingu eftirlitsaðila með hátternisreglum

EDBP samþykkti þrjú álit í kjölfar þess að persónuverndarstofnanirnar í Belgíu, Frakklandi og á Spáni lögðu fram drög að ákvörðunum um skilyrði fyrir faggildingu eftirlitsaðila með hátternisreglum. Álitunum er ætlað að tryggja samræmingu og rétta beitingu þessara skilyrða hjá persónuverndarstofnunum innan EES.

Drög að leiðbeiningum um nettengd farartæki

EDPB samþykkti drög að leiðbeiningum um nettengd farartæki. Samfara því að farartæki eru nú í auknum mæli tengd við Netið eykst söfnun persónuupplýsinga um ökumenn og farþega þeirra. Leiðbeiningarnar fjalla fyrst og fremst um vinnslu persónuupplýsinga í nettengdum farartækjum sem eru ekki notuð í atvinnuskyni. Þá fjalla leiðbeiningarnar annars vegar um þær persónuupplýsingar sem farartækið vinnur og hins vegar hvaða upplýsingar tækið sendir út frá sér sem nettengt tæki. Þegar leiðbeiningarnar hafa verið birtar munu þær fara í samráðsferli og hægt verður að senda athugasemdir á netfangið edpb@edpb.europa.eu.

Leiðbeiningar um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við myndbandseftirlit

EDPB samþykkti, í kjölfar samráðsferlis, leiðbeiningar um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við myndbandseftirlit, sem er ætlað að skýra hvernig persónuverndarreglugerðin tekur á vinnslu persónuupplýsinga þegar notast er við myndbandstækni. Leiðbeiningunum er jafnframt ætlað að tryggja samræmda túlkun og beitingu reglugerðarinnar hvað þetta varðar. Þær taka bæði til hefðbundinnar myndbandsupptökutækni og snjalltækni. Leiðbeiningarnar fjalla einkum um lögmæti vinnslunnar, þ.m.t. hvenær heimilt er að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar, hvenær undantekning vegna einkaafnota á við og miðlun upptakna til þriðju aðila. Þónokkrar breytingar voru gerðar á leiðbeiningunum í kjölfar samráðsferlisins.

Álit á skilyrðum fyrir faggildingu vottunaraðila

EDPB samþykkti tvö álit í kjölfar þess að breska persónuverndarstofnunin og persónuverndarstofnunin í Lúxemborg lögðu fram drög að ákvörðunum um skilyrði fyrir faggildingu vottunaraðila. Hér er um að ræða fyrstu álit EDPB á skilyrðum fyrir faggildingu vottunaraðila. Álitunum er ætlað að tryggja samræmingu og rétta beitingu þessara skilyrða hjá persónuverndarstofnunum og faggildingaraðilum innan EES.

Álit á bindandi fyrirtækjareglum Fujikura Automotive Europe Group

EDPB samþykkti álit á drögum að ákvörðun spænsku persónuverndarstofnunarinnar hvað varðar bindandi fyrirtækjareglur Fujikura Automotive Europe Group.

Bréf varðandi ósanngjörn algrím (e. unfair algorithms)

EDPB samþykkti svarbréf til Evrópuþingmannsins Sophie in't Veld varðandi notkun á ósanngjörnum algrímum. Svarið inniheldur greiningu á þeim áskorunum sem felast í notkun á algrímum, yfirlit yfir viðeigandi ákvæði persónuverndarreglugerðarinnar og þær leiðbeiningar EDPB sem taka á þessum álitaefnum ásamt því að lýsa vinnu einstakra persónuverndarstofnana á þessu sviði.

Bréf til Evrópuráðsins varðandi samning um netglæpi

Í kjölfar framlags EDPB til draga að annarri viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um netglæpi samþykkti EDPB viðbótarbréf þar sem lögð er áhersla á þörfina á að bæta við viðeigandi verndarráðstöfunum á sviði persónuverndar í viðbótarbótarbókunina og að tryggja samræmi hennar við Evrópuráðssamning nr. 108, um vernd einstaklinga í tengslum við vélræna vinnslu persónuupplýsinga, auk Evrópusambandssáttmálanna og Mannréttindaskrár ESB. Var efnið hjálplegt? Nei