Fréttir

11. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 4. júní 2019

6.6.2019

Hinn 4. júní 2019 fór fram 11. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) en hann sitja allar persónuverndarstofnanir innan EES og Evrópska persónuverndarstofnunin (EDPS). 

11. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 4. júní 2019

Hinn 4. júní 2019 fór fram 11. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) en hann sitja allar persónuverndarstofnanir innan EES og Evrópska persónuverndarstofnunin (EDPS). Á fundinum voru fjölmörg atriði til umræðu en þau helstu voru:

Leiðbeiningar vegna hátternisreglna

EDPB samþykkti endanlega útgáfu leiðbeininga um hátternisreglur. Í kjölfar samráðsferlis voru nokkur atriði skýrð frekar í leiðbeiningunum. Tilgangur leiðbeininganna er að veita hagnýtar skýringar og aðstoða við túlkun og beitingu 40. og 41. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Þá er þeim ætlað að skýra verkferla og reglur í tengslum við umsókn, samþykkt og birtingu hátternisreglna, bæði á landsvísu sem og hvað varðar hátternisreglur sem ná yfir landamæri. Leiðbeiningarnar fela einnig í sér skýran vinnuramma fyrir persónuverndarstofnanir, EDPB og framkvæmdastjórn ESB til að meta hátternisreglur á samræmdan hátt og til að straumlínulaga verkferla við mat á umsóknum.

Viðauki við leiðbeiningar um vottunaraðila

EDPB samþykkti einnig endanlega útgáfu viðauka við leiðbeiningar um vottunaraðila, í kjölfar samráðsferlis. Texti viðaukans hefur nú verið endurskoðaður til að auka skýrleika. Tilgangur leiðbeininganna er að veita skýringar hvað varðar túlkun og innleiðingu 43. gr. persónuverndarreglugerðarinnar um vottunaraðila. Þeim er sérstaklega ætlað að aðstoða aðildarríki, persónuverndarstofnanir og faggildingarstofur við að koma á fót samræmdum grunnkröfum fyrir faggildingu vottunaraðila sem gefa út vottanir á grundvelli persónuverndarreglugerðarinnar. Viðaukinn veitir leiðbeiningar um viðbótarkröfur fyrir faggildingu vottunaraðila sem koma þarf á af hálfu persónuverndarstofnana. Þessar viðbótarkröfur þarf að senda EDPB til samþykktar í samræmi við c-lið 1. mgr. 64. gr. persónuverndarreglugerðarinnar, áður en persónuverndarstofnunin samþykkir þær.

Viðauki við leiðbeiningar um vottun

EDPB samþykkti endanlega útgáfu viðauka tvö við leiðbeiningar um vottun. Í kjölfar samráðsferlis bætti ráðið fleiri þáttum við tiltekna hluta viðaukans, til að mynda varðandi það hvort mælikvarðar taki á þeirri skyldu ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila að tilnefna persónuverndarfulltrúa og þeirri skyldu að halda vinnsluskrá. Megintilgangur leiðbeininganna er að setja niður almenna mælikvarða sem nái til allra tegunda vottunarkerfa sem gefin eru út á grundvelli 42. og 43. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Viðaukinn fjallar um mismunandi atriði sem bæði persónuverndarstofnanir og EDPB munu hafa til hliðsjónar við samþykkt mælikvarða fyrir vottun fyrir vottunarkerfi. Listinn er ekki tæmandi en felur í sér upptalningu á þeim atriðum sem þurfa að lágmarki að vera tekin til skoðunar.

Dagskrá 11. fundar EDPB

Útgefnar leiðbeiningar EDPB vegna persónuverndarreglugerðarinnar

Þau gögn sem samþykkt voru á fundinum verða gerð aðgengileg á vefsíðu ráðsins þegar þau hafa verið yfirfarin.



Var efnið hjálplegt? Nei