Ársskýrsla Tölvunefndar 1997

Samkvæmt 36. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121 28. desember 1989 skal Tölvunefnd árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Skal þar birta yfirlit yfir þau starfsleyfi, samþykktir og heimildir sem nefndin hefur veitt, reglur sem hún hefur sett og úrskurði sem hún hefur kveðið upp.

Skýrsla þessi fyrir árið 1997, sem hér birtist, er fjórða skýrsla um störf þeirrar nefndar sem skipuð var í árslok 1993 til að starfa frá 1.janúar 1994 til 31. desember 1997. Er það önnur nefndin sem skipuð er samkvæmt lögum nr. 121/1989 en jafnframt fjórða nefndin sem skipuð er frá því að fyrstu lög varðandi meðferð og skráningu persónuupplýsinga voru sett, en það voru lög um skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, nr. 63 5. júní 1981.

Reykjavík, í júní 1998.
Sigrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri


EFNISYFIRLIT

1. Hugleiðingar formanns Tölvunefndar.
2. Almennt um skipun og starf Tölvunefndar .
2.1. Um skipun nefndarinnar .
2.2. Um málafjölda og viðfangsefni nefndarinnar .
3. Yfirlit yfir afgreidd erindi á árinu 1997 .
3.1. Vísindarannsóknir og kannanir ýmis konar .
3.1.1. Helstu skilmálar fyrir gerð slíkra rannsókna og kannanna .
3.1.2. Yfirlit yfir þær vísindarannsóknir og kannanir sem heimilaðar voru .
3.2. Kannanir sem voru framkvæmdar með þeim hætti að Tölvunefnd taldi ákvæði laganna ekki taka til þeirra og því ekki standa gerð þeirra í vegi .
3.3. Starfsleyfi sem gefin voru út .
3.3.1. Starfsleyfi skv. 15. gr. .
3.3.2. Starfsleyfi skv. 21. gr. .
3.3.3. Starfsleyfi skv. 24. gr. .
3.3.4. Starfsleyfi skv. 25. gr. .
3.4. Tilkynningar starfsleyfishafa um einstakar kannanir skv. 1. mgr. 24. gr. .
3.5. Erindi sem var synjað .
3.6. Álit og umsagnir um ýmis mál .
3.7. Svör við fyrirspurnum .
3.8. Afgreiddar kvartanir .
3.9. Beiðnir um aðgang, notkun og samtengingu einstakra skráa .
3.10. Önnur mál .
3.11. Nánari greinargerð um einstakar afgreiðslur .

4. Starf á fjölþjóða vettvangi .
4.1. Norrænt samstarf.
4.2. Evrópuráðið.
4.3. Alþjóðasamtök gagnaverndarstofnana.
4.4. Vinnuhópur samkvæmt 29. gr. ESB-tilskipunar um verndun einstaklingsins í vinnslu persónuupplýsinga.
4.5. Sameiginlega eftirlitsnefnd Schengen.

5. Lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121 28. desember 1989 .
6. Nafnaskrá .1. Formáli.

Hugleiðingar formanns Tölvunefndar

Gagnagrunnur á heilbrigðissviði
- Vandmeðfarinn upplýsingabanki

Á 122. löggjafarþingi 1997-98 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði, sem hér á eftir verður ýmist nefnt frumvarpið eða gagnagrunnsfrumvarpið. Meginefni gagnagrunnsfrumvarpsins kemur fram í 3. gr. þess, en þar segir m.a., að heilbrigðisráðherra skuli beita sér fyrir gerð og starfrækslu samhæfðra gagnagrunna á heilbrigðissviði. Skal heilbrigðisráðherra veita starfsleyfi til gerðar og starfrækslu slíks grunns, með þeim skilyrðum sem nánar greinir í frumvarpinu, og er honum heimilt að semja um gerð og starfrækslu gagnagrunna við aðila, sem uppfylla skilyrði fyrir veitingu slíks starfsleyfis.

Í 2. gr. frumvarpsins er gagnagrunnur skilgreindur sem safn sjálfstæðra verka, gagna eða annars efnis, sem hefur að geyma
heilsufarsupplýsingar og aðrar upplýsingar þeim tengdar, sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og hægt er að komast í með rafrænum aðferðum eða öðrum hætti. Í 1. mgr. 5. gr. segir m.a., að heimilt sé að veita starfsleyfishafa leyfi til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrám og öðrum heilsufarsupplýsingum, sem skráðar hafa verið hjá þar til bærum aðilum til flutnings í gagnagrunna á heilbrigðissviði, og samkvæmt 2. mgr. 5. gr. er það heilbrigðisráðherra, sem veitir leyfi til aðgangs að upplýsingum úr skjúkraskrám og öðrum heilsufarsupplýsingum. Í 4. mgr. 5. gr. er gert ráð fyrir því, að aðrar persónuupplýsingar en heilsfarsupplýsingar megi tengja við upplýsingar í gagnagrunni, en um það fari eftir lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Helstu gagnrýnisatriðin

Skemmst er frá því að segja, að frumvarp þetta olli gífurlegu umróti í íslensku samfélagi, og var það gagnrýnt mjög af flestum þeim, er létu sig málið varða. Gagnrýnin var, ef svo má segja, bæði byggð á formlegum og efnislegum ástæðum. Hinar formlegu gagnrýnisástæður lutu fyrst og fremst að þeim starfsaðferðum, sem íslensk stjórnvöld beittu við samningu frumvarpsins og í tengslum við framlagningu þess á Alþingi.

Hin efnislega gagnrýni snéri bæði að tilgangi frumvarpsins og einstökum efnisákvæðum þess, og hún laut fyrst og fremst að eftirtöldum atriðum: Í fyrsta lagi að því, hvort réttlætanlegt sé að setja á laggirnar miðlægan gagnagrunn eða upplýsingabanka með svo viðkvæmum persónuupplýsingum, sem hér er um að ræða. Í öðru lagi að því, hvort réttlætanlegt sé að veita einum tilteknum aðila einkarétt, þótt tímabundið sé, til að starfrækja slíkan upplýsingabanka, sem íslenska þjóðin hafi í raun kostað að stofni til með þeim fjármunum, sem hún hefur varið til uppbyggingar heilbrigðiskerfis síns á undanförnum áratugum. Í þriðja lagi að því, að staða þeirra, sem stunda vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sé sett í mikla óvissu og jafnræði manna til vísindarannsókna kunni að verða skert vegna þess einkaréttar, sem frumvarpið ætlar starfsleyfishafanum. Í fjórða lagi að eignarréttarlegum álitaefnum, þ.e. hvort með lögum sé hægt að skylda þá, sem þegar hafa komið sér upp sérhæfðum gagnagrunnum á heilbrigðissviði, til að láta af hendi upplýsingar til starfsleyfishafa til afnota í slíkum miðlægum upplýsingabanka. Í fimmta lagi að vísindasiðferðilegum álitaefnum, og var í því sambandi m.a. bent á, að hægt sé að misnota upplýsingar í slíkum miðlægum upplýsingabanka undir vísindalegu yfirskini. Í sjötta lagi að því, að hinum almenna borgara sé ekki ætlaður neinn réttur til afskipta af því, hvort og þá með hvaða hætti upplýsingar um hann fari inn í slíkan upplýsingabanka. Í sjöunda lagi að því, að tilvist miðlægs upplýsingabanka á heilbrigðissviði sé til þess fallin að skerða trúnaðarsamband sjúklings og læknis. Í áttunda lagi að persónuverndinni, þ.e. að frumvarpið, ef að lögum verði, gangi mjög á svig við þau grundvallarréttindi þegnanna, að þeir megi njóta friðhelgi um einkalíf sitt og persónulega hagi.

Eins og kunnugt er urðu lyktir máls þær, að afgreiðslu gagnagrunnsfrumvarpsins var frestað til næsta þings, þ.e. til 123. löggjafarþings 1998-99, og verður unnið að endurskoðun þess í sumar, m.a. í ljósi þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið og hér var nefnd. Í hugleiðingum þeim, sem hér fara á eftir, er engin afstaða til þess tekin, hvort slíkan gagnagrunn eða upplýsingabanka eigi eða eigi ekki aðsetja á laggirnar og hver eigi að starfrækja hann. Því síður er ætlunin að taka til umfjöllunar öll þau formlegu og efnislegu gagnrýnisatriði, sem frumvarpið varða og áður voru nefnd. Ætlunin er fyrst og fremst að benda á nokkur atriði, sem varða persónuvernd og friðhelgi einkalífs í tengslum við þá miklu skráningu persónuupplýsinga, sem óhjákvæmilega fylgir stofnun og starfrækslu slíks gagnagrunns, og ég tel brýnt að stjórnvöld og Alþingi hafi í huga, þegar frumvarp þetta kemur að nýju til þeirra kasta.

Eru heilsufarsupplýsingar auðlind?

Í almennum athugasemdum með gagngagrunnsfrumvarpinu segir, að slíkir grunnar geymi upplýsingar, sem til séu í heilbrigðiskerfi þjóðar eða þjóðarbrots og geri kleift að rannsaka samspil hinna ýmsu þátta kerfisins og vinna að líkanasmíð, en líkönin megi síðan nota sem tæki við hag- og gæðastýringu heilbrigðiskerfa. Réttmæti þessarar fullyrðingar hygg ég að fáir dragi í efa, og má því undir það taka, að slíkir upplýsingabankar séu í eðli sínu auðlind, sem þjóðhagslega geti verið hagkvæmt að nýta, ef vel tekst til. Felst það bæði í gagnsemi þeirra upplýsinga, sem vinna má úr grunninum samfélaginu til hagsbóta, og þeim fjárhagslegu umsvifum, sem stofnsetningu hans og starfrækslu fylgir. Varðveiðsla efnahagslegra hagsmuna og gæða er Íslendingum mikilvæg jafnt sem öðrum þjóðum. Þjóðin þarf að nýta auðlindir sínar, og það eru til fleiri auðlindir en fiskur í sjó, orka fallvatna og málmar í jörðu, t.d. skráðar heilsufarsupplýsingar, sem hugvitsamlega eru nýttar í þjóðhagslegum tilgangi. Hins vegar eru þessar auðlindir misjafnar í eðli sínu og ólíkar innbyrðis, og við lagasetningu um þær verður því að taka tillit til sérstaks eðlis hverrar fyrir sig. Því er engan veginn sjálfgefið, að það fyrirkomulag, sem hentar við veitingu námu-, veiði- eða virkjanaleyfa, svo einhver dæmi séu nefnd, verði alfarið lagt til grundvallar, þegar veitt er leyfi til að hagnýta þá auðlind, sem skráðar upplýsingar í heilbrigðiskerfinu greinilega geta verið.

Stærsta málið sem snertir skráningu persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs

Frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði er án efa viðamesta málið, sem komið hefur til kasta Alþingis síðustu áratugi og snertir skráningu og meðferð persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs. Fyrir þessari skoðun minni eru tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú, að málið varðar ekki aðeins skráningu og varðveislu heilsufarsupplýsinga um eina tiltekna ætt í landinu, einn tiltekin sjúklingahóp, einn tiltekinn árgang þjóðarinnar eða eina tiltekna starfsstétt, eins og hingað til hefur yfirleitt verið, þegar skráðar hafa verið heilsufarsupplýsingar í vísindaskyni hér á landi, heldur snýst málið um miðlæga skráningu og varðveislu upplýsinga um alla íslensku þjóðina a.m.k. þrjá áratugi aftur í tímann. Seinni ástæðan er sú, að þau atriði, sem stendur til að skrá, samkeyra og varðveita í slíkum upplýsingabanka, eru upplýsingar, sem flestum mönnum eru viðkvæmari en aðrar upplýsingar, sem þá varða. Málið snýst um skráningu upplýsinga um sjúkdóma og orsakir þeirra, sjúkdómsmeðferð og árangur hennar, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, og upplýsingar, sem lúta að ættfræði og sameindaerfðafræði. Þá girðir frumvarpið ekki fyrir, að við slíkar upplýsingar séu tengdar aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. upplýsingar um félagsleg vandamál manna, skólagöngu þeirra, starfsferil, brotaferil o.s.frv. Þegar horft er á þessar staðreyndir, er eðlilegt að sú krafa komi fram, að farið sé varlega við undirbúning máls, sem hefur slíka skráningu að markmiði, svo tryggt sé að málið fái sem vandaðastan undirbúning og ná megi sátt um það. Þar hlýtur hvað mestu máli að skipta, að þannig sé staðið að málum, að stjórnarskrárvarinn réttur manna til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt sé ekki fyrir borð borinn.

Eru miðlægir gagnagrunnar varhugaverðir?

Stórir, miðlægir gagnagrunnar, sem hafa að geyma umfangsmiklar og viðkvæmar persónuupplýsingar um heilar þjóðir eða þjóðarbrot, eru af mörgum taldir varhugaverðir vegna þeirrar hættu, sem getur verið samfara stofnun þeirra og starfrækslu. Er því ákveðin tilhneiging í löggjöf til þess að sporna við myndun þeirra og byggja á því sem grundvallarreglu, að viðkvæmar persónuupplýsingar beri fyrst og fremst að varðveita, þar sem þær verða til. Það er þó aldrei hægt að komast alveg hjá því, að slíkir gagnagrunnar verði til, t.d. verður að halda miðlæga sakaskrá, svo einhver dæmi séu nefnd. Hún hefur þó afmarkað umfang og varðar eingöngu upplýsingar um brotaferil manna.
Miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði er annars eðlis. Hann tengir saman upplýsingar, sem til verða annars staðar og í ákveðnum tilgangi, sem yfirleitt tengist þjónustu við þá einstaklinga, sem upplýsingarnar varða, og myndar úr þeim einn allsherjar gagnagrunn. Hann gerir það kleift að ná fram ákveðinni heildarmynd af þeim einstaklingnum, sem skráningin nær til, heildarmynd sem viðkomandi gat alls ekki átt von á að hægt væri að ná fram, þegar hann gaf upplýsingarnar á viðkomandi stöðum. Það er og hefur lengi verið meginmarkmið vestrænnar löggjafar um persónuvernd að sporna við því, að hægt sé að ná fram slíkri heildarmynd af þegnum þjóðfélagsins, og er það gert með því að banna í lögum samtengingu viðkvæmra persónuupplýsinga, nema í algjörum undantekningartilvikum og að undangengnu umfangsmiklu hagsmunamati, þar sem aðaláherslan liggur á því að tryggja, að einstaklingshagsmunir séu ekki fyrir borð bornir. Ekki endilega vegna þess að þær upplýsingar sem fram koma, séu þeim manni til hnjóðs, sem þær varða, heldur miklu fremur vegna þess viðhorfs, að þær upplýsingar eigi ekki að vera öðrum aðgengilegar, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Hvernig getur miðlægur gagnagrunnur með persónuupplýsingum orðið til?

Upplýsingabanki á heilbrigðissviði eins og sá, sem gagnagrunnsfrumvarpið gerir ráð fyrir, getur samkvæmt íslenskum lögum orðið til með tvennum hætti:
Hann getur annars vegar orðið til með þeim hætti, að sótt er um leyfi til Tölvunefndar um heimild til að stofna og starfrækja slíkan banka. Ef nefndin veitir slíkt leyfi, felst í því heimild til að nýskrá upplýsingar, samtengja slíkar upplýsingar við aðrar upplýsingar, sem fyrir eru, og leyfið myndi hafa að geyma fyrirmæli um notkun upplýsinganna, þ.m.t. hvort og þá með hvaða hætti veita megi öðrum aðgang að upplýsingum í gagnagrunninum. Slíkt leyfi getur Tölvunefnd veitt, ef hún telur skilyrðum laga fullnægt, og byggir afstaða nefndarinnar þá á mati á hagsmunum, sbr. ákvæði 4.-6. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Verður þá að vera fullnægt því skilyrði laganna, að skráningaraðila sé brýn nauðsyn vegna starfsemi sinnar að skrá upplýsingarnar, að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga krefjist aðgangs að áður skráðum upplýsingum, og að því er samtengingu slíkra upplýsinga varðar þarf að vera ótvírætt að þeir hagsmunir sem ætlað er að vernda með samtengingunni vegi þyngra en tillitið til hagsmuna hinna skráðu. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að vald Tölvunefndar nær ekki til þess að þvinga aðila, sem áður hafa safnað slíkum heilsufarsupplýsingum, t.d. Hjartavernd og Krabbameinsfélagið, svo einhver dæmi séu nefnd, til þess að láta upplýsingar sínar af hendi til notkunar í miðlægum gagnagrunni. Nefndin getur hins vegar látið það álit sitt í ljós, að slíkt sé í lagi eða slíkt sé ekki í lagi út frá sjónarmiðum um persónuvernd.

Hins vegar er unnt að koma slíkum gagnagrunni eða upplýsingabanka á laggirnar með sérstakri lagasetningu. Er þá átt við sérstök lög, sem heimila, að til slíkrar skráningar sé stofnað, og mæla lögin þá jafnframt fyrir um þá skilmála, sem skráningaraðilinn skal hlíta í starfsemi sinni og skuldbindingar, sem hann skal gangast undir.

Þarf sérstaka lagasetningu um stofnun gagnagrunnsins?

Við umræður um gagnagrunnsfrumvarpið var því gjarnan haldið fram, að lagasetning sú, sem frumvarpið gerði ráð fyrir, væri óþörf, því gildandi lög dygðu til að afgreiða málið. Var þar fyrst og fremst verið að skírskota til laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, laga um réttindi sjúklinga og laga um lögbundið eftirlitshlutverk landlæknis. Segja má, að þessi fullyrðing sé bæði rétt og röng.
Fullyrðingin er rétt að því leytinu til, að til staðar eru lagareglur, sem unnt er að beita, ef sótt er til stjórnvalda um leyfi til að stofna og starfrækja slíkan upplýsingabanka. Stjórnvald eins og Tölvunefnd þarf þá að byggja afstöðu sína á því hagsmunamati, sem lög gera ráð fyrir og áður hefur verið lýst. Í slíku hagsmunamati þarf nefndin óhjákvæmilega að vega það og meta, hvort hún sé í stakk búinn til þess að hafa það eftirlit með starfsemi skráningaraðilans, sem henni er lögum samkvæmt ætlað að hafa og þarf að vera til staðar, þegar í slíkt verkefni er ráðist.

Framangreind fullyrðing um það, að gildandi lög nægi, er röng eða a.m.k. hæpin að því leytinu til, að miðað við óbreytta starfsaðstöðu Tölvunefndar, þ.e.a.s. óbreyttan starfsmannafjölda og óbreyttar fjárveitingar, er hæpið, að nefndin geti veitt heimildir eins og þær, sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Stafar það af því, að nefndinni er, eins og aðstæðum hennar nú háttar, í raun ómögulegt að taka að sér svo risavaxið verkefni til viðbótar öðrum verkefnum, sem á hennar herðum hvíla, og tryggja þar persónuverndina með þeim hætti, sem stjórnarskrárvarinn réttur hins almenna borgara krefst.

Aðbúnaður Tölvunefndar

Eins og yfirlit yfir fjölda innkominna erinda og afgreiðslna Tölvunefndar í ársskýrslu þessari ber með sér, hefur málafjöldi fyrir nefndinni farið vaxandi ár frá ári án þess að fjölgað hafi verið starfsfólki og fjárveitingar auknar svo nokkru nemi. Skal í því sambandi bent á, að nefndin hefur frá árinu 1991 aðeins haft einum starfsmanni á að skipa, fyrst ritara og síðan framkvæmdastjóra, sem gegnt hefur því starfi í hlutastarfi og gerir enn, en á sama tíma hefur fjöldi innkominna erinda vaxið úr 141 árið 1991 í 439 árið 1997. Er málum nú svo komið, að nefndin á engan kost annan en þann að taka við innkomnum erindum og afgreiða þau með þeim skilyrðum og skilmálum, sem hún metur nauðsynleg hverju sinni, innan þeirra tímamarka sem málshraðareglur stjórnsýslunnar setja henni, en eftirlit verður hún að mestu að láta sitja á hakanum, þótt frá því séu að sjálfsögðu undantekningar. Felst í þessu, að nefndin verður að meira eða minna leyti að treysta á heiðarleika þeirra, sem undir eftirlitsvald hennar falla, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að við slíkar aðstæður býr almenningur í landinu við skert réttaröryggi á þessu sviði. Meðan svo hagar til má alltaf búast við því að mistök verði, og er þá ekki óeðlilegt að sú spurning vakni, á hvers ábyrgð þau eru?
Ég hefi gegnt formennsku í Tölvunefnd frá árinu 1986 eða í tólf ár, og það er mat mitt, byggt á reynslu þessara tólf ára, að til þess að sinna núverandi verkefnum sínum sem skyldi og með þeim hætti, sem almenningur í landinu á heimtingu á, þurfi að lágmarki að fjölga um tvo í starfsliði nefndarinnar, þ.e.a.s. að til viðbótar löglærðum framkvæmdastjóra komi þar til starfa einn lögfræðingur og einn tæknimenntaður starfskraftur. Miðað við þessar forsendur er auðvelt að sjá, hve fráleitt er að ætla, að Tölvunefnd sé í stakk búinn til þess að veita heimild til stofnunar gagnagrunns á heilbrigðissviði með þeim hætti, sem gagnagrunnsfrumvarpið gerir ráð fyrir, og hafa eftirlit með starfrækslu hans. Er þá engan veginn verið að kasta rýrð á störf núverandi starfsmanns og forvera hans, sem rækt hafa starfa sinn af mikilli kostgæfni við afar erfiðar aðstæður.

Að því er fjárveitingar til Tölvunefndar varðar er fróðlegt að líta á upplýsingar um útgjöld annarra stofnana á árinu 1997, en þá hafði Tölvunefnd hafði til ráðstöfunar kr. 4.100.000. Á sama tíma voru útgjöld barnaverndaráðs kr. 10.581.000, umboðsmanns barna kr. 14.269.000, rannsóknarnefndar flugslysa kr. 16.429.000 og jafnréttisráðs kr. 27.931.000. Með þessu er ég ekki að halda því fram, að þær stofnanir, sem hér voru nefndar, séu of vel haldnar í fjárveitingum eða að þær sinni ómerkari málaflokkum en Tölvunefnd. Hitt er hins vegar ljóst, að tölurnar sýna, að Tölvunefnd hefur dregist mjög aftur úr í fjárveitingum, og eru þær ekki í nokkru samræmi við eðli málaflokksins og þess umfangs, sem hann kallar á.

Þegar litið er til þeirra atriða, sem hér voru nefnd, er það mat mitt, að sé vilji íslenskra stjórnvalda að stofna til miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði sé eðlilegra að gera það með sérstakri lagasetningu. Verkefnið er það stórt í sniðum og umfangsmikið og tengist svo viðkvæmum þætti mannlegra samskipta, að það er eðlilegra, að löggjafinn sjálfur taki beina afstöðu til þess, fremur en að láta stjórnvöldum eins og Tölvunefnd það alfarið eftir að meta hvort slíkan upplýsingabanka eigi að stofna. Hins vegar er það svo, að löggjafinn hefur engan veginn frjálsar hendur um það, hvernig hann hagar lagasetningu um þessi málefni. Hann er í fyrsta lagi bundinn af ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar, þ.m.t. jafnræðisreglunni, reglunni um friðhelgi einkalífs og reglunni um friðhelgi eignarréttarins. Löggjafinn er í öðru lagi bundinn af alþjóðlegum skuldbindingum, sem Íslendingar hafa undirgengist á þessu réttarsviði á undanförnum árum, og í þriðja lagi ber honum að sjá til þess að innbyrðis samræmi sé í löggjöf á þessu réttarsviði.

Er unnt að tryggja persónuvernd í stórum, miðlægum upplýsingabönkum?

Í almennum athugasemdum með gagnagrunnsfrumvarpinu kemur fram, að af ýmsum ástæðum sé auðveldara að setja saman vandaðan gagnagrunn hér á landi en meðal misleitra þjóða, þar sem meiri hreyfing sé á fólki og heilsufars- og ættfræðiupplýsingar takmarkaðri. Þetta er án efa rétt, ekki hvað síst vegna þess, hve þjóðin er einsleit og fámenn, en í því hlýtur hins vegar að liggja bæði veikleiki hennar og styrkur. Styrkurinn felst í því, að íslenska þjóðin er af þessum ástæðum betra rannsóknarandlag eða rannsóknarviðfangsefni en gerist meðal annarra þjóða, en veikleikinn felst hins vegar í því, að við þessar aðstæður er til muna erfiðara að tryggja persónuverndina.
Að því er veikleikann varðar er gjarnan sagt, að hægt sé að tryggja persónuverndina með dulkóðun upplýsinga, þ.e. með því að aftengja þær persónuauðkennum. Staðreynd málsins er að minni hyggju sú, að með góðu dulkóðunarkerfi er hægt að tryggja töluvert öryggi, en kerfið getur aldrei orðið fullkomið, og eru ástæður þess ýmsar:

Í fyrsta lagi hefur reynslan sýnt, að ekkert dulkóðunarkerfi er svo fullkomið, að það megi ekki brjóta upp, ef til þess er vilji, fjármunir og tími. Bendi ég í því sambandi á frétt á forsíðu Morgunblaðins 15. apríl 1998, þar sem fram kemur, að hópi tölvusérfræðinga við Berkeley háskólann í Kaliforníu í Bandaríkjunum hafi tekist að rjúfa dulmálslykil þann, sem notaður er til að koma í veg fyrir, að hægt sé að stela upplýsingum úr GSM símkerfinu, en lykillinn hefur til þessa þótt örugg vörn gegn tilraunum til að "klóna" GSM símkort. Er í fréttinni haft eftir vísindamönnunum, að þrautin hafi verið auðveldari en þeir bjuggust við. Bendi ég í þessu sambandi á mönnum til umhugsunar, að í 1. gr. gagnagrunnsfrumvarpsins, er gagnagrunnur á heilbrigðissviði skilgreindur sem safn sjálfstæðra verka, gagna eða annars efnis, sem hefur að geyma heilsufarsupplýsingar, sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og hægt er að komast í eftir rafrænum aðferðum eða öðrum hætti (leturbrt. Þ.Ö.).

Í öðru lagi verður að hafa í huga, að ekkert kerfi er fullkomnara en þeir einstaklingar, sem við það starfa. Því verðmætari sem slíkur gagnagrunnur eða upplýsingabanki er, þeim mun meiri er ásóknin í hann eftir löglegum og ólöglegum leiðum, og því veikara sem eftirlitið með kerfinu og starfsfólki þess er, þeim mun meiri er hættan á því, að upplýsingar verði misnotaðar.

Í þriðja lagi er það staðreynd, að í svo fámennu samfélagi sem hinu íslenska, þar sem allir þekkja alla eins og stundum er að orði komist, er hver einstaklingar gegnsærri en í stærri samfélögum. Lífsmynstur sumra einstaklinga er með þeim hætti, að þrátt fyrir dulkóðun upplýsinga getur verið næsta auðvelt að sjá, hver í hlut á, og þegar einn einstaklingur í ættartré hefur verið persónugreindur, er fundinn lykillinn að því að persónugreina aðra einstaklinga í sama tré. Sem dæmi má nefna, að tilteknar, afmarkaðar og dulkóðaðar upplýsingar í gagnagrunni eða upplýsingabanka á heilsufarssviði tilheyri ellefu barna föður í litlu sjávarþorpi úti á landi. Hann er vélstjóri að mennt og starfar sem verkstjóri í síldarverksmiðju, hann er kvæntur leikskólastjóranum á staðnum, eitt barna þeirra er vangefið og annað er holgóma, eiginkonan er með liðagigt, sem hrjáði föður hennar og kemur einnig fram í tveimur barna þeirra hjóna. Þótt nákvæmlega þetta dæmi sé ekki til, þá eru án efa til áþekk dæmi, þar sem útilokað er að tryggja leynd þrátt fyrir dulkóðun upplýsinganna. Skyldu menn þá ekki gleyma því, að verði gagnagrunnsfrumvarpið að lögum, er ráðgert að nokkur hundruð manns fái þann starfa að lesa sjúkraskýrslur landsmanna, draga út úr þeim ákveðnar upplýsingar og koma þeim inn í upplýsingabankann.

Afhverju allt þetta tal um nafnleynd og persónuvernd?

En afhverju allt þetta tal um nafnleynd og nauðsyn þess að tryggja persónuvernd í gagnagrunni á heilbrigðisviði? Eins og áður er fram komið felst svarið m.a. í því, að upplýsingar í slíkum gagnagrunni snerta mjög viðkvæm einkalífsatriði. Sjúkdómar þeir, sem mannfólkið hrjá, eru misjafnir. Sem betur fer er meiri hluti þjóðarinnar hraustur, og þeir kvillar sem angra menn, eru yfirleitt saklausir eins og kvefpestir og magakveisur, og sjálfsagt eru flestir lítið viðkvæmir gagnvart slíkum heilsufarsupplýsingum. En hinu má svo ekki gleyma, að ákveðinn hluta þjóðarinnar hrjá sjúkdómar, arfgengir eða áunnir, sem eru afar viðkvæmir og menn kæra sig ekki um að aðrir hafi aðgang að. Má í því sambandi nefna sjúkdóma eins og geð- og kynsjúkdóma, svo einhver dæmi séu nefnd.

Ekki skal dregið í efa, að það geti verið þjóðhagslega hagkvæmt að stofna og starfrækja gagnagrunn á heilbrigðissviði, og ef þannig er litið á málin, kann frumvarp heilbrigðisráðherra þar að lútandi að vera hið merkasta. Hitt er eigi að síður ljóst, að frumvarp það, sem lagt var fyrir Alþingi á síðasta löggjafarþingi var að mörgu leyti gallað, og er þá einvörðungu í þessum hugleiðingum horft á málið út frá persónuverndarsjónarmiðum.

Helstu gallar gagngagrunnsfrumvarpsins út frá persónuerndarsjónarmiðum

Stærsti galli frumvarpsins að því er persónuverndina varðar felst að mínu áliti í því ákvæði 11. gr., að heilbrigðisráðherra skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna, en geti þó falið Tölvunefnd eða Vísindasiðanefnd að annast eftirlit með framkvæmd þeirra eða einstakra þátta þeirra. Það samræmist ekki fjölþjóðlegri réttarþróun um óháða eftirlitsaðila á þessu réttarsviði, að pólitískur ráðherra fari með slíkt eftirlit og stýri jafnframt aðgangi að heilsufarsupplýsingum, svo viðkvæmar sem þær eru í eðli sínu. Þá felst lítil vörn í því fyrir almenning í landinu, að ráðherra geti falið Tölvunefnd og Vísindasiðanefnd að framkvæma eftirlitið, því hann þarf ekki að gera það, og hann getur væntanlega hvenær sem er tekið verkefnið frá nefndunum, ef honum sýnist svo.

Það er því ekki undarlegt þótt sú spurning vakni, hverjar ástæður búi því að baki, að ætlunin sé, að stærsta einstaka viðfangsefnið á persónuverndarsviðinu, sem nokkurn tímann hefur komið til umræðu í íslensku samfélagi, eigi með þessum hætti að taka undan eftirlitsvaldi þess óháða aðila, sem Alþingi sjálft hefur með lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga sett á laggirnar til þess að tryggja réttindi borgaranna varðandi meðferð skráðra persónuupplýsinga. Er ekki meiri ástæða til þess að lögbinda það með skýrum og ótvíræðum hætti, að Tölvunefnd skuli hafa eftirlitið með framkvæmd laganna, ef í verkefnið er ráðist og gera janframt og samhliða ráðstafanir til þess að tryggja henni fjármuni og aðstöðu til að sinna því verkefni? Ef frumvarpið nær fram að ganga í upphaflegri gerð sinni, verður komið á laggirnar tvenns konar eftirlitskerfi um vernd skráðra persónuupplýsinga. Stærsta og viðkvæmasta verkefnið, þar sem mest er hættan á mistökum, og þar sem skaðinn getur orðið mestur, ef mistök verða, er settur undir pólitískt eftirlitsvald, en það sem afgangs er verður hjá hlutlausum og óháðum eftirlitsaðila. Í þessu felst mikil þversögn og lítið innbyrðis samræmi við lagasetningu.

Annar galli við frumvarpið er sá, að þar er hvergi minnst á rétt einstaklinganna til íhlutunar um það, hvort upplýsingar um þá fari eða fari ekki inn í slíkan upplýsingabanka. Þá veitir frumvarpið heldur enga vísbendingu um það, hversu víðtæk skráning um hvern einstakling má vera. Það er að vísu svo, að frumvarpið í upphaflegri mynd sinni ætlar Tölvunefnd ákveðið hlutverk við framkvæmd laganna, t.d. er ekki hægt að veita starfsleyfi nema fyrir liggi tækni-, öryggis- og skipulagslýsing, sem að mati Tölvunefndar tryggir fullnægjandi öryggi. Valdheimildir Tölvunefndar eru hins vegar mjög óljóst markaðar að öðru leyti, t.d. er ekki ljóst hvort nefndin hefur heimild til aðgangs að húsnæði skráningaraðila án undangengins dómsúrskurðar, og hvað hún getur gert, ef hún telur skilmála sína brotna.

Lokaorð

Íslendingar byggja á stjórnskipan, sem virðir grundvallarmannréttindi eins og jafnræði, friðhelgi einkalífs og friðhelgi eignarréttarins. Stjórnarfar okkar er stöðugt og líkur til þess, að hér á landi setjist að völdum stjórn, sem ekki hefur í heiðri grundvallarmannréttindi, eru ekki miklar. Við skulum samt ekki gleyma því, að allt í kringum okkur gerist það af og til, að þjóðir, sem bjuggu við lýðræðisskipulag, glati því í hendur valdamanna, sem ekki virða slík réttindi þegnanna. Og það má heldur ekki gleyma því, að einhver svívirðilegustu mannréttindabrot mannskynssögunnar voru framin á þessari öld og beindust að ákveðnum hópi einstaklinga vegna kynþáttar hans. Fimmtíu ár í sögu mannkyns er ekki langur tími, og stjórnskipulag þjóða hefur breyst á skemmri tíma. Höfum við tryggingu fyrir því að slíkt geti ekki gerst á norðurhveli jarðar og teygt anga sína hingað til lands, og hvernig er þá hægt að nota eða öllu heldur misnota svo rækilega skráðar upplýsingar eins og þær, sem til munu verða í fyrirhuguðum gagnagrunni á heilbrigðissviði?

Í leiðara Morgunblaðsins 12. september 1997 var að því vikið, að tækniþróun og tölvuskráning persónuupplýsinga hafi þrengt að friðhelgi einkalífs, þ.e. möguleikum manna til þess að lifa lífi sínu óséðir, án þess að einkahagsmunir séu bornir á torg. Tæknin geri það mögulegt að fylgjast með fólki og skrásetja hagi þess og hegðan. Eignir, tekjur, fjölskylduhagir og skólaganga sé skrásett. Sama máli gegni um viðkvæmar persónuupplýsingar eins og þær, sem sé að finna í sjúkraskrám og verið sé að koma í tölvutækt form. Apótek skrái lyfjanotkun, fyrirtæki skrái sum hver frammistöðu starfsmanna og myndavélar á vinnustöðum og á almannafæri skrái hver var hvar á hvaða tíma. Þá séu öllu símtöl í landinu skráð, og hægt sé að lesa neyslu- og eyðsluvenjur fólks í greiðslukortakerfum. Í framhaldi af þessu segir Morgunblaðið orðrétt í leiðara sínum:

"Af þessu tilefni vakna ýmsar áleitnar spurningar. Hvernig geta óprúttnir tölvuþrjótar nýtt sér upplýsingar um tölvuskráða einkahagi? Fara vinnuveitendur og tryggingafélög senn að krefjast genakorta? Ef stjórnarfar breytist, hvers konar stjórntæki hefur þá tæknin búið í hendur valdsherrunum? Stefnir til þeirrar áttar að fólk fái nánast ekki að vera í friði með sitt einkalíf? Skráning persónulegra upplýsinga hefur farið vaxandi hér sem í umheiminum … en umræðan um þessi mál er á hinn bóginn skemmra á veg komin hér en víða erlendis. Ástæða er til að hvetja alla þá til varúðar, sem um þessi mál sýsla og stefnuna marka til framtíðar. Við verðum að standa vörð um friðhelgi einkalífs á tækni- og tölvuöld."

Hin tilvitnuðu orð í leiðara Morgunblaðsins vil ég gera að mínum og hvet jafnframt stjórnvöld og Alþingi til að hugleiða þau og hafa að leiðarljósi, þegar frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði kemur að nýju til þeirra kasta við endurskoðun frumvarpsins í sumar og meðferð þess á Alþingi í kjölfarið.

Í maí, 1998
Þorgeir Örlygsson, formaður


2. Almennt um skipun og starf Tölvunefndar.

2.1. Um skipun nefndarinnar.

Skýrsla þessi, sem er birt samkvæmt 36. gr. laga nr. 121/1989, er fjórða skýrsla þeirrar nefndar sem tók til starfa í ársbyrjun 1994. Er það
önnur nefnd sem skipuð er samkvæmt lögum nr. 121/ 1989. Í nefndinni eiga sæti: Þorgeir Örlygsson, prófessor, formaður, Jón Ólafsson
hrl., varaformaður, Valtýr Sigurðsson, héraðsdómari, Haukur Oddsson, forstöðumaður tilnefndur af Skýrslutæknifélagi Íslands og
Haraldur Briem, yfirlæknir. Varamenn eru: Jón Thors, skrifstofustjóri, Erla S. Árnadóttir hrl., Benedikt Bogason, skrifstofustjóri, Guðbjörg
Sigurðardóttir tölvunarfræðingur og Sigurður Guðmundsson, læknir. Framkvæmdastjóri nefndarinnar er Sigrún Jóhannesdóttir,
deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

2.2. Um málafjölda og viðfangsefni nefndarinnar.

Á árinu 1997 bárust nefndinni alls 439 erindi og umsóknir. Óafgreidd erindi sem nefndin tók við frá fyrra ári voru 29 talsins þannig að til
afgreiðslu voru 468 erindi. Afgreidd voru 416 erindi en 52 biðu til næsta árs. Nefndin hélt 21 fund á árinu.

Að vanda leitaði nefndin umsagna ýmissa aðila um þau erindi sem henni bárust, alls um 10 erindi hjá 8 aðilum. Leitað umsagnar
félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar (um 2 erindi), fjármálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, landlæknis (um 5
erindi), Miðgarðs hverfismiðstöðvar, Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála, ríkisskattstjóra og vísindasiðanefndar.

Kostnaður af starfi nefndarinnar var kr. 4.461.106. Þar af var launakostnaður kr. 2.999.582. Fjárveiting samkvæmt fjárlögum var kr.
4.100.000.

Eftirfarandi tafla sýnir fjölda erinda og afgreiðslna frá því að starfsemi nefndarinnar hófst með lögum nr. 61/1981:

Ár Fjöldi erinda Fjöldi afgreiðslna

1982 59 32

1983 48 68

1984 68 64

1985 95 104

1986 186 171

1987 119 118

1988 89 86

1989 107 118

1990 156 139

1991 141 143

1992 157 158

1993 203 203

1994 264 268

1995 299 280

1996 331 341

1997 439 416

3. Yfirlit yfir afgreidd erindi á árinu 1997.

Hér á eftir fer yfirlit yfir þau mál sem Tölvunefnd afgreiddi á starfsárinu:

3.1. Vísindarannsóknir og kannanir ýmis konar.

3.1.1. Helstu skilmálar fyrir gerð slíkra rannsókna og kannanna.

Hér að neðan eru taldir upp ýmsir skilmálar sem algengt er að nefndin setji í leyfi fyrir framkvæmd slíkra verkefna sem talin eru í kafla nr.
3.1.2.
1. Að fullkominnar nafnleyndar allra þátttakenda í rannsókninni /könnuninni verði gætt.
2. Að persónuauðkenni þátttakenda í rannsókninni verði hvergi skráð.
3. Að þátttakendur í rannsókn samþykki skriflega þátttöku í henni, samþykki skráningu upplýsinganna og e.t.v. geymslu
þeirra.
4. Að þátttakendum verði bent á að þeim sé hvorki skylt að svara einstökum spurningum né spurningalista í heild og það
skuli koma greinilega fram á spurningalista eða í bréfi til þátttakenda.
5. Að þátttakendum verði bent á að þeir geti hætt þátttöku á hvaða stigi rannsóknar sem er.
6. Að óheimilt sé að veita óviðkomandi aðgang að skráðum upplýsingum.
7. Að óheimilt sé að nota upplýsingar sem skráðar verða til annars en þess sem er tilgangur
rannsóknarinnar/könnunarinnar.
8. a) Að öll frumgögn rannsóknarinnar verði eyðilögð að lokinni úrvinnslu og Tölvunefnd tilkynnt um
eyðingu gagnana,
eða
b) Að öllum persónuauðkennum verði eytt um leið og ekki er lengur þörf fyrir þau (að gagnasöfnun lokinni),
eða
c) Að frumgögn rannsóknarinnar megi varðveita í læstri hirslu á ábyrgð umsækjanda í tiltekið tímabil en öll
frekari vinnsla upplýsinganna sé háð leyfi Tölvunefndar.
9. Að óheimilt sé að flytja gögn rannsóknar úr landi.
10. Að óheimilt sé að samkeyra upplýsingar þær sem skráðar verða við aðrar skrár.
11. Að einungis megi birta rannsóknarniðurstöður á þann hátt að ekki megi rekja þær til ákveðinna einstaklinga.
12. Að allir þeir sem að rannsókn vinni undirriti þagnarheit.
13. Að Tölvunefnd geti sett frekari skilyrði ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila krefjist þess.

3.1.2. Yfirlit yfir þær vísindarannsóknir og kannanir sem heimilaðar voru. Um er að ræða heimildir samkvæmt 3. mgr. 4. gr. til að skrá persónuupplysingar, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. til aðgangs að skráðum upplysingum, samkvæmt 3. mgr. 6. gr. til samtengingar skráa og samkvæmt 27. gr. til flutnings gagna úr landi.

Aðalheiður Sigursveinsdóttir, nemi (97/222) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna athugunar á biðlistum sjúkrastofnana.
Þátt tóku allir einstaklingar á biðlistum bæklunardeilda Sjúkrahúss Reykjavíkur, Landspítalans og Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar.
Starfsfólk sjúkrastofnana hafði milligöngu um útsendingu spurningalista, sem voru númeraðir en án persónuauðkenna. Var settur
áskilnaður um eyðingu greiningarlykils að úrvinnslu lokinni.

Aðalheiður Matthíasdóttir, Sveinbjörg Ólafsdóttir, Hildur E. Pétursdóttir og Þuríður Guðnadóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/019)
fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á líðan kvenna í vikunni fyrir blæðingar og skýringum þeirra á
fyrirtíðarspennu. Þátttakendur voru 40-50 konur á aldrinum 18-40 ára. Gagna var aflað með viðtölum sem voru hljóðrituð. Skyldi upptökum
eytt að úrvinnslu lokinni og eftir það engin persónuauðkenni vera skráð.

Almar Grímsson, Anna B. Almarsdóttir og Ingunn Björnsdóttir (97/167) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar
á áhrifum laga um lyfjadreifingu á heilbrigði, starfsumhverfi í lyfjaþjónustu, kostnað þjónustunnar og lífsskilyrði þjónustuþega.
Þátttakendur voru viðskiptavinir apóteka og var upplýsinga aflað með hópviðtölum. Viðtölin voru hljóðrituð en upptökum eytt að
úrvinnslu lokinni og einungis geymd ópersónugreind gögn.

Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir, Lára Hjaltested og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/119) fengu heimild til að
skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á ofvexti sveppsins Candida albicans sem áhrifaþáttar í lífsstílsbreytingum kvenna.
Þátttakendur voru konur eldri en 20 ára. Var upplýsinga aflað með opnum viðtölum, viðtölin hljóðrituð en upptökum eytt að úrvinnslu
lokinni. Einungis geymd ópersónugreind gögn.

Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri (97/303) fékk, fyrir hönd rannsóknarhóps, heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á heilsufari og hjúkrunarþörf aldraðra einstaklinga. Um var að ræða samvinnuverkefni heilsugæslustöðva í Reykjavík og
á Seltjarnarnesi, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur.
Skráðar voru upplýsingar um heilsufar og hjúkrunarþörf íbúa 65 ára og eldri sem nutu heimahjúkrunar á svæðum tiltekinna
heilsugæslustöðva (Fossv., Hlíðarhverfi, Miðbæjarst. við Vesturgötu, Seltj.nesi). Var sama skráð um einstaklinga sem nutu dagþjónustu
frá dagspítala Öldrunarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þannig fékkst samanburður á dagþjónustusjúklingum annars vegar og þeim sem
nutu heimahjúkrunar hins vegar. Var tilsjónarmanni Tölvunefndar falin gerð og umsjón með notkun rannsóknarnúmera, sem áttu að
tryggja að ekki yrði hægt að rekja upplýsingar til einstakra manna.

Anna Þóra Óskarsdóttir, Guðrún Einarsdóttir og Katrín Edda Snjólaugsdóttir, nemar (97/199) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á þörfum aðstandenda sem misst höfðu ástvin eftir skammvin veikindi og því hvernig
hjúkrunarfræðingar gætu stutt þá. Tekin voru viðtöl við aðstandendur. Var algjörri nafnleynd heitið og öllum gögnum eytt að úrvinnslu
lokinni.

Anna Rut Þráinsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir, sálfræðinemar (97/140) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á ýgi barna og unglinga og tengslum hans við sjálfsvirðingu þeirra. Ýgurinn var metinn með notkun þriggja spurningalista, sem
voru tölusettir en þannig um hnútana búið að ókleift var að tengja saman nöfn og númer.

Annadís Greta Rúdólfsdóttir, doktor (96/295) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á sjálfsmynd ungra mæðra.
Þátttakendur voru 15 mæður 19 ára og yngri. Upplýsinga var annars vegar aflað hjá mæðraeftirliti við heilsugæslustofnanir og hjá
mæðrunum sjálfum. Öll upplýsingasöfnun var háð samþykki hinna skráðu og það skilyrði sett að hvorki yrði með greiningarlykli né öðrum
aðferðum unnt að rekja upplýsingar til einstaklinga að gagnasöfnun lokinni.

Arna Björg Sævarsdóttir, Helga Björg Sigurðardóttir, María Albína Tryggvadóttir, Steinunn Thorarensen, Sæmundur Knútsson og
Þuríður Geirsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/101) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu foreldra
geðklofa barna af sjúkdómnum og samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk og aðra. Þátttakendur voru valdir með aðstoð fagmanna og gagna
aflað með viðtölum. Viðtölin voru hljóðrituð en upptökum eytt að úrvinnslu lokinni og tryggt að einungis yrðu varðveitt ópersónugreind
gögn.

Arnar Eggert Thoroddsen, nemi (97/375) fékk heimild vegna könnunar á dægurmenningu unglinga á aldrinum 16-20 ára. Þátttakendur
voru nemendur við Menntaskólann í Sund. Notaðir voru nafnlausir spurningalistar.

Arnfríður Ólafsdóttir, Halldóra M. Halldórsdóttir og Helga Tryggvadóttir, sálfræðinemar (97/080) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á framhaldsnámi og störfum fólks sem lauk B.A. námi í sálfræði við félagsvísindadeild Háskóla
Íslands á árunum 1980-1993. Þátttakendur voru 200 manns, annars vegar einstaklingar í sálfræðinámi og hins vegar einstaklingar sem lokið
höfðu slíku námi. Notaðir voru ópersónugreindir spurningalistar.

Árni V. Þórsson, yfirlæknir og sérfræðingur, Ernir Snorrason, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson, læknar (96/053) fengu
heimild til að vinna, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn á þætti erfða í insúlínháðri sykursýki. Heimildin var bundin
ýmsum skilyrðum sem tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem gera átti ókleift að á
rannsóknarstofunni yrði unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998 og nýir skilmálar settir um vinnuferli. Verða
þessu gerð skil í ársskýrslu 1998.

Ása Sigrún Gunnarsdóttir og Kristín Eggertsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/106) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á reynslu systkina af því að eiga bróður eða systur með geðklofasjúkdóm. Þátttakendur voru valdir með milligöngu
Geðhjálpar. Gagna var aflað með viðtölum sem voru hljóðrituð. Upptökum var eytt að úrvinnslu lokinni og tryggt að einungis yrðu
varðveitt ópersónugreind gögn.

Ásgeir Böðvarsson, Ásgeir Theodórsson, Bjarni Þjóðleifsson, Einar Oddsson, Hallgrímur Guðjónsson, Kjartan B. Örvar, Nick
Cariglia, Ólafur Gunnlaugsson, Sigurbjörn Birgisson, Sigurður Björnsson, Sigurður Ólafsson, Sjöfn Kristjánsdóttir, Úlfur
Agnarsson, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson (96/297) fengu heimild til að vinna, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hf.,
rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að þarmabólgusjúkdómum. Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem tryggja áttu
nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem gera átti kleift að á rannsóknarstofunni yrði unnt að rekja
gögn til einstakra manna. Þessari heimild var síðar breytt og nýir skilmálar settir um vinnuferli. Verða þessu gerð skil í ársskýrslu 1998.

Áslaug Traustadóttir og Jónína Elva Guðmundsdóttir, sálfræðinemar (97/214) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
rannsóknar á daglegri líðan og aðstæðum mæðra sem voru einstæðar, í sambúð eða í hjúskap. Þátttakendur voru 240 konur. Notaðir voru
spurningalistar þar sem m.a. var spurt um húsnæði, barnafjölda, aldur, fjölskyldugerð o.s.frv. Öllum gögnum eytt að úrvinnslu lokinni.

Ásta Júlía Björnsdóttir, Elín Arndís Margrétardóttir, Katrín Sigurðardóttir og Marta Kristjana Pétursdóttir, hjúkrunarfræðinemar
(97/155) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á félagslegum stuðningi við langveika geðklofa einstaklinga sem
koma á göngudeild. Þátttakendur voru um það bil 60 manns, valdir með aðstoð starfsmanna geðdeildar Landspítala. Notaðir voru
spurningalistar en áskilnaður gerður um eyðingu greiningarlykils þegar að úrvinnslu lokinni.

Berglind Karlsdóttir (97/172), starfsmaður landlæknisembættisins, fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á
kostnaði samfélagsins vegna sjóslysa. Upplýsinga var m.a. safnað úr læknabréfum sjúkrastofnana. Áskilið að öllum gögnum yrði eytt að
úrvinnslu lokinni.

Björn Guðbjörnsson, Unnsteinn Ingi Júlíusson og Friðrik Vagn Guðjónsson, læknar (97/154) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á forvarnarstarfi gegn beingisnun tengdri langtímanotkun barkstera. Þátttakendur voru sjúklingar
sem fengið höfðu barkstera úr lyfjaverslunum á Norðvestur- og Norðausturlandi á árunum 1995 og/eða 1996. Engra upplýsinga var aflað
án samþykkis viðkomandi einstaklinga. Áskilnaður gerður var um að öll frumgögn, þar á meðal samþykkisyfirlýsingar, yrðu eyðilögð að
úrvinnslu lokinni.

Bryndís Benediktsdóttir, Ólafur Guðmundsson, læknar og Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur (97/277) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á svefni barna með athyglisbrest og ofvirkni. Þátttakendur voru 50 börn með hegðunartruflanir
(valin með aðstoð Barna- og unglingageðdeildar) og 25 frísk börn. Gagna var aflað þannig að fylgst var með börnunum auk þess sem
foreldrar þeirra fylltu út spurningalista. Gögnin meðhöndluð og varðveitt samkvæmt reglum um sjúkraskrár.

Bryndís Benediktsdóttir, Júlíus K. Björnsson, læknar og Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur (97/280) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á einkennum dagsyfju meðal nema í framhaldsskólum. Þátttakendur voru 1800
framhaldsskólanemar. Var gagna aflað með númeruðum spurningalistum en áskilið að greiningarlyklum yrði eytt í lok rannsóknar.

Brynja Ingadóttir og Margrét Sigmundsdóttir, deildarstjórar (97/439) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á
líðan fólks 4 vikum eftir hjartaskurðaðgerð. Þátttakendur voru 200 manns. Notaðir voru spurningalistar. Þeir voru auðkenndir með
númerum sem afmáð voru þegar að gagnasöfnun lokinni.

Brynjólfur Mogensen, forstöðulæknir, (97/138) fékk, f.h. rannsóknarhóps og Slysavarnarráðs, heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna rannsóknar á því hverjar séu raunverulegar orsakir dauðaslysa barna á Íslandi frá 1985 til 1997. Þátttakendur voru valdir með
milligöngu Hagstofu Íslands og var gagna aflað úr sjúkragögnum slysadeildar og sjúkraskrám lyflæknisd.-, handlæknisd., heila- og
taugaskurðdeilda BSP. Var og safnað upplýsingum úr réttarkrufningargögnum og frá Veðurstofu Íslands um veðurfarslegar aðstæður.
Heimild var bundin því skilyrði að persónuauðkennum yrði eytt af öllum gögnum um leið og niðurstöður lægju fyrir.

Byggðastofnun (96/322) fékk heimild til að samkeyra launamiðaskrá og beingreiðsluskrá í þeim tilgangi að kanna uppruna tekna
sauðfjárbænda. Áskilið að við samkeyrsluna yrði beitt ýmsum ráðstöfnunum til persónuverndar (svo sem notkun gervikennitalna) svo
ekki yrði hægt að rekja niðurstöður til einstakra bænda.

Bylgja Kærnested, G. Elísa Jóhannsdóttir og Heiðlóa Ásvaldsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/127) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á reynslu geðklofa einstaklinga af þeim stuðningi sem þeim er veittur. Þátttakendur voru valdir
með aðstoð Vinar, athvarfs fyrir geðsjúka. Gagna var aflað með viðtölum en segulbandsupptökum eytt þegar að úrvinnslu lokinni svo
einungis yrðu til ópersónugreind gögn.

Dagný Hjálmarsdóttir, Helga Ágústsdóttir og Oddný S. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/003) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á reynslu aðstandenda látinna krabbameinssjúklinga af fjölskylduhjúkrun á bráðadeild.
Þátttakendur voru valdir með aðstoð hjúkrunardeildarstjóra á Landspítala. Gagna var aflað með viðtölum sem voru hljóðrituð.
Hljóðritunum var eytt að vinnslu lokinni svo einungis yrðu til ópersónugreind gögn.

Davíð Gíslason, Unnur Steina Björnsdóttir, Þórarinn Gíslason, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson, læknar og sérfræðingar
(96/252) fengu heimild til að vinna, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn til að einangra þá erfðavísa sem stuðla að ofnæmi
og astma. Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt
vinnuferli sem útiloka átti að á rannsóknarstofunni yrði unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998 og nýir
skilmálar settir um vinnuferli. Verða því gerð skil í ársskýrslu 1998.

Dóra Vigdís Vigfúsdóttir, Aðalbjörg Guðsteinsdóttir og Guðrún Katrín Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/385) fengu heimild til
að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á stuðningsþörfum krabbameinssjúklinga, m.t.t. tegundar stuðnings og uppbyggingar
stuðningshópa. Þátttakendur voru 60 manns. Gagna var aflað með spurningalistum. Þeir voru númeraðir og varðveisla þeirra heimiluð fram
í maí 1998.

Drífa Þorgrímsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/063) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á hlutverki
hjúkrunarfræðinga við að annast langveika sjúklinga. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar, valdir með aðstoð hjúkrunarstjórnar
Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Gagna var aflað með viðtölum sem voru hljóðrituð. Var hljóðritunum eytt að úrvinnslu lokinni svo
einungis yrðu til ópersónugreind gögn.

Eiríkur Örn Arnarson, doktor (97/093) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á viðbrögðum barna á aldrinum
10-15 ára við eigin reiði. Þátttakendur voru börn á þessum aldri í ýmsum skólum á höfuðborgarsvæðinu. Notaður var spurningalisti sem
m.a. mun notaður til að spá fyrir um þunglyndi síðar á lífsleiðinni. Farið var með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og útilokað gert að
rekja einstök svör.

Elías Ólafsson, læknir, Halldór Skúlason og Ívar S. Helgason, læknanemar (97/177) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna rannsóknar á tíðni CTS hjá tölvumúsanotendum. Þátttakendur voru u.þ.b. 100 grafískir hönnuðir og setjarar á Reykjavíkursvæðinu.
Notaðir voru spurningalistar en áskilið að persónuupplýsingar um einstaklinga kæmu hvergi fram.

Elín Úlfarsdóttir, Guðbjörg H. Birgisdóttir og Guðlín K. Jónsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/029) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á ýmsu sem tengist líðan foreldra eftir missi barns frá 22. viku á meðgöngu allt til 1. viku eftir
fæðingu fullburða barns. Þátttakendur voru valdir með milligöngu sjúkrahússprests og að fengnu leyfi forstöðumanna Landspítalans.
Notaðir voru spurningalistar og tryggt að ekki yrði hægt að bera kennsl á þátttakendur við úrvinnslu gagna.

Elísabet Guðmundsdóttir, Ásdís Jónsdóttir og Ragna Sara Jónsdóttir, nemar (97/355) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á jafnréttismálum. Þátttakendur voru 500 manns, valdir með slembiúrtaki úr hópi háskólanema. Um var að ræða
símakönnun. Notaðir voru spurningalistar en ókleift að rekja svör til einstakra svarenda.

Elliði Vignisson, nemi (97/414) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á áhrifum tíðrar og óreglulegrar fjarveru
föður fyrir börn á aldrinum 6-11 ára. Þátttakendur voru um það bil 180 manns í 60 fjölskyldum. Nöfn voru fengin var launþegaskrám
útgerðarfyrirtækja. Gagna var aflað með viðtölum og gátlistum. Þátttakendur gátu valið milli þess að taka þátt í rannsókninni nafnlaust eða
ekki.

Elsa Sigríður Jónsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/308) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á
menningarlegum margbreytileika í leikskólum. Könnunin beindist einkum að börnum með fötlun og nýbúabörnum. Gagna var aflað annars
vegar með opnum viðtölum og hins vegar með þátttöku athugunum. Viðtölin voru hljóðrituð og var áskilið að farið yrði með allar
upplýsingar sem trúnaðarmál og frumgögnum eytt að rannsókn lokinni.

Elvar Örn Arason og Hafsteinn Hafsteinsson, nemar (97/149) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
einstaklingsbundnum varnarviðbrögðum við álagi af völdum atvinnuleysis. Þátttakendur voru u.þ.b. 350 manns valdir af handahófi úr
skrám Vinnumiðlunar Reykjavíkur. Gagna var aflað með notkun spurningalista en áskilið að nöfn kæmu hvergi fram.

Emil L. Sigurðsson, Jón Steinar Jónsson og Guðmundur Þorgeirsson, læknar (heilsugæslustöðinni Sólvangi) (97/413). Tölvunefnd
fékk, frá manni sem óskaði nafnleyndar, kvörtun vegna könnunar þessara lækna á meðferð og eftirliti kransæðasjúklinga í Hafnarfirði,
Garðabæ og Bessastaðahreppi, en henni hafði verið hleypt af stokkunum án leyfis frá Tölvunefnd. Nefndin fjallaði um þessa kvörtun (sjá
kafla 3.11.) en veitti ennfremur heimild til könnunarinnar með áskilnaði um að einungis yrði unnið með persónuupplýsingar um þá sem
höfðu samþykkt þátttöku og ýmsum skilmálum hlítt sem tyggja áttu nafnleynd og trúnað.

Erna Jóhannesdóttir, kennslufræðinemi (97/234) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á samskiptum nemenda í
samvinnunámi og á áhrifum samvinnunáms á félagstengsl nemenda. Þátttakendur voru nemendur og kennarar fjögurra bekkja í
grunnskóla Vestmannaeyja. Gagna var aflað með spurningalistum, vettvangsathugunum og viðræðum við nemendur og kennara.
Spurningalistar voru að nokkru auðkenndir en áskilnaður settur um að áður en þeir yrðu lagðir fyrir nemendur yrði foreldrum gefinn kostur
á að neita þátttöku barna sinna í könnuninni.

Erna Valdimarsdóttir, Guðrún Árnadóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir og Selma Maríusdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/027) fengu
heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þörf fyrir hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum og líklegum viðfangsefnum
þeirra þar. Þátttakendur voru 100 framhaldsskólanemendur. Notaðir voru spurningalistar en nöfn þátttakenda komu hvergi fram.

Ester Gunnsteinsdóttir og Jóna Björg Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfunarnemar (97/373) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á tengslum milli álagseinkenna frá mjóbaki annars vegar og styrks í bak- og kviðvöðvum hins vegar. Þátttakendur komu
úr hópi sjúkraliða af Landspítalanum, lagðir voru fyrir þá spurningalistar um bakverkjasögu og bak- og kviðvöðvar voru styrktarmældir.
Áskilið að nöfn eða persónuauðkenni kæmu hvergi fram.

Eygló Traustadóttir og Rannveig Bjarnadóttir, sjúkraþjálfaranemar (97/379) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á tengslum starfsvitundar og álagseinkenna hjá gjaldkerum í bönkum. Þátttakendur voru 30-35 gjaldkerar í bankaútibúum á
höfuðborgarsvæðinu. Notaðir voru tvenns konar spurningalistar en engin persónuauðkenning átti sér stað.

Eyrún Ísfold Gísladóttir, kennsluráðgjafi (97/037) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á hlutdeild foreldra
fatlaðra grunnskólabarna í ákvörðunum um námsúrræði fyrir þau. Þátttakendur voru foreldrar 12 fatlaðra barna. Gagna var aflað með
viðtölum sem voru hljóðrituð og vélrituð skyldi. Öllum sérkennum eytt áður en að eiginleg úrvinnsla hófst.

Félagsvísindastofnun H.Í. (97/122) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar fyrir Tryggingastofnun ríkisins á
félagslegum högum öryrkja. Þátttakendur voru allir nýskráðir öryrkjar hjá T.R. Spyrlar voru starfsmenn Tryggingastofnunar og skyldi þess
gætt að F.H.Í. fengi einungis ópersónugreind gögn í hendur til úrvinnslu. Áskilnaður settur um að ekki mætti með nokkrum hætti
auðkenna svör einstakra öryrkja.

Félagsvísindastofnun H.Í. (97/198) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna tiltekinnar þjóðmálakönnunar, þ.s. fengnar voru frá
Hagstofu Íslands upplýsingar um nafn og kennitölu eins barns hvers þátttakanda (þ.e. hvers manns í úrtakinu) og skráðar upplýsingar um
heilsufar viðkomandi barns. Áskilið að öllum upplýsingum um nöfn og kennitölur yrði eytt af könnunargögnum þegar að gagnasöfnun
lokinni.

Freydís Jóna Freysteinsdóttir, nemi í félagsráðgjöf (97/341) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum
leikskóladvalar barna á félagslegan og tilfinningalegan þroska þeirra og hegðun. Þátttakendur voru börn á aldrinum 33-36 mánaða í
leikskólum Reykjavíkurborgar. Gagna var aflað annars vegar þannig að leikskólakennarar fylltu út gátlista og hins vegar fylltu foreldrar út
spurningalista. Gögn voru númeruð en áskilnaður settur um eyðingu greiningarlykils að úrvinnslu lokinni.

Freyja Hálfdánardóttir og Sigurveig Dögg Þormóðsdóttir, sjúkraþjálfaranemar (97/386) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á því hvort munur væri á þátttöku kvenna og karla sem fara í endurhæfingu eftir kransæðaaðgerð og einnig hvort munur
væri á líkamlegri getu þeirra, hreyfingu og reykingum, einu til tveimur árum eftir kransæðaaðgerð. Þátttakendur voru valdir með aðstoð
endurhæfingarlæknis á Reykjalundi (allir þeir sem fóru á Reykjalund í endurhæfingu eftir kransæðaaðgerðir á árunum 1995 og 1996). Gagna
var aflað með spurningalistum. Þeir voru númeraðir en áskilnaður settur um eyðingu greiningarlykils að úrvinnslu lokinni.

Friðrik Rúnar Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, Árni Björnsson læknir og Einar Guðmundsson, doktor (97/009) fengu heimild til
að nota breytt úrtak í rannsókn Árna á holgóma Íslendingum fæddum frá 1955 til 1985. Samþykki var bundið því skilyrði að um þátt
Friðriks Rúnars og Einars í rannsókninni giltu allir sömu skilmálar og þeirri heimild sem nefndin, dags. 22. nóvember 1990, veitti Árna til að
gera fyrri hluta rannsóknarinnar. Þá var lagt fyrir að eytt skyldi öllum persónuauðkenningargögnum (greiningarlyklum) sem gerðu kleift að
rekja upplýsingar og gögn til einstaklinga þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hæfist. Tók það til allra rannsóknargagna,
jafnt skráðra upplýsinga sem blóðsýna.

Friðrik Rúnar Guðmundsson, talmeinafræðingur, Elmar Þórðarson og Ingibjörg Símonardóttir (97/010) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar í tengslum við gerð tiltekins málþroskaprófs. Þátttakendur voru foreldrar allra 18 mánaða barna sem komu til
skoðunar á tiltekna heilsugæslustöð á rannsóknar tímabilinu. Notaðir voru spurningalistar sem foreldrar skiluðu á heilsugæslustöðina.
Þeir voru númeraðir en það skilyrði sett að greiningarlykli skyldi eytt þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hæfist.

Friðrik H. Jónsson, dósent og Guðrún Árnadóttir (97/224) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna seinni hluta rannsóknar á
áhrifum streitu, persónuleikaþátta og vitneskju um nákominn ættingja með krabbamein á mætingu í brjóstamyndatöku hjá leitarstöð
Krabbameinsfélags Íslands og á sjálfskoðun brjósta. Þátttakendur voru 1000 konur af Stór-Reykjavíkursvæðinu á aldrinum 40-69 ára, sem
valdar voru af handahófi úr boðunarskrám leitarstöðvarinnar. Þeim voru sendir spurningalistar og kynningarbréf þar sem ábyrgst var full
nafnleynd.

Gígja Magnúsdóttir og María Magnúsdóttir, sjúkraþjálfunarnemar (97/371) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á hlutverki bakskóla í endurhæfingu einstaklinga sem höfðu gengist undir brjósklosaðgerð árið 1994 á Borgarspítalanum.
Notaðir voru spurningalistar. Nafnleynd tryggð.

Gísli Árni Eggertsson f.h. félagsmiðstöðvanna Ársels, Bústaða, Fellahellis, Fjörgynjar, Hólmasels og Þróttheima (97/072) fékk heimild
til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á lífsvenjum unglinga og viðhorfum þeirra til félags og tómstundastarfs í
félagsmiðstöðvum og skólum í Reykjavík. Þátttakendur voru allir unglingar í 8., 9. og 10. bekk þeirra skóla sem tilheyra
félagsmiðstöðunum. Notaðir voru persónuauðkennalausir spurningalistar.

Geir Friðgeirsson, læknir, f.h. starfshóps á vegum hjúkrunarstjórnar og læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, (97/094)
fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum sjúklinga til þjónustu sjúkrahússins. Þátttakendur voru
sjúklingar og aðstandendur þeirra. Notaðir voru nafnlausir spurningalistar.

Gréta Björk Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari (97/091) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því
hvernig nám í Kvennaskólanum hafi undirbúið nemendur fyrir framhaldsnám eða starf og hvaða þætti skólastarfsins þyrfti að efla.
Þátttakendur voru 404 nemendur útskrifaðir á tímabilinu 1991 til 1996. Notaðir voru númeraðir spurningalistar en áskilnaður settur um að
greiningarlykli skyldi eytt þegar að úrvinnslu lokinni.

Grétar Guðmundsson, John Benedikz, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson, læknar og sérfræðingar (96/276) fengu heimild til
að vinna, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn til að einangra erfðavísa fyrir mígreni. Heimildin var bundin ýmsum
skilyrðum sem tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem átti að tryggja að á
rannsóknarstofunni yrði ekki unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998 og nýir skilmálar settir um vinnuferli.
Verða því gerð skil í ársskýrslu 1998.

Gróa Ingunn Ingvarsdóttir, Guðrún Ingadóttir, Jónína Hafliðadóttir og Sólborg Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/026) fengu
heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þvagleka meðal kvenna á aldrinum 20 til 40 ára. Þátttakendur voru 250 konur
valdar af handahófi úr þjóðskrá búsettar í Kópavogi. Notaðir voru spurningalistar. Áskilnaður settur um að hvorki yrði með greiningarlykli
né með öðrum aðferðum unnt að rekja svör til einstakra kvenna.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir (97/313) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegum áhættuþáttum í
fiskiðnaði. Var einkum skoðuð líðan kvenna sem vinna við flæðilínu, vinnustreita og andlegir álagsþættir, með hliðsjón af þeim
tæknibreytingum sem átt hafa sér stað í fiskvinnslunni. Voru valin fyrirtæki með mismunandi tæknistig við fiskvinnsluna. Sendir voru út
spurningalistar og viðtöl tekin við fólk í fiskiðnaði. Áskilnaður settur um að nöfn eða önnur persónuauðkenni kæmu hvergi fram.

Guðfinna B. Sigvaldadóttir og Sjöfn Guðmundsdóttir, nemar (97/372) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
próf- og félagskvíða. Þátttakendur voru u.þ.b. 160 framhaldsskólanemar á höfuðborgarsvæðinu. Gagna var aflað með auðkennalausum
spurningalistum.

Guðjón Ágúst Gústafsson og Trausti Hafsteinsson, kennaraháskólanemar (97/363) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á starfsánægju kennara. Þátttakendur voru starfandi grunnskólakennarar í Reykjavík, útskrifaðir 1985, 1990 og 1995 frá
Kennaraháskóla Íslands. Notaðir voru spurningalistar en engin persónuauðkenni skráð.

Guðlaug Kristjánsdóttir og Sigrún Elva Einarsdóttir, sjúkraþjálfunarnemar (97/370) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunarverkefnisins: "Sársaukavekjandi kæling – gildi fræðslu". Þátttakendur voru 40 sjálfboðaliðar (skólafólk á háskólastigi, ekki
íþróttamenn). Gagna var aflað þannig að fylgst var með því hve lengi þátttakendur gætu haldið hægri hendi á kafi í ísvatni. Einnig voru
notaðir spurningalistar. Nafnleynd tryggð.

Guðmundur Vikar Einarsson, yfirlæknir (97/294) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á fylgni ákveðinna
meðgöngu- og fæðingaráhættuþátta við krabbamein í eistum. Rannsóknin var framkvæmd með samanburði, annars vegar á upplýsingum
um slík krabbamein skv. krabbameinsskrá og hins vegar á upplýsingum í meðgöngu- og fæðingarskýrslum vegna þessara sjúklinga. Til
samanburðar var valinn þrefalt stærri hópur og samskonar upplýsinga leitað í meðgöngu- og fæðingarskýrslum um þá. Heimild var veitt
með þeim skilmála að öll söfnun og úrvinnsla færi fram undir númerum í stað persónuauðkenna. Var heimiluð geymsla eins eintaks af
greiningarlykli þar til niðurstöður lægju fyrir.

Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir (97/242) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna eftirfylgnirannsóknar á þátttakendum í
skandinavísku "simvastatín" rannsókninni. Fyrri hluti þessarar rannsóknar hafði sýnt fram á gagnsemi kólesteról lækkandi lyfjameðferðar
fyrir kransæðasjúklinga en eftirfylgnirannsókninni var ætlað að meta langtímaáhrif meðferðarinnar. Rannsóknin fór þannig fram að fyrst
var kannað í þjóðskrá hvaða þátttakendur væru látnir og hver væri dánarorsökin. Þá var kannað í krabbameinsskrá hvaða þátttakendur
hefðu fengið krabbamein. Í þriðja lagi var lifandi þátttakendum sent spurningablað um töku kólesteróllækkandi lyfja. Áskilnaður var um að
öll persónuauðkennd gögn skyldu eyðilögð að úrvinnslu lokinni.

Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir (97/248) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á blóðfitulækkandi áhrifum
tveggja lyfja, Atorvastatins og Simvastatins. Um alþjóðlega rannsókn var að ræða, en íslenskir þátttakendur voru 10 kransæðasjúklingar.
Aflað var leyfis sjúklinga til að sækja upplýsingar úr sjúkraskrám um kransæðasjúkdóma þeirra og blóðfitugildi. Rætt var við sjúklingana,
þeir skoðaðir og fylgst með þeim á Göngudeild Landspítala fyrir blóðþrýsting og blóðfitumælingar. Gögn voru auðkennd með
upphafsstöfum, kynferði og fæðingaári, en áskilnaður settur um eyðingu allra frumgagna að úrvinnslu lokinni.

Guðrún Guðmundsdóttir (97/232) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á færni læknastúdenta og læknakandídata
á Íslandi. Þátttakendur voru útskrifaðir læknar 1997 og 1998 frá læknadeild Háskóla Íslands, u.þ.b. 75 til 85 manns. Notaðir voru númeraðir
en nafnlausir spurningalistar. Áskilnaður settur um að greiningarlykli skyldi eytt eigi síðar en 1. júlí 1998.

Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólakennari (97/067) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvernig
leikskólakennarar teldu sig í stakk búna til að styðja börn sem yrðu fyrir áföllum. 200 þátttakendur voru valdir af handahófi úr félagatali
Félags íslenskra leikskólakennara. Gagna aflað bæði með notkun spurningalista og töku viðtala. Hefðbundinn áskilnaður um nafnleynd
o.þ.h.

Guðrún Karlsdóttir, deildarlæknir og Torfi Magnússon, sérfræðingur (97/425) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
rannsóknar á einkennum og tíðni stúfverkja, draugaverkja og draugalimstilfinninga eftir aflimunaraðgerðir og tengsl milli verkja fyrir og
eftir aðgerðir. Þátttakendur voru 50 til 60 einstaklingar sem gengust undir aflimunaraðgerðir á SHR á tímabilinu 1981 til 1996. Upplýsinga
var aflað úr sjúkraskrám og með viðtölum við þátttakendur. Áskilnaður um fyrirfram samþykki þátttakenda og um eyðingu allra gagna á
árinu 1999.

Guðrún K. Þórsdóttir, framkvæmdastjóri og Ingibjörg Ásta Gunnarsdóttir, mannfræðingur (97/317) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á þörf fyrir virkara starf í þágu aðstandenda minnissjúkra. Þátttakendur voru aðstandendur
Alzheimer-sjúklinga og makar þeirra, valdir af félagaskrá Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga og skyldra sjúkdóma.
Þátttakendur fylltu út spurningalista. Var heimilað að varðveita greiningarlykil þar til að úrvinnslu lokinni.

Gunnar Haugen, sálfræðinemi (97/314) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hversu vel nemendur í 8. bekk
grunnskóla muni voreinkunnir sínar. Þátttakendur voru 20 til 30 nemendur í einum 8. bekk grunnskóla. Notaðir voru númeraðir
spurningalistar en einungis kennara heimilað að nota greiningarlykil til að geta borið saman raunverulegar einkunnir og svör. Tryggt að
hvorki kennari né rannsakandi gætu að því loknu rakið gögn til nemenda.

Gunnar Haugen, sálfræðinemi (97/323) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á hvort þau tengsl sem fundist hafa
milli þátttöku unglinga í íþróttum og gengi í skóla megi rekja til uppeldisaðferða foreldra unglinganna. Þátttakendur voru u.þ.b. 300
unglingar í 8. bekkjum grunnskólum Reykjavíkur. Upplýsinga var aflað með spurningalistum en engin persónuauðkenni skráð.

Gunnar Mýrdal og Þorvaldur Jónsson, læknar (97/298) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á líftíma
sjúklinga með magakrabbamein og á árangri skurðaðgerða. Þátttakendur voru 353 manns, þ.e. allir sjúklingar á skurðlækningadeild
Borgarspítala á árunum 1968-1992 með greininguna magakrabbamein. Þar af voru 312 einstaklingar látnir. Gagna var aflað, annars vegar úr
sjúkraskrám (m.a. um aðgerðir og um útbreiðslu sjúkdóms við greiningu) og hins vegar úr dánarvottorðum hjá Hagstofu Íslands (um
dánarorsök). Upplýsingar voru færðar inn í gagnagrunn með uppl. um kennit., dánarorsök og líftíma. Heimilað að varðveita greiningarlykil
í 1 til 2 ár.

Gunnar Sigurðsson, Ísleifur Ólafsson, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson (97/068) fengu heimild til að vinna, í samstarfi við
Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn til að einangra þá erfðaþætti sem áhrif hafa á beinþéttni og/eða eru meðvirkandi í beinþynningu.
Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem átti
að tryggja að á rannsóknarstofunni, yrði ekki unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998 og nýir skilmálar settir
um vinnuferli. Verða því gerð skil í ársskýrslu 1998.

Gunnlaugur Ólafsson, lífeðlisfræðingur, Þorkell Guðbrandsson, hjartasérfræðingur og Jón Ólafur Skarphéðinsson, prófessor
(97/279) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á lífsvenjum einstaklinga með aukna kviðfitu og samsöfnun
áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma (þrek, streita, mataræði), og á sjálfvirkri taugastjórnun í hjarta- og æðakerfi. Þáttakendur voru annars
vegar 40 menn með aukna kviðfitu og mismarga áhættuþætti og hins vegar 20 manna viðmiðunarhópur, grannir menn með breytilegt þrek.
Gagna var aflað með þrekprófi, athugun á kólesteról, HDL og blóðsykri í blóðprufum, könnun á viðbrögðum við einföldu áreitni og notkun
spurningalista til að meta heilsuvenjur og sálræna þætti. Gögn mátti auðkenna með fullum persónuauðkennum að því tilskildu að til þess
stæði fullt samþykki hlutaðeigandi.

Gyða Haraldsdóttir, lektor, Anna Árnadóttir og Jóna Björg Freysdóttir (97/259) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á viðhorfum foreldra til foreldrasamstarfs og aðlögunar áður en leikskólavist hefst. Þátttakendur voru 65 - 70 foreldrar barna sem
hófu leikskólagöngu í Krógabóli á Akureyri og Bjarnahúsi á Húsavík í ágúst og september 1997. Notaðir voru spurningalistar. Skyldi
öllum gögnum eytt eigi síðar en 1. nóvember 1997.

Halla Björk Marteinsdóttir, meðferðarfulltrúi (97/249) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á afbrotum
unglinga í Reykjavík. Gagna var aflað úr 600 lögregluskýrslum í vörslu Unglingadeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Settir voru
sérstakir skilmálar um trúnað og um að engum persónuauðkenndum gögnum yrði safnað.

Hanna Dís Margeirsdóttir, Magnús Böðvarsson og Viðar Örn Eðvarðsson, læknar (97/142) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á nýgengi, algengi, orsökum, meðferðarformum og lifun barna sem greindust með langvinna
nýrnabilun á árunum 1980 - 1996. Gagna var aflað úr sjúkraskýrslum barnanna. Allar upplýsingar skráðar undir rannsóknarnúmerum.
Áskilnaður settur um að greiningarlykli yrði eytt þegar að úrvinnslu lokinni.

Hannes Petersen og Erlingur Hugi Kristvinsson, læknar (97/235) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
sjóveiki meðal íslenskra sjómanna. Spurningalistar voru notaðir og þeir lagðir fyrir þátttakendur í Slysavarnaskóla SVFÍ á hálfs til eins árs
tímabili.

Hannes Petersen, yfirlæknir og Adolf Þráinsson (97/257) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort
komum á slysadeild vegna nefblæðinga hafi fjölgað frá árinu 1980, meðal annars til að kanna tengsl við aukna notkun blóðþynnandi lyfja.
Gagna var fyrst og fremst aflað með talningu á fjölda nefblæðingartilfella í skrám slysadeildar SHR. Áskilnaður settur um eyðingu allra
persónuauðkenndra gagna að úrvinnslu lokinni.

Hannes Petersen, yfirlæknir (97/309) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á síðkomnu ofnæmissvari í
nefslímhúð. Þátttakendur voru sjúklingar með árstíðabundið ofnæmi í nefni, frjókornaofnæmi staðfest með húðprófi, greindir og
meðhöndlaðir á HNE-deild SHR. Gagna var aflað með töku sýna úr nefslímhúð fyrir og eftir "provokation". Gögn voru auðkennd með
númerum en greiningarlykli eytt þegar að rannsókn lokinni.

Haraldur Briem, yfirlæknir (97/228) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á útbreiðslu HIV, HCV og HHV-8
sýkinga í íslensku þjóðfélagi. Notuð voru um það bil 1000 afgangsblóðsýni úr sjúklingum sem komu til rannsókna á SHR. Persónueinkenni
voru afmáð með óafturkræfum hætti af öllum rannsóknargögnum áður en nokkur vinnsla hófst og aðeins auðkennd með upplýsingum um
aldur og kyn.

Helena Sveinsdóttir, deildarlæknir og Gunnar H. Gunnarsson, yfirlæknir (97/158) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á tíðni, eðli og meðferð kviðarholsáverka á SHR síðastliðin 10-20 ár. Gagna var aflað úr sjúkraskrám þeirra sjúklinga sem fundust
með slíkar greiningar á umræddu tímabili. Skyldu nöfn og kennitölur hvergi koma fram við úrvinnslu eða birtingu.

Helga Sól Ólafsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/014) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
viðhorfum ungs fólks til kynfræðslu í skólum. Þátttakendur voru nemendur í 10 bekkjum í grunnskólum og kennarar þeirra. Notaðir voru
auðkennalausir spurningalistar.

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/163) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þvagleka
meðal kvenna 55 ára og eldri í Egilsstaðalæknishéraði. Þátttakendur voru 258, samkvæmt lista frá bæjarskrifstofu Egilsstaða. Áskilið að
nöfn kæmu hvergi fram.

Hildigunnur Gunnarsdóttir (97/292) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum sjónvarps á lestrarfærni
barna í 2.-5. bekk grunnskóla. Þátttakendur voru u.þ.b. 200 nemendur í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Gagna var aflað með
spurningalistum fyrir foreldra og dagbókum sem ætlast var til að börnin fylltu út. Gögn voru auðkennd með númerum en skólastjóra falin
varðveisla greiningarlykils þar til umræddu lokaverkefni lyki.

Hildigunnur Jóhannesdóttir, Sigríður Stefánsdóttir, Steinunn Jónatansdóttir og Hulda Þórey Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðinemar
(97/064) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu foreldra barna sem leiðst höfðu út í vímuefnaneyslu.
Gagna var aflað með viðtölum. Nafnleyndar og trúnaðar gætt.

Hildur Svavarsdóttir, Jón Þ. Hallgrímsson og Reynir T. Geirsson, læknar (97/053) fengu heimild til að mynda skrá með upplýsingum
um mæðradauða á Íslandi árin 1976-1995. Upplýsinga var aflað með aðstoð Hagstofu Íslands sem bar saman skrá yfir konur yngri en 50
ára sem létust á tímabilinu og konur sem fæddu börn, þannig að fram kæmi hverjar létust innan eins árs frá fæðingu eða þungun. Þá var
upplýsinga aflað úr dánarvottorðum, sjúkraskýrslum og krufningaskýrslum. Hefðbundir skilmálar um trúnað og persónuvernd.

Hinrik Pálsson, afbrotafræðinemi (97/261) fékk heimild vegna rannsóknar á innbrotum í fyrirtæki/atvinnuhúsnæði með sérstaka áherslu
á fremjendur, afbrotaferil, aðferðir ofl. Gagna var aflað úr skrám lögreglu yfir slík innbrot. Engum persónuauðkenndum upplýsingum mátti
safna.

Hinrik Pálsson, afbrotafræðinemi (97/328) fékk heimild vegna rannsóknar á viðhorfum þeirra sem afplánað höfðu dóma vegna innbrota
til ýmissa þátta innbrota. Upplýsinga var aflað með spurningalistum sem lagðir voru fyrir í fangelsum landsins undir umsjón
Fangelsismálastofnunar. Engar upplýsingar voru skráðar sem rekja mátti til einstakra fanga.

Jóhann Axelsson, próf., Andrés Magnússon, læknir, Jón G. Stefánsson, dósent, Högni Óskarsson, læknir og Arndís Vala
Arnfinnsdóttir, stud.med., (97/264) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á algengi skammdegisþunglyndis á
Vestfjörðum og Suðvesturlandi. Þátttakendur voru 6600 manns valdir með tilviljunarkenndu úrtaki úr Þjóðskrá. Gagna var aflað með
númeruðum spurningalistum. Varðveisla greiningarlykils leyfð þar til að úrvinnslu lokinni.

Inga B. Árnadóttir, tannlæknir, Halla Sigurjóns, lektor, Peter Holbrook, prófessor, Sigfús Þór Elíasson, prófessor, Sigurður Rúnar
Sæmundsson, tannlæknir og Stefán Finnbogason, tannlæknir (97/252) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
glerungsgöllum hjá börnum og á inntöku flúors við tannhirðu. Þátttakendur voru annars vegar 300 átta ára börn og hins vegar 200 eins og
hálfs og tveggja og hálfs árs börn. Gagna varðandi eldri börnin var annars vegar safnað með klínískri skoðun og töku skyggnumynda og
hins vegar með spurningalistum fyrir foreldra. Gagna varðandi yngri börnin var m.a. aflað með viðtölum, auk þess sem hráka og þvagi var
safnað frá um 50 börnum. Gögn voru auðkennd með númerum en miðað við að nafnalistum yrði eytt þegar að gagnasöfnun lokinni.

Inga Vala Jónsdóttir, Bryndís Björg Þórhallsdóttir, Kirsti Beate Fagerli, Málfríður Stefanía Þórðardóttir og María Egilsdóttir,
hjúkrunarfræðinemar (97/077) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á ástæðum fyrir komu barna til
skólahjúkrunarfræðinga í grunnskólum á svæði heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Tekin voru viðtöl við skólahjúkrunarfræðingana og
skoðaðir samskiptaseðlar. Heimild var bundin því skilyrði að öllum persónuauðkennum yrði eytt af þeim samskiptaseðlum sem þær fengu í
hendur.

Inga Dóra Kristjánsdóttir, Erla Kristófersdóttir og Sigríður K. Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/118) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á verkjum og verkjalyfjameðferð barna 8 klst. eftir hálskirtlatöku. Þátttakendur voru 8-10 börn á
aldrinum 3ja til 12 ára sem lögðust inn á SHR til hálskirtlatöku á rannsóknartímabilinu. Gagna var aflað úr sjúkraskrám að fengnu skriflegu
samþykki foreldra. Fullri nafnleynd heitið.

Inga Þórsdóttir, forstöðumaður og Gestur Pálsson, sérfræðingur (97/305) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á neyslu matvæla 2ja ára barna og á tengslum mataræðis við ýmsa heilsufarsþætti. Þátttakendur voru u.þ.b. 120 tveggja ára
börn, valin af handahófi úr Þjóðskrá. Gagna var aflað þannig að foreldrar fylltu út eyðublöð. Varðveisla greiningarlykils heimiluð þar til að
úrvinnslu lokinni.

Ingi Jón Hauksson og Páll Magnússon, sálfræðingar á BUGL (97/194) fengu heimild vegna verkefnis sem fólst í að prófa tiltekna kvarða
á ofvirkni leikskólabarna og hegðun á heimili. Gagna var aflað þannig að foreldrar og leikskólakennarar fylltu út spurningalista og
ofvirknikvarða. Heimild var bundin því skilyrði að gögn yrðu ekki númeruð og ekki yrði með nokkru móti unnt að rekja upplýsingar til
einstakra barna.

Íris Árnadóttir, sálfræðinemi (97/345) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á heilsuvenjum fólks, almennu
heilbrigði og hugmyndum manna um eigin getu til að hafa stjórn á heilsufari sínu. Þátttakendur voru 200 framhaldsskólanemar á
höfuðborgarsvæðinu. Notaðir voru 3 spurningalistar sem hvorki voru merktir með nöfnum, kennitölum né öðrum auðkennum.

Íþrótta- og tómstundaráð Selfoss (97/129) fékk heimild vegna könnunar á viðhorfum ungmenna í 8. og 9. bekkjum á Selfossi til
félagsmiðstöðvarinnar og á drykkju- og tóbaksvenjum þeirra. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í Sandvíkur- og Sólvallaskóla á
Selfossi. Engin persónuauðkenni skráð.

Jakob Smári, dósent (97/144) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar meðal eldri borgara sem sækja félags- og
þjónustumiðstöðvar í Reykjavíkurborg. Notaðir voru spurningalistar til að meta þunglyndi, mat aldraðra á eigin minni og viðhorf þeirra til
ýmissa málefna. Áskilið að ekki yrði unnt að rekja svör til einstakra svarenda.

John Benedikz, Finnbogi Jakobsson, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson, læknar og sérfræðingar (96/244) fengu heimild til
að vinna, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn á arfgengum skjálfta. Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem tryggja
áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli ssem átti að tryggja að á rannsóknarstofu ÍE, yrði ekki unnt
að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var síðar breytt og nýir skilmálar settir um vinnuferli. Verða því gerð skil í ársskýrslu
1998.

Jóhanna Einarsdóttir (97/030) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á starfsháttum í leikskólum á
höfuðborgarsvæðinu. Gagna var aflað annars vegar aflað með gátlistum og hins vegar með myndbandsupptökum Var myndefni safnað í
30 leikskólum.

Jón Bragi Bergmann, Kristinn Sigvaldason, Björn Tryggvason, Þorsteinn Sv. Stefánsson, Steinn Jónsson og Girish Hirlekar, læknar
(97/076) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni, orsökum og dánarhlutfalli sjúkdómsins ARDS.
Þátttakendur voru allir sjúklingar sem lagðir höfðu verið í öndunarvélar á gjörgæsludeildum allra sjúkrahúsa landsins. Upplýsingar voru
sóttar í sjúkraskrár, þar á meðal um rannsóknarniðurstöður o.fl. Heimiluð varðveisla greiningarlykils þar til að rannsókn lokinni.

Jón Óttar Ólafsson, nemi (97/099) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á skipulagðri glæpastarfsemi.
Þátttakendur voru menn sem þá sátu inni á Litla-Hrauni fyrir auðgunarbrot og fíkniefnamisferli. Heimildin var bundin því skilyrði að
umsækjandi fengi engin gögn í hendur sem rekja mætti til einstakra fanga. Hins vegar var heimilað að spurningalistar yrðu númeraðir svo
Fangelsismálastofnun gæti með notkun greiningarlykils rakið svörin, enda væri föngum um það kunnugt.

Jón Ólafur Skarphéðinsson, lífeðlisfr. (97/230) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum langvarandi
streitu á sympatíska virkni til vöðvaæða. Þátttakendur voru u.þ.b. 20 karlar á aldrinum 20-30 ára, sem reyndu í fyrsta sinn við
samkeppnispróf til læknisfræðináms við Háskóla Íslands. Öll gögn voru auðkennd með nöfnum og kennitölum, enda væru þátttakendur
því samþykkir.

Jóna Sigríður Valbergsdóttir, aðstoðarskólastjóri (97/152) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þeim
aðferðum og matsgögnum sem sérkennarar nota til að meta stöðu nemenda og hvers vegna þeir beita þeim aðferðum. Þátttakendur voru
u.þ.b. 100 grunnskólakennarar sem kenndu nemendum með mjög skerta námshæfni. Notaðir voru spurningalistar, auðkennalausir.

Jónas G. Halldórsson, sálfræðingur (97/244) fékk heimild til að breyta rannsóknaráætlun í eldri könnun á íslenskum börnum og
unglingum við höfuðáverka þannig að upplýsingaöflun næði til allra þeirra aldurshópa sem tölvufært sjúklingabókhald náði til.

Karitas Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari, Fanney Jónsdóttir, Jóna Eggertsdóttir og Sara Hafsteinsdóttir (97/066) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á notagildi úrræða sem mælt er með fyrir útskrift af öldrunarlækningadeild SHR. Notaðir voru
spurningalistar og eyðublöð til að fá upplýsingar um hreyfigetu, félagslegar aðstæður o.fl. Gögn voru auðkennd með númerum en þeim
eytt að úrvinnslu lokinni.

Karl G. Kristinsson, sérfræðingur (97/226) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum vaxandi
sýklalyfjaónæmis á eyrnabólgu hjá börnum. Safnað var frá heilsugæslustöðum og apótekum upplýsingum um 10-20.000 börn, 6 ára og
yngri, búsett í Bolungarvík, Egilsstöðum, Hellu, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum og á tilteknum svæðum í Reykjavík og á Akureyri.
Gagnasöfnun fór fram undir kennitölum en kennitölur voru síðan dulkódaðar. Áskilið að aðeins yrði til eitt eintak greiningarlykils sem
afhent yrði Tölvunefnd til varðveislu.

Kirsti Beate Fagerli, heilbrigðisfræðinemi (97/344) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tilfinningum foreldra
sem misst höfðu barn sitt vegna sjálfsvígs. Þátttakendur voru valdir með milligöngu presta og annarra sérfræðinga. Gagna aflað með
viðtölum. Engin persónuauðkenni skráð og öllum gögnum eytt að úrvinnslu lokinni.

Kjartan Kjartansson, geðlæknir og Guðrún Guðmundsdóttir (97/273) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
fræðsluþörfum aðstandenda geðfatlaðra. Þátttakendur voru aðstandendur allra geðfatlaðra einstaklinga, sem lagðir höfðu verið inn á deild
A-2 frá árinu 1995. Notaðir voru spurningalistar, en sérstök skilyrði sett um meðferð og eyðingu gagna.

Kristinn Tómasson, sérfræðingur og Bjarni Össurarson, deildarlæknir (97/236) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á geðrænum einkennum og heilsutengdum lífsgæðum hjá aðstandendum geðsjúkra. Þátttakendur voru sjúklingar og
aðstandendur þeirra, sem lagðir voru inn á eina af 5 bráðageðdeildum Landspítalans á ákveðnu tímabili. Spurningalistar voru notaðir en
áskilið að gögn yrðu einungis auðkennd með númerum. Heimiluð varðveisla eins eintaks greiningarlykils þar til rannsóknarniðurstöður
lægju fyrir.

Kristín Lára Friðjónsdóttir, sérkennslufræðinemi (97/306) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á upplifun
mæðra fyrirbura með fæðingarþyngd undir 1501 g. á móðurhlutverki sínu. Þátttakendur voru valdir samkvæmt skrá vökudeilda og gagna
aflað með viðtölum við mæðurnar. Gögn einungis auðkennd með dulnöfnum.

Kristín Karlsdóttir, kennari (97/437) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegri hegðun leikskólabarna.
Þátttakendur voru 40 börn í tveimur leikskólum á stór-Reykjavíkursvæðinu. Gagna var aflað þannig að börnin spiluðu ákveðið spil og var
framgangur leiksins tekinn upp á myndband. Gögn voru auðkennd með númerum en öllum persónugreiningargögnum skyldi eytt innan
árs frá rannsóknarlokum.

Kristín H. Siggeirsdóttir, iðjuþjálfi og Brynjólfur Y. Jónsson, læknir (97/331) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á beinbrotum karla sem tóku þátt í fyrsta og öðrum áfanga hópskoðunar Hjartaverndar á árunum 1967-1971. Þátttakendur voru
valdir samkvæmt gögnum frá Hjartavernd, en upplýsingum um beinbrot safnað úr sjúklingabókhöldum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Gögn
voru auðkennd með kennitölum en áskilið að þau yrðu öll afhent Hjartavernd að úrvinnslu lokinni.

Kristján Steinsson, yfirlæknir (97/105) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á erfðaþáttum sem stjórna
meingerð iktsýki (arthritis rheumatoides). Þátttakendur voru u.þ.b. 200 manns, í 25 fjölskyldum þar sem þekkt voru tvö eða fleiri tilfelli
iktsýki, fundnir í skrám um sjúklinga með þann sjúkdóm. Gagna var aflað með viðtölum og töku blóðsýna til mælinga á erfðaþáttum (EDTA
blóð sem úr var einangrað DNA). Sýni (auðkennalaus) voru send erfðafræðideild háskólans í Uppsölum til tengslagreiningar. Rannsóknin
var unnin í samvinnu við erfðafræðinefnd. Heimildin var bundin því skilyrði að blóðsýni yrðu eingöngu notuð í samræmi við tilgang
þessarar rannsóknar og að afmá skyldi af þeim öll persónuauðkenni og eyða öllum gögnum sem gerðu kleift að rekja saman sýni og
einstök nöfn. Skyldi sýnunum eytt eigi síðar en árið 2005.

Lilja Petra Ásgeirsdóttir, yfirmeinatæknir (97/174) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni "thoracic outlet
syndroms" hjá læknariturum á Landspítalanum. Þátttakendur voru 30-40 læknaritarar. Notaðir voru spurningalistar en ennfremur gerðar
ýmsar mælingar svo sem á hitastigi, ummáli og hreyfigetu handa. Gögn voru auðkennd með númerum en áskilið að öllum gögnum yrði eytt
að úrvinnslu lokinni.

Lilja Petra Ásgeirsdóttir, yfirmeinatæknir (97/175) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna mælinga með laser dopplertækni
á mögulegum bláæðaháþrýstingi í ganglimum hjá heilbrigðum einstaklingum. Þátttakendur voru 30 konur á aldrinum 30-60 ára. Gögn voru
númeruð en enginn greiningarlykill gerður.

Lyfjaeftirlit ríkisins (97/205) fékk heimild til að samtengja þjóðskrá Hagstofu Íslands við skrá Lyfjaeftirlits ríkisins um notkun
eftirritunarskyldra lyfja, vegna eftirlits með ávísun ávana- og fíkniefna.

Jafningjafræðsla framhaldsskólanna (97/111) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á fíkniefnaneyslu
framhaldsskólanema. Þátttakendur voru 600 nemendur í fjölbrautaskóla Suðurlands. Notaðir voru ómerktir spurningalistar.

Manneldisráð Íslands (96/323) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunnar á trans-ómettuðum fitusýrum í fæði og
áhættuþáttum hjartasjúkdóma. Þátttakendur voru 80 einstaklingar á aldrinum 50-65 ára, 40 konur og 40 karlar. Fylgst var með mataræði
þeirra auk þess sem rannsóknir voru gerðar á blóðþrýstingi, fitusýrum í fituvef o.fl. Gögn voru án auðkenna og unnt að rekja þau til
einstakra þátttakenda.

Marga Thome, Árna Skúladóttir, Hertha Jónsdóttir, Agnes Jóhannesdóttir, Rósa Einarsdóttir og Kristín Einarsdóttir,
hjúkrunarfræðingar (97/031) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á hjúkrunarferli fyrir ungbörn sem lögð voru
inn á sjúkrahús vegna svefntruflana. Markmiðið var að athuga hvort endurskipulagt hjúkrunarferli drægi úr svefnvandamálum. Gagna var
annars vegar aflað með notkun dagbóka og hins vegar með notkun spurningalista. Fullri nafnleynd og trúnaði heitið gagnvart öllum
þátttakendum. Öllum gögnum eytt að úrvinnslu lokinni.

Marta Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/136) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvaða aðferð hafi
reynst best við þvag-/hægðalosun hjá mænusköðuðum. Þátttakendur voru 64 einstaklingar með mænuskaða eftir slys á árunum
1973-1997, sem valdir voru samkvæmt endurhæfingaskrá Grensásdeildar SHR. Notaðir voru spurningalistar. Gögn voru auðkennd með
númerum og heimilað að varðveita greiningarlykil í 3 ár

Marta Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Sigurveig Alfreðsdóttir og Guðrún Ammendrup (97/203) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á upplifun og líðan fólks, 67 ára og eldri, eftir mjaðmarbrot, fyrstu vikurnar eftir útskrift. Þátttakendur
voru 6 einstaklingar, valdir af aðstoðardeildarstjóra á bæklunardeild SHR. Gagna var aflað með viðtölum, þau voru hljóðrituð og síðan
vélrituð. Engar persónuupplýsingar skráðar aðrar en kyn og aldur.

Menntamálaráðuneytið (97/269) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum nemenda til náms við Háskóla
Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og til atvinnu að námi loknu. Þátttakendur voru 600 útskrifaðir nemendur úr
þessum þremur skólum, árin 1981, 1986, 1991, 1995 og 1996. Notaðir voru spurningalistar. Þeir voru ekki auðkenndir og ekki hægt að rekja
svör til einstakra svarenda.

Óskar Ragnarsson, læknanemi (97/220) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á dánarorsökum þeirra sem höfðu
hlotið mænuskaða í slysum. Þátttakendur voru allir látnir mænuskaðaðir frá árinu 1973, valdir með diagnosunúmeri mænuskaða í gögnum
endurhæfingardeildar SHR. Upplýsingar um dánarorsakir voru fengnar í dánarvottorðum Hagstofu Íslands. Engin persónuauðkenni
skyldu varðveitt að gagnaöflun lokinni.

Páll Skúlason, prófessor (97/159) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum Íslendinga, Dana og Svía til
ýmissa þátta sem varða mótun og árangur umhverfisstefnu og á þjóðernisvitund o.s.frv. Þátttakendur voru u.þ.b. 2000 manns á aldrinum
18-75 ára, valdir af handahófi úr þjóðskrá. Notaðir voru spurningalistar. Persónuauðkennum eytt að gagnasöfnun lokinni.

Ragna Valdimarsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/400) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á breytingum á
lífsmynstri einstaklinga eftir heilablæðingu. Þátttakendur voru valdir af deildarstjóra á Reykjalundi. Tekin voru viðtöl, þau hljóðrituð og
síðan vélrituð. Hefðbundinn áskilnaður um nafnleynd.

Ragnheiður Guðmundsdóttir, Andrea Ingimundardóttir, K. Stella Ingvarsdóttir og Sólborg Ingjaldsdóttir, hjúkrunarfræðinemar
(97/108) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á hlutverki og viðhorfum skólahjúkrunarfræðinga. Þátttakendur
voru u.þ.b. 70 skólahjúkrunarfræðingar í grunnskólum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Notaðir voru númeraðir spurningalistar.

Ragnhildur Bjarnadóttir (97/107) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðfangsefnum unglinga utan skóla.
Þátttakendur voru u.þ.b. 200 nemendur á aldrinum 13-15 ára úr 4-5 skólum. Notaðir voru spurningalistar. Skilyrði sett um samþykki foreldra
og heimiluð varðveisla gagna til vorsins 1999.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa (97/254) fékk í ljósi lögboðins hlutverks síns heimild til aðgangs að lögregluskýrslum, sjúkraskýrslum,
krufningarskýrslum og dánarvottorðum og til að skrá upplýsingar. Strangir skilmálar settir um trúnað o.fl. Sjá nánari umfjöllun í í kafla 3.11.

Reykjavíkurborg (96/256) fékk heimild til að skrá tilteknar persónuupplýsingar í tengslum við samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar,
félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins varðandi forvarnir í grunnskólum Reykjavíkur. Sjá nánar í kafla 3.11.

Reynir Tómas Geirsson, Gerður Árnadóttir, Reynir Arngrímsson og Lilja S. Jónsdóttir (97/011) fengu viðbótarheimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á dánarorsökum kvenna sem fengu háan blóðþrýsting á meðgöngu. Um var að ræða rannsókn sem
heimiluð var með bréfi Tölvunefndar 22. nóvember 1990 en nú var til viðbótar veitt leyfi vegna látinna kvenna í viðmiðunarhópi og
rannsóknarhópi fyrri rannsóknar.

Reynir Tómas Geirsson, prófessor, Þórhallur Ágústsson, læknir, Sveinn Kjartansson, barnalæknir, Ásgeir Haraldsson, prófessor og
Þórður Óskarsson, yfirlæknir (97/310) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknarverkefnisins: "Þroski og
heilsufar tvíbura eftir glasafrjóvgun". Foreldrum voru sendir listar með spurningum um heilsufar og ýmis þroskaatriði tvíburanna. Þá var,
með leyfi foreldranna, einnig safnað gögnum um tvíburana frá heimilislæknum, barnalæknum og ungbarnaeftirlit. Farið var með gögn sem
trúnaðarmál og þeim eytt að rannsókn lokinni.

Rósa Hlín Óskarsdóttir og Þórey Ósk Sæmundsdóttir, kennaraháskólanemar (97/147) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar
vegna könnunar á dönskukennslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þátttakendur voru 2-300 nemendur í 9. bekk þriggja grunnskóla. Notaðir
voru auðkennalausir spurningalistar.

Rut Tryggvadóttir, Ellen Óskarsdóttir, Guðrún Þóra Björnsdóttir, Ragnhildur Reynisdóttir og Rannveig Birna Hansen,
hjúkrunarfræðinemar (97/047) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tóbaks- og vímuefnanotkun unglinga í
8., 9. og 10. bekk grunnskóla Akureyrar og á veittri fræðslu og viðhorfum til hennar. Þátttakendur voru u.þ.b. 750 nemendur. Notaðir voru
auðkennalausir spurningalistar.

Sigmundur Sigfússon, Brynjólfur Ingvarsson, Ernir Snorrason og Kári Stefánsson (97/002) fengu heimild til að vinna, í samstarfi við
Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að psychosum. Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem
tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem átti að tryggja að, á rannsóknarstofunni, yrði
ekki unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998og nýir skilmálar settir um vinnuferli. Verða því gerð skil í
ársskýrslu 1998.

Sigríður Gunnarsdóttir, Gunnhildur Sveinsdóttir og Kristín Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/131) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu þunglyndissjúklinga af ýmsum þáttum sem höfðu áhrif á þá í veikindum og daglegu lífi.
Þátttakendur voru valdir með milligöngu hjúkrunarfræðings á geðdeild SHR. Gagna aflað með viðtölum. Nafnleynd tryggð.

Sigríður Jakobínudóttir, rannsóknarfulltrúi (97/016) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna meðferðarprófunar með
metoprolol CR við hjartabilun. Þátttakendur voru valdir með milligöngu lækna. Gagna var aflað með töku blóðprufa, hjartalínurita,
læknisskoðunar og blóðþrýstingsmælinga. Rannsóknarupplýsingarnar í skráningarbókum /sjúklingabókum (Case Report Forms) voru
merktar með rannsóknarnúmerum og upphafsstöfum þátttakenda. Heimildin var bundin þeim skilyrðum að öll upplýsingasöfnun yrði í
höndum lækna þátttakenda (sjúklinga) og að einungis læknarnir hefðu aðgang að sjúkraskrám viðkomandi. Skyldu allar upplýsingar sem
læknarnir létu frá sér, þ. á m. blóðsýni, vera með öllu án persónuauðkenna og læknarnir einir hafa greiningarlykla undir höndum.

Sigríður Elín Ólafsdóttir, Ingibjörg Þórdís Þórisdóttir og Sigrún Þórisdóttir, námsráðgjafsnemar (97/075) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvernig forvarnarstarfi í 8. bekk grunnskóla sé hagað. Þátttakendur voru u.þ.b. 200 nemendur
og 60 kennarar. Gagna var aflað með spurningalistum. Engin persónuauðkenni skráð.

Sigrún Aðalbjarnardóttir (97/007) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á árangri af forvarnarstarfi S.Á.Á. í
tengslum við vímuefnaneyslu unglinga. Þátttakendur voru annars vegar nemendur í 8.-10. bekk á Akranesi, Egilsstöðum, Húsavík,
Mosfellsbæ og Vestmannaeyjum, þar sem forvarnarstarf fór fram og hins vegar á Ísafirði og Selfossi, þar sem forvarnarstarf fór ekki fram.
Gagna var aflað með spurningalistum sem lagður voru fyrir unglinga, foreldra og kennara. Öll gögn voru auðkennd með númerum, til að
endurtaka mætti könnunina að ári liðnu, en þeim skyldi eytt að úrvinnslu lokinni.

Sigrún Kristín Barkardóttir, hjúkrunarfræðingur (97/246) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á væntingum
nemenda í 6. og 10. bekk grunnskóla til skólahjúkrunarfræðinga. Þátttakendur voru 40-50 nemendur valdir með aðstoð skólastjóra og
kennara. Gagna var aflað með viðtölum sem voru hljóðrituð. Engin persónuauðkenni skráð.

Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/389) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna úttektar á
styrkveitingum úr kvennasjóði félagsmálaráðuneytisins frá árinu 1991. Notaðir voru spurningalistar til að kanna hvernig styrkirnir hefðu
nýst. Gögn voru nafnlaus og áskilið að ekki yrði unnt að rekja svör til einstaklinga.

Sigrún Klara Hannesdóttir, prófessor (97/001) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tengslum jólagjafahefðar
og bókaútgáfu fyrir börn. Þátttakendur voru 800 börn, 10, 12, 14 og 16 ára gömul, valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Könnunin var gerð
með símaviðtölum við öll börn í úrtakinu. Skyldi öllum gögnum eytt eigi síðar en í maí 1997.

Sigrún Hjartardóttir, sérkennari og Grétar L. Marinósson (97/051) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á
áhrifum markvissrar þjálfunar einhverfra barna á samskipti þeirra við leikfélaga. Þátttakendur voru 4 einhverf börn og leikfélagar þeirra,
valin með aðstoð og samþykki greiningarstöðvar ríkisins, BUGL og foreldra. Skyldi tryggt að ekki yrði unnt að rekja upplýsingar til
einstaklinga að rannsókn lokinni.

Sigrún Júlíusdóttir, dósent (97/299) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum lagaákvæðis um sameiginlega
forsjá, annars vegar á samvinnu foreldra og hins vegar á samskipti foreldra og barna. Hefðbundir persónuverndarskilmálar.

Sigrún Ólafsdóttir og Arnar Eggert Thoroddsen, félagsfræðinemar (97/393) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna
könnunar á vináttu karla og kvenna innbyrðis. Þátttakendur voru u.þ.b. 118 einstaklingar valdir með hentugleikaúrtaki af vinnustöðum
MHÍ og HÍ. Nafnlausir spurningalistar notaðir.

Svandís J. Sigurðardóttir, lektor og Þórarinn Sveinsson, doktor (97/104) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar
á heilsu, þreki og hreyfingu fólks á aldrinum 20-75 ára. Þátttakendur voru 1000-1200 manns, valdir af handahófi úr þjóðskrá.
Spurningalistar númeraðir en áskilið að greiningarlykli yrði eytt þegar að gagnasöfnun lokinni.

Tómas Helgason, læknir, Júlíus K. Björnsson, sálfræðingur og Kristinn Tómasson, læknir (97/398) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna könnunar á heilsutengdum lífsgæðum. Þátttakendur voru 2100 einstaklingar 20 ára og eldri, valdir með
lagskiptu slembiúrtaki úr þjóðskrá eftir kyni og í 10 ára aldursflokkum. Notaðir voru listar með spurningum varðandi lífsgæði,
atvinnuþátttöku, fötlun, sjúkdóma o.fl. Hvorki skráð nöfn né önnur auðkenni.

Trausti Hrafnsson og Valgeir Sigurðsson, sjúkraþjálfaranemar (97/150) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar
á líkamshlutföllum. Gagna aflað með mælingum á hæð, þyngd og hlutföllum bols, lærleggs og sköflungs hjá u.þ.b. 500 nemendum í
grunnskólum Reykjavíkur. Fyllsta trúnaðar gætt.

Trausti Þorsteinsson, framkvæmdastjóri (97/322) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á stöðu gistiþjónustu á
landsbyggðinni og rekstri sem henni tengist. Þátttakendur voru 107 aðilar sem ráku gistiþjónustu en voru ekki aðilar að SVG á suður- og
vesturlandi, valdir samkvæmt lista frá Samtökum ferðaþjónustubænda og skrá Hagstofu Íslands yfir einkarekna gistiþjónustu. Notaðir
voru auðkenndir spurningalistar.

Tryggingastofnun ríkisins (97/005) fékk framlengda þá heimild sem Tölvunefnd veitti stofnuninni þann 3. desember 1992 til að mega
tölvuskrá upplýsingar af tilteknum lyfseðlum og samtengja upplýsingar lyfjabúða við eigin skrár. Sjá nánar í kafla 3.11.

Verzlunarskóli Íslands (97/195) fékk heimild til að fá skrá Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála með kennitölum allra nemenda
í 10. bekk grunnskóla og að samkeyra hana við þjóðskrá Hagstofu Íslands, til að geta sent þessum nemendum bréf um
skipulagsbreytingar og annað sem tengdist starfi Verzlunarskólans. Skilyrði að listanum yrði eytt þegar að lokinni útsendingu umrædds
kynningarefnis.

Viðar Örn Eðvarðsson, læknir, Tjörvi E. Perry, læknanemi og Ásgeir Haraldsson, læknir (97/135) fengu heimild til að skrá
persónuupplýsingar vegna rannsóknar á þeim börnum sem á árunum 1986 til 1996 höfðu greinst á Landspítalanum og FSA með "pre-natal
hydroephrosis" og hvernig staðið hafi verið að "postnatal greiningu" og frekari meðferð. Skoðaðar voru sjúkraskrár allra þessara barna.
Allar upplýsingar skráðar undir rannsóknarnúmerum en pörun rannsóknarnúmers og kennitölu varðveitt á sérstakri skrá sem aðeins skyldi
vera aðgengileg þessum þremur læknum meðan á rannsókn stóð. Síðan skyldi henni eytt.

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/039) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þætti félagslegra aðstæðna,
vinnuaðstæðna og lífsstíls í dauðaslysum sjómanna sem ekki höfðu augljós tengsl við sjómennsku og ekki voru skráð sem slys á sjó. Var
heimilað að upplýsingar um látna menn yrðu sóttar í gögn skiptadeildar sýslumanns í Reykjavík og úr þeim safnað upplýsingum um hluta
af þeim atriðum sem í eldri heimild var miðað við að hann fengi hjá aðstandendum látinna sjómanna með notkun spurningalista.
Upplýsingum safnað úr dánarskrám sýslumanna og þeim skjölum sem dánarskrá vísar til varðandi viðkomandi, þ. á m. einkaskiptaleyfi,
búsetuleyfi og erfðafjárskýrslur ásamt fylgiskjölum. Heimild var m.a. bundin því skilyrði að nöfn og kennitölur einstakra manna yrðu
afmáðar af öllum frumgögnum þegar að gagnasöfnun lokinni. Setja mátti númer í þeirra stað þannig að unnt yrði að rekja upplýsingar til
einstakra sjómanna með notkun greiningarlykils, sem yrði varðveittur hjá Tölvunefnd.

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/042) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknnar á því hvort lindan (efni sem er
notað við böðun sauðfjár) sé krabbameinsvaldur Þátttakendur voru þeir sem, samkvæmt upplýsingum sveitarstjórna um allt land, höfðu
fengist við böðun á sauðfé. Var athugað hvort þessir menn hefðu, skv. gögnum Krabbameinsskrár, fengið krabbamein.
Viðmiðunarhópurinn var allir íslenskir karlar. Þá voru sveitastjórnarmenn, oddvitar, hreppsstjórar spurðir um vinnubrögð við böðun,
tíðleika baðanna og aðstæður við þessa vinnu. Heimiluð notkun kennitalna. Hefðbundnir skilmálar um trúnað.

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/130) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á tengslum asbests og illkynja
mesóþelíóma á tímabilinu 1955-1996. Þátttakendur voru allir sem greinst höfðu með illkynja mesóþelíóma skv. upplýsingum
Krabbameinsskrár. Gögn voru annars vegar sótt í vefjasýnasafn Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði (svok. Dungalssafn) og hins
vegar í dánarmeinaskrá Hagstofu Íslands. Heimild var bundin því skilyrði að þegar að lokinni samkeyrslu skráa yrði eytt öllu því sem gerði
kleift að rekja upplýsingar til einstaklinga.

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/395) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á dánarmeinum og krabbameini
bókagerðarmanna. Þátttakendur voru bókagerðarmenn skv. lista menntamálaráðuneytisins um alla skráða sveina í iðninni, lista um
bókagerðarmenn frá prentsmiðjunni Odda sem gaf út Stéttartal bókagerðarmanna, lista frá Sameinaða lífeyrissjóðnum og félagatali
bókagerðarmanna (alls 2000 - 2500 manns). Gagna var aflað með skoðun og samanburði á upplýsingum um þessa menn skv.
dánarmeinaskrá og krabbameinsskrá. Skyldi öllum persónuauðkennum eytt að rannsókn lokinni.

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/396) fékk heimild til aðgangs að persónuupplýsingum vegna rannsóknar á slysum og slysabótum.
Gagna var aflað hjá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem skráð eru um 1500 - 2500 slys á ári. Verkefnið fólst í að samræma greiningu á
slysavottorðum og útreikningi á nýgengi áverka eftir aldri, kyni og búsetu slasaðra. Upplýsingar um bætur og örorkuúrskurði voru
tengdar persónulegum upplýsingum en öllum persónuauðkennum skyldi eytt að rannsókn lokinni.

Þjóðminjasafn Íslands (97/285) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna heimildarsöfnunar þjóðháttardeildar safnsins um
náttúruhamfarir. Notaðir voru spurningalistar, annars vegar listar fyrir fasta heimildarmenn deildarinnar og hins vegar 500 menn, eldri en
70 ára, sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Heimilað var að gögn yrðu varðveitt með auðkennum og áskilið að um meðferð þeirra færi
eftir reglum um tilvísanir í heimildasafn þjóðháttardeildar safnsins.

Þorbjörg Ásdís Árnadóttir, Auðbjörg Geirsdóttir, Fjóla Valborg Stefánsdóttir, Hulda Rafnsdóttir og Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir,
hjúkrunarfræðinemar (97/062) fengu heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu foreldra fatlaðra barna á
aldrinum 6-10 ára af samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Foreldrar voru valdir með aðstoð og milligöngu fagmanna, þar á meðal
sérkennslufulltrúa, Þroskahjálpar og sérfræðinga á Greiningarstöð ríkisins. Gagnasöfnun fór fram með viðtölum sem voru hljóðrituð og
síðan vélrituð. Farið var með öll gögn sem trúnaðarmál og þeim eytt að úrvinnslu lokinni.

Þorbjörn Broddason, prófessor (97/085) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á notkun barna og unglinga á
sjónvarpi. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr hópi nemenda í skólum í Reykjavík, á Akureyri og í Vestmannaeyjum.
Spurningalistar lagðir fyrir nemendur að fengnu samþykki foreldra og skólayfirvalda. Öllum persónuauðkennum eytt að gagnasöfnun
lokinni.

Þorvaldur Ingvarsson, bæklunarskurðlæknir (97/213) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á algengi slitgigtar í
mjöðmum. Þátttakendur voru þeir sem höfðu gengist undir rtg-mynd af ristli á FSA, Domus Medica, Sjúkrahúsinu á Húsavík og á
Sauðárkróki á árunum 1987-1996. Umræddar röntgenmyndir voru skoðaðar og skráðar niður ýmsar upplýsingar um það sem á þeim kom
fram. Áskilið að þegar að gagnasöfnun lokinni yrði nöfnum og kennitölum eytt af öllum gögnum svo eftir stæðu aðeins upplýsingar um
kyn og aldur.

Þorvaldur Ingvarsson, bæklunarskurðlæknir (97/213) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni
gerviliðaaðgerða. Þátttakendur voru allir sem höfðu farið í gerviliðaaðgerðir á mjöðm og hnjám á árunum 1980-1996 og upplýsingum um þá
safnað frá bæklunardeildum ýmissa sjúkrahúsa. Áskilið var að þegar að gagnasöfnun lokinni yrði nöfnum og kennitölum eytt af öllum
gögnum þannig að eftir stæðu aðeins upplýsingar um kyn og aldur.

Þórarinn Gíslason, læknir (97/206) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tengslum milli ástands einstaklings
við fæðingu og þess að hann fái síðar ofnæmi eða astma. Með aðstoð erfðafræðinefndar voru fundin nöfn foreldra þátttakenda í eldri
rannsókn (sem bar heitið Lungu og heilsa) og var upplýsingum um alla safnað úr gömlum ljósmæðrabókum. Þá var bætt inn upplýsingum
um astma og ofnæmi. Öllum persónuupplýsingum var eytt úr skránni og niðurröðun hennar breytt á tilviljunarkenndan hátt svo ekki yrði
unnt að þekkja ákveðna einstaklinga.

Þórarinn Gíslason, lungnalæknir, Bryndís Benediktsdóttir, heimilislæknir og Kristinn Tómasson, geðlæknir (97/304) fengu heimild
til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á svefni og heilsu fimmtugra kvenna. Öllum konum á höfuðborgarsvæðinu, fæddum árið
1947, voru sendir listar með spurningum um svefnleysi, öndunartruflanir og heilsufar. Skyldu nöfn eða önnur persónuauðkenni hvergi
koma fram í úrvinnslugögnum.

Þórarinn Tyrfingsson, Guðbjörn Björnsson, Kristleifur Kristjánsson og Kári Stefánsson (96/298) fengu heimild til að vinna, í samstarfi
við Íslenska erfðagreiningu hf., rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að áfengissýki. Heimildin var bundin ýmsum skilyrðum sem
tryggja áttu nafnleynd, m.a. skilmálum um eftirlit tilsjónarmanna og sérstakt vinnuferli sem átti að tryggja að ekki yrði, á
rannsóknarstofunni, unnt að rekja gögn til einstakra manna. Þessari heimild var breytt 1998 og nýir skilmálar settir um vinnuferli. Verða því
gerð skil í ársskýrslu 1998.

Þórdís Kristjánsdóttir, grunnskólakennari (97/429) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum markvissrar
lestrarþjálfunar á leshraða og lesskilning nemenda í 5. bekk. Þátttakendur voru u.þ.b. 50 nemendur í Sólvallaskóla á Selfossi og grunnskóla
Stokkseyrar. Gagna var bæði aflað með raddlestrarprófum og með athugun á frammistöðu nemenda á samræmdu skólaprófi í 4. bekk. Nöfn
voru skráð meðan á rannsókn stóð en þeim eytt þegar að henni lokinni. Áskilnaður settur um samþykki foreldra.

Þórólfur Jónsson, laganemi (97/238) fékk leyfi til að kynna sér og vinna úr gögnum Fangelsismálastofnunar um lengd dæmdrar
refsivistar og afplánunar einstakra fanga í fangelsum á hennar vegum. Strangir skilmálar settir um trúnað og meðferð gagna.

Þórólfur Þórlindsson (95/229) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á atvinnuleysi ungs fólks. Um var að ræða
seinni hluta rannsóknar á þessu viðfangsefni. Gagna var meðal annars aflað með viðtölum en nöfnum og öðrum auðkennum breytt.
Upptökum eytt að afritun lokinni.

Þórunn Sævarsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/168) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tilfinningalíðan og
sálfélagslegri aðlögun maka kvenna sem fengu meðferð við brjóstakrabbameini. Þátttakendur voru 20 makar kvenna sem að á
rannsóknartímabilinu fengu slíka meðferð á göngudeild, geisladeild og legudeild krabbameinslækningadeildar Landspítalans og deild A-7
og dagdeild krabbameinsdeildar SHR. Notaðir voru spurningalistar og varðveisla heimiluð í 2 ár.

Þröstur Björgvinsson (97/225) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar í tengslum við gerð íslenskrar þýðingar á bandarísku
persónuleikaprófi sem gefa átti mynd af áhrifum sálarástands og persónuleika á lausn mismunandi verkefna. Þátttakendur voru rúmlega
1000 manns á aldrinum 17-65 ára valdir með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Áskilið að spurningalistar yrðu hvorki með númerum né öðrum
auðkennum sem rekja mætti til einstakra þátttakenda.

3.2. Kannanir sem voru framkvæmdar með þeim hætti að Tölvunefnd taldi ákvæði laganna ekki taka til þeirra og því ekki standa gerð þeirra í vegi.

Anna Sigríður Sigurgeirsdóttir, Ástbjörg Jónsdóttir, Bergþóra Hrund Ólafsdóttir, Jóhanna Guðmundsdóttir, Linda Björk Árnadóttir
og Magnea Rán Guðlaugsdóttir, nemar (97/146). Símakönnun fyrir útvarpsstöðina FM 95,7 um viðhorf til útvarps.

Anna Sigríður Sigurgeirsdóttir, nemi o.fl. (97/329). Könnun á kexmarkaðnum á Íslandi.

Ari Jaakko Nyysti og Guðrún K. Steingrímsdóttir, tannlæknar (97/153). Könnun á skoðunum og viðhorfum unglinga til tanna og
tannheilsu.

Ása Sig. Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur, Þórir Þórðarson, framkvæmdastjóri og Magnús Brynjólfsson, héraðsdómslögmaður
(97/182). Könnun á viðhorfum nemenda og foreldra til skólastarfs Grandaskóla.

Áshildur Kristjánsdóttir, Hjördís Jóhannesdóttir og Ólöf Másdóttir, hjúkrunarfræðinemar (97/189). Könnun á viðhorfum
hjúkrunarfræðinga til hjúkrunarrannsókna og nýtingu rannsóknarniðurstaðna í starfi hjúkrunarfræðinga.

Dagvist barna (97/069). Könnun sem ætlað var að meta stöðuna í leikskólamálum á í Reykjavík.

Dagvist barna (97/190). Könnun á viðhorfum starfsmanna Dagvistar barna til stefnu um að móta áherslur starfsmanna og til
fræðslustefnu.

Bjarni P. Harðar, forstöðumaður (97/186). Könnun á viðhorfum íbúa á Eyjafjarðarsvæðinu til stóriðju.

Bjarni P. Harðar, forstöðumaður (97/378): a) Markaðskönnun fyrir Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar í samvinnu við Íslenskan lax hf. b)
Markaðskönnun fyrir Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar í samvinnu við Kexsmiðjuna ehf. á Akureyri

Gestur Guðmundsson, háskólakennari (97/170). Könnun á árangri af aðstoð Hins Hússins við ungt fólk í atvinnuleit.

Hallgrímur Geir Gylfason og Númi Arnarson, nemar (97/033). Könnun á ýmsum atriðum sem tengjast eðlis- og efnafræðikennslu í 8. og
9. bekk grunnskóla.

Jakob Smári, doktor (97/079). Könnun á mati barna í 7. og 9. bekkjum grunnskóla í Kópavogi á feimni og félagskvíða.

Jakob Smári, doktor (97/100). Könnun á mati barna í 7. og 9. bekkjum grunnskóla í Reykjavík og nágrenni á félagskvíða og
uppeldisháttum.

Jakob Smári, doktor (97/128). Könnun meðal þeirra sem sækja AA-fundi og meðferð á sjúkrastöðinni Vogi á kvíða, þunglyndi og
varnarviðbrögðum.

Karl Steinar Valsson, afbrotafræðingur, Geir Jón Þórisson og Ágúst Mogensen (97/021). Könnun á viðhorfum íbúa í Breiðholti til
starfs lögreglu og til ýmissa afbrotamálefna.

Kolbrún Björnsdóttir og María Dóra Björnsdóttir, sálfræðinemar (97/133). Könnun á hegðunarvandkvæðum barna í 3. og 4. bekk
grunnskóla.

Kristín Pétursdóttir, viðskiptafræðinemi (97/192). Könnun á barnabókamarkaði á Íslandi og viðhorfum mæðra barna fæddra á tímabilinu
1992-1994.

Lára Valgerður Emilsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/320). Könnun á því að hve miklu leyti "endortracheal sog" er framkvæmt í
samræmi við rannsóknarniðurstöður á Dÿkzigt-sjúkrahúsinu í Rotterdam, á Landspítalanum og á Sjúkrahúsi Reykjavíkur.

Margrét Rós Jósefsdóttir og Ragnheiður Ólafsdóttir, kennaraháskólanemar (97/346). Könnun á kennsluháttum í landafræði í efri
bekkjum grunnskóla.

Ragnhildur Helgadóttir, nemi (97/173). Könnun á ljóðakennslu í efsta bekk grunnskóla 1996-1997.

Sigurður Grétar Sigurðsson, nemi (97/151). Könnun á viðhorfum hjá söfnuði Grafarvogskirkju til tiltekinna þátta í kirkjulegustarfi.

Sólveig Jakobsdóttir, verkefnisstjóri (97/233). Könnun á þjónustu íslenska menntanetsins við íslenskar stofnanir.

Stefán G. Jónsson, dósent og Stefán Bergmann, lektor (97/084). Könnun á viðhorfum nemenda í 8. bekk í skólum á Eyjafjarðar- og
Reykjavíkursvæðinu til vísinda og vísindamanna og hvernig þau eru í samanburði við viðhorf nemenda í ýmsum öðrum löndum.

Svafa Grönfeldt (97/408). Viðhorfskönnun á starfsánægju, þjónustuvilja, árangursmati þjálfunar, samskiptum og afstöðu til bónuskerfis
meðal starfsmanna á 18 bensínstöðvum Skeljungs hf.

Þóra Björk Jónsdóttir, kennslufulltrúi (97/015). Könnun á því hverjar og hvers eðlis þarfir og hugmyndir kennara fámennra skóla séu
varandi stuðning í starfi.

Þórólfur Þórlindsson (97/088). Könnun á högum og líðan íslenskra ungmenna.

3.3. Starfsleyfi sem gefin voru út.

3.3.1. Starfsleyfi skv. 15. gr. til að annast söfnun og skráningu upplysinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust.

3.3.1.1. Lánstraust ehf. (96/227) fékk leyfi (endanl. útg. 17. nóvember 1997) til að annast söfnun og skráningu upplýsinga
varðandi fjárhagsmálefni í því skyni að meta lánshæfi og fjárhagslegan styrk aðila og miðla þeim upplýsingum á innlendum
og erlendum markaði. Starfsleyfið heimilaði söfnun og miðlun tiltekinna fjárhagsupplýsinga um einstaklinga og
lögpersónur. Auk upplýsinga um nöfn, heimili og kennitölur var fyrirtækinu heimilað að safna og miðla upplýsingum um
vanskil, skv. því sem nánar greinir í starfsleyfinu, og upplýsingum um aðild að hlutafélögum og einkahlutafélögum, sem
orðið höfðu gjaldþrota, sbr. sérst. ákvæði í starfsleyfinu. Starfsleyfið heimilaði söfnun upplýsinganna í eitt miðlægt
gagnasafn og miðlun þeirra innan lokaðs hóps áskrifenda að safninu. Starfsleyfið tók hvorki til útgáfu upplýsingarita um
vanskil ("svartra lista") né til útgáfu skýrslna um lánshæfi ("credit-rating"). Skilmálar starfleyfisins eru þessir:

"1. gr.
Söfnun upplýsinga.
Starfsleyfishafi má safna upplýsingum með tvenns konar hætti:
a. Frá áskrifendum.
Frá áskrifendum má safna upplýsingum um skuldir, sem eru a.m.k. kr. 20.000,- að höfuðstóli, enda hafi starfleyfishafi fengið
óyggjandi skrifleg gögn um tilvist skuldarinnar og um að :
a.1. skuldari hafi skriflega gengist við því fyrir kröfuhafa (áskrifanda) að
skuldin sé í gjalddaga fallin, eða
a.2. skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með aðfararhæfri sátt, eða
a.3. skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun skv. 7. gr. laga nr.
90/1989 og frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn, eða
a.4. skuldari verið dæmdur til að greiða skuldina
b. Úr almennt aðgengilegum skrám.
Safna má úr almennt aðgengilegum skrám eftirtöldum upplýsingum:
b.1. Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á
stefnur, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991, í málum þar sem stefndi hefur ekki mætt við
þingfestingu máls eða þingsókn hefur síðar fallið niður af hans hálfu. Upplýsingar má aðeins
skrá ef um er að ræða skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem nema a.m.k. kr.
20.000,- að höfuðstól hver skuld.
b.2. Upplýsingum um framkvæmd fjárnám, skv. skrám þeim sem sýslumenn halda um það
efni, sbr. ákvæði 4. gr., 6. og 10. tl., reglugerðar nr. 17/1992. Upplýsingar má skrá um öll
árangurslaus fjárnám en um fjárnám með árangri því aðeins að fjárhæð fjárnámskröfu nemi
a.m.k. kr. 20.000,- .
b.3. Upplýsingum um nauðungarsölur, þegar byrjun uppboðs hefur verið auglýst í
dagblöðum, landsmálablöðum eða á annan samsvarandi hátt, skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr.
90/1991.
b.4. Upplýsingum um töku búa til gjaldþrotaskipta, sem fengnar eru í skrám þeim, sem
héraðsdómstólar halda, sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 226/1992, og upplýsingum um
skiptalok og innkallanir, skv. auglýsingum í Lögbirtingablaðinu.
b.5. Upplýsingum um innkallanir skiptastjóra, sem birtar hafa verið í Lögbirtingarblaðinu,
skv. 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
b.6. Upplýsingum frá hlutafélagaskrá um stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra
hlutafélaga og einkahlutafélaga sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota s.l. fjögur ár.
Einungis má safna og miðla upplýsingum um stofnendur hafi umrætt félag verið úrskurðað
gjaldþrota á innan við þremur árum frá því að það var stofnað. Þá er óheimilt að miðla
upplýsingum um aðra einstaklinga en þá sem staðið hafa að tveimur eða fleiri slíkum
félögum.

2. gr.
Miðlun upplýsinga

Starfsleyfishafi má miðla þeim upplýsingum, sem hann skráir skv. 1. gr. hér að framan, með beinlínutengingu, til lokaðs
hóps áskrifenda að gagnasafninu, með þeim skilyrðum sem að neðan greinir:

a. Upplýsingar frá áskrifendum:
Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi fær frá einum áskrifanda (skv. a - hluta 1. gr.) má hann aðeins miðla til annarra
áskrifenda upplýsingum um nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort vanskil séu fyrir hendi. Ekki má miðla
upplýsingum um fjárhæðir vanskila. Taka skal fram frá hvaða áskrifanda viðkomandi upplýsingar koma, t.d. með því að
hafa aðgengilega skrá um alla þá sem senda inn tilkynningar og eru áskrifendur að þjónustunni.
b. Upplýsingar úr opinberum skrám:
Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum skrám (skv. lið b í 1. gr.) má hann aðeins miðla upplýsingum
um nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort um sé að ræða upplýsingar um dóm, áritun á stefnu, framkvæmt fjárnám,
byrjun nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti, skiptalok, aðild að gjaldþrota hlutafélögum og einkahlutafélögum. Fjárhæða skal
aldrei getið. Taka skal fram, eftir því sem við á, frá hvaða dómstóli eða sýslumannsembætti viðkomandi upplýsingar eru
fengnar og sé upplýsingum ekki safnað frá öllum sýslumannsembættum og héraðsdómstólum landsins skal þess
sérstaklega getið.

3. gr.
Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða er koma fram í V. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum, sem
Tölvunefnd kann að setja á hverjum tíma um meðferð gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

4. gr.
Starfsleyfishafa er einungis heimilt að skrá upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og
lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplýsingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laga nr.
121/1989.

5. gr.
Óheimilt er að skrá eða miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni sem eldri eru en fjögurra ára. Eyða skal jafnharðan úr skrám
upplýsingum sem verða eldri en fjögurra ára. Upplýsingar um töku búa til gjaldþrotaskipta má þó varðveita þar til birt er
auglýsing um skiptalok þess bús.

6. gr.
Ef um er að ræða upplýsingar sem starfsleyfishafi hefur fengið frá einum áskrifanda (þ.e. ekki uppl. úr opinberum skrám) ber
honum að skýra skráðum aðila, sem í fyrsta skipti er tekinn á skrá, frá því innan fjögurra vikna frá skráningu. Í tilkynningu
þessari skal þess getið hvaða upplýsingar hafa verið skráðar um viðkomandi og honum gefinn kostur á að gera við það
athugasemdir innan tiltekins frests. Skal sá frestur að lágmarki vera tvær vikur frá móttöku tilkynningar.

Starfsleyfishafa er óheimilt að birta nafn tiltekins aðila á skrá sinni eða miðla þeim með öðrum hætti nema hann hafi fyrst
tilkynnt viðkomandi aðila um það skriflega.

7. gr.
Telji aðili að upplýsingar um hann séu skráðar skv. starfsleyfi þessu er starfsleyfishafa skylt, að kröfu aðila, að skýra
honum frá því sem þar er skráð, sbr. 18. gr. laga nr. 121/1989, og þeim upplýsingum sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér
fara á síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda. Ber starfsleyfishafa að skýra honum frá þessum upplýsingum sem
fyrst og eigi síðar en innan tveggja vikna frá því að krafa kom fram. Beiðandi getur gert kröfu til þess að fá skriflegt svar.

8. gr.
Ef starfsleyfishafi hefur í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skv. 5. tl., er honum
skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér
efni skrár af eigin raun.

9. gr.
Upplýsingar skv. starfsleyfi þessu skal láta áskrifendum í té með beinlínutengingu við skrána. Þegar fastir viðskiptavinir
eiga í hlut er þó jafnframt heimilt að veita almennar upplýsingar munnlega eða bréflega. Skal nafn og heimilisfang
fyrirspyrjanda ávallt skráð og gögn um það varðveitt í a.m.k. sex mánuði. Skal þess gætt að viðhafa nauðsynlegar
öryggisráðstafanir til að fyrirbyggja að áskrifendur geti afritað skrána, samtengt hana við aðrar skrár eða unnið með hana á
nokkurn hátt. Hvorki er heimilt að afhenda skrána í heild sinni eða að hluta til, hvort heldur er útprentaða eða á tölvutæku
formi.

10. gr.
Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 20., sbr. 14. gr.
laga nr. 121/1989.

11. gr.
Óheimilt er að miðla upplýsingum um nafn aðila ef starfleyfishafa er kunnugt um að viðkomandi krafa hafi verið greidd eða
henni komið í skil með öðrum hætti. Á þetta við hvort heldur um er að ræða upplýsingar sem safnað hefur verið úr
opinberum skrám eða frá áskrifendum.

Sýni aðili starfsleyfishafa fram á að umrædd krafa hafi verið að fullu greidd, eða henni komið í skil með öðrum hætti, er
starfsleyfishafa þ.a.l. óheimil öll frekari birting nafns þess aðila í skránni.

Það skal vera skilyrði áskriftar (og þar með þess að fá senda starfsleyfishafa upplýsingar um vanskil) að viðkomandi
áskrifandi skuldbindi sig til að tilkynna um greiðslu skuldar þegar í stað til leyfishafa. Skal í samningi um áskrift tekið fram
að áskrifandi beri ábyrgð á að slíkar upplýsingar berist starfsleyfishafa svo ekki verði á skránni upplýsingar um aðila nema
hann sé í vanskilum við annan áskrifanda.

12.
Gegn greiðslu endurgjalds er starfsleyfishafa skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem
starfsleyfishafinn hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Endurgjald þetta má eigi vera hærra en sem nemur því
endurgjaldi sem opinberar stofnanir taka í endurrits eða ljósritunarkostnað, sbr. reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs.

13.
Upplýsingum þeim sem safnað er skv. lið b.5. í b-hluta 1. gr. I. kafla skal haldið aðskildum frá öðrum upplýsingum þannig
að ókleift verði fyrir áskrifendur að skoða þær á sama tíma og aðrar upplýsingar. Þá skal taka fram í áskriftarsamningi að
komi til þess að áskrifandi synji um lánveitingu vegna upplýsinga úr þessari skrá skuli hann greina viðkomandi frá þeirri
ástæðu og jafnframt greina frá heimild viðkomandi til að fá að vita hvaða upplýsingar séu um hann færðar í skrár
starfsleyfishafa.

14.
Upplýsingar um skuldastöðu manna má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu
annars en þess er upplýsingar varðar.

15.
Láti starfsleyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum skal það aðeins gert hjá þeim sem fengið hafa til þess
starfsleyfi samkvæmt 25. gr. laga nr. 121/1989.

16.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989 er eigi heimilt að tengja saman skrár sem falla undir ákvæði þeirra laga nema sérstök
heimild frá Tölvunefnd liggi fyrir.

17.
Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara,
og skal hann undirrita heit um þagnarskyldu.

18.
Upplýsingagjöf samkvæmt starfsleyfi þessu mega einungis annast þeir starfsmenn Lánstrausts ehf. sem sérstaklega verða
til þess valdir og Tölvunefnd tilkynnt um.

19.
Tölvunefnd og starfsmenn með hennar umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur starfsleyfishafa, tækjabúnað og
vinnubrögð, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 121/1989.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að senda á starfsstöð starfsleyfishafa eftirlitsaðila til að kanna hvort framkvæmd skráningar
og miðlun upplýsinga fari fram með þeim hætti sem mælt er fyrir í starfsleyfi þessu. Skal slíkt eftirlit framkvæmt á kostnað
starfsleyfishafa.

Starfsleyfishafi skal tilkynna Tölvunefnd ársfjórðungslega, fyrst í byrjun janúar 1998, um hve margir hafi aðgang að skrám
hans og hverjir það eru, hve margir einstaklingar og fyrirtæki séu á skrám og hve mikið sé skráð af hverri tegund
upplýsinga.

20.
Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfið eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila
krefjast þess.

21.
Starfsleyfi þetta gildir til 1. júlí 1998."3.3.1.2. Landssamtök sláturleyfishafa (97/160) fengu leyfi til að safna og miðla upplysingum um fjárhagsmálefni og
lánstraust einstaklinga og lögaðila með eftirfarandi skilmálum:

a. Að sláturleyfishafar, sem eru félagar í Landssamtökum sláturleyfishafa, skrái upplýsingar um þá viðskiptamenn þeirra
sem sýnt hafa af sér slík vanskil á greiðslu vörukaupa að komið sé fram yfir eðlilegan greiðslutíma að undangenginni
ítrekun. Þær upplýsingar sem þeir mega skrá og senda landssamtökunum eru: Nöfn, heimilisföng, kennitölur og hvort um
vanskil hafi orðið að ræða (ekki um fjárhæðir vanskila).

b. Landssamtökin mega safna upplýsingunum frá sláturleyfishöfunum á einn lista, en sláturleyfishafar hvorki fá listann í
hendur né fá beinan uppflettiaðgang að listanum í heild sinni, heldur aðeins aðgang með þeim hætti að geta haft samband
við skrifstofu samtakanna og fengið upplýsingar um hvort kennitala viðskiptamanns sé á listanum. Starfsleyfið er háð
eftirtöldum skilyrðum:

"1.

Starfsleyfishafi skal fylgja þeim skilyrðum, sem Tölvunefnd kann að setja á hverjum tíma um meðferð gagna,
öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

2.

Starfsleyfishafa er einungis heimilt að skrá upplýsingar, sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og
lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplýsingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laga nr.
121/1989.

3.

Óheimilt er að skrá eða miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni sem eldri eru en fjögurra ára.

4.

Aldrei má færa nafn tiltekins aðila í þá skrá sem haldin er skv. starfsleyfi þessu nema honum hafi áður verið send um það
tilkynning og honum gefinn kostur á að gera við það athugasemdir innan tiltekins frests, sbr. 2. mgr. 17. gr.. Skal sá frestur
að lágmarki vera tvær vikur frá móttöku tilkynningar. Í tilkynningu þessari skal þess getið hvaða upplýsingar verði skráðar
um viðkomandi. Þá skal þar einnig vakin athygli á rétti viðkomandi til þess að fá rangar og villandi upplýsingar leiðréttar og
á möguleikum hans til þess að bera ágreining í þeim efnum undir Tölvunefnd.

5.

Telji aðili, að upplýsingar um hann séu skráðar skv. starfsleyfi þessu er starfsleyfishafa skylt, að kröfu aðila, að skýra
honum frá því, sem þar er skráð, sbr. 18. gr. laga nr. 121/1989, og því mati sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér fara á
síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda. Ber starfsleyfishafa að skýra honum frá þessum upplýsingum sem fyrst og
eigi síðar en innan tveggja vikna frá því að krafa kom fram. Beiðandi getur gert kröfu til þess að fá skriflegt svar.

6.

Ef starfsleyfishafi hefur í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær, sem beiðni lýtur að skv. 5. tl., er honum
skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér
efni skrár af eigin raun.

7.

Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 20., sbr. 14. gr.
laga nr. 121/1989.

8.

Gegn greiðslu endurgjalds er starfsleyfishafa skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum, sem
starfsleyfishafinn hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Endurgjald þetta má eigi vera hærra en sem nemur því
endurgjaldi, er opinberar stofnanir taka í endurrits eða ljósritunarkostnað, sbr. reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs.

9.

Láti starfsleyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum, skal það aðeins gert hjá þeim, sem fengið hafa til þess
starfsleyfi samkvæmt 25. gr. laga nr. 121/1989.

10.

Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara,
og skal hann undirrita heit um þagnarskyldu og senda Tölvunefnd innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis þessa.

11.

Upplýsingagjöf samkvæmt starfsleyfi þessu mega einungis annast þeir starfsmenn Landssamtaka sláturleyfishafa sem
sérstaklega verða til þess valdir og Tölvunefnd tilkynnt um.

12.

Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur starfsleyfishafa, tækjabúnað og
vinnubrögð, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 121/1989.

13.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfið eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila
krefjast þess.

14.

Starfsleyfi þetta gildir til 1. janúar 2000."3.3.1.3. Icecredit-Info, Jóhann Þorvarðarson (97/008) fékk leyfi til safna upplýsingum varðandi fjárhagsmálefni og miðla
þeim upplýsingum á innlendum og erlendum markaði, með því að meta lánshæfi einstaklinga og lögaðila og gefa út um það
skýrslur. Starfsleyfið leyfir honum að gefa út, samkvæmt fyrirliggjandi beiðni, skýrslur um lánshæfiflokkun (credit rating
reports), "fyrirtækjaskýrslur" (credit reports) og aðrar sambærilegar skýrslur um mat á því hvaða líkur eru á að tiltekinn aðili
geti staðið við mögulegar greiðsluskuldbindingar. Þá var honum og heimilað að gefa út, skv. fyrirliggjandi beiðni, umsögn
um styrkleika úgefinna verðbréfa. Starfsleyfið heimilar ekki útgáfu upplýsingarita um fjárhagsmálefni og lánstraust
("vanskilaskrá") samkvæmt 19. gr. laga nr. 121/1989, hvorki á pappír né á tölvutæku formi. Starfsleyfið er háð eftirtöldum
skilyrðum:

"1.Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða er koma fram í V. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum sem
Tölvunefnd kann að setja á hverjum tíma um meðferð gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

2.

Starfsleyfishafa er einungis heimilt að skrá upplýsingar, sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og
lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplýsingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laga nr.
121/1989.

3.

Óheimilt er að skrá eða miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni og lánstraust sem eldri eru en fjögurra ára.

4.

Án þess að skýra hinum skráða frá því er óheimilt að skrá aðrar upplýsingar en nafn manns eða fyrirtækis, heimilisfang,
kennitölu, fyrirtækjanúmer, stöðu og atvinnu eða aðrar upplýsingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám.

5.

Ef önnur atriði en þau, sem greind eru í 4. tl. hér að framan, eru tekin á skrá, ber starfsleyfishafa að skýra skráðum aðila, sem
í fyrsta skipti er tekinn á skrá, frá því innan fjögurra vikna frá skráningu og greina honum frá heimild sinni til þess að fá
skýrslu um efni skráningar, sbr. 18. gr. laga nr. 121/1989.

6.

Telji aðili að upplýsingar um hann séu skráðar skv. starfsleyfi þessu er starfsleyfishafa skylt, að kröfu aðila, að skýra
honum frá því sem þar er skráð og því mati sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér fara á síðustu sex mánuðum varðandi
hagi viðkomandi. Ber starfsleyfishafa að skýra honum frá þessum upplýsingum sem fyrst og eigi síðar en innan tveggja
vikna frá því að krafa kom fram. Beiðandi getur gert kröfu til þess að fá skriflegt svar.

7.

Ef starfsleyfishafi hefur í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skv. 6. tl., er honum
skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim. Jafnframt skal kynna hinum skráða rétt sinn til að kynna sér efni skrár af eigin raun.

8.

Upplýsingar skv. starfsleyfi þessu má aðeins láta öðrum í té skriflega, sbr. þó 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 121/1989. Þegar
fastir viðskiptavinir eiga í hlut er þó heimilt að veita almennar upplýsingar munnlega eða á annan svipaðan hátt, en nafn og
heimilisfang fyrirspyrjanda skal þá skráð og gögn um það varðveitt í a.m.k. sex mánuði.

9.

Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 20., sbr. 14. gr.
laga nr. 121/1989.

10.

Gegn greiðslu endurgjalds er starfsleyfishafa skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem
starfsleyfishafinn hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Endurgjald þetta má eigi vera hærra en sem nemur því
endurgjaldi, er opinberar stofnanir taka í endurrits- eða ljósritunarkostnað, sbr. reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs.

11.

Upplýsingar um skuldastöðu manna má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu
annars en þess er upplýsingar varða.

12.

Láti starfsleyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum, skal það aðeins gert hjá þeim, sem fengið hafa til þess
starfsleyfi samkvæmt 25. gr. laga nr. 121/1989.

13.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989 er eigi heimilt að tengja saman skrár, sem falla undir ákvæði þeirra laga, nema sérstök
heimild frá Tölvunefnd liggi fyrir.

14.

Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara,
og skal hann undirrita heit um þagnarskyldu.

15.

Starfsleyfishafi skal hlýta öllum reglum og fyrirmælum Tölvunefndar sem settar hafa verið og settar kunna að verða um
vörslu gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

16.

Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur starfsleyfishafa, tækjabúnað og
vinnubrögð, sbr. 31., 32. og 33. gr. laga nr. 121/1989.

17.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða
lögaðila krefjast þess. Starfsleyfi þetta er óframseljanlegt.

18.

Starfsleyfi þetta gildir til 1. júlí 1998."

3.3.1.4. Upplýsingaþjónustan ehf., Agnar Kofoed-Hansen (96/062) fékk leyfi til að annast söfnun og miðlun upplýsinga
sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögpersóna. Starfsleyfishafi má, auk upplýsinga um nafn, heimili
og kennitölur, safna upplýsingum um vanskil einstaklinga og fyrirtækja í gagnasafn og miðla þeim innan lokaðs hóps
áskrifenda að því gagnasafni. Starfsleyfið heimilar ekki útgáfu skýrslna um lánshæfi ("credit-rating"). Starfsleyfishafi má
safna upplýsingum með tvenns konar hætti:

a. Frá áskrifendum.

Frá áskrifendum má safna upplýsingum um skuldir, sem eru a.m.k. kr. 20.000,- að höfuðstóli, enda hafi starfleyfishafi fengið
óyggjandi skrifleg gögn um tilvist skuldarinnar og um að :

a.1. skuldari hafi skriflega gengist við því fyrir kröfuhafa (áskrifanda) að skuldin sé í gjalddaga fallin, eða

a.2. skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með aðfararhæfri sátt, eða

a.3. skuldari verið dæmdur til að greiða skuldina.

b. Úr almennt aðgengilegum skrám.

Safna má úr almennt aðgengilegum skrám eftirtöldum upplýsingum:

b.1. Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á
stefnur, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991, í málum þar sem stefndi hefur ekki mætt við
þingfestingu máls eða þingsókn hefur síðar fallið niður af hans hálfu. Upplýsingar má aðeins
skrá ef um er að ræða skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem nema a.m.k. kr.
20.000,- að höfuðstól hver skuld.

b.2. Upplýsingum um framkvæmd fjárnám, skv. skrám þeim sem sýslumenn halda um það
efni, sbr. ákvæði 4. gr., 6. og 10. tl., reglugerðar nr. 17/1992. Upplýsingar má skrá um öll
árangurslaus fjárnám en um fjárnám með árangri því aðeins að fjárhæð fjárnámskröfu nemi
a.m.k. kr. 20.000,- .

b.3. Upplýsingum um nauðungarsölur, þegar byrjun uppboðs hefur verið auglýst í
dagblöðum, landsmálablöðum eða á annan samsvarandi hátt, skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr.
90/1991.

b.4. Upplýsingum um töku búa til gjaldþrotaskipta, sem fengnar eru í skrám þeim, sem
héraðsdómstólar halda, sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 226/1992."Starfsleyfið heimilaði miðlun skráðra upplýsinga með beinlínutengingu, til lokaðs hóps áskrifenda að gagnasafninu, með
eftirtölum skilyrðum:

a. Upplýsingar frá áskrifendum:

Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi fær frá einum áskrifanda (skv. 1. tl.) má hann aðeins miðla til annarra áskrifenda
upplýsingum um nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort vanskil séu fyrir hendi. Ekki má miðla upplýsingum um
fjárhæðir vanskila. Taka skal fram frá hvaða áskrifanda viðkomandi upplýsingar koma, t.d. með því að hafa aðgengilega
skrá um alla þá sem senda inn tilkynningar og eru áskrifendur að þjónustunni.

b. Upplýsingar úr opinberum skrám:

Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum skrám (skv. 1. tl.) má hann aðeins miðla upplýsingum um
nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort um sé að ræða upplýsingar um dóm, áritun á stefnu, framkvæmt fjárnám,
byrjun nauðungarsölu eða gjaldþrotaskipti. Fjárhæðar vanskila skal ekki getið. Taka skal fram frá hvaða dómstóli eða
sýslumannsembætti viðkomandi upplýsingar eru fengnar. Sé upplýsingum ekki safnað frá öllum sýslumannsembættum og
héraðsdómstólum landsins skal þess sérstaklega getið."Starfsleyfið er ennfremur bundið eftirfarandi almennum skilyrðum:

"1.

Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða er koma fram í V. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum, sem
Tölvunefnd kann að setja á hverjum tíma um meðferð gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

2.

Starfsleyfishafa er einungis heimilt að skrá upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og
lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplýsingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laga nr.
121/1989.

3.

Óheimilt er að skrá eða miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni sem eldri eru en fjögurra ára. Eyða skal jafnharðan úr skrám
upplýsingum sem verða eldri en fjögurra ára.

4.

Ef um er að ræða upplýsingar sem starfsleyfishafi hefur fengið frá einum áskrifanda (þ.e. ekki uppl. úr opinberum skrám) ber
honum að skýra skráðum aðila, sem í fyrsta skipti er tekinn á skrá, frá því innan fjögurra vikna frá skráningu. Í tilkynningu
þessari skal þess getið hvaða upplýsingar hafa verið skráðar um viðkomandi og honum gefinn kostur á að gera við það
athugasemdir innan tiltekins frests. Skal sá frestur að lágmarki vera tvær vikur frá móttöku tilkynningar.

Starfsleyfishafa er óheimilt að birta nafn tiltekins aðila á skrá sinni eða miðla þeim með öðrum hætti nema hann hafi fyrst
tilkynnt viðkomandi aðila um það skriflega.

5.

Telji aðili að upplýsingar um hann séu skráðar skv. starfsleyfi þessu er starfsleyfishafa skylt, að kröfu aðila, að skýra
honum frá því sem þar er skráð, sbr. 18. gr. laga nr. 121/1989, og þeim upplýsingum sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér
fara á síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda. Ber starfsleyfishafa að skýra honum frá þessum upplýsingum sem
fyrst og eigi síðar en innan tveggja vikna frá því að krafa kom fram. Beiðandi getur gert kröfu til þess að fá skriflegt svar.

6.

Ef starfsleyfishafi hefur í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skv. 5. tl., er honum
skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér
efni skrár af eigin raun.

7.

Upplýsingar skv. starfsleyfi þessu skal láta áskrifendum í té með beinlínutengingu við skrána. Þegar fastir viðskiptavinir
eiga í hlut er þó jafnframt heimilt að veita almennar upplýsingar munnlega eða bréflega. Skal nafn og heimilisfang
fyrirspyrjanda ávallt skráð og gögn um það varðveitt í a.m.k. sex mánuði. Skal þess gætt að viðhafa nauðsynlegar
öryggisráðstafanir til að fyrirbyggja að áskrifendur geti afritað skrána, samtengt hana við aðrar skrár eða unnið með hana á
nokkurn hátt. Hvorki er heimilt að afhenda skrána í heild sinni eða að hluta til, hvort heldur er útprentaða eða á tölvutæku
formi.

8.

Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 20., sbr. 14. gr.
laga nr. 121/1989.

9.

Óheimilt er að miðla upplýsingum um nafn aðila ef starfleyfishafa er kunnugt um að viðkomandi krafa hafi verið greidd eða
henni komið í skil með öðrum hætti. Á þetta við hvort heldur um er að ræða upplýsingar sem safnað hefur verið úr
opinberum skrám eða frá áskrifendum.

Sýni aðili starfsleyfishafa fram á að umrædd krafa hafi verið að fullu greidd, eða henni komið í skil með öðrum hætti, er
starfsleyfishafa þ.a.l. óheimil öll frekari birting nafns þess aðila í skránni.

Það skal vera skilyrði áskriftar (og þar með þess að fá senda starfsleyfishafa upplýsingar um vanskil) að viðkomandi
áskrifandi skuldbindi sig til að tilkynna um greiðslu skuldar þegar í stað til leyfishafa. Skal í samningi um áskrift tekið fram
að áskrifandi beri ábyrgð á að slíkar upplýsingar berist starfsleyfishafa svo ekki verði á skránni upplýsingar um aðila nema
hann sé í vanskilum við annan áskrifanda.

10.

Gegn greiðslu endurgjalds er starfsleyfishafa skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem
starfsleyfishafinn hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Endurgjald þetta má eigi vera hærra en sem nemur því
endurgjaldi sem opinberar stofnanir taka í endurrits eða ljósritunarkostnað, sbr. reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs.

11.

Upplýsingar um skuldastöðu manna má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu
annars en þess er upplýsingar varðar.

12.

Láti starfsleyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum skal það aðeins gert hjá þeim sem fengið hafa til þess
starfsleyfi samkvæmt 25. gr. laga nr. 121/1989.

13.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989 er eigi heimilt að tengja saman skrár sem falla undir ákvæði þeirra laga nema sérstök
heimild frá Tölvunefnd liggi fyrir.

14.

Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara,
og skal hann undirrita heit um þagnarskyldu.

15.

Upplýsingagjöf samkvæmt starfsleyfi þessu mega einungis annast þeir starfsmenn Upplýsingaþjónustunnar ehf. sem
sérstaklega verða til þess valdir og Tölvunefnd tilkynnt um.

16.

Tölvunefnd og starfsmenn með hennar umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur starfsleyfishafa, tækjabúnað og
vinnubrögð, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 121/1989.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að senda á starfsstöð starfsleyfishafa eftirlitsaðila til að kanna hvort framkvæmd skráningar
og miðlun upplýsinga fari fram með þeim hætti sem mælt er fyrir í starfsleyfi þessu. Skal slíkt eftirlit framkvæmt á kostnað
starfsleyfishafa.

17.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfið eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila
krefjast þess.

18.Starfsleyfi þetta gildir til 1. júlí 1998."3.3.2. Starfsleyfi samkvæmt 21. gr. til sölu og afhendingar úr skrám á nöfnum og heimilisföngum og til
að annast fyrir aðra áritanir nafna og heimilisfanga eða útsendingu tilkynninga. Starfsleyfi samkvæmt
þessari grein fengu eftirtaldir aðilar:Kennslusvið Háskóla Íslands (97/071) – leyfi útg. 28. febrúar.

Skráningarstofan hf. (97/319) – leyfi útg. 26. nóvember.

Starfsmannasvið Háskóla Íslands (97/097) – leyfi útg. 12. mars.

Vinnueftirlit ríkisins (97/120) – leyfi útg. 25. mars.Leyfin voru, eftir því sem við átti, háð eftirtöldum skilyrðum:

1. Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða sem koma fram í VI. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum sem
Tölvunefnd kann að setja um meðferð nafnalista og nafnáritanir.

2. Starfsleyfishafi má aðeins hafa á skrám sínum upplýsingar um nöfn og heimilisföng.

3. Ef skrá er notuð til áritunar og útsendingar bréfa, tilkynninga, dreifirita eða þess háttar, er skylt að fram komi á áberandi
stað á útsendu efni að því sé dreift eftir skrá í vörslu starfsleyfishafa. Þá skal og koma fram að þeir sem kynnu að óska eftir
því að losna undan slíkum sendingum framvegis geti skrifað eða hringt til starfsleyfishafa og fengið nöfn sín afmáð af
útsendingarskrá.

4. Starfsleyfishafa er skylt að verða tafarlaust við beiðnum um að nöfn einstaklinga eða fyrirtækja verði máð af
útsendingarskrá. Ef beiðni um að má nafn af útsendingarskrá berst sendanda ofangreinds pósts er honum skylt að koma
slíkri kröfu á framfæri við leyfishafa.

5. Starfsleyfishafi skal hafa heimild frá eiganda þeirrar skrár, sem hann notar við vinnslu, til sérhverrar notkunar skrárinnar.

6. Ef starfsleyfishafi fær í hendur félagaskrár, eða skrár yfir fasta viðskiptamenn eða svipaðar skrár, er honum óheimilt án
samþykkis þess sem afhent hefur gögnin að láta þau af hendi við aðra eða skyra öðrum frá upplysingum sem í skránum eða
gögnunum felast.

7. Láti leyfishafi tölvuvinna upplysingar og skrár hjá öðrum, skal það aðeins gert hjá þeim, sem fengið hafa til þess
starfsleyfi skv. 21. gr. laga nr. 121/1989, sbr. og 25. gr. sömu laga.

8. Ekki er heimilt að tengja saman skrár skv. 21. gr. laga nr. 121/1989 án sérstaks leyfis Tölvunefndar.

9. Tölvunefnd, og starfsmenn hennar með umboði, mega hvenær sem er skoða starfsstofur leyfishafa, tækjabúnað og
vinnubrögð, sbr. og 32. gr. laga nr. 121/1989.

10. Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða
lögaðila krefjast þess.3.3.3. Starfsleyfi skv. 24. gr. til að framkvæma markaðs- og skoðanakannanir í atvinnuskyni.

Starfsleyfi samkvæmt þessari grein fengu:Markaðssamskipti ehf. (97/148) – leyfi útg. 15. apríl.

Virði sf. (97/141) – leyfi útg. 15. apríl.Leyfin voru, eftir því sem við átti hverju sinni, háð eftirtöldum skilmálum:

"1. Starfsleyfishafi skal við kannanir gæta allra þeirra atriða sem talin eru í 24. gr. laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum
sem tölvunefnd kann að setja um framkvæmd slíkra kannana, meðferð gagna og varðveislu þeirra. Sérstaklega ber að hafa
eftirtalin atriði í huga:

a) Gera skal þeim sem spurður er grein fyrir því að honum sé hvorki skylt að svara einstökum spurningum né
spurningalistanum í heild.

b) Ef svör eru ekki eyðilögð að könnun lokinni skulu þau geymd þannig frágengin að ekki megi rekja þau til ákveðinna
aðila.

c) Aldrei skal spyrja annarra spurninga en þeirra sem hafa greinilegan tilgang með hliðsjón af viðfangsefni því sem verið er
að kanna.

d) Óheimilt er að nota upplysingar þær sem skráðar hafa verið til annars en þess sem var tilgangur könnunarinnar.

e) Óheimilt er að veita öðrum aðgang að upplysingum þeim sem skráðar hafa verið.

Skulu ofangreind atriði a)- og c)-liða tekin fram á spurningalistum svo tryggt verði að spyrlum sé kunnugt um þau. Á
spurningalistum ber einnig að taka fram formála þá er spyrlar nota í upphafi samtals við þátttakendur í könnunum.

Tölvunefnd leggur til að formálinn verði svohljóðandi í meginatriðum:

"Góðan dag/gott kvöld. Ég heiti ... og er að hringja frá xxx hf. vegna könnunar sem við erum að framkvæma. Nafn þitt hefur
komið upp í xxx manna úrtaki. Mætti ég leggja fyrir þig nokkrar spurningar? (Ef jákvætt svar): Áður en ég legg fyrir þig
spurningarnar ber mér samkvæmt lögum að benda þér á, að þér er hvorki skylt að svara einstökum spurningum né
spurningalistanum í heild".

2. Tölvunefnd skal hafa borist eigi síðar en 7 dögum áður en könnun á að fara fram lysing á henni, þar sem fram komi hvaða
úrtak á að nota. Spurningalisti sem leggja á fyrir úrtakið skal fylgja. Einnig skal greint frá því fyrir hvaða aðila upplysingum
er safnað og hvaða spurningar hann óskar eftir að lagðar verði fyrir úrtakið.

3. Leyfishafi hefur heimild til að fá nauðsynleg úrtök úr þjóðskrá vegna kannana sem falla undir leyfi þetta, enda noti hann
ekki úrtakið fyrr en fyrir liggur afstaða tölvunefndar til viðkomandi könnunar.

4. Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða
lögaðila krefjast þess."


3.3.4. Starfsleyfi skv. 25. gr. annast tölvuþjónustu.

Ekkert starfsleyfi samkvæmt þessari grein var veitt á árinu. Alm. eru slík starfsleyfi hins vegar bundin svofelldum
skilyrðum:

1. Aðgangur að þeim upplysingum sem fram koma við tölvuvinnslu er einungis heimill þeim starfsmönnum sem þörf hafa á
vegna vinnslunnar og notkunar upplysinganna.

2. Starfsleyfishafa er skylt að beita viðeigandi ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir að upplysingar verði misnotaðar
eða þær komist í hendur óviðkomandi.

3. Starfsmenn í þjónustu starfsleyfishafa eru þagnarskyldir um atriði sem þeir komast að við störf sín og skulu þeir
undirrita þagnarheit áður en þeir taka til starfa.

4. Starfsleyfishafa er, án samþykkis frá skráreiganda, óheimilt að nota upplysingar þær sem hann hefur veitt viðtöku til
annars en að framkvæma þá þjónustu sem samningur hans og skráreiganda varðar eða afhenda öðrum upplysingarnar til
vinnslu eða geymslu.

5. Samrit eða endurrit af upplysingum um einkamálefni sem koma fram við tölvuvinnslu skulu einungis gerð í þeim mæli
sem nauðsynlegt er til að framkvæma tölvuvinnsluna á forsvaranlegan hátt.

6. Eigi er heimilt að tengja saman skrár sem undanþágu þarf fyrir samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989, nema sérstök heimild
frá tölvunefnd liggi fyrir.

7. Upplysingar um einkamálefni, sem fram koma við tilraunaskráningu eða tilraunatölvuvinnslu, skal eyðileggja þegar ekki
er þörf fyrir þær eða gera óleshæfar.

8. Starfsleyfishafi skal hlíta öllum reglum og fyrirmælum tölvunefndar, sem settar hafa verið og settar kunna að verða um
vörslu gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

9. Áorðnar eða fyrirhugaðar breytingar á þeim atriðum sem greint er frá í umsókn skulu tilkynntar tölvunefnd og þurfa eftir
atvikum samþykki hennar.

10. Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur leyfishafa, tækjabúnða og
vinnubrögð, sbr. ákvæði 31., 32., 33. og 35. gr. laga nr. 121/1989.

11. Tölvunefnd getur afturkallað leyfi þetta án fyrirvara, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila um vernd einkamálefna
krefjast þess.

Leyfi þetta fellur úr gildi ...."

3.4. Tilkynningar starfsleyfishafa um einstakar kannanir skv. 1. mgr. 24. gr.

Eftirtaldir starfsleyfishafar tilkynntu um og fengu samþykktar kannanir:

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands: Tíu kannanir.

Gallup – Íslenskar markaðsrannsónir hf.: Tuttugu og átta kannanir.

Hagstofa Íslands: Þrjár kannanir.

Hagvangur: Þrettán kannanir.

Könnunarstofan Rýnir ehf.: Tvær kannanir.

Markaðssamskipti ehf.: Tvær kannanir.

Viðhorf hf.: Ein könnun.

3.5. Yfirlit yfir erindi sem var synjað.

Ásgeiri Magnússyni, hæstaréttarlögmanni (97/132) var synjað um aðgang að gögnum embættis sýslumannsins í Kópavogi varðandi
afbrot tiltekins manns. Sjá nánari umfjöllun í kafla 3.11.

Jóni Hólm Gunnarssyni (97/022) var synjað um leyfi til að safna persónuupplýsingum um fanga á Litla-Hrauni. Synjunin byggðist meðal
annars á ófullkominni rannsóknaráætlun og á afstöðu Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Landspítalanum, sr. Braga Skúlasyni (97/243) var synjað um að mega fá skrár kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis yfir nöfn mæðra
sem misst hafa fóstur til að nota við útsendingu tilkynninga um árlegar minningarathafnir.

Markhúsinu (97/381) var synjað um aðgang að upplýsingum Fasteignamats ríkisins um eignastöðu allra þeirra sem áttu viðskipti við
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Ætlunin var að senda þeim markpóst og tilboð um víðtækari tryggingar.

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (96/188) var synjað um leyfi til að vinna með persónuupplýsingar um nýbúa vegna
rannsóknar á högum þeirra. Í verkefninu fólst að teknir yrðu út hópar barna og þeir rannsakaðir eftir kynþætti og ýmsum öðrum þáttum.
Með vísun til þess að Tölvunefnd var þeirrar skoðunar að út frá sjónarmiðum um persónuvernd og með vísun til grunnraka 1. gr. og a-liðs
1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989, bæri almennt að gjalda varhuga við slíkri flokkun einstaklinga, og að gættu því ósamræmi sem var í umsókn
stofnunarinnar annars vegar og svari hagstofunnar hins vegar um samstarf þessara stofnana, var beiðninni hafnað.

Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna (97/204) var synjað um leyfi til að fá upplýsingar hjá bönkum um greiðslustöðu þeirra
einstaklinga sem leitað höfðu liðsinnis ráðgjafastofunnar. Byggðist synjunin á því að Tölvunefnd taldi rétt að slík upplýsingasöfnun
byggðist á ótvíræðu skriflegu samþykki viðkomandi einstaklinga.

Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna (97/417) var synjað um leyfi til heimild til að safna frá bönkum og sparisjóðum upplýsingum um
skuldastöðu skjólstæðinga stofunnar í því skyni að geta metið árangur af starfi Ráðgjafarstofunnar. Tölvunefnd benti á að þær
upplýsingar sem stofan æskti leyfis til að safna væru afar viðkvæms eðlis og þær nytu ríkrar þagnarverndar, bæði samkvæmt ákvæðum
laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og samkvæmt 43. gr. laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði.
Með vísun til þess og að því gættu hve vernd slíkra upplýsinga er ríkur þáttur í friðhelgi einkalífs féllst Tölvunefnd ekki á slíka
upplýsingasöfnun nema til stæðu samþykki viðkomandi einstaklinga.

Upplýsingaþjónustunni ehf. (97/025) var synjað um kennitöluaðgang að fasteigna- og ökutækjaskrá. Niðurstaðan er birt í heild sinni í
kafla 3.11.

3.6. Álit og umsagnir um ýmis mál.

Atvinnuleysistryggingasjóður (97/171) óskaði umsagnar um hvort hann ætti rétt á að fá tölvuaðgang að bótaskrám Tryggingastofnunar
ríkisins, greiðslum úr lífeyrissjóðum og skrám ríkisskattstjóra. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við það en lagði til að þess yrði jafnan
gætt að kynna umsækjanda um atvinnuleysisbætur tilvist aðgangsins og gefa honum færi á að mótmæla. Umsögnin er birt í kafla 3.11.

Dómsmálaráðherra (96/300) óskaði umsagnar um frumvarp til laga um réttindi sjúklinga.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (95/216) óskaði umsagnar um fyrirspurn sem ráðuneytinu hafði borist frá Flugleiðum hf. um varðveislu
upplýsinga sem tengjast flugfarseðlum og mögulegar lagahindranir fyrir notkun og varðveislu ferðagagna sem bera með sér
líkamseinkenni viðkomandi. Umsögn Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (96/120) óskaði umsagnar um beiðni fyrirtækisins Lánstrausts ehf. um aðgang að upplýsingum á
tölvutæku formi úr skrám sýslumannsembætta. Nefndin kvaðst ekki gera athugasemdir við aðganginn fyrir sitt leyti en benti á að sú
afstaða takmarkaði ekki rétt hvers embættis til að ákveða hverjum það veitti slíkan aðgang.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/040) óskaði umsagnar um beiðni frá fyrirtækinu Veritas ehf. um aðgang að tilteknum upplýsingum úr
skrá þess. Um tvenns konar upplýsingar var að ræða, annars vegar upplýsingar varðandi ráðningu og kjör þýska lögreglumannsins Karls
Schütz sem starfaði á sínum tíma að lausn svokallaðra Guðmundar- og Geirfinnsmála, hins vegar upplýsingar varðandi tiltekið mál sem
rekið var í sakadómi í ávana- og fíkniefnum á hendur Sævari Ciesielski og gögn sem tengjast svokölluðum Guðmundar- og
Geirfinnsmálum. Umsögnin er birt í kafla 3.11.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (97/162) ) fékk umsögn um breytingu á gildandi reglugerð um þinglýsingar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (97/208) ) óskaði umsagnar um aðgang BM-Vallár að tölvufærðum þinglýsingarbókum með
beinlínutengingu. Tölvunefnd lagði til að orðið yrði við beiðninni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (97/209) ) óskaði umsagnar um aðgang Sameinaða lífeyrissjóðsins að tölvufærðum
þinglýsingarbókum með beinlínutengingu. Tölvunefnd lagði til að orðið yrði við beiðninni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (97/210) ) óskaði umsagnar um aðgang Lífeyrissjóðsins Framsýnar að tölvufærðum
þinglýsingarbókum með beinlínutengingu. Tölvunefnd lagði til að orðið yrði við beiðninni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (97/211) ) óskaði umsagnar um aðgang Tryggingastofnunar ríkisins að tölvufærðum
þinglýsingarbókum með beinlínutengingu. Tölvunefnd lagði til að orðið yrði við beiðninni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/227) óskaði umsagnar um erindi borgarstjórans í Reykjavík um rekstur öryggismyndavélakerfis í
miðborginni. Umsögn Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/287) óskaði álits Tölvunefndar á því hvort ráðuneytinu væri heimilt að flytja persónuupplýsingar úr
landi á grundvelli Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum, sem gerður var í Strassborg 20. apríl 1959, og fullgiltur var af
Íslands hálfu 18. september 1984 samkvæmt heimild í 25. gr. laga nr. 13/1984. Svar Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/352) óskaði umsagnar um þá málaleitan sænska ríkislögreglustjóraembættisins að innan
Norðurlandanna yrðu notaðir segulmiðlar við upplýsingaskilti um einstaklinga sem þangað er bannað að koma. Tölvunefnd sá ekki
ástæðu til athugasemda við slíka aðferð enda yrðu uppfyllt tiltekin öryggisskilyrði.

Fangelsismálastofnun ríkisins (97/181) óskaði umsagnar um beiðni lögreglustjórans í Reykjavík um að fá lista yfir
gæsluvarðhaldsfanga. Tölvunefnd kvaðst samþykkja aðganginn fyrir sitt leyti.

Fangelsismálastofnun ríkisins (97/348) óskaði umsagnar um beiðni sem stofnuninni hafði borist frá Stéttarfélagi lögfræðinga um
aðgang að ráðningarsamningum starfsmanna stofnunarinnar o.fl. Umsögn Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands (97/046) óskaði umsagnar um tölvuskráningu fiskiskipa og hvort skrá mætti ferðir og athafnir
manna án samþykkis viðkomandi. Tölvunefnd taldi málsatvik of óljós til að gefa mætti almenna umsögn en benti á grundvallarréttindi
manna til að vita af tilvist slíkrar vöktunar sem erindið laut að.

Félagsmálaráðuneytið (95/226) óskaði umsagnar um söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga um 200 þroskahefta einstaklinga sem fram
fór til að undirbúa gerð svokallaðs þjónustumatslykils og hins vegar til áframhaldandi notkunar lykilsins. Umsögn Tölvunefndar er birt í
kafla 3.11.

Félagsmálaráðuneytið (97/049) óskaði umsagnar um beiðni sem því hafði borist um aðgang að upplýsingum varðandi tiltekna
verktakavinnu arkitekta og verkfræðinga. Beiðnin varðaði tvenns konar upplýsingar. Annars vegar upplýsingar varðandi nöfn arkitekta
og verkfræðinga sem höfðu unnið verktakavinnu fyrir félagsmálaráðuneytið síðastliðin 5 ár. Hins vegar upplýsingar um greiðslur til
þessara aðila. Tölvunefnd taldi fyrri þátt umræddrar beiðni ekki lúta að persónuupplýsingum í skilningi laga nr. 121/1989 og gerði því
engar athugasemdir við afhendingu þeirra. Hins vegar taldi nefndin gögn um ráðningu og kjör einstakra mann geta talist upplýsingar um
fjárhagsmálefni í skilningi framangreinds. Nefndin benti á að almennt hefðu upplýsingar um föst ráðningarkjör opinberra starfsmanna ekki
verið taldar til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989. Gerði nefndin því ekki athugasemdir við að ráðuneytið veitti upplýsingar
um með hvaða kjörum viðkomandi menn væru ráðnir en taldi, með vísun til framangreindra lagaákvæða, að ráðuneytinu væri óheimilt að
veita upplýsingar um heildarlaunagreiðslur til þeirra.

Fjármálaráðuneytið (97/083) óskaði umsagnar um beiðni sem því hafði borist um aðgang að upplýsingum varðandi tiltekna
verktakavinnu arkitekta og verkfræðinga. Beiðnin varðaði tvenns konar upplýsingar. Annars vegar upplýsingar varðandi nöfn arkitekta
og verkfræðinga sem höfðu unnið verktakavinnu fyrir fjármálaráðuneytið síðastliðin 5 ár. Hins vegar upplýsingar um greiðslur til þessara
aðila. Tölvunefnd taldi fyrri þátt umræddrar beiðni ekki lúta að persónuupplýsingum í skilningi laga nr. 121/1989 og gerði því engar
athugasemdir við afhendingu þeirra. Hins vegar taldi nefndin gögn um ráðningu og kjör einstakra mann geta talist upplýsingar um
fjárhagsmálefni í skilningi framangreinds. Nefndin benti á að almennt hefðu upplýsingar um föst ráðningarkjör opinberra starfsmanna ekki
verið taldar til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989 og gerði því ekki athugasemdir við að ráðuneytið veitti upplýsingar um með
hvaða kjörum viðkomandi menn væru ráðnir. Nefndin taldi hins vegar, með vísun til framangreindra lagaákvæða, að ráðuneytinu væri
óheimilt að veita upplýsingar um heildarlaunagreiðslur til þeirra.

Fjármálaráðuneytið (96/227) spurði hvort rétt skrá mætti skattskuldir í vanskilaskrá Lánstrausts efh. Svar Tölvunefndar var að samkvæmt
starfsleyfi Lánstrausts ehf. væri fyrirtækinu m.a. heimilt að safna og miðla tilteknum upplýsingum um fjárhagsmálefni og lánstraust og að
enginn munur væri á því gerður hver áskrifandinn væri eða hvert væri tilefni skuldar, svo fremi uppfyllt væru skilyrði gildandi starfsleyfis.
Giltu þannig að öllu leyti sömu reglur um skattskuldir og aðrar skuldir sem orðið gætu tilefni skráningar og miðlunar af hálfu Lánstrausts
ehf.

Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/279) óskaði umsagnar um heimildir sínar til að veita annars vegar þeim sem njóta tekna af
búnaðarmálasjóðsgjaldi, upplýsingar um skil til sjóðsins frá einstaka gjaldskyldum aðilum og hins vegar að veita bændum sem sæta
gjaldinu upplýsingar um skil einstakra viðskiptaaðila (heildsala) á gjaldinu til sjóðsins. Sjá nánar í kafla 3.11.

Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/349) óskaði umsagnar um heimildir sínar til að veita aðgang að upplýsingum í fullvirðisréttarskrám.
Sjá nánar kafla 3.11.

Fullorðinsfræðsla fatlaðra (97/056) óskaði umsagnar um lögmæti þess að safna persónuupplýsingum á myndbönd í starfi
fullorðinsfræðslu fatlaðra og reglur þar að lútandi. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við þær reglur sem þessi aðili hafði sett sér um
notkun myndbandanna og varðveislu, en taldi eðlilegan varðveislutíma myndbanda vera 4 ár, enda stæði ávallt til söfnunar og varðveislu
samþykki hlutaðeigandi aðila. Þá var áréttað mikilvægi þess að söfnun persónuupplýsinga færi einungis fram í þágu starfseminnar og
hagsmuna hinna fötluðu og þess ávallt gætt að myndböndin yrðu með engu móti notuð þannig að til minnkunar gæti orðið fyrir
viðkomandi einstaklinga.

Golfklúbbur Reykjavíkur (97/078) óskaði umsagnar um beiðni Brimborgar hf. um að fá skrá yfir meðlimi í klúbbnum. Tölvunefnd kvaðst
ekki leggjast gegn slíkri afhendingu en taldi eðlilegt að klúbburinn markaði sjálfur stefnu um notkun umræddrar skrár. Nefndin benti á að
rétt væri að gera einstökum meðlimum kleift að fá nöfn sín afmáð af slíkri skrá.

Hagvangur hf. (97/296) óskaði umsagnar um lagaskilyrði til að framkvæma svokallaðar PDS-kannanir (sérstakar kannanir fyrir einstaka
fyrirtæki og stofnanir). Tölvunefnd sá ekki tilefni til athugasemda við framkvæmd þeirra kannana.

Háskóli Íslands, kennslusvið (97/043) óskaði umsagnar um beiðni Markaðsbankans ehf. um að fá nemendaskrá Háskólans afhenta
vegna vinnu fyrir Samband sparisjóða. Tölvunefnd kvaðst ekki leggjast gegn slíkri afhendingu en taldi eðlilegt að háskólinn markaði
sjálfur stefnu um notkun umræddrar skrár. Nefndin benti þó á að gera yrði einstökum nemendum gert kleift að fá nöfn sín afmáð af slíkri
skrá.

Háskóli Íslands, Kennslusvið (97/432) óskaði umsagnar um þá fyrirætlun "að taka sjálfvirkt út úr Nemendaskrá Háskólans (einu sinni í
viku) lista yfir alla nemendur sem ekki höfðu beðið sérstaklega um að Nemendaskráin léti ekki frá sér nöfn þeirra (sérstök merking í
Nemendaskrá) og gera nöfnin aðgengileg á heimasíðum Háskólans." Var hugmyndin að hafa þessa skrá aðgengilega til leitar af
heimasíðum H.Í., þannig að hægt yrði að slá inn nafn nemanda og fá upp nöfn, netföng og símanúmer þeirra sem fyndust. Tölvunefnd
gerði ekki athugasemdir við að skráin yrði þannig gerð aðgengileg á heimasíðum Háskólans enda yrði á sama stað kynnt rækilega hvernig
menn geti fengið nafn sitt tekið út af þeirri skrá sem þar er birt, að aðeins yrði um fyrirspurnaraðgang að ræða og aðeins birt nöfn nemanda
og netföng.

Háskóli Íslands, starfsmannasvið (97/097) óskaði umsagnar um beiðni Bóksölu stúdenta um að fá starfsmannaskrá Háskólans afhenta
vegna þjónustu við kennara. Tölvunefnd kvaðst ekki leggjast gegn slíkri afhendingu en áréttaði að háskólinn markaði sjálfur stefnu um
notkun umræddrar skrár. Nefndin benti þó á að gera yrði einstökum starfsmönnum kleift að fá nöfn sín afmáð af slíkri skrá..

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (96/170) óskaði umsagnar um svokallað RAI-mat á langlegusjúklingum skv. reglugerð nr.
546/1995 um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldunarstofnunum. Forsaga málsins er sú að fyrr á árinu hafði Tölvunefnd komist að
þeirri niðurstöðu að RAI-matsnefnd væri óheimilt að safna svo viðkvæmum upplýsingum sem til stóð hvort heldur væri nafngreint eða
með öðrum þeim hætti sem gerði henni kleift að rekja upplýsingar til einstaklinga. Mælti Tölvunefnd fyrir um að við útfyllingu umræddra
eyðublaða yrði þess gætt að þau yrðu með öllu án persónuauðkenna. Nefndin benti hins vegar á að ná mætti tilgreindum markmiðum
ráðuneytisins með því að viðhafa þá aðferð að viðkomandi sjúkrahús gæfi hverjum sjúklingi verkefnisnúmer, eða annað auðkenni, og
gerði greiningarlykil sem það eitt hefði aðgang að (umfjöllun um þessa afgreiðslu er að finna á máli Sjúkrahússins og
heilsugæslustöðvarinnar á Húsavík, hér að neðan). Í framhaldi af því óskaði RAI-matsnefndin umsagnar um nýjar tillögur að meðferð
persónuupplýsinganna. Tölvunefnd samþykkti þær en tilnefndi sérstakan tilsjónarmann til að hafa eftirlit með því að eftir þeim yrði farið.

Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis (97/041) óskaði umsagnar um frumvarp til sóttvarnarlaga. Tölvunefnd benti annars vegar á að
gera yrði úrbætur á óljósum ákvæðum og lagði hins vegar til ákvæði þess efnis að við setningu reglugerða um skráningarskylda sjúkdóma
skyldi þess gætt að senda drög Tölvunefnd til umsagnar.

Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis (97/087) óskaði umsagnar um frumvarp til laga um réttindi sjúklinga. Umsögn Tölvunefndar er
birt í kafla 3.11.

Landssamtök sauðfjárbænda (97/387) óskuðu álits á því hvort Hagstofu Íslands væri heimilt að afhenda samtökunum lista yfir fólk sem
gekk í hjónaband á árinu 1997, til að geta sent því myndbönd um gerð lambakjötsrétta. Tölvunefnd kvaðst ekki gera athugasemdir fyrir sitt
leyti.

Lánstraust ehf. (97/286) spurði hvort viðskiptabönkum og sparisjóðum væri heimilt að selja þær upplýsingar sem þeir kaupa af LT.
Tölvunefnd benti á að samkvæmt 15. gr. laga nr. 121/1989 er söfnun og skráning upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust
einstaklinga og lögpersóna, í því skyni að miðla öðrum upplýsingum um það efni, óheimil án starfsleyfis Tölvunefndar og taldi að
samkvæmt því ákvæði væri viðskiptabönkum og sparisjóðum óheimilt að miðla slíkum upplýsingum án starfsleyfis nefndarinnar. Væri hins
vegar aðeins um það að ræða að viðskiptabankar og sparisjóðir legðu til tæki og búnað til að gera öðrum kleift að komast inn í gagnasafn
LT og eiga þannig viðskipti við LT um þjónustu sem LT síðan innheimti sjálft fyrir, ætti umrætt ákvæði 15. gr. ekki við.

Menntamálaráðuneytið (97/038) óskaði umsagnar um beiðni konrektors menntaskólans við Hamrahlíð um að fá upplýsingar um menntun,
réttindi og kennsluferil kennara skólans. Nefndin kvaðst ekki gera athugasemdir við slíka afhendingu.

Menntamálaráðuneytið (97/061) óskaði umsagnar um færslu tiltekinna skráa á sviði iðnfræðslu (skrá yfir meistara í löggiltum iðngreinum,
nemaskrá og sveinaskrá). Með vísun til ákvæða laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, iðnaðarlaga nr. 42/1978 og laga nr. 8/1996 um
löggildingu nokkurra starfsheita, og þess að telja mátti umrædda skráningu eðlilegan þátt í starfsemi ráðuneytisins, sbr. 3. gr.laga nr.
121/1989, gerði Tölvunefnd ekki athugasemdir við hana. Um miðlun upplýsinga úr umræddum skrám var hins vegar gerður sá fyrirvari að
telja yrði upplýsingar um námsárangur (einkunnir) vera upplýsingar um einkamálefni viðkomandi einstaklinga í skilningi 1. gr. laga nr.
121/1989, sbr. og ákvæði 45. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, og því skyldi um birtingu þeirra fara samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr.
121/1989.

Menntamálaráðuneytið (97/315) óskaði umsagnar um öflun, meðferð, birtingu og varðveislu upplýsinga vegna mats á skóla og
skólastarfi. Tölvunefnd taldi þessi verkefni fela í sér söfnun og skráningu upplýsinga sem væri háð leyfi Tölvunefndar hverju sinni.
Nefndin benti hins vegar á að lögin stæðu ekki í vegi fyrir framkvæmd verkefna sem ekki fela í sér beina söfnun persónuupplýsinga, t.d.
viðhorfskannana sem eru framkvæmdar þannig að ekki er hægt að rekja svör til einstakra svarenda. Lagði Tölvunefnd til að ráðuneytið
setti viðkomandi undirstofnunum sínum leiðbeiningarreglur um framkvæmd umræddra kannanna og lýsti sig til reiðubúna til samstarfs um
gerð slíkra leiðbeininga, yrði þess óskað.

Póst- og fjarskiptastofnun (97/283) óskaði álits nefndarinnar á lögmæti tiltekins búnaðar (Call Center) sem tengist símstöð og gerir
mögulegt að hlusta á símtöl og jafnvel hljóðrita. Svar nefndarinnar byggðist á vísun til 17. og 18. gr. laga um fjarskipti nr. 143/1996, 86. og
87. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og ákvæða laga nr. 121/1989. Tölvunefndar taldi notkun búnaðar til að hlusta á og/eða
taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því ( símhlerun ) vera óheimila öllum öðrum
en lögreglu (að uppfylltum skilyrðum 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991). Nefndin taldi ákvæði gildandi laga hins
vegar ekki standa í vegi fyrir notkun búnaðar til að hlusta á og/eða taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki ef búnaðurinn
er þannig úr garði gerður að jafnan berast boð inn á línu sem með ótvíræðum hætti varar báða aðila (þann sem hringir og þann sem hringt
er í) við því að hugsanlega sé fylgst með samtalinu og það tekið upp.

Rannsóknarlögregla ríkisins (97/166) óskaði umsagnar um lögmæti kerfisbundinnar skráningar DNA-strengja. Tilefnið var erindi
Evrópunefndar Interpol og hugmyndir um alþjóðleg upplýsingaskipti úr gagnasöfnun varðandi DNA-strengi. Tölvunefnd taldi lífsýni
hafa að geyma upplýsingar um heilsuhagi í skilningi laga nr. 121/1989 sem lyti ákvæðum 4. gr. laganna og að samkvæmt 27. gr. sömu laga
yrði almennt að telja flutning slíkra upplýsinga úr landi óheimilan.

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (97/012) óskaði umsagnar um birtingu meðaltala skóla á samræmdum prófum. Stofnunin
lagði til þá viðmiðun að einungis yrðu birt meðaltöl skóla með 11 nemendur eða fleiri í árgangi. Tölvunefnd taldi þá viðmiðun ásættanlega
út frá persónuverndarsjónarmiðum.

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (97/055) óskaði umsagnar um hvort stofnunin mætti verða við beiðni tiltekins skólastjóra
um að fá meðaleinkunn barna sem þaðan komu á tilteknu samræmdu prófi. Með vísun til þess að umrædd beiðni laut ekki að afhendingu
persónugreindra gagna sá Tölvunefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við afhendinguna.

Ríkisskattstjóri (96/082) óskaði umsagnar um beiðni sem honum hafði borist frá Upplýsingaþjónustunni ehf. um að fá skattskrár frá
öllum umdæmum landsins afhentar á tölvutæku formi til að nota í starfsemi sinni við mat á fjárhag og lánstrausti einstaklinga og fyrirtækja.
Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 98. gr. laga um tekju- og eignaskatt, með síðari breytingum, er heimil opinber birting á þeim upplýsingum um
álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta. Þó hvorki væri að finna í framangreindu
lagaákvæði, né í starfsleyfi Upplýsingaþjónustunnar ehf., sérstakar skorður við afhendingu skrárinnar, benti Tölvunefnd á að afhending á
tölvutæku formi gæti verið varhugaverð út frá persónuverndarsjónarmiðum þar sem hún stóryki möguleika á að misfara með skrárnar.
Lagði Tölvunefnd til að ríkisskattstjóri og fjármálaráðuneytið mótuðu stefnu um meðferð skattskrár í slíkri starfsemi.

Samgönguráðuneytið (97/109) spurði hvort upplýsingar um nöfn skipa með ófullkomin stöðugleikagögn félli undir gildissvið laga nr.
121/1989. Nefndin taldi slíkar upplýsingar geta varðað fjárhagsmálefni aðila og í eðli sínu verið persónuupplýsingar í skilningi
framangreindra laga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu. Það hvort svo væri hlyti að ráðast af mati á þeim hagsmunum sem
vegast á, þ.e. annars vegar þeim hagsmunum sem krefjast þess að skýrt verði frá upplýsingunum og hins vegar tillitinu til þess að þeim sé
haldið leyndum. Slíkt mat taldi nefndin sig ekki geta framkvæmt nema að undangenginni gagnaöflun og nánari athugun allra málavaxta en
benti á að yrðu upplýsingarnar flokkaðar sem persónuupplýsingar réðist niðurstaða um hvort þeim mætti miðla m.a. af því hvort það væri
eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans.

Samtök fámennra skóla (97/095) spurðu hvort birta mætti upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa í fámennum skólum. Nefndin
taldi, að fenginni umsögn Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála, eðlilegt að birta niðurstöður samræmdra prófa fyrir fámenna
skóla í heild óháð staðsetningu þeirra.

S.Á.Á. (97/366) óskaði umsagnar um hvort félaginu væri heimilt að veita Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga þær upplýsingar um
starfskjör, sem greinir í 4. gr. kjarasamnings SÁÁ annars vegar og Félags ísl. hjúkrunarfræðinga hins vegar. Þær upplýsingar sem taldar
eru í 4. gr. umrædds kjarasamnings eru: 1) Listi yfir starfandi hjúkrunarfræðinga, 2) Röðun allra hjúkrunarfræðinga í launaflokka og
launaþrep og 3) Meðaltal dagvinnu-, yfirvinnu-, vaktaálags og heildarlauna hjá tilteknum hópum hjúkrunarfræðinga. Tölvunefnd taldi
upplýsingar um laun manna og einkafjárhag vera persónuupplýsingar í skilningi 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 sem ekki má miðla án
samþykkis hins skráða nema slík upplýsingamiðlun sé eðlilegur þáttur í venjubundinni starfssemi skráningaraðila. Var niðurstaða
nefndarinnar sú að gera ekki athugasemdir við að SÁÁ afhenti upplýsingar skv. 1. og 3. tl. 4. gr. umrædds kjarasamnings en taldi
samtökunum vera óheimilt að afhenda slíkar upplýsingar er greinir í 2. tl. nema hafa til þess skriflegt samþykki viðkomandi einstaklings.

Sjúkrahús Reykjavíkur (97/0126) óskaði umsagnar um hvort sjúkrahúsinu væri heimilt að afhenda samtökunum Lífsvog afrit
sjúkraskýrslna. Umsögn Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin Húsavík (96/170) óskaði umsagnar um lögmæti svokallaðs RAI-mats á langlegusjúklingum
samkvæmt reglugerð nr. 546/1995 um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum. Svar Tölvunefndar er að finna í kafla 3.11. en
um framhald málsins vísast til erindis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hér að framan.

Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi (97/102) óskaði umsagnar um útgáfu Sigurjóns Þorbergssonar á skattútvarsskrá Reykjanesumdæmis.
Þar sem umrædd beiðni laut aðeins að skattskrá, en ekki álagningarskrá, gerði Tölvunefnd, með vísun 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, ekki
athugasemdir við útgáfu hennar en benti á að á vegum fjármálaráðuneytisins væri unnið að endurskoðun reglna um birtingu upplýsinga
úr álagningar- og skattskrám. Tölvunefnd taldi hins vegar, í ljósi þeirra persónuverndarsjónarmiða sem reynt getur á við meðferð
skattskráa, eðlilegt að skattstjóri setti þeim sem þær fá skilmála um með hvaða hætti þeir megi nota þær.

Tóbaksvarnarnefnd (97/036) óskaði umsagnar um hún ætti rétt á að fá afhentar skrár með nöfnum og heimilisföngum barna á aldrinum
11-16 ára til geta sent þeim áróðursefni gegn reykingum. Tölvunefnd gerði fyrir sitt leyti, ekki athugasemdir við slíka afhendingu og benti
nefndinni á að snúa sér beint til Hagstofu Íslands.

3.7. Svör við fyrirspurnum.

Á.B. (97/428) spurði hvort leynileg myndbandupptaka vinnuveitanda af starfsfólki á vinnustað, í því skyni að rannsaka meint brot
starfsmanna, samrýmdist lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Svar Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Contact point Hungary – Dunaholding Belgium NV/SA (97/219) spurði um vernd persónugagna hér á landi og um aðlögun ísl. reglna að
tilskipun ESB um persónuvernd í meðferð upplýsinga.

Commission Europeenne (97/351) sendi ítarlegan spurningalista ("Questionnaire on the test cases") um fjölmörg atriði sem lúta að
gagnavernd hér á landi.

Evangelia Mitrou, Greece (97/253) – fyrirspurn um skipun, störf og sjálfstæði Tölvunefndar.

G.Þ.T. (97/137) spurði þriggja spurninga varðandi þann mun sem er starfsleyfi Lánstrausts ehf. og Reiknistofunnar ehf. Svör
Tölvunefndar eru birt í kafla 3.11.

H.H. (97/187) spurði um rétt manna til að fá upplýsingar um eigin sjúkdóma og þá sem til staðar væru í fjölskyldunni. Tölvunefnd upplýsti
um gildandi reglur um sjúkraskrár samkvæmt læknalögum og lögum um réttindi sjúklinga.

Læknafélag Íslands (96/296) spurði um þá skilmála sem gilda um meðferð sýna og annarra persónuupplýsinga hjá Íslenskri
erfðagreiningu hf.

Reisswolf International Akten- und Datenvernichtung GmbH (97/365) – spurði um vernd gagna og persónuupplýsinga.

Research Business in London (97/272) – spurði um gildissvið ísl. persónuupplýsingalaga og reglur um noktun persónuupplýsinga í
markaðsstarfsemi.

3.8. Ýmsar kvartanir.

Á.L. (96/303) kvartaði yfir því að mjólkurbússtjóri kaupfélags Suður-Þingeyingja, hafi án síns samþykkis, veitt sveitarstjórn[...]
upplýsingar úr skrám um persónuleg málefni hans og sambýliskonu hans, einkum um nýtingu fullvirðisréttar. Um afgreiðslu Tölvunefndar
sjá kafla 3.11.

Á.B. (97/272) kvartaði yfir því að í samningum Hagstofu Íslands um hagnýtingu þjóðskrár væri skilmáli sem bannaði útsendingu pósts til
fólks sem yfir tilteknum aldri. Niðurstaða Tölvunefndar var sú að hvorki yrði af ákvæðum laga nr. 121/1989 né af almennum sjónarmiðum
um friðhelgi einkalífs ráðið að halda þyrfti í þessa verklagsreglu.

E.Þ.S. (97/054) kvartaði yfir símhringingum frá sundfélaginu Ægi og að ekki hefðu verið gefnar skýringar á því hvaða skrá lægi
umræddum úthringingum til grundvallar. Að fengnum skýringum sundfélagsins taldi Tölvunefnd ekki vera ástæðu til sérstakra aðgerða af
sinni hálfu.

G.A. (97/115) kvartaði yfir sjúkragagnasöfnun á vegum bifreiðastjórafélagsins Frama. Afgreiðsla Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

G.V. (97/383) kvartaði yfir skráningu persónuupplýsinga á vegum Ættfræðiþjónustu Odds, Reynis og Guðmundar. Tilefni kvörtunarinnar
var að í umfjöllun Mbl. um starfsemi umræddrar ættfræðiþjónustu kom fram að hjá henni væru ættleiddir einstaklingar ekki skráðir sem
börn kynforeldra sinna heldur kjörforeldra. Var sagt að sú aðferð byggðist á ákvörðun Tölvunefndar. Tölvunefnd upplýsti að umrædd
aðferð byggðist ekki á hennar ákvörðun, en sá ekki, út frá sjónarmiðum um einkalífsvernd, ástæðu til að gera athugasemdir við hana. G.V.
gerði og þá athugasemd þetta gerði skrána ranga. Tölvunefnd taldi hins vegar að væru þetta þær forsendur sem skráin byggðist á yrði að
telja hana rétta miðað við þær forsendur.

H.H. (95/253) kvartaði yfir vörslu sjúkragagna um sig hjá tilteknum sálfræðingi. Athugun Tölvunefndar leiddi ekki í ljós að gögnin væru
til hjá sálfræðingnum en benti á að þau kynnu að vera varðveitt annars staðar og leiðbeindi H.H. um það.

J.G. (97/125) kvartaði yfir kæruskrá lögreglunnar. Afgreiðsla Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

K.V.G. (97/018) kvartaði yfir því að einstaklingur sem ekki hafði náð 16 ára aldri lentu í úrtaki vegna skoðanakannana. Tölvunefnd lagði til
að við úrtaksgerð yrði almennt miðað við almanaksár til að fyrirbyggja að einstaklingar yngri en 16 ára lentu í úrtaki.

N.R. (97/045) kvartaði yfir notkun nafnalista við útsendingu á dreifibréfi Neistans (styrktarfél. hjartveikra barna). Að fengnum skýringum
Neistans, þar sem fram kom að listi sá sem notaður var við útsendinguna var ekki í vörslu Neistans, og að fengnum skýringum að öðru
leyti sá nefndin ekki ástæðu til frekari athugasemda.

Lánstraust ehf. (97/114) kvartaði yfir því að í að í upplýsingariti Reiknistofunnar ehf. segði að safnað væri upplýsingum um "löghald og
lögbann" o.fl. Afgreiðslu Tölvunefndar er lýst í kafla 3.11.

S.L. (97/404) kvartaði yfir því að framleiðsluráð Landbúnaðarins hefði fengið hjá skattstjóra Norðurlandsumdæmis eystra afrit af
staðfestum landbúnaðarskýrslum vegna tekjuáranna 1995 og 1996. Umrædd afhending fór fram á grundvelli 68. gr. laga nr. 99/1993 þar sem
segir að skattstjórar skuli fyrir 1. júní ár hvert ókeypis og ótilkvaddir gefa Framleiðsluráði upp, í því formi sem það ákveður, afurðamagn og
bústofn á hverju lögbýli og hjá öðrum framteljendum sem hafa meiri hluta tekna sinna af landbúnaði. Segir að þeim sé og skylt að veita
aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar séu í þessu sambandi. Tölvunefnd taldi ljóst að skattstjóra hefði, á grundvelli nefnds lagaákvæðis,
ótvírætt verið heimil sú afhending sem kvörtunin laut að. Tölvunefnd tók hins vegar undir það sjónarmið S.L. að orka kynni tvímælis að
Framleiðsluráð landbúnaðarins hefði svo víðtæka lagaheimild til aðgangs að persónuupplýsingum.

Trygging hf. (97/307) kvartaði yfir því að Skráningarstofan hf. hefði afhent VÍS hf. tölvuútskrift yfir öll ökutæki tryggð hjá Tryggingu hf.
Af tilefni þessarar og annarra sambærilegra kvartana setti Tölvunefnd Skráningarstofunni hf. starfsreglur um meðferð upplýsinga í
ökutækjaskrá og reglur í starfsleyfi samkvæmt 21. gr. laga nr. 121/1989. Um þær reglur vísast til máls Skráningarstofunnar hf. í kafla 3.11.

Tryggingamiðstöðin hf. (97/318) kvartaði yfir því að Skráningarstofan hf. hefði afhent VÍS hf. tölvuútskrift yfir öll ökutæki tryggð hjá
Tryggingamiðstöðinni hf. Af tilefni þessarar og annarra sambærilegra kvartana setti Tölvunefnd Skráningarstofunni hf. starfsreglur um
meðferð upplýsinga í ökutækjaskrá og reglur í starfsleyfi samkvæmt 21. gr. laga nr. 121/1989. Um þær reglur vísast til máls
Skráningarstofunnar hf. í kafla 3.11.

V.A. (96/277) kvartaði yfir því að ríkislögmaður hefði lagt fram tiltekin skjöl í máli sem hann höfðaði gegn menntamálaráðherra og
fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til greiðslu skaðabóta vegna tiltekinnar stöðuveitingar. Meðal annars var um að ræða tilteknar
sálfræðiskýrslur og rannsóknarbeiðnir. Afgreiðsla Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

3.9. Beiðnir um aðgang, notkun og samtengingu einstakra skráa.

Bandalag íslenskra skáta (97/284) fékk leyfi fyrir því að skrá Bifreiðaskoðunar Íslands hf. yrði notuð við áritun happdrættismiða
félagsins. Heimildin var meðal annars bundin því skilyrði að skráningarnúmer ökutækja yrðu einungis notuð sem áritun en ekki sem
einkenni við útdrátt. Þá var og settur sá skilmáli að fram kæmi hvert þeir sem vildu losna undan slíkum sendingum framvegis gætu snúið
sér.

H.H. (97/143) óskaði liðsinnis Tölvunefndar við að fá aðgang að gögnum samgönguráðuneytisins sem tengdust því að staða hans hjá
Vita- og hafnarmálastofnun var lögð niður. Þar sem samgönguráðuneytið féllst á að afhenda H.H. umbeðin gögn kom máli ekki til
efnislegrar afgreiðslu hjá Tölvunefnd.

Landspítalinn, Jón Jóhannes Jónsson (97/278) fékk leyfi til að nota skrá Hagstofu Íslands með kennitölum barna sem fædd voru árið
1996 til að kanna tíðni blóðprófaskimunar á nýfæddum börnum.

Lífeyrissjóður bænda (97/271) óskaði leyfis til að fá frá ríkisskattstjóra tilteknar upplýsingar úr skattframtölum tiltekinna lífeyris- og
örorkuþega sjóðsins. Sjóðurinn taldi sér vera nauðsyn á umræddum aðgangi til að geta sinnt lögboðnu eftirliti skv. lögum nr. 50/1984, með
síðari breytingum. Tölvunefnd ákvað, með vísun til þess að einungis yrði aflað upplýsinga um þá einstaklinga sem hefðu veitt til þess
skriflegt samþykki sitt, og að öðru leyti með vísun til lögboðins hlutverks sjóðsins og markmiðs hans með umræddum aðgangi, að
samþykkja hann fyrir sitt leyti, með vísun til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989. Gildistími leyfisins var ákveðinn til 31. desember árið 2000.

Löggildingarstofa (97/169) fékk leyfi til að nota skrá ríkistollstjóra yfir innflytjendur leikfanga vegna markaðseftirlits sem framkvæmt er í
verslunum og hjá dreifingaraðilum leikfanga.

Markaðsbankinn ehf. (97/164) fékk undanþágu frá almennum reglum um aldurslágmörk til að senda 6 ára börnum í Garðabæ
reiðhjólahjálma, sem gefnir voru af Rauða krossinum.

Navís hf. (97/202) fékk leyfi til aðgangs að upplýsingum ríkisskattstjóra um VSK-númer og kennitölur á tölvutæku formi.

Ragnar Árnason, prófessor (97/265) fékk leyfi til aðgangs að hagrænu gagnaefni í vörslu Þjóðhagsstofnunar til tölfræðilegrar úrvinnslu
um rekstur síldarútvegsfyrirtækja vegna tiltekins ESB-rannsóknarverkefnis.

Ríkislögreglustjóri (97/302) fékk leyfi til aðgangs að fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins með leitarmöguleikum eftir kennitölum. Leyfið
er birt í kafla 3.11.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (97/223) fékk að nota skrá Póst- og síma hf. yfir skráð símanúmer til áritunar símahappdrættis
félagsins. Heimildin var meðal annars bundin því skilyrði að símanúmer yrðu einungis notuð sem áritun en ekki sem einkenni við útdrátt.
Þá var og settur sá skilmáli að fram kæmi hvert þeir sem vildu losna undan slíkum sendingum framvegis gætu snúið sér.

TNT, hraðflutningar (97/263) fengu leyfi til aðgangs að upplýsingum ríkisskattstjóra um VSK-númer og kennitölur á tölvutæku formi.

TVG - Zimsen (97/268) fékk leyfi til aðgangs að upplýsingum ríkisskattstjóra um VSK-númer og kennitölur á tölvutæku formi.

Tækniskóli Íslands (97/191) fékk leyfi til aðgangs að upplýsingum Iðnskólans um útskrifaða nemendur á tölvutæku formi.

3.10. Önnur mál.

Bakki hf., Bolungarvík (97/289). Tölvunefnd gerði athugasemdir við skráningu og birtingu persónuupplýsinga um frammistöðu og
viðveru starfsmanna. Álit Tölvunefndar er birt í kafla nr. 3.11.

Dómsmálaráðherra (97/050). Í samræmi við ályktun árlegs fundar norrænna gagnaverndarstofnana var haldinn í Kalmar í Svíþjóð benti
Tölvunefnd ráðherra á að bæta þyrfti vinnuskilyrði sameiginlegu eftilitsnefndarinnar hjá Schengen og gagnaverndarstofnunum einstakra
ríkja gert betur kleift að rækja það hlutverk sem þeim var falið með þátttöku í þessari nefnd, sem stofnuð var skv. 115. gr. Schengen
samningsins. Það sem einkum var talið standa því í vegi að stofnanirnar gætu sinnt hlutverki sínu með viðunandi hætti er mikill kostnaður
við þátttöku í starfinu og ýmis atriði sem tengjast skipulagningu þess. Var talið nauðsynlegt að ráðherranefnd Schengen gerði ráðstafanir
til að tryggja að einstakar gagnaverndarstofnanir gætu, með þátttöku í sameiginlegu eftirlitsnefndinni, haft það eftirlit með meðferð
persónuupplýsinga í hinum miðlæga hluta SIS-gagnasafnsins, sem þeim ber.

Dómsmálaráðuneytið (97/229). Tölvunefnd benti á að í nýjum lögum um öryggisþjónustu nr. 58/1997, sbr. og reglugerð nr. 340/1997, erm
gert ráð fyrir því að starf þeirra sem hafa öryggisþjónustu með höndum geti m.a. falist í notkun myndavéla við eftirlit með fólki, bæði á
lokuðum svæðum og svæðum opnum almenningi. Tölvunefnd benti á að taka mynda og eftirfarandi skráning þeirra upplýsinga sem fram
koma á myndum getur falið í sér kerfisbundna skráningu persónuupplýsinga í skilningi 1. gr. laga nr. 121/1989. Fram að gildistöku laga nr.
58/1997 var skráning slíkra upplýsinga óheimil án samþykkis Tölvunefndar en með ákvæði 1. gr. framangreindra laga var tilgreindum
aðilum veitt lagaheimild fyrir slíkri söfnun persónuupplýsinga. Nefndin benti á að hvorki er í umræddum lögum, né í reglugerð nr.
340/1997, að finna reglur um hvað umrædd fyrirtæki megi gera við þær persónuupplýsingar sem þau safna né skilmála um varðveislu þeirra
o.s.frv. Benti Tölvunefnd ráðuneytinu á mikilvægi þess settar yrðu reglur þar að lútandi áður en kæmi til leyfisveitinga skv. 2. gr. laganna
fyrir einstaka aðila til að annast öryggisþjónustu.

Framsýni ehf. (96/261). Tölvunefnd hafði á árinu 1996 lagt fyrir fyrirtækið að gæta þess að gera viðtakendum korta skýra grein fyrir því
hvaða upplýsingar yrðu skráðar hjá fyrirtækinu og hvernig þeir gætu fengið upplýsingar um sig afmáðar úr þeirri skrá. Þegar kom að
útsendingu kynningarbréfa með umræddum kortum taldi Tölvunefnd þau vera ófullnægjandi þ.s. þar sagði aðeins að starfsemin væri í
"samræmi við lög nr. 121/1989" en engar nánari upplýsingar. Var lagt fyrir fyrirtækið að bæta úr þessu.

Héraðsbókasafn Kjósasýslu, Marta Hildur Richter (97/157) óskaði leyfis til að mega skoða útlánasögu bókasafnsgagna með notkun
tölvukerfisins Mikromarc. Tölvunefnd taldi upplýsingar um útlánasögu einstaklinga geta talist persónuupplýsingar í skilningi laga nr.
121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Með vísun til framkominna röksemda
varðandi nauðsyn þess að geta skoðað útlánasöguna, féllst nefndin hins vegar á að það verði gert með þeim skilyrðum að umrædd skrá
yrði byggð upp eftir safngögnum en ekki nöfnum lánþega, að einungis forstöðumaður bókasafnins hefði aðgang að uppl. um útlánasögu
og að einungis yrði hægt að fletta upp tveimur síðustu lánþegum viðkomandi safngagns.

Íslensk erfðagreining hf. (96/296). Á árinu náðist samkomulag við fyrirtækið um skilmála sem gilda skyldu um meðferð allra
persónugagna sem notuð eru í þeim erfðarannsóknum sem það á aðild að. Í nóvember heimsótti Tölvunefnd síðan fyrirtækið til að kanna
hvort unnið væri eftir umræddum skilmálum. Um þetta er fjallað í kafla 3.11.

Jón & Jón, auglýsingastofa ehf. (96/180). Tölvunefnd ákvað að taka mál hans upp að nýju (sjá ársskýrslu 1996), með vísun til 25. gr.
stjórnsýslulaga, þar sem í ljós hafði komið að tiltekið bréf Reiknistofunnar ehf. hafði einungis verið kynnt honum munnlega en ekki
bréflega. Í framhaldi af því var honum sent umrætt bréf Reiknistofunnar ehf. og gefinn kostur á að gera við það athugasemdir. Að virtum
þeim athugasemdum og málavöxtum taldi nefndin málið einkennast af staðreyndaágreiningi sem ekki yrði úr skorið nema með
vitnaleiðslum eða öðrum sönnunaraðgerðum sem ekki verða viðhafðar af stjórnvaldi eins og Tölvunefnd. Nefndin fór á ný yfir öll gögn
málsins og lagði mat á málsatvik með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr. 121/1989. Var niðurstaða nefndarinnar sú að ekkert
nýtt hefði fram komið er af mætti ræða með óyggjandi hætti, að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá skilmála sem henni er gert að starfa eftir, í
þeim mæli að svipta ætti hana starfsleyfi sínu.

Lífsvog (97/126). Tölvunefnd hafði fyrr á árinu komist að þeirri niðurstöðu að samtökunum væri, með samþykki þolenda mistaka í
læknismeðferð, heimilt að færa á skrá nöfn þeirra sjálfra, en ekki nöfn þeirra sem kvartað væri undan. Síðar barst nefndinni afrit af bréfi
landlæknis til samtakanna sem bar með sér að hann sendi samtökunum umbeðna læknaskrá "vegna þeirra skilyrða Tölvunefndar, um að
meintir fremjendur mistaka, yrði ekki persónugreindir, í skráningu kvartana". Af því tilefni benti Tölvunefnd á að þar sem hvert númer í
læknaskrá svarar til ákveðins læknis væri notkun þeirra jafngild fullri persónugreiningu upplýsinganna og því óheimil.

Neytendasamtökin (96/261) gerðu athugasemdir við starfsemi fyrirtækisins Framsýni ehf. og skráningu þess á upplýsingum um viðskipti
einstaka Fríkortshafa. Afgreiðsla Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Sigurjón Þorbergsson (97/218) bað um að mega gefa út skattskrár í samvinnu við Upplýsingaþjónustuna ehf. Tölvunefnd benti á að
samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 98. gr. laga um tekju- og eignaskatt, með síðari breytingum, er heimil opinber birting á þeim upplýsingum um
álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta og því væri ekki þörf sérstakrar heimildar frá
Tölvunefnd til útgáfu skattskrár.

Sjúkrahús Reykjavíkur (97/082) sendi erindi varðandi skráningu persónuupplýsinga við notkun svokallaðs matskerfis fyrir
aðstoðarlækna við sjúkrahúsið. Afgreiðsla Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

Skráningarstofan hf. (97/319). Tölvunefnd setti Skráningarstofunni hf. starfsreglur um meðferð upplýsinga í ökutækjaskrá. Eru þær birtar
í kafla 3.11.

Skrifstofa Reykjanesbæjar (97/290). Tölvunefnd hafði afskipti af þeirri starfsemi bæjarins sem ætlað var að skapa aðhald gegn
skattsvikum. Gerð er grein fyrir afgreiðslu Tölvunefndar í kafla. 3.11.

Umboðsmaður Alþingis (97/240) óskaði skýringa Tölvunefndar vegna kvörtunar sem honum hafði borist frá Jóni & Jóni auglýsingastofu
ehf., annars vegar yfir meðferð Tölvunefndar á kæru yfir starfsháttum Reiknistofunnar ehf. og hins vegar yfir þeirri ákvörðun
Tölvunefndar að svipta Reiknistofuna ekki starfsleyfi. Þær skýringar sem Tölvunefnd veitti umboðsmanni eru birtar í kafla 3.11.

Umboðsmaður barna (97/188) spurði um afgreiðslu Tölvunefndar á erindi Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála varðandi
könnun á högum og líðan íslenskra ungmenna. Skýringar Tölvunefndar eru birtar í kafla 3.11.

Upplýsingaþjónusta ehf. (96/082) kvartaði yfir efni umsagnar sem Tölvunefnd hafði veitt ríkisskattstjóra varðandi beiðni
Upplýsingaþjónustunnar ehf. um að fá skattskrár frá öllum umdæmum landsins afhentar á tölvutæku formi til að nota við mat á fjárhag og
lánstrausti einstaklinga og fyrirtækja. Svar Tölvunefndar er birt í kafla 3.11.

3.11. Nánari greinargerð um einstakar afgreiðslur.

3.11.1. – Atvinnuleysistryggingasjóður (97/171) óskaði umsagnar um rétt sinn til að fá tölvuaðgang að bótaskrám
Tryggingastofnunar ríkisins, greiðslum úr lífeyrissjóðum og skrám ríkisskattstjóra. Í beiðni sjóðsins sagði m.a.:

"Þann 1. júlí 1997 munu ný lög nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar taka gildi með ýmsum breytingum er
varðar bótarétt. Á sama tíma verður tekin í notkun nýr þáttur í tölvukerfi sjóðsins.

Það sem þetta nýja kerfi mun gera er að:

1. Senda skeyti til ofangreindra aðila fyrir hverja nýja umsókn sem berst um
atvinnuleysisbætur og bera saman þær upplýsingar sem umsækjandi gefur og
jafnframt að sannreyna vottorð vinnuveitanda eða kanna skil á
tryggingagjaldi fyrir þá sem starfað hafa sjálfstætt.

2. Á tveggja til þriggja mánaða fresti munu síðan verða teknar prufur úr
gagnasafni og lesið saman við sömu skrár til að kanna hvort einhverjar
breytingar hafi orðið á högum umsækjanda sem gætu eða ættu að breyta
bótarétti/greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Rétt er að benda á að með nýjum lögum lengist bótatímabil úr 52 vikum í 5 ár þannig að upplýsingar í
frumumsókn verða ekki endurnýjaðar árlega eins og verið hefur og því enn meiri nauðsyn að kanna
reglulega hvort einhverjar breytingar hafi orðið.

Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laganna byggist bótaréttur launamanna á vinnu s.l. 12 mánuði í tryggingaskyldri
vinnu, þ.e. þeirri vinnu sem atvinnurekandi greiðir tryggingagjald af og umsækjandi greiðir staðgreiðslu
skatta af. Bótaréttur sjálfstætt starfandi byggist á skilum á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi á síðustu
mánuðum.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna á að greiða barnadagpeninga, þeirra sem greiða meðlög, beint til
Innheimtustofnunar sveitarfélaga en ekki til umsækjanda sjálfs og eru þetta nýmæli í lögunum. Samkvæmt
upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er hægt að nálgast þessar upplýsingar í gegnum tölvukerfið
Tryggva, en Innheimtustofnun mun ekki hafa tölvukerfi með slíku aðgengi. Í 4. mgr. sömu greinar er kveðið
á um elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins skulu koma til frádráttar
atvinnuleysisbótum. Það ákvæði er óbreytt frá núgildandi lögum en nýmæli í greininni eru að, sama gildi um
greiðslur úr almennum og frjálsum lífeyrissjóðum. Óbreytt er að, bætur skerðist hlutfallslega ef umsækjandi
fær ekki fullar atvinnuleysisbætur.

...

Ástæða er til að vekja athygli á að í flestum fyrirspurnum verður um já/nei svör að ræða og að allt verður
unnið í skeytaformi en ekki með uppflettingum."Í svari Tölvunefndar, dags. 14. maí 1997, sagði m.a.:

"Þær upplýsingar sem Atvinnuleysistryggingasjóður æskir aðgangs að varða fjárhagsmálefni einstaklinga, í
skilningi laga nr. 121/1989, sem sanngjarnt getur verið og eðlilegt að leynt fari. Um miðlun slíkra
persónuupplýsinga gildir 5. gr. sömu laga, þar sem er að finna þá grundvallarreglu íslensks réttar að óheimilt
sé, án heimildar í öðrum lögum, að miðla viðkvæmum persónuupplýsingum. Slíka heimild er að mati
Tölvunefndar að finna í 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem öðlast munu gildi þann 1.
júlí nk. Með vísun til þess, að því gættu að af bréfi yðar má ráða að einungis verði aflað upplýsinga um þá
sem hafa sótt um atvinnuleysisbætur, gerir Tölvunefnd gerir ekki athugasemdir við að slík samkeyrsla sem
lýst er í bréfi yðar fari fram, frá 1. júlí nk. að telja, með þeirri aðferð sem í bréfi yðar er lýst. Tölvunefnd leggur
hins vegar til að þess verði jafnan gætt að kynna umsækjanda um atvinnuleysisbætur tilvist aðgangsins og
leita eftir samþykki hans."3.11.2. – Á.L. (96/303) kvartaði yfir því að mjólkurbússtjóri Kaupfélags Suður-Þingeyinga hafi, án hans samþykkis, veitt
sveitarstjórn [...] upplýsingar úr skrám um persónuleg málefni Á.L. og sambýliskonu hans, nánar tiltekið um nýtingu á
fullvirðisrétti. Í kvörtun Á.L. sagði m.a.:

"Málavextir eru þeir að við höfðum leitað aðstoðar sveitarfélags okkar við að fá aukið mjólkurgreiðslumark.
Var það gert á þeim forsendum að tekjur heimilisins voru allt of lágar af þeim búskap sem fyrir var til að unnt
væri að framfleyta fjölskyldu okkar af þeim. Hér [...] býr átta manna fjölskylda, sú stærsta í sveitinni.

Þegar viðræður við sveitarfélagið fóru fram, en það var í árslok 1993 þóttu okkur undirtektir vegna þessara
umleitana heldur dræmar og náðist ekki samkomulag þar um. Ekki gaf sveitarstjórnin neinar viðhlítandi
skýringar á afstöðu sinni og afgreiddi málið ekki formlega fyrr en nú í haust, tæpum þrem árum síðar.

Í mf. bréfi sem oddviti [...]hrepps sendi okkur 24. sept. sl. kemur fram að ástæða þessa hafi verið að sú, að
kvóti sá sem við hefðum fyrir hafi ekki verið nýttur og ekki hafi verið útlit fyrir að svo yrði.

Strax og við lásum þetta varð okkur ljóst að upplýsingar þær sem þetta hlaut að byggjast á væru ekki
allskostar nákvæmar. Til að leiðrétta það töldum við réttast að fá yfirlit hjá mjólkursamlaginu á Húsavík um
kvóta okkar og innlegg frá upphafi og leggja fyrir sveitarstjórn þessu til leiðréttingar.

Þegar ég aflaði þessara upplýsinga hjá samlaginu upplýsti samlagsstjóri að tveir hreppsnefndarmenn úr [...]
hefðu falast eftir upplýsingum um nýtingu á kvóta okkar fyrir einhverjum árum síðan og hann hafi þá sagt
þeim að hann hafi ekki verið að fullu nýttur. Auk þess hefðum við ekki veitt viðtöku þrjú þús. ltr.
mjólkurkvóta sem búnaðarsambandið hafi einhverntíman boðið okkur. Þetta sagði samlagsstjóri mér
ótilkvaddur eins og allt væri þetta satt og rétt og ekkert launungamál.

Oddviti [...] hefur staðfest að hafa fengið þær upplýsingar hjá [...] samlagsstjóra að kvóti okkar hafi verið
vannýttur og ekki hafi verið útlit fyrir annað en svo yrði áfram.

...

Teljum við ekki skipta máli í hvaða formi nefndar upplýsingar samlagsstjóra eru veittar; Þá þykir okkur
einnig fráleitt að veita upplýsingar af þessu tagi án samþykkis og vitundar þeirra sem í hlut eiga.

Sú var þó raunin í þessu tilviki auk þess voru upplýsingarnar rangar í öllum atriðum og notaðar gegn
hagsmunum okkar."Í skýringum mjólkurbússtjóra Kaupfélags Suður-Þingeyinga bréf, sagði m.a.:

"Upplýsingar þær sem undirritaður veitti [...], hreppsnefndarmönnum og vörðuðu fullvirðisrétt og
framleiðslu í [...] 1986-1996, voru gefnar að beiðni þeirra vegna afgreiðslu á erindi sem [...] hafði lagt fyrir
hreppsnefndina og ítrekað að fá afgreitt. Ljóst var að ekki fengist erindi þetta afgreitt nema hreppsnefndin
fengi umræddar upplýsingar staðfestar af utanaðkomandi aðila. Það var og skoðun undirritaðs að umrædd
upplýsingagjöf hafi ekki stangast á við ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð
persónuupplýsinga. Hliðstæðar upplýsingar um kvótaeign aðila sem t.d. stunda fiskveiðar, birtast nánast
daglega í blöðum og tímaritum og ekki talið athugavert. Meira að segja hvílir sú lagaskylda á þessum aðilum
að þeir upplýsi um heildarréttindi sín (kvótaeign) og nýtingu þeirra í ársreikningum þeirra. Þannig geta
umræddar upplýsingar að mati undirritaðs ekki verið persónuupplýsingar, frekar en t.d. álagningaskrá
skattyfirvalda, fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins, bifreiðaskrá Bifreiðaskoðunar Íslands, veðbækur
sýslumannsembætta o.s.frv. Hinsvegar get ég ekki séð að mér hafi borið nein skylda til að gefa umræddar
upplýsingar. Upplýsingarnar fóru hins vegar til aðila sem bundnir voru trúnaði vegna afgreiðslu málsins á
stjórnvaldsstigi og því óhætt að ætla að engin hætta hafi verið á því að að þær bærust til óviðkomandi aðila
eða yrðu opinberaðar. Afleiðing þess að neita umræddum hreppsnefndarmönnum og þar með
hreppsnefndinni í heild um umbeðnar upplýsingar hefði hins vegar orðið sú að enn frekari frestum hefði
orðið á afgreiðslu málsins af hálfu hreppsnefndarinnar eða að því hefði einfaldlega verið vísað frá. Hins
vegar taldi ég það aðeins vera [...] til framdráttar að þær yrðu lagðar fram án frekari málalenginga þar sem
ljóst var að málið fengist ekki afgreitt nema umbeðnar upplýsingar yrðu lagðar fram af þriðja aðila og hitt að
ég taldi mig fyrst og fremst vera að spara [...] óþarfa snúninga og tíma við að afla þeirra og koma þeim síðan
til hreppsnefndarinnar.

Í greinargerð þeirra hjóna, [...], "um nýtingu (fullvirðisréttar) greiðslumarks vegna mjólkurframleiðslu í [...]
árið 1987-1996", koma fram ýmsar skýringar þeirra á því hversvegna þeim tókst ekki að nýta framleiðslurétt
sinn á hverju umræddra ára og á tímabilinu í heild, hvað var flutt á milli ára o.s.frv. Þær upplýsingar sem
undirritaður gaf voru byggðar á fyrirliggjandi gögnum um fullvirðisrétt og framleiðslu, en engin tilraun gerð
til að gefa skýringar á ástæðum þess að munur myndaðist þar á. Til þess hljóta framleiðendur að vera færari,
enda undirritaður ekki meðvitaður um einstök atriði í búrekstri innleggjenda Mjólkursamlags KÞ frá einum
tíma til annars. Það getur ekki verið á ábyrgð undirritaðs að þeir sem við upplýsingunum tóku hafi misskilið
eða mistúlkað þær. Þær voru settar fram á skýran og einfaldan hátt og byggðar á þeim upplýsingum sem
fyrir lágu. Hins vegar virðist hreppsnefnd [...] hafa tekið sína ákvörðun og sú niðurstaða hlýtur að vera á
hennar ábyrgð en ekki undirritaðs. Ég vísa því algjörlega á bug að ég hafi með þeim upplýsingum sem ég
gaf valdið [...] einhverju tjóni, hvorki fjárhagslegu eða öðru. Einhverri meintri bótaskyldu í þessu sambandi
vísa ég algjörlega til föðurhúsanna. Hafi þau orðið fyrir einhverju tjóni vegna afgreiðslu málsins, sem ég get
ekki séð, er það alfarið á ábyrgð þeirra sem að afgreiðslunni komu."Í athugasemdum Á.L. við svar mjólkurbússtjórans sagði m.a.:

"Í upphafi vil ég vekja athygli nefndarmana á að samlagsstjóri gerir ekki neinar athugasemdir við lýsingu
mína af gangi mála í kærubréfinu. Af því má ætla að staðreyndir málsins eru all skýrar.

Samlagsstjóri kveðst í greinargerð sinni hafa fengið vitneskju um að beiðni um téðar upplýsingar hafi tengst
afgreiðslu á erindi mínu til hreppsnefndar [...] og staðfestir þar með trúnaðar og lögbrot hreppsnefndar
gagnvart mér. Þar vísa ég einkum til 59. 61. og 2. mgr. 62. gr. l. um félagsþjónustu sveitarfélaga no. 40/1991.
Um það verður fjallað á öðrum vettvangi.

Hinsvegar telur samlagsstjóri sig hafa haft fulla heimild til að láta hreppsnefndarmönnunum þessar
upplýsingar í té. Til að styðja þá afstöðu sína telur hann upp ýmsar upplýsingar sem honum þykir
hliðstæðar og allir hafi aðgang að. Ætla verður þó að birting þeirra sé heimil eða ákvörðuð skv. lögum. Hér
liggur ágreiningsefnið því fyrir. Við hvað takmarkast miðlun þeirra upplýsinga sem hér um ræðir? Er miðlun
þeirra lögleg með þeim hætti sem hér hefur orðið?

Samlagsstjóri telur sér ekki hafa verið skylt að láta nefndar upplýsingar í té. Samkvæmt því virðist hann álíta
að geðþótti þeirra sem hafa í vörslu sinni skrár sem innihalda upplýsingar af þessu tagi hvernig farið skuli
með þær. Nauðsynlegt er því að Tölvunefnd taki af öll tvímæli hvað þetta varðar.

Samlagsstjóri kveðst hafa verið að gera mér greiða, spara mér óþarfa snúninga með þessu öllu saman. Hver
er reyndin af þessari greiðasemi? Bú mitt hefur hrunið nánast til grunna á þessum þremur árum sem liðin eru
frá því að ég óskaði liðsinnis [...] við að koma því í vænlegra horf. Ef marka má niðurlag bréfs oddvita [...] frá
24. sept. sl. var því hafnað á grundvelli upplýsinga sem staðfest er að fengust hjá samlagsstjóra.

Samlagsstjóri kveðst ekki í neinu hafa reynt að tryggja að nefndar upplýsingar væru réttar s.s. hvað hafi
verið flutt milli ára o.s.frv. Hann hafi tæpast haft nein tök á því, og bendir á, "að til þess hljóti framleiðendur
að vera færari, enda sé hann ekki meðvitaður um einstök atriði í búrekstri innleggjenda". Þessu er ég
sammála, en til að það sé unnt verða viðkomandi að hafa vitneskju af umfjöllun mála sinna. Svo var ekki í
þessu tilfelli og er það meginefni kærunnar "að samlagsstjóri hafi án okkar samþykkis og vitundar" veitt
nefndum aðilum þessar upplýsingar, þrátt fyrir, einsog hann viðurkennir, að geta ekki tryggt að þær væru
réttar."Niðurstaða Tölvunefndar var eftirfarandi:

"Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1989 um meðferð og skráningu persónuupplýsinga er með
persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða einkamálefni og fjárhagsmálefni sem sanngjarnt er og
eðlilegt að leynt fari. Telja verður að upplýsingar þær sem um ræðir í máli þessu falli undir fjárhagsmálefni í
skilningi framangreinds ákvæðis í lögum 121/1989 og lúti því reglum þeirra laga og úrskurðarvaldi
Tölvunefndar.

Um slíkar upplýsingar gildir, skv. 5. gr. laganna, sú regla að þeim er því aðeins heimilt að miðla að brýnir
brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga krefjist þess, enda sé ótvírætt að þörfin á að fá
upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum. Þá gildir samkvæmt 3. mgr. 5. gr.
sú regla að því aðeins sé heimilt að skýra frá slíkum upplýsingum að til þess standi samþykki hins skráða
eða að slík upplýsingamiðlun sé eðlilegur þáttur í starfsemi skráningaraðilans.

Í máli því sem hér um ræðir liggur ekki fyrir að framangreindum skilyrðum hafi verið fullnægt. Í fyrsta lagi
verður hvorki séð að hagsmunir viðkomandi einstaklinga hafi krafist miðlunar umræddra
persónuupplýsinga, heldur var þvert á móti sérstök ástæða til að sýna varúð þar sem ljóst mátti vera að
umræddar upplýsingar gætu haft bein áhrif til skerðingar á fjárhag viðkomandi, né verður séð að brýnir
almannahagsmunir hafi krafist slíks. Í öðru lagi er fram komið að engin tilraun var gerð til að afla samþykkis
viðkomandi einstaklinga fyrir miðlun upplýsinganna, þrátt fyrir að sérstakt tilefni hafi verið til þess þar sem
ýmsar skýringar gátu fyrir því verið með hvaða hætti fullvirðisréttur var nýttur. Þá verður með engu móti
séð að miðlun upplýsinga um slík einkamálefni sé eðlilegur þáttur í starfsemi mjólkursamlagsins.

Með vísun til framanritaðs er það álit Tölvunefndar að mjólkurbússtjóri Mjólkursamlags Kaupfélags
Þingeyinga hafi brotið gegn ákvæðum 5. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga
þegar hann, án samþykkis hlutaðeigandi einstaklinga, miðlaði um þá persónuupplýsingum með þeim hætti
sem um ræðir í máli þessu."3.11.3. – Á.B. (97/428) spurði Tölvunefnd hvort leynileg myndbandupptaka vinnuveitanda af starfsfólki á vinnustað, í því
skyni að rannsaka meint brot starfsmanna, samrýmdist lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.Í svari Tölvunefndar sagði m.a.:

"... í gildandi lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 er ekki að finna sérstakt
ákvæði um notkun myndavéla við söfnun persónuupplýsinga um fólk. Tölvunefnd hefur hins vegar litið
svo á að taka mynda geti eftir atvikum jafngilt skráningu persónuupplýsinga í skilningi framangreindra laga.
Af því leiðir að hún er að meginstefnu til óheimil nema til hennar standi sérstök heimild, þ.e. lagaheimild,
samþykki hins skráða eða heimild Tölvunefndar. Í bréfi yðar er sérstaklega spurt um leynilega
myndbandsupptöku. Augljóst er að til "leynilegrar" söfnunar persónuupplýsinga verður ekki stofnað með
samþykki hinna skráðu og ekki stendur til hennar leyfi Tölvunefndar, sbr. 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr.
121/1989. Þá er til þess að líta hvort til hennar standi heimild í öðrum lögum. Ljóst er að lögreglu er slík
myndataka heimil, ef fullnægt er skilyrðum laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Samkvæmt 1. mgr.
66. gr. þeirra laga fer lögreglan með rannsókn opinberra mála nema öðru vísi sé mælt fyrir í öðrum lögum. Í
86. gr. oml. er mælt fyrir um töku mynda í þágu rannsóknar og er hún, skv. 87. gr. sömu laga, háð leyfi
dómara nema um sé að ræða töku mynda á almannafæri. Þá segir í lögum nr. 58/1997 um öryggisþjónustu að
slík þjónusta geti falist í eftirliti hvort heldur sé með eftirlitsferðum vaktmanna eða með myndavélum, en ekki
verður talið að þar sé átt við leynilega töku mynda. Samkvæmt framanrituðu verður ekki ráðið að í öðrum
lögum sé að finna heimild til slíkrar töku mynda sem fyrirspurn yðar lýtur að.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og
fjölskyldu. Friðhelgi einkalífs felst í rétti til að njóta verndar um einkalíf sitt og persónulega hagi. Taka
mynda af fólki er í eðli sínu afar viðkvæms eðlis og felur í sér mikla ógn við friðhelgi einkalífs. Með vísun til
þess sem áður segir um að telja verður töku og söfnun mynda í eðli sínu jafngilda söfnun og vinnslu
persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989 og að hlutverk þeirra laga er að tryggja mönnum einkalífs
vernd að því er varðar skráningu og meðferð persónuupplýsinga telur Tölvunefnd leynilega töku ekki fá
samrýmst þeim lögum."3.11.4. – Á.M. (97/132) bað um að fá aðgang að gögnum embættis sýslumannsins í Kópavogi varðandi þau afbrot
tiltekins manns sem tengdust íbúð sem hann hafði á leigu í Kópavogi. Var beiðnin rökstudd með vísun til 8. gr. laga nr.
121/1989 og að brýn nauðsyn væri á að fá aðganginn vegna útburðarmáls á hendur tilgreindum manni.Í svari Tölvunefndar sagði m.a.:

"Samkvæmt meðfylgjandi gögnum munuð þér hafa, með bréfi dags. 17. þ.m., farið þess á leit við
sýslumanninn í Kópavogi að hann afhenti yður endurrit af ferilskrá viðkomandi manns. Í bréfinu eru
tilgreindar þær skýringar að gagnanna sé þörf vegna riftunar leigusamnings vegna vanskila á
leigugreiðslum, slæmrar umgengni um íbúðina o.fl. Með svarbréfi sýslumanns til yðar, dags. 21. mars sl.,
munuð þér síðan hafa fengið lista yfir mál skráð í málaskrá lögreglunnar sem með einhverjum hætti tengjast
umræddri íbúð, auk þess sem í bréfi sýslumanns að finna all ítarlega greinargerð um brotaferil [..].

Samkvæmt 5. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 121/1989 er án sérstakrar heimildar óheimilt að skýra frá upplýsingum
um brotaferil manna, þ. á m. um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan
verknað. Samkvæmt 8. gr. sömu laga getur tölvunefnd heimilað þeim sem sýnir fram á að honum sé þörf á
ákveðnum skráðum upplýsingum er falla undir ákvæði laganna vegna dómsmáls eða annarra slíkra
laganauðsynja slíkan aðgang, enda sé þá ótvírætt að þörfin á því að fá upplýsingarnar vegi þyngra en
tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.

Tölvunefnd ræddi erindi yðar á fundi sínum þann 2. þ.m. og fór yfir gögn málsins. Taldi Tölvunefnd einkum
bera að líta til þess að um er að ræða persónuupplýsingar sem skv. 5. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 121/1989, beri
að takmarka aðgang að, og þess hagsmunamats sem gera ber skv. 8. gr. sömu laga. Með vísun til þess hve
ítarlegar upplýsingar yður hafa þegar verið veittar með umræddu bréfi sýslumanns í Kópavogi taldi nefndin
ekki sýnt að til staðar sé slík þörf sem 8. gr. laga nr. 121/1989 byggir á. Að því gættu, og með vísun til 5. gr.,
sbr. 4. gr., laga nr. 121/1989, og þess að leigusala standa til boða önnur og nærtækari réttarúrræði á grv.
húsaleigulaga, ákvað nefndin að synja beiðni yðar."3.11.5. - Bakki hf., Bolungarvík (97/289). Tölvunefnd gerði athugasemdir við skráningu og birtingu persónuupplýsinga
um frammistöðu og viðveru einstakra starfsmanna. Tilefni umfjöllunarinnar var frétt í Deginum-Tímanum þar sem
meðhöndlun upplýsinganna var lýst með svofelldum hætti:

"Í frystihúsi Bakka í Bolungarvík er fullkomið tölvukerfi flæðilínunnar m.a. notað til að keyra út tvisvar á dag
skrár, sem hengdar eru upp á vegg. Þar má sjá nöfn og númer allra kvenna í húsinu, hvort þær mættu á
réttum tíma, vinnsluhraða þeirra, nýtingu, hvað oft var skoðað og fjölda galla. ...."Í heimsókn Tölvunefndar í fyrirtækið útskýrðu forsvarsmenn þess hvernig að umræddri skráningu og meðferð
upplýsinganna var staðið. Kom m.a. fram að við launaútreikning væri byggt á svokölluðu hópbónuskerfi og væri það í
samræmi við kjarasamning starfsfólks frystihússins. Væri daglega fest upp skrá sem sýndi afköst einstakra starfsmanna,
byggð á upplýsingum úr tölvukerfi flæðilínunnar. Fullyrtu forsvarsmenn fyrirtækisins að skráin væri birt að kröfu
starfsfólksins en sögðust sjálfir engra hagsmuna hafa að gæta af birtingunni. Þá kom og fram að samið hefði verið um að
taka upp einstaklingsbónuskerfi í frystihúsinu og væri unnið að breytingum á tölvukerfinu til að koma því á.Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Að áliti Tölvunefndar eru upplýsingar um frammistöðu og viðveru starfsmanna upplýsingar um
einkamálefni þeirra sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Falla þær þar með undir gildissvið laga nr.
121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og lúta eftirlits- og ákvörðunarvaldi Tölvunefndar. Í
3. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga kemur fram að kerfisbundin skráning
þeirra persónuupplýsinga sem 1. gr. tekur til sé heimil að því tilskildu að skráningin sé eðlilegur þáttur í
starfsemi viðkomandi aðila og taki einungis til starfsmanna eða annarra sem tengjast starfi hans eða
verksviði. Af þessu lagaákvæði leiðir að það er takmörkunum háð hverjir megi skrá persónuupplýsingar, um
hverja og hversu víðtæk skráningin megi vera í hverju tilviki. Er það niðurstaða Tölvunefndar að yður sé
heimilt að skrá til eigin nota upplýsingar um viðveru og frammistöðu einstakra starfsmanna, en einungis að
því marki sem nauðsyn krefur, m.a. vegna uppgjörs við starfsmenn. Um birtingu þessara upplýsinga gildir
hins vegar 5. gr. sömu laga. Þar er að finna þá grundvallarreglu íslensks réttar að óheimilt er að birta
persónuupplýsingar sem mönnum eru sérstaklega viðkvæmar nema í vissum undantekningatilfellum, þ. á m.
ef til birtingarinnar stendur sérstakt samþykki hins skráða.

Með vísun til framanritaðs og að gættum almennum sjónarmiðum um vernd persónuupplýsinga leggur
Tölvunefnd hér með fyrir yður að fara í skráningu og meðferð upplýsinga um frammistöðu og viðveru
einstakra starfsmanna að eftirfarandi fyrirmælum, sem gilda hvort heldur um er ræða hópbónuskerfi eða
einstaklingsbónus:

1. Að skrá ekki aðrar upplýsingar um frammistöðu starfsmanna en þær sem eru frystihúsinu nauðsynlegar
samkvæmt framansögðu.

2. Að gæta fullkomins trúnaðar um efni upplýsinganna og veita ekki öðrum aðgang að þeim en
framleiðslustjóra, þeim sem annast útreikning launa, þ.m.t. bónusgreiðslna, og starfsmanninum sjálfum.

3. Að hver starfsmaður eigi hvenær sem er aðgang að öllum þeim upplýsingum sem fyrirtækið hefur skráð
um hann.

4. Að við starfslok geti starfsmaður fengið afhent öll gögn um eigin frammistöðu og/eða krafist þess að
öllum slíkum upplýsingum um sig verði eytt úr gögnum fyrirtækisins.

5. Að skráðar upplýsingar um frammistöðu starfsmanna verði ekki notaðar í öðrum tilgangi en þeim sem
upphaflega var með söfnun þeirra og skráningu.

6. Að öllum gögnum um frammistöðu verði eytt þegar liðin eru 2 ár frá starfslokum viðkomandi starfsmanns,
hafi þau þá eigi þegar verið afhent honum eða þeim eytt að hans beiðni.

7. Að kynna hverjum starfsmanni rétt sinn samkvæmt fyrirmælum þessum."3.11.6. – Borgarstjórinn í Reykjavík (96/256). Í bréfi til Tölvunefndar var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar,
félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, varðandi forvarnir í grunnskólum
Reykjavíkur, kynnt með svofelldum orðum:

"Framkvæmd umrædds samstarfsverkefnis má greina í þrjá þætti: leitarstarf, greiningu/ráðgjöf og meðferð.
Rétt þykir því að gera grein fyrir skráningu persónuupplýsinga í hverjum þætti fyrir sig. Ástæða er til að
taka skýrt fram að engin áform hafa verið uppi í skráningu persónuupplýsinga að því er lýtur að
verkefninu í heild sinni í einu formi eða öðru.

1. Leitarstarf verkefnisins byggir á tveimur meginstoðum, annars vegar starfsemi nemendaverndarráða sbr.
lög nr. 66/1995 um grunnskóla og hins vegar starfsemi barnaverndarnefnda, sbr. lög um vernd barna og
ungmenna nr. 58/1992. Undirstaða leitarstarfsins felst í kerfisbundnu samstarfi nemendaverndarráða annars
vegar og barnaverndarnefndar hins vegar, sem miðar að því að hafa uppi á nemendum, sem stofna velferð
sinni í hættu með neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Í 39. gr. grunnskólalaga er gert ráð fyrir stofnun nemendaverndarráða til að "samræma störf þeirra sem sjá
um málefni einstakra nemenda varðandi námsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og heilsugæslu". Á grundvelli
þessarar lagagreinar hefur menntamálaráðuneytið sett reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum nr.
388/1996. Í 4. gr. reglugerðarinnar er því lýst með hvaða hætti mál einstakra nemenda skuli lögð fyrir
nemendaverndarráð, í 5. gr. er m.a. að finna heimild til handa nemendaverndarráði að boða á sinn fund þá
aðila sem tengjast máli nemandans, t.d. fulltrúa barnaverndarnefndar, og jafnframt að fela ákveðnum aðilum
innan ráðsins að fylgja málinu eftir, ef nauðsyn krefur. Í 6. gr. reglugerðarinnar er m.a. fjallað um meðferð
persónuupplýsinga og fer um hana skv. reglum um meðferð trúnaðargagna. Ekki er fyrirhuguð önnur
skráning á persónuupplýsingum af hálfu nemendaverndarráða vegna leitarstarfsins en venja stendur til
þegar fjallað er um einstaklingsmálefni á þeim vettvangi og er þá um að ræða bókun í trúnaðarbók, sem er í
vörslu skólastjóra. Einu upplýsingarnar sem nemendaverndarráðið kann að láta öðrum í té, að forsjáraðilum
barns undanskildum eða án samþykkis þeirra, eru tilkynningar til barnaverndarnefndar, sbr. 13. gr. laga um
vernd barna og ungmenna.

Í barnaverndarlögum er víða að finna skyldur barnaverndarnefnda á sviði forvarna og leitarstarfs, einkum í
1. og 4. gr. laganna. Þá gera lögin ráð fyrir nánu samstarfi við aðrar stofnanir sem sinna börnum, einkum
skóla, sbr. 16. gr. laganna. Raunar mæla lögin fyrir um að barnaverndarnefndir skuli halda sérstaka skrá um
þau börn í umdæmi sínu sem hún telur að hætta sé búin, sbr. 20. gr. laganna. Kveðið er á um að setja skuli
reglugerð með þessu ákvæði laganna en enn hefur ekki orðið að því. Þess vegna hafa barnaverndarnefndir
ekki sinnt þessari skyldu sinni eftir því sem best er vitað. Ekki eru uppi áform um að skrá börn skv. grein
þessari í tengslum við fyrirhugað leitarstarf. Skráningu barna verður hgað eins og venja er þegar
barnaverndarnefnd hefur afskipti af börnum og ungmennum. Barnaverndarnefnd mun að sjálfsögðu engum
láta í té þær upplýsingar um persónuleg málefni þeirra sem höfð verða afskipti af í tengslum við fyrirhugað
leitarstarf frekar en tíðkast í tengslum við önnur afskipti nefndarinnar.

2. Greining og ráðgjöf. Í tengslum við samstarfsverkefnið verður opnuð meðferðar- og ráðgjafarstöð þar
sem foreldrar og börn geta fengið viðeigandi ráðgjöf og þjónustu svo sem fjallað er um í greinargerð
verkefnisstjóra. Þangað verður foreldrum og börnum vísað af hálfu nemendaverndarráða og
barnavernarnefndar auk þess sem stöðin verður öllum opin, sem áhuga hafa á að færa sér þjónustuna í nyt.
Boðið verður upp á einstaklings- og fjölskylduviðtöl ásamt fyrirlestrum og hópastarfi. Þeir sérfræðingar sem
sinna greiningu og ráðgjöf verða fengnir frá ýmsum stofnunum sem veita samskonar þjónustu, s.s.
Félagsmálastofnun Reykjavíkur, Samvist, Stuðlum og barna- og unglingageðdeild Landsspítalans. Þær
persónuupplýsingar sem hugsanlega verða skráðar eru ekki aðrar en þær sem foreldrar veita sjálfir og
nauðsynlegar þykja til að veita þeim þá hjálp sem þeir leita eftir. Ákveðið hefur verið að skjólstæðingar
stöðvarinnar fái sérstakt númer og öll skráning persónuupplýsinga verði á númer en ekki nafn. Númeralykill
verði síðan varðveittur á öðrum stað en persónuupplýsingarnar. Að samstarfsverkefninu loknu mun
þessum gögnum síðan verða tryggilega eytt. Engum verður veittur aðgangur að umræddum upplýsingum,
nema skylda beri til tilkynningar skv. barnaverndarlögum.

3. Meðferð. Fyrirhugað er að bjóða upp á hópmeðferð fyrir börn og fræðslu fyrir foreledra í meðferðar- og
ráðgjafarstöðinni. Ekki verður um neina skráningu persónuupplýsinga að ræða í tengslum við þá starfsemi."Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Að framan er lýst skráningu og meðferð persónuupplýsinga við framkvæmd samstarfsverkefnis
Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins til að
efla forvarnir í grunnskólum Reykjavíkur. Af því, sem þar er rakið, má ráða að unnið verður með upplýsingar
um einkamálefni einstaklinga í skilningi 1. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr., laga nr. 121/1989 um skráningu og
meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt því ákvæði er skráning slíkra upplýsinga óheimil nema til þess
standi sérstök heimild samkvæmt öðrum lögum, að hinn skráði hafi sjálfur látið upplýsingarnar í té eða
þeirra verið aflað með hans samþykki eða að til hennar standi heimild Tölvunefndar.

Tölvunefnd ræddi mál þetta á fundi sínum þann 4. þ.m. Ákvað nefndin, að teknu tilliti til hagmuna
hlutaðeigandi, þ. á m. hagsmuna hinna skráðu, að veita heimild skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989 til slíkrar
meðferðar persónuupplýsinga sem lýst er í greinargerð yðar. Nefndin bindur heimild sína eftirfarandi
skilmálum:

1. Að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar verði gætt.

2. Að upplýsingum úr "trúnaðarbók" verði ávallt eytt þegar ungmenni nær 18 ára aldri og eftirliti
barnaverndaryfirvalda sleppir, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1992.

3. Að í allri framkvæmd greiningar- og ráðgjafarstarfs verði þess gætt að skrá ekki aðrar persónuupplýsingar
en þær sem foreldrar veita sjálfir og nauðsynlegar þykja til að veita þeim þá hjálp sem þeir leita eftir. Skulu
skjólstæðingum gefin sérstök númer og öll skráning persónuupplýsinga fara fram undir þeim númerum en
hvorki nöfnum né öðrum persónuauðkennum. Skal þess gætt að varðveita númeralykil á öðrum stað en
persónuupplýsingarnar og að enginn hafi að honum aðgang nema ábyrgðaraðili verkefnisins. Að
samstarfsverkefninu loknu skal öllum gögnum tryggilega eytt og Tölvunefnd tilkynnt um þá eyðingu.

4. Að óheimilt er að veita óviðkomandi aðilum aðgang að upplýsingum þeim sem skráðar hafa verið. Skal
því aðeins miðla umræddum upplýsinum að skylda beri til tilkynningar skv. barnaverndarlögum.

5. Að óheimilt er að nota upplýsingar þær sem skráðar hafa verið til annars en þess sem var tilgangur
skráningarinnar.

6. Að Tölvunefnd getur hvenær sem er sett frekari skilyrði varðandi könnun þessa ef hagsmunir lögaðila
eða einstaklinga krefjast þess."3.11.7. – Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (95/216) óskaði umsagnar Tölvunefndar um fyrirspurn sem ráðuneytinu barst
frá Flugleiðum hf. um varðveislu upplýsinga sem tengjast flugfarseðlum og mögulegar lagahindranir fyrir því að nota megi
og varðveita á ferðagögnum "machine readable biometric data". Samkvæmt þeim gögnum sem bréfi ráðuneytisins fylgdu er
á vegum alþjóðasamtaka flugfélaga um flutningsskilmála ofl. (IATA) stefnt að því að hefðbundnir farseðlar renni sitt skeið
á enda á næstu árum, að á flugvöllum hverfi venjulegt farþegaskráningarkerfi og í stað þess komi svokallað "Automated
Screening of Travellers". Þessar hugmyndir um sjálfvirkni í afgreiðslu byggja á því að unnt verði vélrænt að bera kennsl á
farþega og tengja þá við þau ferðagögn sem þeir hafa undir höndum. Til þess verða ferðagögnin sjálf að bera með sér
fingrafar eða annað sambærilegt einstaklings auðkenni. Í sumum ríkjum eru lögfestar takmarkanir á notkun fingrafara og var
m.a. spurt hvort hér á landi væru lagahindranir fyrir slíku.

Tölvunefnd óskaði umsagna hliðstæðra stofnana um persónugagnavernd í Danmörku og í Noregi. Í svari dönsku
stofnunarinnar segir að stofnunin hafi ekki fjallað um mál varðandi skráningu flugfélaga á "biometriske data" en telji
lögmæti skráningar flugfélaga á upplýsingum á flugmiða og ferðaupplýsingum velta á mati á einstökum skráningum og
tengslum við lagaákvæði um skráningu af hálfu einkaaðila (lov om private registre) þ. á m. ákvæðum um gildissvið laganna.
Í svari norsku stofnunarinnar kom hins vegar fram að á árinu 1988 hafi stofnunin afgreitt mál þar sem fingraför voru notuð
sem auðkenni í aðgangskortaeftirlitskerfi og hafi niðurstaða stofnunarinnar verið sú að banna myndun gagnagrunns með
fingraförum en gera ekki athugasemdir við að fingrafar sé geymt í aðgangskortinu sjálfu. Var þetta sjónarmið
stofnunarinnar einkum stutt þeim rökum að notkun og varðveisla fingrafara geti farið gegn friðhelgi einkalífs vegna hættu á
misnotkun, auk þess sem óvissa væri um lagaheimild fyrir söfnun þeirra. Taldi stofnunin notkun fingrafara, í stað annars
konar persónuauðkenna, fela í sér óæskilegra styrkingu "eftirlits-þjóðfélagsins" og vegna friðhelgi einkalífs skuli almennt
ekki leyfa notkun einstakra líkamseinkenna sem persónuauðkenna. Tölvunefnd skoðaði málið einungis út frá sjónarmiðum
um vernd persónuupplýsinga og efni laga nr. 121/1989 en tjáði sig ekki um að hvaða marki það kynni að snerta ákvæði
annarra laga. Í niðurstöðu Tölvunefndar segir m.a.:

"Við afgreiðslu á því erindi sem hér um ræðir er fyrst til þess að líta hvort málið varði meðferð
persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og falli þar
með undir gildissvið þeirra. Samkvæmt 1. gr. laganna taka þau til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og
annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er með persónuupplýsingum átt
við upplýsingar er varða einkamálefni eða önnur málefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Af þeim gögnum sem fyrir liggja má ráða að mál þetta varðar notkun fingrafara (eða annarra sambærilegra
líkamsauðkenna) sem persónuauðkenni á ferðagögnum. Er ekki glöggt hvort ætlunin sé að þau komi í stað
hefðbundinna auðkenna, eða þeim til viðbótar. Við mat á því hvort slík persónuauðkenni séu
persónuupplýsingar í skilningi laganna ber að líta til þess að samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laganna eiga lögin við
um upplýsingar um einkamálefni er varða tiltekinn aðila, þótt hann sé ekki nafngreindur, ef hann er
sérgreindur með nafnnúmeri, kennitölu eða öðru skráningarauðkenni sem unnt er að persónugreina með eða
án greiningarlykils. Í greinargerð með 1. gr. laganna kemur fram að meginstefnan sé að vernda upplýsingar
um einkalíf manna og að utan gildissviðs laganna falli skrár sem eingöngu hafi að geyma nöfn manna og
heimilisföng, símanúmer og stöðu. Þar sem unnt er að persónugreina fingraför með til þess gerðum
tæknibúnaði verður að telja þau "skráningarauðkenni" í skilningi áðurgreindrar 4. mgr. 1. gr. laga nr.
121/1989 sem lúti svipuðum sjónarmiðum og önnur auðkenni sem eru notuð til að persónugreina
upplýsingar. Þá ber að líta til þess að undir verndarsvið laganna falla fyrst og fremst þær
einkalífsupplýsingar sem slík skráningarauðkenni vísa til en ekki auðkennin sjálf. Er samkvæmt framanrituðu
ekki sjálfgefið að fingraför verði talin til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989. Það hvort svo sé
ræðst af atvikum máls hverju sinni og því hvernig fingraförin verði notuð. Miklu ræður hvort fingrafar verði
einungis varðveitt í aðgangskortinu sjálfu eða hvort fingraförum verði safnað í einn gagnagrunn. Þá ber að
líta til þess hvort unnið verði með fingraför á þann hátt að jafnframt megi lesa úr upplýsingar sem falli undir
ákvæði laganna svo og hvort þau verði flutt til opinberra yfirvalda á áfangastað farþegans og hvernig
hagað verði úrvinnslu þeirra þar.

Samkvæmt framangreindu orkar tvímælis að "fingraför" sem slík verði talin til persónuupplýsinga í skilningi
laga nr. 121/1989. Nú er hins vegar hafinn undirbúningur að endurskoðun laga um skráningu og meðferð
persónuupplýsinga. Í því starfi verður m.a. litið til tilmæla Evrópuráðsins á sviði persónuupplýsingaverndar
og tilskipunar Evrópusambandsins um vernd persónuupplýsinga ( "On the protection of individuals with
regard to the prosessing of personal data and on the free movement of such data") og væntanlega tekið
mið af þeirri þróun sem orðið hefur varðandi gildissvið persónuupplýsingalöggjafar og hugtakanotkun. Má
benda á að í tilskipun Evrópusambandsins er hugtakið "personal data" skilgreint mun rýmra en verið hefur
til þessa. Á sama við um tilmæli Evrópuráðsins og má nefna að víða er hugtakið "identification data"
skilgreint sem ein tegund "personal data".

Að óbreyttum lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga verður samkvæmt framanrituðu ekki
fullyrt að ákvæði þeirra standi því í vegi að fingraför verði notuð í stað hefðbundinna persónuauðkenna.
Hins vegar vill Tölvunefnd lýsa þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að settar verði nákvæmar reglur um
söfnun og meðferð fingrafara, þ. á m. um hverjir megi viðhafa slíka söfnun og í hvaða tilgangi. Þá er og ljóst,
þegar litið er til eðlis starfsemi flugfélaga, að skráning persónuupplýsinga á þeirra vegum hlýtur iðulega að
verða liður í alþjóðlegu skráningarferli og því verði reglur um skráninguna að taka mið af erlendum reglum
og alþjóðlegum skuldbindingum. Að lokum vill Tölvunefnd árétta mikilvægi þess að slíku skráningarferli
verði ekki hrint af stað nema að höfðu samráði við hana."3.11.8. – Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/040) óskaði umsagnar Tölvunefndar um beiðni sem því hafði borist frá
Veritas ehf. um aðgang að tilteknum upplýsingum, annars vegar varðandi ráðningu og kjör þýska lögreglumannsins Karls
Schütz, sem starfaði á sínum tíma að lausn svokallaðra Guðmundar- og Geirfinnsmála, hins vegar varðandi tiltekið mál, sem
rekið var í sakadómi í ávana- og fíkniefnum á hendur Sævari Ciesielski, og gögn sem tengdust svokölluðum Guðmundar-
og Geirfinnsmálum. Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:"Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga kemur fram, að með
persónuupplýsingum sé m.a. átt við upplýsingar um einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni
einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Í 4. gr. laganna eru tilgreindar þær
persónuupplýsingar sem taldar eru sérstaklega viðkvæmar. Eru þar í dæmaskyni nefndar upplýsingar um
hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.

Varðandi fyrri þátt máls þessa, þ.e. gögn um ráðningu og kjör þýska lögreglumannsins Schütz, má telja að
þar geti að einhverju leyti verið um að ræða upplýsingar um fjárhagsmálefni sem séu í eðli sínu
persónuupplýsingar í skilningi framangreinds ákvæðis. Varðandi seinni þátt málsins verður hvorki af bréfi
ráðuneytisins né meðfylgjandi gögnum glöggt ráðið hvert sé efni viðkomandi upplýsinga. Hins vegar
kemur fram að þau tengist málum sem rekin voru fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnum og svokölluðum
Guðmundar- og Geirfinnsmálum, en af því má draga þá ályktun að a.m.k. að hluta til sé um að ræða
upplýsingar um refsiverða verknaði í skilningi framangreindrar 4. gr. laga nr. 121/1989, sambærilegar við þær
upplýsingar sem er að finna í skrám lögreglu um slíka verknaði.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 er að finna þá grundvallarreglu íslensks réttar að óheimilt sé að veita aðgang
að persónuupplýsingum sem undir gildissvið laganna falli. Frá þessari reglu er að finna nokkrar
undantekningar. Í fyrsta lagi getur Tölvunefnd heimilað aðgang að slíkum upplýsingum, í öðru lagi geta
ákvæði annarra laga heimilað slíkan aðgang og í þriðja lagi getur hinn skráði sjálfur heimilað hann.

1.

Mat á því hvort veita beri aðgang að upplýsingum um fjárhagsmálefni einstaklinga og tekjur ræðst af öllum
atvikum máls hverju sinni. Ber m.a. að taka tillit til þeirra hagsmuna sem vegast á, auk þess sem virða verður
efni upplýsinga og aldur þeirra. Af þeim gögnum sem fylgdu erindi yðar má ráða að Schütz starfaði að
umræddu máli sem opinber starfsmaður. Tekið skal fram að almennt hafa upplýsingar um föst ráðningarkjör
opinberra starfsmanna ekki verið taldar til persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 121/1989. Gerir Tölvunefnd
því fyrir sitt, út frá persónuverndarsjónarmiðum, ekki athugasemdir við að ráðuneytið veiti upplýsingar um
með hvaða kjörum hann var ráðinn á sínum tíma en telur með vísun til sömu sjónarmiða óeðlilegt að
ráðuneytið veiti upplýsingar um heildarlaunagreiðslur til hans. Að öðru leyti skal, að því er varðar aðgang
að einstökum skjölum um ráðningu hans, vísað til ákvæða upplýsingalaga nr. 50/1996 eftir því sem við á.

2.

Varðandi upplýsingar um refsiverða verknaði ber að líta til þess að hvorki er í lögum nr. 19/1991 né
ákvæðum annarra laga er varða starfsemi lögreglunnar að finna ákvæði sem heimila lögreglustjórum eða
dómsmálaráðuneyti að veita óviðkomandi aðgang að kærum, lögregluskýrslum eða öðrum sambærilegum
upplýsingum. Í öðru lagi er ekki fram komið í máli þessu að þeir sem hlut eiga að máli hafi heimilað
ráðuneytinu að afhenda umrædd gögn. Árétta ber að þó heimilt sé að veita aðgang að gögnum á grundvelli
samþykki hins skráða skal gæta þess að veita einungis upplýsingar sem hann varða en ekki aðra
einstaklinga. Varði umrædd gögn fleiri einstaklinga en þann sem veitt hefur samþykki sitt er veiting aðgangs
háð því skilyrði að unnt sé að skilja á milli upplýsinga um hann og um aðra. Í þriðja lagi skal tekið fram að
ekki hefur af hálfu Veritas ehf. verið óskað heimildar Tölvunefndar fyrir því að fá aðgang að umræddum
gögnum. Með vísun til framanritaðs, og að því gættu að ekkert hefur fram komið um brýna hagsmuni er
krefjist þess að umbeðinn aðgangur verði veittur, telur Tölvunefnd ráðuneytinu ekki heimilt að verða við
beiðni Veritas ehf."

3.11.9. – Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/227) óskaði umsagnar Tölvunefndar um erindi borgarstjórans í Reykjavík
um rekstur öryggismyndavélakerfis í miðborginni. Niðurstaða Tölvunefnd var svohljóðandi:

"1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, ná þau lög til hvers
konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum og eiga lögin við hvort sem
skráning er vélræn eða handunnin. Lögin taka til skráningar af hálfu atvinnurekenda, fyrirtækja, félaga og
stofnana og til skráningar á vegum opinberra aðila. Með persónuupplýsingum er átt við upplýsingar sem
varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra
lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 3. mgr. 1. gr. Með kerfisbundinni skráningu
upplýsinga er átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild,
sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989.

Að áliti tölvunefndar getur myndataka borgaryfirvalda í miðborg Reykjavíkur, og eftir atvikum eftirfarandi
skráning þeirra upplýsinga sem fram koma á myndunum, falið í sér kerfisbundna skráningu
persónuupplýsinga í skilningi 1. gr. laga nr. 121/1989. Er þá átt við þær persónuupplýsingar sem greinir í b.
lið 1. mgr. 4. gr. laganna, þ.e. upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður um refsiverðan verknað.

2.

Í 3. gr. laga nr. 121/1989 segir að kerfisbundin skráning persónuupplýsinga sem 1. gr. tekur til sé því aðeins
heimil að skráningin sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 4. gr. laga
121/1989 er óheimilt að skrá upplýsingar um hvort maður sé grunaður um refsiverðan verknað. Skráning er
þó heimil, sbr. 2. mgr. 4. gr., ef til þess stendur samþykki hins skráða, leyfi Tölvunefndar eða sérstök heimild
í öðrum lögum.

Augljóst er að til skráningar þeirrar sem hér um ræðir verður ekki stofnað með samþykki hinna skráðu og
ekki stendur til hennar útgefið leyfi tölvunefndar, sbr. 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989. Kemur því næst
til athugunar hvort lagaheimild standi almennt til slíkrar skráningar og þá jafnframt, hvort borgaryfirvöldum
sé slík skráning heimil, ef lagaheimild er fyrir hendi.

3.

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 fer lögreglan með rannsókn opinberra
mála nema öðru vísi sé mælt fyrir í öðrum lögum. Í lögreglulögum nr. 90/1996, sem öðlast munu gildi þann 1.
júlí nk., er hlutverki lögreglu lýst í 1. gr. þar sem segir að hlutverk lögreglu sé m.a. að vinna að uppljóstran
brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um
meðferð opinberra mála og í öðrum lögum. Með "rannsókn" er átt við þær aðgerðir lögreglu og ákæruvalds
sem miða að því að upplýsa hvort framið hafi verið brot sem sæta eigi saksókn samkvæmt lögum um
meðferð opinberra mála og hver hafi framið það. Í þessu skyni er lögreglu veitt heimild til ýmissa
rannsóknaraðgerða. Til sumra þeirra getur hún ekki gripið nema að undangengnum úrskurði dómara, en
aðrar getur hún sjálf tekið ákvörðun um að framkvæma.

Í 86. gr. laga nr. 19/1991 er mælt fyrir um rannsóknaraðgerðir, svo sem hlustun síma, upptöku símtala og
annarra fjarskipta (a - liður); öflun upplýsinga um símtöl eða fjarskipti (b - liður) og upptöku samtala eða
annars konar hljóða eða merkja (c - liður). Þá segir í d - lið sömu greinar að heimilt sé í þágu rannsóknar "að
taka myndir, hvort sem er ljósmyndir eða kvikmyndir, án þess að þeir sem myndaðir eru viti af því."

Í 1. og 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 er mælt fyrir um skilyrði þess að framangreindum aðgerðum verði beitt.
Almenna reglan er sú að til þeirra þurfi dómsúrskurð, auk þess sem önnur nánar tilgreind skilyrði þurfa að
vera uppfyllt. Í 3. mgr. sömu greinar segir ennfremur: "Heimilt er að taka upp hljóð og taka myndir í þágu
rannsóknar á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. sé
fullnægt."

Samkvæmt framanrituðu telur Tölvunefndar að verði umræddur myndatökubúnaður eingöngu notaður af
lögreglu og í þágu í rannsóknar brots og að myndir geti verið sönnunargagn í opinberu máli á hendur hinum
brotlega, rúmist myndatakan innan þess, sem lýst er í d - lið 86. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þar sem
myndatakan fer fram á almannafæri leiðir af 3. mgr. 87. gr. laganna að unnt er að grípa til þessara aðgerða án
þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. 87. gr. sé fullnægt.

Með hliðsjón af framansögðu er það álit tölvunefndar, að lögreglan geti sett upp slíkan myndabúnað með
stoð í 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991. Er þá lagt til grundvallar að meðferð og varsla þeirra gagna sem þannig
fást verði með sama hætti og meðferð og varsla annarra rannsóknargagna sem lögreglan aflar. Með vísun til
þess að Borgarráð Reykjavíkur hefur hins vegar ekki slíkt rannsóknarvald og getur þ.a.l. ekki beitt þeim
rannsóknaraðgerðum, sem lögin heimila þeim er með rannsóknarvald fara, er borgarráði óheimilt að stofna til
slíkra aðgerða. Tekið skal fram að Tölvunefnd telur ekkert því til fyrirstöðu að borgaryfirvöld afhendi
lögreglunni myndavélar til notkunar við vöktun í löggæsluskyni enda verði myndatökuvélarnar settar upp
af lögreglunni og meðferð og varsla þeirra gagna sem þannig fást með sama hætti og meðferð og varsla
annarra rannsóknargagna sem lögreglan aflar.

4.

Í lögum nr. 58/1997 um öryggisþjónustu, sem öðlast munu gildi þann 1. júlí nk., er að finna ákvæði varðandi
öryggisþjónustu í atvinnuskyni. Segir í 1. gr. þeirra laga að slík þjónusta geti falist í eftirliti með lokuðum
svæðum eða svæðum opnum almenningi, hvort heldur sé með eftirlitsferðum vaktmanna eða með
myndavélum. Þó ekki sé það berlega orðað í lögunum verður að telja þau einungis taka til starfsemi þeirra
sem annast eftirlit með mannvirkjum og svæðum í eignavörsluskyni og að þó slík þjónusta sé um margt
áþekk hlutverki lögreglu þjóni hún ekki löggæsluhagsmunum, í skilningi laga um meðferð opinberra mála.
Með vísun til þess, og að því gættu að dómsmálaráðuneytið hefur, með bréfi til Tölvunefndar dags. 23. júní
1997, lýst því yfir að umrætt ákvæði veiti öryggisþjónustuaðilum aðeins heimild til að að fylgjast "með
svæði af skjá sem tengdur er tökuvél" og veiti ekki "heimild til að taka upp myndefni", telur Tölvunefnd
framangreind lög ekki hafa áhrif á niðurstöðu um mat á því hvort lagaheimild standi til töku mynda af
almenningi í miðborg Reykjavíkur.

.....

Í stuttu máli er það niðurstaða Tölvunefndar að taka mynda af fólki og eftirfarandi skráning þeirra
upplýsinga sem aflað er með myndatökunni séu í skilningi 1. gr. laga nr. 121/1989 kerfisbundin skráning
þeirra persónuupplýsinga, sem greinir í b. lið 1. mgr. 4. gr. sömu laga. Er skráning slíkra upplýsinga óheimil
án samþykkis hins skráða, nema til hennar standi samþykki Tölvunefndar eða sérstök lagaheimild, sbr. 2. og
3. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989.

Að áliti Tölvunefndar veita ákvæði 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, lögreglunni
vegna rannsóknaraðgerða heimild til uppsetningar myndatökubúnaðar og töku mynda. Skal þess þá gætt
að staðið verði að öflun, meðferð og vörslu gagna með sama hætti og um önnur rannsóknargögn sem
lögreglan aflar. Ákvæði 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 veita borgaryfirvöldum í Reykjavík ekki heimild til þess
að setja upp slíkan myndatökubúnað, sem um ræðir í máli þessu, og skrá og varðveita þær upplýsingar sem
þannig er aflað.

Setji lögregla upp slíkan myndatökubúnað, sem hér um ræðir, í samræmi við þær heimildir, sem lög nr.
19/1991 veita henni, og borgaryfirvöld eða aðrir aðilar óska aðgangs að slíkum upplýsingum, er lögreglunni
óheimilt að veita aðgang að upplýsingum þessum, ef unnt er að rekja þær til ákveðinna einstaklinga."3.11.10. – Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/227) óskaði álits Tölvunefndar á hvort því væri heimilt að flytja
persónuupplýsingar úr landi á grundvelli Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum, sem gerður var í
Strassborg 20. apríl 1959, og fullgiltur var af Íslands hálfu 18. september 1984 samkvæmt heimild í 25. gr. laga nr. 13/1984. Í
22. gr. þess samnings segir:

"Sérhverjum samningsaðila ber að tilkynna sérhverjum aðila öðrum um alla dóma í sakamálum og síðari
ráðstafanir varðandi ríkisborgara síðarnefnds aðila, sem færðar eru í sakaskrá. Dómsmálaráðuneyti skulu
skiptast á slíkum upplýsingum a.m.k. einu sinni á ári. Þegar viðkomandi maður er talinn ríkisborgari tveggja
eða fleiri samningsaðila ber að veita sérhverjum slíkum aðila upplýsingarnar nema maðurinn sé ríkisborgari
þess aðila sem það landssvæði tilheyrir, þar sem hann var dæmdur."

Í 4. gr. viðbótarsamnings við framangreindan samning frá 17. mars 1978, sem einnig hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, er
eftirfarandi ákvæði bætt við 22. gr. samningsins:

"Ennfremur skal hver sá samningsaðili sem látið hefur í té ofannefndar upplýsingar senda hlutaðeigandi
samningsaðila, að beiðni hans í einstökum málum, afrit af refsidómum og um ráðstafanir svo og allar aðrar
upplýsingar sem máli skipta til að auðvelda honum að meta hvort þörf er einhverra ráðstafana innanlands.
Slík skipti skulu eiga sér stað milli hlutaðeigandi dómsmálaráðuneyta."Í niðurstöðu Tölvunefnar sagði m.a.:

"Í 27. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga segir að kerfisbundin söfnun og skráning
persónuupplýsinga hér á landi til geymslu eða úrvinnslu erlendis sé óheimil, en Tölvunefnd geti þó
heimilað hana ef sérstaklega stendur á. Þá segir að skrá eða frumgögn, sem geymi upplýsingar þær sem
greinir í 1. mgr. 4. gr. laganna megi eigi láta af hendi til geymslu eða úrvinnslu erlendis nema samþykki
Tölvunefndar komi til. Tölvunefnd tók erindi ráðuneytisins til umfjöllunar á fundi sínum þann 29. september
sl. og ákvað, með vísun til framangreindra ákvæða Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum,
sem hefur eins og áður segir verið fullgiltur af Íslands hálfu, að samþykkja umræddan flutning
persónuupplýsinga úr landi, en einungis að því er varðar þau aðildarríki þessa samnings sem jafnframt hafa
fullgilt Evrópusamning um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, sem gerður var
í Strassborg 28. janúar 1981 og verið fullgiltur af Íslands hálfu, sbr. ályktun Alþingis 17. desember 1990."3.11.11. Emil L. Sigurðsson, Jón Steinar Jónsson og Guðmundur Þorgeirsson, læknar (heilsugæslustöðinni Sólvangi)
(97/413). Tölvunefnd fékk, frá manni sem óskaði nafnleyndar, fyrirspurn um könnun þessara lækna sjúklingum með
kransæðasjúkdóm. Læknarnir höfðu hleypt þessari könnun af stokkunum án leyfis frá Tölvunefnd en þeir töldu sig ekki
þurfa hennar leyfi. Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:".... Af því tilefni vill Tölvunefnd taka fram að um aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum og um
skráningu slíkra upplýsinga fer samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð
persónuupplýsinga. Í þeim lögum er greint á milli þeirra persónuupplýsinga sem eru mönnum sérstaklega
viðkvæmar og annarra persónuupplýsinga. Gilda um hinar fyrrnefndu mun strangari reglur, bæði að því er
varðar heimild til skráningar og um aðgang að þegar skráðum upplýsingum.

Upplýsingar um heilsuhagi manna teljast í öllum tilvikum til þeirra persónuupplýsinga, sem teljast mönnum
sérstaklega viðkvæmar, en upplýsingar af þessu tagi eru jafnan viðfangsefni vísindarannsókna á
heilbrigðissviði með einum eða öðrum hætti. Af því leiðir að vísindarannsóknir á heilbrigðissviði falla í
öllum tilvikum undir gildissvið laganna að því er varðar skráningu slíkra upplýsinga í þágu
vísindarannsókna og um aðgang að slíkum upplýsingum í sama tilgangi, hafi upplýsingarnar þegar verið
skráðar. Í þessu felst tvennt:

Í fyrsta lagi það að skráning persónuupplýsinga í þágu vísindarannsókna á heilbrigðissviði er óheimil, nema
fullnægt sé skilyrðum laganna. Í öðru lagi að óheimilt er að veita aðgang að persónupplýsingum í þágu
vísindarannsókna á heilbrigðissviði, nema fullnægt sé skilyrðum laganna. Í þriðja lagi að um meðferð
persónuupplýsinga sem skráðar hafa verið í þágu vísindarannsókna fer eftir ákvæðum laganna, en af því
leiðir að hún lýtur eftirlitsvaldi Tölvunefndar. Þá skal og tekið fram að þótt samþykki hins skráða veiti
vísindamanni heimild til skráningar upplýsinga eða til aðgangs að þegar skráðum upplýsingum, gilda
almenn ákvæði laganna eftir sem áður um önnur atriði, sem varða upplýsingarnar og meðferð þeirra. Má þar
sem dæmi nefna ákvæði laganna varðandi aðgang að upplýsingunum, bæði aðgang hins skráða og þriðja
manns, varðveislu upplýsinga og hugsanlega samkeyrslu þeirra við aðrar upplýsingar, leiðréttingu eða
eyðingu rangra eða villandi upplýsinga og eftirlit Tölvunefndar svo einhver dæmi séu nefnd. Af
framanrituðu leiðir að yður bar að bera rannsóknina undir Tölvunefnd áður en þér hófuð framkvæmd
hennar.

...

Fyrir liggur að auk þess að senda bréf og spurningalista til yðar eigin sjúklinga hafið þér fengið frá
starfssystkinum yðar upplýsingar um nöfn þeirra sjúklinga og sent þeim samskonar bréf og spurningalista.
Ljóst er að hjá manni sem fær í hendur póst frá ókunnugum á þeirri forsendu að hann sé haldinn tilteknum
sjúkdómi hljóta að vakna spurningar um hvort sjúkraskrár hans njóti ekki eðlilegrar þagnarverndar. Í ljósi
sjónarmiða um friðhelgi einkalífs og grunnreglna laga um meðferð persónuupplýsinga og réttindi sjúklinga
er mikilvægt að þess sé ávallt gætt að óviðkomandi fái ekki í hendur upplýsingar um nöfn sjúklinga nema
fyrir liggi að þeir séu því samþykkir. Með vísun til framanritaðs hefði Tölvunefnd í því máli sem hér um ræðir
talið rétt að þér óskuðuð milligöngu læknis viðkomandi sjúklinga við öflun samþykkisyfirlýsinga fyrir
þátttöku í rannsókn þessari.

....

Fram er komið að yður hefur þegar borist nokkur fjöldi samþykkisyfirlýsinga og útfylltra spurningalista.
Tölvunefnd hefur ákveðið að gera, fyrir sitt leyti, ekki athugasemdir við að í þágu umræddrar rannsóknar
verði unnið með persónuupplýsingar um þá sjúklinga sem þegar hafa sent yður skrifleg samþykki fyrir
þátttöku í rannsókninni enda verði í allri meðferð upplýsinganna farið samkvæmt því sem í umrædddum
samþykkisyfirlýsingum greinir og eftirfarandi skilmálum hlítt:

1. Að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar verði gætt.

2. Að engum óviðkomandi aðilum verði veittur aðgangur að skráðum upplýsingum.

3. Að þær upplýsingar sem skráðar hafa verið verði ekki notaðar til annars en þess sem var
tilgangur rannsóknarinnar.

4. Að nöfn þátttakenda eða önnur persónuauðkenni komi hvergi fram.

5. Að upplýsingar úr rannsókninni verði einungis birtar á þann hátt að ekki megi rekja þær til
ákveðinna einstaklinga.

6. Að öll frumgögn rannsóknarinnar verði eyðilögð að lokinni úrvinnslu og Tölvunefnd
tilkynnt um eyðingu gagna."

3.11.12. – Fangelsismálastofnun ríkisins (97/348) óskaði umsagnar nefndarinnar um beiðni sem henni hafði borist frá
Stéttarfélagi lögfræðinga um aðgang að tilteknum upplýsingum um fjárhagsmálefni starfsmanna stofnunarinnar. Í bréfi
Fangelsismálastofnunar sagði m.a.:

"Fangelsismálastofnun hefur borist bréf frá Stéttarfélagi lögfræðinga þar sem m.a. er óskað eftir aðgangi að
ráðningarsamningum við alla háskólamenntaða starfsmenn stofnunarinnar, upplýsingum um launaflokka og
mánaðarlaun þeirra ásamt yfirliti um fasta yfirvinnu, fast álag, akstursþóknun, vaktarálag, orlofsgreiðslum á
yfirvinnu og önnur föst kjör lögfræðinga og annarra háskólamenntaðra starfsmanna.

Stéttarfélagið byggir kröfu sína á ákvæðum 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og bendir m.a. á úrskurð
úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem kveðinn var upp 22. ágúst 1997 í málinu nr. A-22/1997.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga gilda þau lög ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um
skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Fangelsismálastofnun hefur efasemdir um að lög standi til þess að umbeðnar upplýsingar verði veittar.

Hér með er þess óskað að Tölvunefnd taki afstöðu til þess hvort umbeðnar upplýsingar falli undir ákvæði 3.
mgr. 1. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 þar sem m.a. segir að með
persónuupplýsingum sé átt við upplýsingar er varða einkamálefni og fjárhagsmálefni einstaklinga sem
sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari."

...

Í svari Tölvunefndar sagði m.a.:

"Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga taka þau til hvers
konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Samkvæmt 3. mgr. sömu
greinar er með persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni og önnur
málefni einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Er það mat
Tölvunefndar að upplýsingar um laun einstaklinga séu í eðli sínu persónuupplýsingar í skilningi
framangreinds ákvæðis. Um aðgang að slíkum upplýsingum gildir ákvæði 5. gr. laga nr. 121/1989 þar sem
segir að slíkum upplýsingum sé því aðeins heimilt að skýra frá án samþykkis hins skráða að slík
upplýsingamiðlun sé eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans.

Í 5. grein upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka-
eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í
athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, segir svo um skýringu á þessu ákvæði:

"Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra
starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings." Þegar allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið
frá sér til 2. umræðu er ennfremur svo að orði komist í áliti hennar: "Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins
kemur fram að ákvæði greinarinnar standi ekki í vegi fyrir því að almenningur fái aðgang að gögnum um föst
laun og önnur föst launakjör opinberra starfsmanna. Að því leyti sem slík upplýsingagjöf fellur undir
ákvæði frumvarps þessa en ekki ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga,
leggur nefndin sérstaka áherslu á að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögum þessum sé ekki aðeins
tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim
einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem
fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl."

....

Er það afstaða Tölvunefndar að upplýsingar um laun manna séu í eðli sínu persónuupplýsingar sem
sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari og falli því undir gildissvið laga nr. 121/1989. Að því er varðar
launamál opinberra starfsmanna var hins vegar, með 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, mörkuð sú stefna að
almenningur skuli hafa aðgang að upplýsingum um föst laun þeirra og önnur föst kjör. Að öðru leyti verður
að telja opinbera starfsmenn enn njóta réttarverndar til jafns við aðra samkvæmt lögun nr. 121/1989 um
skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt því, og með vísun til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989,
verður að telja að Fangelsismálastofnun sé, án samþykkis viðkomandi starfsmanna, óheimilt að skýra frá
upplýsingum um önnur fjárhagsmálefni þeirra, þ. á m. um heildarlaun þeirra og aðrar greiðslur á grundvelli
umsaminna launaforsendna."3.11.13. – Félagsmálaráðuneytið (95/226) óskaði álits nefndarinnar annars vegar á söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga
um 200 þroskahefta einstaklinga sem fram fór til að undirbúa gerð svokallaðs þjónustumatslykils (sem er matshefti, þýtt og
staðfært og ber heitið ABS-RC:2 ) og hins vegar á því hvort svæðisskrifstofur mættu nota lykilinn í framtíðinni við mat á
þörf fatlaðra fyrir þjónustu og búsetuform. Við skoðun Tölvunefndar á umræddu matshefti kom í ljós að með lyklinum var
leitað eftir mjög viðkvæmum persónuupplýsingum sem ekki var auðvelt að sjá að skiptu máli við mat á þjónustu og
hugsanlegri búsetu. Dæmi um slíkar spurningar í fyrri hluta matsheftisins voru hvort viðkomandi tyggði mat með opinn
munn eða talaði með fullan munn, hvort magi væri útstæður vegna líkamsstellingar, hvort viðkomandi væri útskeifur eða
innskeifur, hvort sterka svitalykt legði úr handarkrikum eða viðkomandi klæddist fötum í ósamstæðum litum. Í síðari hluta
matsheftisins var og sóst eftir viðkvæmum upplýsingum t.d. um hvort viðkomandi færi með slúður um aðra, kenndi öðrum
um eigin mistök eða hagræddi sannleikanum sér í hag. Þá var spurt um sjálfsfróun viðkomandi og hvort hann/hún væri
yfirmáta eggjandi í útliti eða fasi. Tölvunefnd var ljóst að ýmsar upplýsingar væru nauðsynlegar við mat á þjónustu
fatlaðra en virtist þó sem óþarflega nærri einstaklingum væri gengið í fjölmörgum spurningum matsheftisins. Þá var ljóst að
í mörgum tilvikum nægði ekki að fá samþykki hins skráða sjálfs, þar sem erfitt kynni að reynast fyrir hann að gera sér grein
fyrir eðli málsins. Með vísun til þessa bað Tölvunefnd ráðuneytið að skýra hvort það teldi nauðsynlegt að viðhafa slíka
söfnun persónuupplýsinga og hvort það héldi til streitu þeirri fyrirætlun sinni. Í svarbréfi ráðuneytisins sagði m.a.:

"Umönnunarþörf þroskaheftra er afar margbreytileg, hvort sem bornir eru saman einstaklingar eða æviskeið
þeirra. Sú aðstoð sem veita þarf lítur jafnt að beinni, hagnýtri færni til að bjarga sér heima fyrir og í
samfélaginu á eigin spýtur, sem færni til félagslegra samskipta við annað fólk. Þegar við bætist mjög
mismunandi líkamlegt ástand og heilsufar er einsýnt að þroskaheftir eru afar sundurleitur hópur. Það er
einmitt þessi margbreytileiki sem endurspeglast í og skýrir jafnframt hin fjölmörgu atriði sem leitað er
upplýsinga um í umræddu matskerfi, ABS-RC:2.

...

...engin tilviljun ræður því hvað um er spurt. Gögn um gerð ABS-RC:2 bera með sér að jafnt við frumgerð
þess sem síðari útgáfur var safnað saman þúsundum atriða sem kynnu að greina á milli einstaklinga hvað
aðlögunarfærni - og þar með þjónustuþörf - varðar. Látið var á það reyna með vísindalegum aðferðum
hvaða atriði hentuðu best í því skyni. Að því loknu stóðu eftir þau atriði sem sýnt þótti að skiptu mestu
máli. Þau voru valin til að mynda endanlega gerð matskerfisins.

Sum atriði matskerfisins kunna að virka framandleg, sem og nákvæmni þess. Reyndir starfsmenn á sviði
þjónustu við þroskahefta staðfesta hins vegar að ekkert kemur þar á óvart. Öll atriðin eru hluti af veruleika
þeirra sem kynnst hafa breiðum hópi þroskahefts fólks og umönnun þeirra.

Til þess að skýra mál þetta nánar skal vikið stuttlega að atriðum sem þér tiltakið sérstaklega til dæmis um
viðkvæmar persónuupplýsingar. Úr fyrri hluta matskerfisins eru nefnd atriði sem varða borðsiði,
líkamsásýnd, hreinlæti og klæðaburð. Ljóst má vera að möguleikar þroskaheftra á því að laga sig að
samfélaginu hljóta að markast mjög af almennum umgengnisvenjum þeirra, m.a. á þessum sviðum. Sá sem
lyktar illa, er ankannalegur í útliti eða viðhefur taumlausar matarvenjur, vekur fljótt neikvæða athygli. Á því
má einatt taka með viðeigandi leiðbeiningum og þjálfun og draga þannig úr líkum á félagslegri einangrun,
sem einkennir líf margra sem búa við þroskahömlun. Þar kemur til sögunnar þörf fyrir umönnun/þjónustu.

Sama gildir um atriði sem tilgreind eru úr síðari hluta matskerfisins varðandi félagslega hegðun,
ábyrgðarkennd og kynhegðun. Vandi af þessu tagi er all algengur meðal þroskaheftra, eins og rannsóknir
hafa sýnt fram á. Farsæl félagsleg aðlögun, hvort sem er heima fyrir (t.d. á sambýli) ellegar úti í samfélaginu,
er mjög háð því hvernig þeim tekst að fóta sig í þessum efnum. Öflugra leiðbeininga eða hegðunarmótunar
er því einatt þörf í því skyni að draga úr árekstrum við umhverfið.

Ráðuneytinu er ljóst að upplýsingar af því tagi sem hér um ræðir eru persónulegs eðlis og einatt viðkvæmar
í þeim tilvikum sem þær eiga við um viðkomandi. Hins vegar verður ekki horft fram hjá þeim kjarna málsins
að til þess að sinna megi þjónustu og takast á við vanda sem er persónulegs eðlis er óhjákvæmilegt að afla
upplýsinga í þá veru. Hliðstæðu má finna í sjúkraskrám þar sem safnað er upplýsingum um aðsteðjandi
vanda svo beita megi markvissum úrræðum, þó þroskaheftum skuli að öðru leyti ekki líkt við sjúklinga."Að fengnu þessu svari óskaði Tölvunefnd þess að samtökin Þroskahjálp gerðu með rökstuddum hætti grein fyrir þeim
breytingum sem þau teldu þurfa að gera á umræddu matshefti þannig að einungis yrði safnað upplýsingum sem væru
nauðsynlegar til að meta þjónustuþörf viðkomandi einstaklinga. Í svari samtakanna sagði m.a.:

"Landssamtökin Þroskahjálp vilja taka fram eftirfarandi vegna fyrirspurnar tölvunefndar dags. 27. febrúar
1996 um hvaða breytingar þurfi að gera á matsheftinu ABS-RC2, þannig að einungis verði safnað
upplýsingum, sem nauðsynlegar eru til að meta þjónustuþörf viðkomandi einstaklinga.

1. Þroskahjálp hefur aldrei fengið matshefti þetta afhent þrátt fyrir óskir þar að lútandi og er því æskilegt að
tölvunefnd hlutist til um að það verði gert. Samtökin fréttu hins vegar af notkun heftisins þegar búið var að
skrá upplýsingar um meira en 200 einstaklinga og boðuðu þá þegar notendur þess á sinn fund.
Samtökunum var á þeim fundi gerð grein fyrir efnislegu innihaldi heftisins en var neitað um eintak af því. Í
lok fundarins fengu þó tveir feður einstaklinga sem metnir höfðu verið samkvæmt heftinu afhent eintök af
því persónulega.

2. Samtökin hafa mótmælt því að safnað hefur verið nánum persónulegum upplýsingum um meira en 200
einstaklinga samkvæmt hefti þessu. Upplýsinganna var aflað og þær skráðar í langflestum tilfellum án leyfis
og vitundar þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra. Vakin er athygli á því að meðal annars var safnað
upplýsingum um þroskahefta einstaklinga sem starfa á almennum vinnumarkaði að þeim forspurðum og án
þeirra vitundar. Samtökin óska eftir því að tölvunefnd úrskurði um hvort löglega og eðlilega hafi verið
staðið að þeirri upplýsingaöflun.

3. Matsheftið ABS-RC2 er ekki tæki sem er sérstaklega búið til að meta þjónustuþörf fatlaðra einstaklinga,
t.d. hve mörg stöðugildi þarf í íbúðareiningum. Það virðist fyrst og fremst til þess ætlað til þess að meta
hegðun og aðlögunarhæfni í meðferðarskyni en ekki til að ákvarða þjónustuþörf.

4. Landssamtökin Þroskahjálp eru ekki andsnúin gerð þjónustumatslykils enda ákvæði um það í 20. grein
reglugerðar nr. 273/1993 um svæðisskrifstofur en það matshefti sem hér er til umfjöllunar er ekki nothæft í
því skyni að mati samtakanna.

Matsheftið ABS-RC2 skiptist í tvo hluta. Síðari hlutinn fjallar um félagslegt atferli og er hann fullur af
spurningum sem allar hafa neikvætt gildismat. Ekki verður séð að þær þjóni tilgangi þjónustumatslykils og
er reyndar vandséð hvaða tilgangi þær þjóna. Þar er fjallað á neikvæðan hátt um fatlað fólk og er því
harðlega mótmælt. Dæmi um þetta eru mýmörg og eru hér aðeins valin sýnishorn: Tyggur mat með opinn
munn; talar með fullan munn; borðar of hratt eða of hægt; útstæður magi vegna líkamsstellingar; gengur
innskeifur, útskeifur eða gleiður; ekki verður séð hvaða erindi spurningar um kynhegðun eiga í matsheftið;
er afar sérvitur um hvar hann eða hún situr eða sefur; stendur á sérstökum uppáhaldsstöðum t.d. við
glugga; lyktar af öllu; sofnar í stól; er óframfærin og feimin. Margt fleira má nefna en þessi dæmi verða látin
nægja.

Matsheftið virðist hugsað sem meðferðartæki en það felur í sér að líklegt má telja að niðurstöður úr matinu
og einstaka matsþáttum verði notaðar til samanburðar síðar. Það eykur líkur á að með upplýsingar úr
matsheftinu verði ekki farið með fyllstu varúð og trúnaði þar sem þær verða notaðar af mörgum aðilum í
mismunandi tilgangi.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til tölvunefndar dags. 6. febrúar 1996 er gerð tilraun til að kynna matsheftið
sem mikilvægan hlekk í að fullnægja markmiðsgrein laga um málefni fatlaðra um að stuðla beri að því að
fatlaðir geti lifað eðlilegu lífi. Landssamtökin Þroskahjálp draga í efa að notkun þessa matsheftis auki líkur á
að ráðuneytið uppfylli þau markmið og álíta að viðhorf sem koma fram í heftinu leggi miklu fremur áherslu á
að þroskaheftir séu hópur sem geti ekki lifað eðlilegu lífi vegna fötlunar sinnar.

Félagsmálaráðuneytið og aðilar á þess vegum, sem unnið hafa að skráningu persónulegra upplýsinga um
meira en 200 einstaklinga í tilraun til að meta umönnunarþörf þeirra með atferlisskema, virðast ekki líta svo á
að sömu reglur gildi um þroskahefta og aðra. Ráðuneytið vitnar sjálft í bréfi sínu til hliðstæðna að þess mati
sem eru sjúkraskrár. Því er til að svara að um sjúkraskrár gilda ákveðnar reglur, þar á meðal um rétt sjúklings
til að fá afhentar upplýsingar og einnig viljum við benda á að persónulegar upplýsingar eru í flestum
tilvikum gefnar af sjúklingnum sjálfum. Samtökin vilja í þessu sambandi benda á siðareglur sem gilda um
vísindarannsóknir og koma fram t.d. í lagafrumvarpi um réttindi sjúklinga.

Ekki hefur verið sýnt fram á með rökum að matsheftið standist kröfu um vísindaleg vinnubrögð í nútíma
samfélagi og auk þess er enn ítrekað að mannréttindi fatlaðs fólks eru ekki virt með notkun þess. Matsheftið
ABS-RS:2 er að mati samtakanna ónothæft og þá sérstaklega seinni hluti þess. Það sem framar öðru stuðlar
að eðlilegu lífi fatlaðra er að réttur þeirra sé ekki minni en annarra en ekki niðurstaða úr einhverju mati.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að vinna með félagsmálaráðuneytinu að því markmiði að fötluðum
verði gert kleyft að lifa eðlilegu lífi en telja að leiðin að því sé ekki að skrá viðkvæmar persónulegar
upplýsingar á þann hátt sem að framan greinir."Tölvunefnd kynnti félagsmálaráðuneytinu framangreint svar samtakanna Þroskahjálpar og gaf því kost á að gera við það
athugasemdir. Í athugasemdum ráðuneytisins sagði m.a.:

"Samkvæmt bréfi yðar var leitað eftir því við Þroskahjálp að samtökin gerðu nákvæma og rökstudda grein
fyrir hvaða efnisatriði þau teldu ekki eiga heima í matshefti því sem notað er við öflun upplýsinga sem mat á
þjónustuþörf byggir á. Að mati ráðuneytisins er svar við þeim tilmælum ekki að finna í bréfi samtakanna, þó
týnd séu til örfá atriði s.s. að matsheftið sé að þeirra mati "ónofhæft og þá sérstaklega seinni hluti þess".
Erfitt er því að átta sig á afstöðu samtakanna þegar til þess er litið að í bréfinu segir einnig að þau séu "ekki
andsnúin gerð þjónustumatslykils", án þess þó að benda á aðra leið til þess. Hins vegar er að finna í bréfinu
ýmis konar misskilning og staðhæfingar sem óhjákvæmilegt er að leiðrétta. Ráðuneytið telur að það hafi
þegar gert Tölvunefnd grein fyrir öllum meginatriðum máls þessa í fyrri bréfum og greinargerð sem fylgdi
erindi ráðuneytisins í september á fyrra ári. Nokkuð verður því um endurtekningar á fyrri upplýsingum.
Raunar er að sjá á bréfi Þroskahjálpar að samtökin hafi ekki fengið í hendur téða greinargerð þar sem ítarlega
er lýst þeirri aðferð sem þróuð hefur verið. Er það miður því þar er að finna svör við flestum þeim atriðum
sem samtökin gagnrýna. Greinargerðin fylgir þessu bréfi til glöggvunar.

Skal nú vikið að einstökum atriðum í bréfi Þroskahjálpar:

* Í 1. tl. bréfsins er vikið að afskiptum samtakanna af gerð þjónustumatslykilsins. Þeir
sérfræðingar sem verkið unnu töldu sér ekki skylt að kynna það samtökunum sem slíkum,
enda um sérfræðilegt verkefni að ræða. Þeir leituðu hins vegar til fjölmargra aðila sem í
daglegu starfi sínu annast þjónustu við fatlaða, í því skyni að afla ábendinga um gerð og
notagildi lykilsins. Er það rakið í áðurnefndri greinargerð (bls. 6-7). Meðal þeirra aðila voru
reyndar all margir sem starfa með eða í tengslum við Þroskahjálp. Má þar sérstaklega geta
starfsmanna Styrktarfélags vangefinna í Reykjavík, eins af aðildarfélögum samtakanna.

...

* Varðandi 2. tl. skal vísað til X. kafla greinargerðarinnar (bls. 15-18). ...

* Í 3. tl. segir: "Matsheftið ABS-RC:2 er ekki tæki sem er sérstaklega búið að meta
þjónustustörf fatlaðra enstaklinga, t.d. hve mörg stöðugildi þarf í íbúðareiningu." Það er rétt
að matskerfinu ABS-RC:2 er ekki ætlað af hálfu höfunda að meta þjónustuþörf. Því er ætlað
að nýtast 1) sem tæki í greiningu á þroskahömlun, 2) til að kanna styrkleika og veikleika í
aðlögunarfærni - með markvissari áætlanir um þjálfun og meðferð í huga -, og 3) sem
rannsóknartæki, eins og nánar er lýst í VII. kafla greinargerðarinnnar. Það er hins vegar
nýlunda í beitingu matskerfisins, þróuð af þeim sem unnu að gerð þjónstumatslykilsins, að
nota niðurstöður ABS-RC:2 til þess að meta þjónustuþörf.

...

* Varðandi 4. tl. skal vísað til greinargerðarinnar, sem og bréfs ráðuneytisins fyrr á þessu ári.
Þar er ítarlega fjallað um nauðsyn þess að leita svo margvíslegra upplýsinga sem raun ber
vitni.

....

Vegna ummæla í bréfi Þroskahjálpar um að "viðhorf sem koma fram í (mats) heftinu leggi
miklu fremur áherslu á að þroskaheftir séu hópur sem geti ekki lifað eðlilegu lífi vegna
fötlunar sinnar" virðist ástæða til að benda á að þroskaheftir njóta sérstakrar þjónustu
samfélagsins einmitt vegna þess að þeir eru þroskaheftir.

....

Sú fullyrðing að í ABS-RC:2 sé fjallað "á neikvæðan hátt um fatlað fólk" á að mati
ráðuneytisins ekki við rök að styðjast.

...

* Varðandi þá umsögn Þroskahjálpar að "matsheftið virðist hugsað sem meðferðartæki" skal
enn vísað til meðfylgjandi greinargerðar og þess sem að framan greinir um upphaflegan
tilgang með ABS-RC:2. Matskerfið má nota á ýmsa vegu og hér á landi hefur verið þróuð
sérstök leið í því efni.

...

* Ráðuneytið hafnar með öllu þeirri fullyrðingu Þroskahjálpar að ekki hafi "verið sýnt fram á
með rökum að matsheftið standist kröfu um vísindaleg vinnubrögð í nútíma samfélagi". Þvert
á móti skal því haldið fram að mjög hafi verið vandað til allrar vinnu við gerð
þjónustumatslykilsins í vísindalegu tilliti, eins og ítarlega er lýst í meðfylgjandi greinargerð.

Með tilliti til þess að gagnrýni hefur einkum beinst að síðari hluta ABS-RC:2 (Svið XI -
XVIII) óskaði ráðuneytið eftir því við þá sem unnu að gerð þjónustmatslykilsins að fram færi
tölfræðileg greining á því hvaða áhrif það hefði ef einungis yrði notaður fyrri hlut
matskerfisins við mat á þjónustuþörf. Niðurstöður þeirrar greiningar byggir á þeim gögnum
sem aflað var við gerð lykilsins. Hún leiðir í ljós að sviðin sem fyrri hlutinn tekur til ráði
mestu um þjónustuþörf, en síðari hlutinn hafi einnig veruleg áhrif á þörfina. Fylgnin á milli
fyrri og síðari hluta sé hins vegar það sterk, hvað þjónustuþörf varðar, að nákvæmni matsins
minnki en verði nægjanleg með því að nota einungis fyrri hlutann. Í ljósi þessara niðurstaðna
er það vilji ráðuneytisins að við mat á þjónustuþörf verði einungis lagður fyrir fyrri hluti
ABS-RC:2."Með bréfi, dags. 17. desember 1996, kynnti Tölvunefnd Þroskahjálp framangreint svar ráðuneytisins og gaf samtökunum
kost á að gera við það athugasemdir. Það gerðu samtökin með bréfi, dags. 10. janúar sl. Þar segir m.a.:

"Bréf félagsmálaráðuneytisins breytir í engu afstöðu samtakanna þar sem engin ný rök koma þar fram.

...

Áðurnefnt bréf félagsmálaráðuneytisins staðfestir að hvorki var talin ástæða til að kynna
Landssamtökunum Þroskahjálp né öðrum sem hagsmuna eiga að gæta um kerfisbundna söfnun
persónuupplýsinga um meira en 200 fatlaða einstaklinga. Þar kemur einnig fram að heimildar var ekki aflað til
þessarar upplýsingasöfnunar hjá þeim 200 einstaklingum sem um ræðir eða aðstandenum þeirra og heldur
ekki upplýst að hún færi fram. Sú afsökun að einhverjum starfsmönnum Styrktarfélags vangefinna hafi verið
kunnugt um málið breytir auðvitað engu hér um.

Landssamtökin Þroskahjálp árétta að í 4. grein laga nr. 121/1989 segir m.a. þetta:

"Óheimilt er að skrá eftirtaldar upplýsingar er varða einkamálefni einstaklinga

a) upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð,

b) upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað,

c) upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- eða vímuefnanotkun,

d) upplýsingar um félagsleg vandamál,

e) upplýsingar um svipuð einkalífsatriði og greinir í a-d.

Skráning framangreindra upplýsinga er heimil ef sérstök heimild er í öðrum lögum og ef hinn skráði hefur
sjálfur látið upplýsingarnar í té eða upplýsinga hefur verið aflað með samþykki hans. Þá er það skilyrði að
hinum skráða geti ekki dulist að ætlunin sé að skrá þessar upplýsingar."

Samtökin telja að óheimilt sé að skrá upplýsingar sem hér um ræðir samkvæmt framangreindu lagaákvæði og
benda einnig á að ekki var aflað heimildar sem lögin tilgreina sem skilyrði. Þess er því óskað, að tölvunefnd
úrskurði um, hvort löglega hafi verið staðið að framkvæmd þessarar upplýsingasöfnunar og hvort
mannréttindi hafi verið að fullu virt með vísan m.a. til ákvæða stjórnarskrárinnar og ákvæða laga um
skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Þess er einnig óskað að allar upplýsingar sem þegar hefur verið
aflað á grundvelli þessa matslykils verði afmáðar af öllum skrám og útfyllt matshefti eyðilögð.

Samtökin lýsa yfir ánægju með skynsamlega ákvörðun félagsmálaráðuneytisins, sem fram kemur
áðurnefndu bréfi þess, um að hætta við notkun síðari hluta matslykilsins ABS-RC:2 og vilja taka fram að
þau eru reiðubúin til viðræðna og samvinnu við ráðuneytið um notkun fyrri hluta matslykilsins enda verði
farið í einu og öllu að lögum og reglum um framkvæmdina."Með vísun til viðkvæms eðlis þeirra persónuupplýsinga sem mál þetta varðar óskaði Tölvunefnd um það umsagnar
landlæknis. Í umsögn hans sagði m.a.:

"Erindið hefur hlotið ítarlega umfjöllun meðal viðeigandi starfsmanna embættisins en niðurstaðan er þessi:

Landlækni er ljóst að nauðsynlegt kann að vera að skrá kerfisbundið upplýsingar af svipuðu tagi og lýst er í
bréfi yðar svo og sbr. viðkomandi spurningablað rannsóknarinnar sem embættinu barst síðar. Á hinn
bóginn er jafnframt ljóst að margar spurninganna eru ákaflega viðkvæmar og því er ekki fallist á að
kerfisbundin skráning með svo viðkvæmum upplýsingum sé nauðsynleg fyrir þjónustumatslykilinn. Er hér
fyrst og fremst verið að taka tillit til friðhelgi einkalífs einstaklinganna sem um ræðir og aðstandenda þeirra.

Það er því niðurstaða mín að mæla ekki með erindinu."Niðurstaða Tölvunefndar var svofelld:

"1.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum er að finna ákvæði um
grundvallarmannréttindi þegnanna. Þar er í 71. gr. m. a. mælt fyrir um þau mannréttindi sem felast í því að
njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr.
121/1989 er svo kveðið nánar á um réttindi til friðhelgi einkalífs að því er meðferð skráðra
persónuupplýsinga varðar.

Samkvæmt 1. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 121/1989 er með persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða
einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Má sem dæmi
nefna fjölskyldumálefni manna, heilsuhagi, kynlíf og brotaferil. Að áliti Tölvunefndar er ótvírætt að í máli
þessu hefur farið fram skráning slíkra persónuupplýsinga og að þeim hefur verið kerfisbundið safnað í
skipulagsbundna heild í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna. Af því leiðir að umrædd skráning fellur undir
gildissvið laga nr. 121/1989, og lýtur þar með eftirlits- og ákvörðunarvaldi Tölvunefndar, skv. 33. gr.
laganna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1989 er þeim einum heimilt að skrá persónuupplýsingar sem það gera í þágu
einhvers konar starfsemi sem skráningaraðili hefur með höndum og má skráningin einungis taka til þeirra
sem tengjast starfi hans eða verksviði. Þá er skilyrði að skráningin sé "eðlilegur þáttur" í starfsemi
viðkomandi aðila. Af efni persónuupplýsingalaganna leiðir fyrst og fremst að því skal setja hömlur vegna
tillits til einkalífs hvaða upplýsingar megi skrá og um hverja. Samkvæmt því er óheimilt að skrá
persónuupplýsingar sem eru mönnum sérstaklega viðkvæmar. Þrenns konar undantekningar frá þessu
banni er að finna í 2. og 3. mgr. 4. gr. Þar kemur í fyrsta lagi fram að slík skráning geti verið heimil standi til
þess sérstök lagaheimild. Í öðru lagi er slík skráning heimil ef hinn skráði hefur sjálfur gefið upplýsingar og
við þær aðstæður að honum getur eigi dulist að ætlunin er að skrá þær. Í þriðja lagi er skráning heimil ef
upplýsingum er safnað frá öðrum en með samþykki hins skráða eða, í fjórða lagi, ef til þess stendur sérstök
heimild Tölvunefndar. Ekki er fram komið að nokkru framangreindra skilyrða 2. og 3. mgr. 4. gr. hafi verið
fullnægt, þannig að af megi ráða að heimild hafi staðið til umræddrar skráningar.

Í máli því sem hér um ræðir hefur félagsmálaráðuneytið, eins og áður segir, látið safna nánum persónulegum
upplýsingum um meira en 200 einstaklinga. Um lagaheimildir til þeirrar skráningar vísar
félagsmálaráðuneytið í 6. tl. 12. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og 19. gr. reglugerðar nr.
273/1993. Í framangreindum ákvæðum er mælt fyrir um framkvæmd á þjónustu við fatlaða og mat á þörf fyrir
slíka þjónustu. Hins vegar verður ekki talið að þau ákvæði feli í sér heimild til þeirrar umfangsmiklu
skráningar um svo viðkvæm einkalífsatriði sem fram er komið að ráðuneytið stofnaði til vegna gerðar
þjónustumatslykilsins. Verður heldur ekki talið að umrædd skráning geti talist eðlilegur þáttur í starfsemi
ráðuneytisins í skilningi 3. gr. laga nr. 121/1989. Tekur Tölvunefnd fram að hún telur engu máli skipta í því
sambandi þótt ráðuneytið hafi falið öðrum (Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins) framkvæmd verksins fyrir
sína hönd.

2.

Mál það sem hér er til skoðunar varðar annars vegar söfnun félagsmálaráðuneytisins á viðkvæmum
persónuupplýsingum um 200 þroskahefta einstaklinga sem fram fór til að undirbúa gerð svokallaðs
þjónustumatslykils, ABS-RC:2, og hins vegar notkun hans í framtíðinni við mat á þörf fatlaðra fyrir þjónustu
og búsetuform.

Varðandi fyrri þáttinn er áður fram komið að til þeirrar skráningar stóð hvorki sérstök lagaheimild, leyfi
Tölvunefndar né heldur samþykki viðkomandi einstaklinga. Þvert á móti mun upplýsinganna í flestum
tilfellum hafa verið aflað, og þær skráðar, án leyfis og vitundar viðkomandi einstaklinga eða aðstandenda
þeirra. Var sú söfnun upplýsinga af ráðuneytisins hálfu því í andstöðu við ákvæði 3. og 4. gr. laga nr.
121/1989.

Með vísun til framangreinds og umsagnar landlæknis og með hliðsjón af ákvæðum 33. gr. laganna, leggur
Tölvunefnd hér með fyrir ráðuneytið að eyða án tafar öllum þeim persónuupplýsingum sem það, án
heimildar, lét safna um 200 einstaklinga til að undirbúa gerð umrædds þjónustumatslykils.

Til hins þáttarins, þ.e. til notkunar lykilsins í framtíðinni, eftir atvikum í breyttri mynd, tekur Tölvunefnd ekki
afstöðu að svo stöddu, en áréttar þó að notkun hans er óheimil nema að fengnu leyfi Tölvunefndar og
fullnægðum skilyrðum laga nr. 121/1989."3.11.14. – Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/279) óskaði umsagnar Tölvunefndar um eigin heimildir til að veita, annars
vegar þeim sem njóta tekna af búnaðarmálasjóðsgjaldi, upplýsingar um skil til sjóðsins frá einstaka gjaldskyldum aðilum og
hins vegar að veita bændum sem sæta gjaldinu upplýsingar um skil einstakra viðskiptaaðila (heildsala) á gjaldinu til
sjóðsins. Forsaga afskipta Tölvunefndar af máli þessu var sú að í nóvember 1995 óskaði ráðið umsagnar nefndarinnar um
hvort því væri heimilt að leggja fram skrár yfir sjóðagjaldskil einstakra garðyrkjustöðva. Var tilefni þeirrar fyrirspurnar krafa
Blómamiðstöðvarinnar sem byggðist á því að slæleg vinnubrögð Framleiðsluráðs við innheimtu sjóðagjalda ýttu undir
ójafna samkeppni og ylli þeim verulegu fjárhagslegu tjóni. Var niðurstaða Tölvunefndar þá sú að hún teldi hvorki þau rök
að framlagning skránna væri nauðsynleg til bæta "slæleg vinnubrögð" Framleiðsluráðs við innheimtu umræddra gjalda, né
önnur þau rök sem fram hefðu komið, fullnægja þeim skilyrðum er greinir í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989. Á árinu 1997 barst
Tölvunefnd síðan umrædd fyrirspurn þar sem vísað var til röksemda í opnu bréfi stjórnarformanns Búnaðarsambands
Dalamanna, til stjórnar Bændasamtaka Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins, um hvort Tölvunefndar teldi þar vera
komin rök sem heimiluðu Framleiðsluráði að veita, annars vegar þeim sem njóta tekna af Búnaðarmálasjóðsgjaldi,
upplýsingar um skil til sjóðsins frá einstaka gjaldskyldum aðilum og hins vegar bændum sem sæta gjaldinu upplýsingar um
skil einstakra viðskiptaaðila (heildsala) á gjaldinu til sjóðsins. Í hinu opna bréfi stjórnarformannsins sagði m.a.:

"Eins og þið vitið þá er einn af tekjustofnum búnaðarsambandanna hlutdeild þeirra í
búnaðarmálasjóðsgjaldi. Gjaldið er ákveðin prósenta af því verði sem búvöruframleiðendur fá greitt fyrir
framleiðslu sína. Framleiðsluráð landbúnaðarins annast álagningu og innheimtu þess hjá afurðastöðvum og
einstaklingum.

Á milli áranna 1994 og 1995 lækkuðu tekjur Búnaðarsambands Dalamanna af búnaðarmálasjóðsgjaldi
óeðlilega mikið. Málið var rætt á stjórnarfundi 3. maí og aðalfundi 8. maí sl. Þann níunda maí sl. var
Framleiðsluráði landbúnaðarins ritað bréf og óskað eftir raunhæfum skýringum á lækkun gjaldsins. Meðal
annars var þess krafist að fá uppgefið hvaða afurðastöðvar skulduðu og hve mikið, væri um það að ræða. Í
svarbréfi Framleiðsluráðs, dagsettu 24. maí sl. kemur fram að fyrrgreind lækkun á búnaðarmálasjóðsgjaldi
stafi að langmestu leyti af lakari innheimtu, en verið hefur. Ekki var gefið upp hvaða afurðastöðvar væru í
vanskilum og engar skýringar voru gefnar á því hvers vegna það var ekki gefið upp.

...

Sem búvöruframleiðandi tel ég það óviðunandi að fá ekki upplýsingar um afdrif þess
búnaðarmálasjóðsgjalds sem af mér er tekið. Sem reikningshaldara búnaðarsambands finnst mér einnig
óviðunandi að fá ekki umbeðnar upplýsingar um búnaðarmálasjóðsgjalds sem lögum samkvæmt ber að
greiða búnaðarsambandinu."Af þessu tilefni óskaði Tölvunefnd skýringa Framleiðsluráðs annars vegar um hvaða hagsmunir mæltu með veitingu
umbeðins aðgangs og hins vegar hvaða hagsmunir væru af því að halda þeim leyndum. Þá var þess óskað að fram kæmi
hvort ráðið teldi hagsmuni þeirra sem aðgangsins æsktu vega þyngra en hagsmuni þeirra sem þess æsktu að þeim væri
haldið leyndum. Í svari ráðsins sagði m.a.:

"Hagsmunir aðila sem tekna njóta af Búnaðarmálasjóðsgjaldi af upplýsingagjöf um skil eru þeir fyrstir að
nokkrir þeirra hafa þau ákvæði í reglum um starfsemina að þjónustan sé háð því að skil hafi verið gerð á
Búnaðarmálasjóðsgjaldi. Má hér nefna Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. meðfylgjandi leiðbeiningar fyrir
þá sem taka lán, og Bjargráðasjóð, sbr. 10. gr. laga nr. 146/1995 sem einnig fylgja hér með. Framleiðsluráð
hefur talið sér skylt að veita ofangreindum aðilum umbeðnar upplýsingar um skil gjalda vegna tilgreindra
aðila sem sæta eiga gjaldinu. Almennt má segja að hagsmunir sjóðanna varðandi skil á gjaldinu séu miklir,
þar sem um verulegan hluta eða allt starfsfé þeirra er að ræða.

Hvað varðar hagsmuni þeirra aðila sem sæta gjaldinu af því að fá upplýsingar um skil afurðastöðva á því til
Búnaðarmálastjóðs, má benda á að réttindi þeirra til þjónustu Stofnlánadeildar landbúnaðarins og
Bjargráðasjóðs geta skerst eða fallið niður vegna vanskila og þeir gætu, með hjálp ofangreindra upplýsinga,
oftast tryggt þessi réttindi sín með því að skipta um afurðastöð. Þá má geta þess að almennt séð er
mikilvægt að bændur og sjóðir geti fullvissað sig um skil afurðastöðva, komi upp kvittur um vanskil
sjóðagjalda.

Vandséð er að þeir sem tekna njóta af gjaldinu eða bændur hafi beina hagsmuni sem mæli gegn afmarkaðri
upplýsingagjöf um skil einstakra afurðastöðva. Afurðastöð sem lendir í tímabundnum greiðsluerfiðleikum
kann á hinn bóginn að hafa hagsmuni sem mæla gegn upplýsingagjöf."Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Með vísun til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989, og með vísun til þess sem fram hefur komið um hagsmuni
þeirra bænda sem gjaldinu sæta af því að fá aðgang að upplýsingum um skil einstakra viðskiptaaðila
(heildsala / afurðastöðva) á gjaldinu til sjóðsins, samþykkti Tölvunefnd að þeim skuli slíkur aðgangur
heimill að því er sig varðar. Þá taldin nefndin það eðlilegan þátt í starfsemi Framleiðsluráðs, sbr. 3. mgr. 5.
gr. sömu laga, að veita Búnaðarsamböndum sem njóta tekna af búnaðarmálasjóðsgjaldi upplýsingar um skil
til sjóðsins frá einstaka gjaldskyldum aðilum, að því er viðkomandi samband varðar."3.11.15. – Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/349) óskaði umsagnar Tölvunefndar um eigin heimildir til að afhenda
tilteknum lögmanni upplýsingar úr fullvirðisréttarskrám m.a. með greiningu niður á þau lögbýli sem fullvirðisrétti var
úthlutað til ásamt magni hvers og eins og um hvaða framleiðandi sat lögbýlið á þeim tíma. Tölvunefnd kannaði hjá
lögmanninum þá hagsmuni sem að baki beiðinni bjuggu, spurði hvort einungis væri óskað almennra upplýsinga um hlutföll
og tölfræðilegar niðurstöður eða hvort óskað væri persónugreindra eða persónugreinanlegra upplýsinga um einstaka
menn og ef svo var, þá í hvaða tilgangi. Í svari lögmannsins sagði m.a.:

"...Undirritaður lögmaður fer með málefni nokkurra bænda sem hafa höfðað mál gegn landbúnaðarráðherra
og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs Íslands. Krefjast þeir skaðabóta vegna bótalausrar niðurfellingar
búmarks við upptöku fullvirðisréttarkerfis í landbúnaði. Hafa mál þessi verið þingfest í Héraðsdómi
Reykjavíkur.

Undirrituðum er kunnugt um að ráðuneytið úthlutaði til 168 bænda alls 13.520 ærgildum eða sem samsvarar
246 tonnum kindakjöts, á grundvelli reglugerðar nr. 157/1987, eftir að fullvirðisréttur hafði verið reiknaður út.
Ætlunin er að fá upplýsingar um til hvaða bænda/lögbýla var úthlutað og hversu mikið hver fékk í sinn hlut.

Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að unnt sé að meta hvort umbjóðendum mínum hafi verið
mismunað við úthlutun ofangreindra réttinda þar sem þeir hafi verið í sambærilegri stöðu og aðrir sem
úthlutun fengu. Jafnframt er þá unnt að athuga hvort þeir bændur, sem úthlutað var þessum viðbótarrétti,
teljist til frumbýlinga og þörf þeirra fyrir úthlutun. Upplýsingar þessar skipta máli fyrir umbjóðendur mína
þar sem þeir voru að hefja búskap þegar framleiðslutakmarkanir voru teknar upp í landbúnaði. Fengu þeir
úthlutað búmark sem frumbýlingar en stjórnvöld höfðu lofað slíkum aðilum sérstakri meðhöndlun.

Í málum sínum gegn landbúnaðar- og fjármálaráðherra munu umbjóðendur mínir m.a. leitast við að sýna fram
á að brotin hafi verið á þeim jafnræðisregla stjórnskipunarréttar við upptöku fullvirðisréttarkerfis í
landbúnaði og þeir hafi ekki setið við sama borð og aðrir bændur. Upplýsingar þær, sem óskað er eftir, eru
því nauðsynlegt innlegg í málatilbúnað þeirra."Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1989 um meðferð og skráningu persónuupplýsinga er með
persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni
einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Telja
verður að upplýsingar þær sem um ræðir í máli þessu falli undir fjárhagsmálefni í skilningi framangreinds
ákvæðis í lögum 121/1989 og lúti því reglum þeirra laga og úrskurðarvaldi Tölvunefndar.

Um aðgang að framangreindum upplýsingum gildir sú meginregla, sbr. 5. gr. laganna, að án heimildar í
öðrum lögum er eigi heimilt að skýra frá slíkum upplýsingum nema með samþykki hins skráða eða einhvers
sem heimild hefur til að skuldbinda hann. Hvorki eru í sérlögum ákvæði er heimila umbeðinn aðgang að þeim
upplýsingum sem hér um ræðir né liggja fyrir samþykki hinna skráðu. Hins vegar er í lögum nr. 121/989 gerð
sú undantekning frá framangreindri meginreglu að Tölvunefnd geti heimilað að skýra megi frá slíkum
upplýsingum ef sýnt er fram á að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir
hagsmunir hins skráða, krefjist þess, enda sé ótvírætt að þörfin á að fá upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið
til þess að þeim sé haldið leyndum.

Mál það sem hér um ræðir varðar beiðni um aðgang að upplýsingum um einkamálefni annarra í
fullvirðisréttarskrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins til að fá úr því leyst hvort mönnum hafi verið
mismunað við úthlutun búmarks. Liggur fyrir að ekki verður úr því skorið hvort réttur hafi verið á einstökum
framleiðanda brotinn nema með samanburði við úthlutanir til annarra framleiðenda á sama búmarkssvæði.
Eins og atvikum er háttað í þessu máli telur Tölvunefnd hagsmuni þeirra sem hyggjast fá úr því skorið hvort
við úthlutun búmarks hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti vega þyngra en hagsmuni
annarra af því að upplýsingunum sé haldið leyndum.

Af því tilefni, og með vísun til 2. mgr. 5. gr. og 8. gr. laga nr. 121/1989, samþykkir Tölvunefnd að
Framleiðsluráð landbúnaðarins veiti [...], fyrir hönd umbjóðenda sinna, aðgang að þeim upplýsingum í
fullvirðisréttarskrám Framleiðsluráðs sem þýðingu hafa við mat á því hvort jafnræðis hafi verið gætt við
úthlutun umræddra réttinda.

Heimild þessi er bundin því skilyrði að upplýsingarnar verði eigi notaðar í öðrum tilgangi en vegna
dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja."3.11.16. – G.A. (97/115) kvartaði yfir sjúkragagnasöfnun á vegum bifreiðastjórafélagsins Frama. Af tilefni kvörtunarinnar
fór Tölvunefnd þess á leit við bifreiðastjórafélagið að henni bærust nánari upplýsingar um málið. Var sérstaklega óskað
lýsingar á því hvaða upplýsingum félagið safnaði, hvernig varðveislu þeirra væri hagað, þ. á m. um hverjir hafi að þeim
aðgang og hvenær þeim væri eytt. Var þess óskað að fram kæmi hvort gögnum væri eytt t.d. þegar bílstjórar yrðu
vinnufærir á ný og hvaða tryggingu þeir hefðu fyrir því. Í svari trúnaðarlæknis félagsins kom fram að hann hafði verið
ráðinn sem trúnaðarlæknir bifreiðastjórafélagsins Frama í lok ágúst 1995 á grundvelli reglna sem samgönguráðuneytið gaf
út um störf leigubifreiðastjóra í júni sama ár. Samkvæmt þeim reglum ber Frama að hafa á sínum vegum trúnaðarlækni sem
afgreiði beiðnir leigubifreiðastjóra um að mega, vegna eigin veikinda, gera út bíla sína með öðrum bílstjóra. Kom og fram að
Frami legði trúnaðarlækni til læstan skjalaskáp til vörslu gagna. Sagði að greinarmunur væri gerður á veikindum sem væru
styttri en 2 mánuðir og þeim sem lengri eru. Síðan sagði:

"Í slíkum tilvikum skila þeir framkvæmdastjóra Frama vottorði frá sínum heimilislækni eða meðferðarlækni á
sama eyðublaði og launþegar skila atvinnurekendum, þ.e. vottorðaeyðublaði nr. 1, gefnu út af
vottorðanefnd Læknafélags Reykjavíkur. Á því blaði kemur ekkert fram um eðli veikinda, aðeins um
tímalengd þeirra. Þessi gögn geymir skrifstofa Frama. Mat þess læknis, sem skrifar vottorðið, gildir þar
alfarið.

Ef um er að ræða lengri veikindi en 2 mánuði, skila bifreiðastjórar vottorðum á sérstöku eyðublaði, sem ég
hef látið útbúa. Spurningar á því miðast við, að þar séu nægjanlegar upplýsingar, frá þeim læknum, sem best
þekkja til, þ.e. heimilislækna eða meðferðarlækna sjúklinganna, til þess að hægt sé að meta tímalengd
veikindanna án þess að boða þurfi sjúklinginn í viðtal eða skoðun. Vottorð þessi eru að mestu leyti hönnuð
á svipaðan hátt og samsvarandi eyðublöð frá Tryggingastofnun ríkisins að fengnu leyfi
tryggingayfirlæknis, því þegar um varanlega óvinnufærni er að ræða eða langtíma veikindi, er um svipað mat
að ræða og það, sem fer fram í T.R. og hjá lífeyrissjóðum, sem einnig nota sömu eyðublöð, vegna greiðslna
á sjúkratryggingum og örorkutryggingum. Ef ekki tekst að fá fram nægilegar upplýsingar á þennan hátt, hef
ég kallað bílstjóra í viðtal, eða haft samband við lækna þeirra.

...

Varsla á vottorðum, þeim er til mín berast, er með svipuðu sniði og varsla á sjúkraskrám á flestum
heilsugæslustöðvum í Reykjavík, þ.e. í eldföstum, læstum skjalaskáp. Skápur þessi er staðsettur á skrifstofu
Frama og hafa ekki aðrir aðgang að honum en undirrituð.

Úrvinnsla vottorða er skrifleg og þar sem umfang þessarrar starfsemi er lítið, þe. um 70-80 vottorð á ári, er
ekki um neina ritvinnslu eða tölvuvinnslu að ræða. Vottorðin eru geymd í skjalamöppum í skápnum, einni
fyrir hvert ár.

Langt er í að hugsa þurfi fyrir því, hvernig standa eigi að förgun gagna, þar sem skápurinn rúmar ágætlega
nokkra tugi mappa, enda nauðsynlegt að geta skoðað heildarlengd veikinda, sem í þó nokkrum fjölda tilvika
vara í áratugi. Verður að sjálfsögðu haft samband við viðeigandi yfirvöld, um hvernig staðið skuli að
förgun, þegar að því kemur.

...

Úrskurðir þeir, sem framkvæmdir eru, eru sendir í frumriti til viðkomandi bifreiðastjóra, eitt ljósrit til skrifstofu
Frama og eitt ljósrit verður eftir hjá trúnaðarlækni. Í þessum gögnum er ekki að finna neinar upplýsingar um
veikindin, aðeins hvort heimildin er veitt eða henni hafnað og fyrir hvaða tímabil hún gildir."Tölvunefnd taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þau vinnubrögð sem í bréfi trúnaðarlæknisins er lýst og að ekki
væri af hennar hálfu tilefni til frekari aðgerða af tilefni kvörtunarinnar.3.11.17. – G.Þ.T. (97/137) sendi Tölvunefnd fyrirspurn um starfsleyfi Lánstrausts ehf. M.a. var spurt hvers vegna
lágmarksupphæð höfðuðstóls skráðra skulda væri lægri í starfsleyfi Lánstrausts ehf. en í starfsleyfi Reiknistofunnar ehf.
Um það atriði benti Tölvunefnd í fyrsta lagi á að starfsemi Lánstrausts efh. væri með nokkuð öðru sniði en starfsemi
Reiknistofunnar ehf. T.d. færi upplýsingamiðlun Lánstrausts ehf. einungis fram innan lokaðs hóps, ekki væri miðlað
upplýsingum um fjárhæðir og ekki gefnir út listar yfir skráða. Sú aðferð fæli í sér að einungis væru gefnar upplýsingar um
einn aðila í einu og nafn fyrirspyrjanda varðveitt en með slíkri aðferð er auðveldara að koma leiðréttingum við heldur en
þegar um er að ræða slíka lista sem Reiknistofan ehf. gefur út. Í því sambandi var vísað til 4. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1989.
Þá var bent á að enn væri ekki komin reynsla á starfsleyfi Lánstraust ehf. en það yrði endurskoðað 1. júlí 1998, m.a. umrætt
ákvæði um lágmarksfjárhæð höfuðstóls skulda. G.Þ.T. spurði einnig um tilkynningaskyldu starfsleyfishafa og óskaði
tiltekinna skýringa á 4. gr. II. kafla starfsleyfis Lánstrausts ehf. Í svari TN var tekið fram að um tilkynningarskyldu
skrárhaldara skv. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 121/1989 giltu almenn ákvæði 17. gr. laganna og að tilkynningaskylda Lánstrausts
ehf. byggði á þessum ákvæðum að öðru leyti en því að hert væri á tilkynningaskyldu þegar um væri að ræða aðrar
upplýsingar en þær sem hægt væri að fá úr opinberum skrám. Þá var bent á sérákvæði 2. ml. 2. mgr. 19. gr. laganna um
tilkynningaskyldu þeirra aðila sem gefa út upplýsingarit.3.11.18. – Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis (97/087) óskaði umsagnar Tölvunefndar um frumvarp til laga um
réttindi sjúklinga. Umsögn Tölvunefndar var svohljóðandi:

"Í frumvarpi þessu er kveðið á um ýmis grundvallaratriði varðandi réttindi sjúklinga, þ. á m. um gæði
heilbrigðisþjónustu og rétt sjúklings til mannhelgi. Ljóst er að frumvarp þetta hefur margt til sín ágætis, s.s.
hugtaksskilgreiningar, en tekið skal fram að tölvunefnd hefur einungis skoðað það út frá sjónarmiðum um
vernd persónuupplýsinga. Tjáir nefndin sig því ekki um efni frumvarpsins að öðru leyti en því er það
varðar.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um ýmis mál sem til þessa hafa lotið forræði tölvunefndar samkvæmt
ákvæðum laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Eru það t.d. ákvæði um aðgang
að persónuupplýsingum vegna vísindarannsókna og um rétt hins skráða (sjúklingsins). Er einkum ástæða
til að benda á nýmæli í 15. gr. frumvarpsins þess efnis að krefjist framkvæmd vísindarannsóknar aðgangs að
sjúkraskrám sé þeim sem að rannsókn standa heimill aðgangur að skránum. Er hér um að ræða skerðingu á
réttindum sjúklinga sem tölvunefnd fyrir sitt leyti getur ekki fallist á. Af ákvæðum laga nr. 121/1989 leiðir að
meðferð persónuupplýsinga í þágu vísindarannsókna er óheimil nema fullnægt sé skilyrðum laganna. Telur
tölvunefnd eðlilegt að um aðgang að persónuupplýsingum í sjúkraskrám gildi jafn strangar reglur og um
aðgang að öðrum viðkvæmum persónuupplýsingum, sbr. ákvæði 3. og 4. gr. laganna.

Taka má fram að við setningu framangreindra laga varð nokkur umræða um hvort gera skyldi aðgang að
persónuupplýsingum vegna vísindarannsókna leyfisskyldan eða tilkynningaskyldan, en nokkuð er misjafnt
milli landa hvor háttur er á hafður. Til dæmis má nefna að í Danmörku ber að tilkynna um slíkt til viðkomandi
stofnunar um vernd persónuupplýsinga (tölvunefndar) en í Noregi er sami háttur á hafður og hér á landi,
þ.e. að aðgangur að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna er óheimill nema til þess standi heimild þarlendrar
stofnunar um vernd persónuupplýsinga (tölvunefndar).

Frá því að lögin voru sett hafa mál sem tengjast aðgangi að persónuupplýsingum í sjúkraskrám vegna
vísindarannsókna verið stór þáttur í starfi tölvunefndar. Hefur reynslan sýnt að um er að ræða afar
þýðingarmikinn málaflokk og vandmeðfarinn og að sú ákvörðun löggjafans að fella málaflokkinn undir
tölvunefnd var skynsamleg. Er það bæði vegna þess að í sjúkraskrár eru færðar viðkvæmar upplýsingar sem
tryggja verður trúnað um og einnig vegna þess að meðferð persónuupplýsinga úr sjúkraskrám tengist
iðulega vinnslu annars konar persónuupplýsinga sem lýtur eftirliti tölvunefndar, en eðli málsins samkvæmt
er æskilegt að eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga vegna einstakra vísindaverkefna sé á sömu hendi.

Þá bendir tölvunefnd á að umrætt frumvarp er ekki skýrt varðandi það hver fara eigi með forræði mála sem
tengjast aðgangi að persónuupplýsingum í sjúkraskrám vegna vísindarannsókna. Má ætla að með
frumvarpinu muni eftirlit með slíkum aðgangi verða undan valdsviði tölvunefndar tekið en óljóst hvert það
verði flutt. Í athugasemdum með frumvarpinu er vikið að lagasetningu um vísindasiðaráð en allt mun enn
vera óráðið um hvort og hvenær slíks er að vænta. Er þ.a.l. engin trygging fyrir því að áfram verði haft
heildstætt eftirlit með aðgangi að sjúkraskrám, nái frumvarpið fram að ganga. Það er hins vegar mat
tölvunefndar að slíkt eftirlit sé grundvallaratriði við framkvæmd persónuupplýsingaverndar og að tryggt
eftirlit með aðgangi að sjúkraskrám séu sjálfsögð mannréttindi sjúklinga sem ekki skuli skert.

Að lokum vill tölvunefnd benda á að nú er hafinn undirbúningur að endurskoðun laga um meðferð
persónuupplýsinga. Við þá endurskoðun verður m.a. tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og
leitast við að endurspegla almenna þróun í viðhorfum til persónu- upplýsingaverndar, hér á landi sem
erlendis. Í ljósi þess er ótímabært að lögfesta ákvæði sem í svo veigamiklum atriðum varða meðferð
persónuupplýsinga.

Með vísun til framangreinds leggst Tölvunefnd gegn því að umrætt frumvarp nái fram að ganga í óbreyttri
mynd. "3.11.19. – Íslensk erfðagreining hf. (96/926). Á árinu 1997 voru í samvinnu við fyrirtækið unnir nýir skilmálar varðandi meðferð
persónuupplýsinga í erfðarannsóknum. Í upphafi höfðu heimildir fyrirtækis til að vinna með persónuupplýsingar vegna erfðarannsóknar
m.a. verið bundnar þeim skilmála að eyða yrði, að gagnasöfnun lokinni, öllu því sem gerði kleift að rekja sýni og aðrar upplýsingar til
einstakra manna. Byggðist sá skilmáli á þeirri skoðun Tölvunefndar að unnt væri, eftir að skyldleikaákvörðun hefði farið fram, að
auðkenna skyldleika innbyrðis milli sýna án persónutengdra auðkenna. Þá voru allar heimildir ennfremur bundnar eftirfarandi skilyrðum:

1. Að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar yrði gætt.

2. Að óheimilt væri að veita óviðkomandi aðilum aðgang að upplýsingum
þeim sem skráðar hefðu verið.

3. Að óheimilt væri að nota upplýsingar þær sem skráðar hefðu verið til
annars en þess sem var tilgangur rannsóknarinnar í upphafi.

4. Að öllum frumgögnum yrði eytt að rannsókn lokinni og Tölvunefnd
tilkynnt um eyðinguna. Heimilt var þó að varðveita gögn ef gert hefði verið
ókleift að rekja þau til einstaklinga.

5. Að einungis mætti birta upplýsingar úr rannsókninni á þann hátt að ekki
mætti rekja þær til ákveðinna einstaklinga.

6. Að Tölvunefnd gæti hvenær sem er sett frekari skilyrði ef hagsmunir
lögaðila eða einstaklinga krefðust þess.Í eftirlitsheimsókn Tölvunefndar 13. nóvember 1996 hafði hins vegar komið í ljós að ekki var eftir þessu farið og gaf
fyrirtækið þá skýringu að það teldi sig ekki geta unnt framangreindum skilmála um eyðingu greiningarlykils. Í framhaldi af
því ákvað Tölvunefnd að koma til móts við óskir fyrirtækisins um varðveislu greiningarlykils og leitaði síðan lausnar sem
hún taldi að myndi í senn myndi tryggja rannsóknarhagsmuni fyrirtækisins og friðhelgi einkalífs þeirra einstaklinga sem
legðu umræddum rannsóknum lið með sýnagjöfum o.s.frv. Varð niðurstaðan sú að gert var samkomulag við fyrirtækið um
nýtt vinnuferli varðandi meðferð sýna og persónuauðkenna. Það átti að tryggja að ekki yrði unnið með persónugreind
gögn hjá ÍE. Samkomulagið gerði m.a. ráð fyrir að Tölvunefnd skipaði tilsjónarmenn sem hefðu eftirlit með að eftir þeim
skilmálunum væri farið og að fyrirtækið myndi greiða kostnaðinn af vinnu tilsjónarmanna. Í nóvember 1997 fór Tölvunefnd
aftur í eftirlitsheimsókn í fyrirtækið. Í ljós kom að enn voru annmarkar á því að unnið væri eftir skilmálum Tölvunefndar og í
framhaldi af því ritaði hún fyrirtækinu bréf þar sem segir m.a.:"I.

Tölvunefnd vísar til viðræðna við yður í eftirlitsferð nefndarinnar í fyrirtækið þann 25. þ.m., sem nefndin
boðaði til með bréfi, dags. 13. þ.m. Var tilgangur eftirlitsferðarinnar að kynna sér stöðu mála hjá fyrirtækinu
og ganga úr skugga um hvort farið væri að þeim skilyrðum sem hún hefur sett um meðferð
persónuupplýsinga í erfðarannsóknum á ýmsum sjúkdómum.

1.

Fyrst var farið yfir þær rannsóknir sem þegar hafa verið heimilaðar. Þær eru:Rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að ofnæmi og astma (96/252). Samstarfsaðilar eru Unnur
Steina Björnsdóttir, Davíð Gíslason, Þórarinn Gíslason. Heimild útgefin 20. janúar 1997.

Rannsókn á þætti erfða í insúlínháðri sykursýki (96/053). Samstarfsaðilar Árni V. Þórsson og Ernir
Snorrason. Heimild útgefin 20. janúar 1997.

Rannsókn á arfgengum skjálfta (96/244). Samstarfsaðilar John Benedikz og Finnbogi Jakobsson. Heimild
útgefin 20. janúar 1997.

Rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að þarmabólgusjúkdómum (96/297). Samstarfsaðilar Úlfur
Agnarsson, Sjöfn Kristjánsdóttir, Sigurður Björnsson, Sigurður Ólafsson, Sigurbjörn Birgisson, Ólafur
Gunnlaugsson, Nick Cariglia, Kjartan B. Örvar, Hallgrímur Guðjónsson, Einar Oddsson, Bjarni Þjóðleifsson,
Ásgeir Theódórsson, Ásgeir Böðvarsson. Heimild útgefin 20. janúar 1997.

Rannsókn til að einangra erfðavísa sem stuðla að áfengissýki (96/298).Samstarfsaðilar eru Þórarinn
Tyrfingsson og Guðbjörn Björnsson. Heimild útgefin 21. janúar 1997.

Rannsókn til að einangra erfðaþætti sem áhrif hafa á beinþéttni/beinþynningu. Samstarfsaðilar Ísleifur
Ólafsson og Gunnar Sigurðsson. Heimild útgefin 24. febrúar 1997.

Rannsókn til að einangra erfðavísa fyrir mígreni (96/276). Samstarfsaðilar Grétar Guðmundsson og John
Benedikz. Heimild útgefin 20. janúar 1997 (tilk. hefur verið að rannsóknin sé í biðstöðu).2.

Þá var farið yfir óafgreiddar rannsóknir. Þær eru:Rannsókn til að einangra erfðaþætti sem orsaka eða eru meðverkandi í myndun ósæðargúla (97/340).
Nýlega hefur verið sótt um heimild. Væntalegir samstarfsaðilar Gunnar Gunnlaugsson, Halldór Jónsson,
Stefán Matthíasson. Sigurgeir Kjartansson og Haraldur Hauksson.

Rannsókn á erfðagreiningu legslímuflakks (95/021). Samstarfsaðilar eru Reynir Tómas Geirsson og
Guðlaug Sverrisdóttir, sem fengu upphafleg heimild 24. október 1995, en hafa nú sótt um leyfi til samstarfs
við ÍE. Þau miða við að varðveita greiningarlykilinn sjálf.

Rannsókn á arfgengi ýmissa geðsjúkdóma (96/247). Samstarfsaðili Hannes Pétursson. Hann fékk
upphaflega heimild TN 21. desember 1992 en hefur nú sótt um leyfi til samstarfs við ÍE. Miðar við að
varðveita greiningarlykilinn sjálfur .

Rannsókn á erfðum psoriasis (96/191). Væntanlegur samstarfsaðili er Helgi Valdimarsson sem fékk þann 15.
júlí 1996 leyfi til svipaðrar rannsóknar en hefur nú sótt um leyfi til samstarfs við ÍE. Miðar við að hann muni
sjálfur varðveita greiningarlykil. Þótt umsóknin hafi enn ekki verið afgreidd kom fram í vettvangsferð að hjá
ÍE er unnið með sýni úr sjúklingum með þennan sjúkdóm.II.

Athugun Tölvunefndar leiddi í ljós að í einungis einni þeirra rannsókna (96/297) sem Tölvunefnd hefur
heimilað hefur verið farið að þeim skilmálum sem hún setti til að verja persónuverndarhagsmuni sýnagjafa.
Þá kom og fram að í einni rannsókn hefur mjög alvarlegur trúnaðarbrestur átt sér stað í meðferð viðkvæmra
sjúkragagna þegar starfsmaður SÁÁ afhenti starfsmanni ÍE lista með nákvæmum upplýsingum (m.a. nöfnum
og kennitölum) yfir alla þá einstaklinga sem leitað höfðu aðstoðar samtakanna vegna áfengis- eða
vímuefnavanda. Að kröfu Tölvunefndar var frumskránni eytt. Í þriðja lagi kom fram að unnið er að
rannsóknum á sjúkdómum sem Tölvunefnd hefur annað hvort ekki verið tilkynnt um að unnar séu á vegum
ÍE (dæmi: MS-sjúkdómur) eða enn ekki afgreitt leyfi til (dæmi: Psoriasis).III.

Á fundi sínum þann 27. nóvember 1997 fór Tölvunefnd yfir niðurstöðu framangreindrar athugunar. Fyrir
fundinum lá ódagsett og óundirritað bréf yðar til trúnaðarmanns Tölvunefndar þar sem lýst er afstöðu yðar
og viðbrögðum við eftirlitsferð nefndarinnar. Þar segir m.a. umrædd eftirlitsferð hafi leitt í ljós að ýmislegt
mætti betur fara í vinnuferli gagna sem lúta að nafnleynd.Tölvunefnd telur að sú meðferð persónuupplýsinga sem átti sér stað í erfðarannsókn á áfengissýki (96/298)
hafi verið skýlaust brot á þeim skilmálum sem hún hafði sett fyrir framkvæmd rannsóknarinnar með heimild
sinni, dags. 21. janúar 1997. Áréttar Tölvunefnd þau fyrirmæli sem yður voru gefin í eftirlitsheimsókn um
eyðingu nafnalista frá SÁÁ og allra afrita. Þá leggur Tölvunefnd fyrir yður að stöðva nú þegar alla vinnslu
rannsóknarinnar þar til úr hefur verið bætt að mati nefndarinnar. Með vísun til lögboðins eftirlitshlutverks
landlæknis með starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar hefur Tölvunefnd ákveðið að senda honum afrit af
þessu bréfi.

Tölvunefnd leggur fyrir yður að viðhafa nú þegar þá vinnsluuaðferð sem skilmálar hennar í einstökum
heimildum áskilja.

Tölvunefnd leggur fyrir yðar að skila, eigi síðar en 3. desember nk., skýrslu um stöðu allra þeirra rannsókna
sem unnið er að hjá ÍE, þ.e. hvar sýni og aðrar upplýsingar eru varðveittar og á hvernig formi (hvernig
auðkennd).

Loks óskar nefndin upplýsinga um með hvaða hætti þér hyggist nýta ættfræðigrunn Friðriks Skúlasonar
hf."Í framhaldi af þessu var vinnuferlið enn tekið til endurskoðunar. Verða því gerð ítarleg skil í ársskýrslu vegna ársins 1998.3.11.20. – J.G. (97/125) kvartaði yfir kæruskrá lögreglunnar. Í kvörtun hans sagði m.a.:

"Veruleg misnotkun á sér stað með þessa kæruskrá Lögreglunnar. Vorið 1996 var undirritaður, sem er
ævilangur bindindismaður, handtekinn inni á veitingastaðnum Kaffi Reykjavík, þar sem undirritaður kemur
reglulega um helgar. Undirritaður var handtekinn fyrir framan fleiri hundruð manns, og m.a. stóran hóp, sem
undirritaður þekkir og kannast við. Undirritaður var leiddur út í lögreglubifreið, og beðinn um nafn og
kennitölu, sem síðan var gefin ásamt heimilisfangi í talstöð lögreglubifreiðarinnar. Kom þá í ljós að
Lögreglan hafði handtekið rangan mann. Undirritaður hafði þá uppi mótmæli, sem Lögreglumenn komu á
framfæri í gegnum talstöð lögreglubifreiðarinnar fyrir utan Kaffi Reykjavík. Kom þá svar frá
lögreglustöðinni, um að undirritaður væri nú ekki fínn pappír, og var þá lesin upp Kæruskrá lögreglunnar í
talstöðina, alls 17 atriði og m.a. meint fíkniefnabrot og meintur þjófnaður ofl. sem undirritaður kannast ekkert
við. Talstöð Lögreglunnar geta allir hlustað á, sem áhuga hafa á, m.a. fjölmiðlamenn ofl."

.

Af tilefni þessarar kvörtunar kynnti Tölvunefnd sér umrædda skrá og fékk jafnframt eftirfarandi skýringar frá embætti
lögreglustjórans í Reykjavík:

"1. [...], kt. ..

A. Atburðir við Kaffi Reykjavík, vorið 1996.

Í málaskrá er ekki hægt að finna mál frá þessum stað og tíma, sem tengist [...].

Ekki er ástæða til að ætla annað en að [...] hafi átt samskipti við lögreglu á þessum tíma, þó ekki sé bókað,
enda kemur fram í bréfi hans að rangur aðili hafi verið handtekinn.

Samkvæmt frásögn [...] fékk lögreglumaðurinn sem við hann ræddi upplýsingar frá stjórnstöð lögreglu, um
talstöð, upptalningu á þeim málum sem [...] hefur tengzt á einhvern hátt í málskrá. [...] tekur fram að 17 tilfelli
hafi verið nefnd, en í nýju málaskránni sem hefur verið í notkun frá september 1995 kemur [...] alls 17 sinnum
við sögu.

Sé þarna rétt með farið er um ranga notkun skrárinnar að ræða. Það á EKKI að gefa upp í talstöð skráðan
feril neins, enda má alltaf gera ráð fyrir að þeir sem hafa tæki til þess geti hlustað á talstöðvarrás lögreglu.
Þarna er um ranga meðferð málskrár að ræða. Það hefur verið ítrekað við starfsmenn stjórnstöðvar að gefa
ekki neinar upplýsingar á þennan hátt um talstöð.

B. Afskipti lögreglu í Reykjavík af [...].

Afskipti lögreglu í Reykjavík hafa verið nokkuð tíð, allt frá um 1970. Til að varpa ljósi á þau samskipti hef ég
prentað út úr eldri málaskrá (frá 01011989) og þeirri nýju (frá september 1995) öll mál, þar sem [...] kemur við
sögu. Þar kemur fram málsnúmer, hjá hvaða embætti mál á uppruna, tengsl við mál, það er hvort viðkomandi
sé grunaður, kærður, tilkynnandi, vitni, annað og þess háttar. Þá má sjá þar feril máls og afgreiðslu í flestum
tilfellum.

2. Málaskrá.

A. Ekki treysti ég mér að lýsa skránni á einfaldan hátt, en vona að útprentun þeirra mála sem fylgja varpi
einhverju ljósi á hana.

Dómsmálaráðuneytið sá um hönnun og uppsetningu skrárinnar og þar hefur ásamt öðrum haft umsjón með
henni, Jónmundur Kjartansson, yfirlögregluþjónn. Eðlilegast er því að fá lýsingu á umræddri skrá þar.

B. Notkun málaskrár.

Þar er fylgst með ferli og afgreiðslu einstakra mála.

Hún er nýtt þegar finna þarf skýrslur, hvort heldur þær eru í meðferð eða máli er lokið.

Mikið er um að aðilar óski afrita af málum, sérstaklega umferðaróhöppum og "tryggingamálum" og þá er
málaskrá nýtt til að finna málin.

Þar eru upplýsingar um málafjölda, tegundir brota og annað sem nýtt er til upplýsingaöflunar og til að finna
yfirlit.

Þar koma fram tengsl milli brotamanna, ökutækja þeirra og dvalarstaða, sem auðvelda eftirlit með þeim.

D. Eyðing skráðra upplýsinga.

Engum gögnum í skránni er eytt, nema að um mistök hafi verið að ræða, svo sem að aðili gefi upp rangt
nafn, en hins vegar er skráin leiðrétt ef upplýsingar úr frumskýrslu reynast rangar við frekari meðfeðr máls."

Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Samkvæmt 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er rannsókn opinberra mála í höndum
lögreglu. Í lögreglulögum nr. 90/1996, sem öðlast munu gildi þann 1. júlí nk., er hlutverki lögreglu lýst í 1. gr.
Þar segir að hlutverk lögreglu sé m.a. að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja
málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála og í öðrum lögum. Í 5.
gr. sömu laga kemur fram að meðal verkefna ríkislögreglustjóra sé að starfrækja almenna deild er annist
kerfisbundna skráningu upplýsinga um lögreglumálefni. Af ákvæðum IX. kafla laga um meðferð opinberra
mála leiðir að rannsóknari semur skriflegar skýrslur um rannsóknaraðgerðir sínar og skulu þar skráðar
skýrslur þeirra sem yfirheyrðir eru, athuganir rannsóknara sjálfs og annað það sem máli skiptir, sbr. 72. gr.
Hvorki er í lögum nr. 19/1991 né í öðrum réttarheimildum sem varða starfsemi lögreglunnar að finna nánari
fyrirmæli um lögregluskrár né um aðgang manna að slíkum skrám, hvort heldur sem um er að ræða aðgang
hins skráða sjálfs eða annarra.

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga kemur fram að með
persónuupplýsingum samkvæmt þeim lögum sé m.a. átt við upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem
sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Í 4. gr. laganna eru tilgreindar þær persónuupplýsingar sem taldar eru
sérstaklega viðkvæmar mönnum. Eru þar í dæmaskyni m.a. nefndar upplýsingar um hvort maður hafi verið
grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Af þessu leiðir að kærur og upplýsingar þær sem
skráðar eru af lögreglu við lögreglurannsóknir eru persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 121/1989 og lúta
þar með eftirlits- og ákvörðunarvaldi Tölvunefndar.

Tölvunefnd tók mál þetta til umfjöllunar á fundi sínum þann 9. maí sl. Í 3. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu
og meðferð persónuupplýsinga kemur fram að kerfisbundin skráning þeirra persónuupplýsinga sem 1. gr.
tekur til sé heimil að því tilskildu að skráningin sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og taki
einungis til þeirra sem tengjast starfi hans eða verksviði. Er það niðurstaða Tölvunefndar að lögreglu sé,
með vísun til framangreindra lagaákvæða, heimil skráning þeirra upplýsinga sem fram koma við
lögreglurannsóknir og að sú málaskrá lögreglu sem kvörtun yðar beinist að sé skrá sem eðlilegt sé að
lögregla haldi vegna starfsemi sinnar. Um miðlun slíkra persónuupplýsinga gildir hins vegar 5. gr. sömu
laga. Þar er að finna þá grundvallarreglu íslensks réttar að óheimilt er að miðla persónuupplýsingum sem
mönnum eru sérstaklega viðkvæmar, þ.m.t. þeim upplýsingum, sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laganna, nema
í vissum undantekningatilfellum. Af því leiðir að hafi upplýsingum úr málaskrá lögreglu verið miðlað með
þeim hætti sem haldið er fram í kvörtun yðar hefur þar með verið brotið gegn framangreindu ákvæði.
Tölvunefnd telur hins vegar, með vísun til þess sem fram kemur í svari lögreglustjóra um að gerðar hafi
verið ráðstafanir til að hindra að slík mistök við notkun skrárinnar endurtaki sig, ekki ástæðu til frekari
afskipta af máli þessu.

Að lokum skal tekið fram að þar sem nú er í undirbúningi gerð sérlaga um meðferð upplýsinga (þ. á m. um
aðgang og eyðingu) í málaskrám lögreglu telur Tölvunefnd ekki rétt að setja sérstök fyrirmæli eða fjalla, að
svo stöddu, frekar um það efni."3.11.21. - Lánstraust ehf. (97/114) kvartaði yfir því að í að í upplýsingariti Reiknistofunnar ehf. segði að safnað væri
upplýsingum um "löghald og lögbann" o.fl. Tölvunefnd spurði hvort fyrirtækið hafi safnað og miðlað upplýsingum úr
Lögbirtingablaði, og þá hvaða, og hvort ekki væri í skránni með greinargóðum hætti tilgreint hvaðan upplýsingunum sé
safnað. Í svari fyrirtækisins sagði m.a. :

"...Upplýsingum um árangurslausar aðgerðir er safnað og segir svo í riti Reiknistofunnar ehf., en hvað eru
árangurslausar aðgerðir?

..Lögbirtingarblaðið hefur verið notað við öflun gagna um innkallanir og skiptalok í 40 ár.

..Það er skýrt með greinagóðum hætti hvernig gagna er aflað, ef frá er talið að ekki er sérstaklega tilgreint
ritskoðun Sýslumannsins á Ísafirði, en Dómsmálaráðuneyti og Tölvunefnd er auðvitað fullkunnugt um það
atriði. Sjá 3. mg. 18. gr. laga No 121 1989 " ... en skráður aðili á eigi kröfu til þess að honum sé skýrt frá
hvaðan upplýsingar eru fengnar". Ef skráðum aðila kemur ekki við hvaðan upplýsingar eru fengnar,
hverjum kemur það þá við?

..Enginn af kaupendum þjónustu Reiknistofunnar ehf. hefur kvartað vegna ofangreindra atriða."Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Af tilefni svars yðar vill Tölvunefnd taka fram að samkvæmt starfsleyfi Reiknistofunnar ehf., dags. 22.
október 1996, er henni, auk upplýsinga um nafn, heimili og kennitölu, aðeins heimilt að skrá og miðla
eftirfarandi upplýsingum, sem fengnar eru úr eftirtöldum opinberum skrám:

a) Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á stefnur, sbr. 113.
gr. laga nr. 91/1991, í málum þar sem stefndi hefur ekki mætt við þingfestingu máls eða þingsókn hefur síðar
fallið niður af hans hálfu. Upplýsingar má aðeins birta ef um er að ræða skuld eða skuldir sama aðila við
tiltekinn kröfuhafa sem nema a.m.k. kr. 200.000,- að höfuðstól hver skuld.

b) Upplýsingum um framkvæmd fjárnám, skv. skrám þeim sem sýslumenn halda um það efni, sbr. ákvæði 4.
gr., 6. og 10. tl., reglugerðar nr. 17/1992. Upplýsingar má birta um öll árangurslaus fjárnám en fjárnám með
árangri má aðeins skrá þegar fjárhæð fjárnámskröfu nemur a.m.k. kr. 200.000,- .

c) Upplýsingum um nauðungarsölur, þegar byrjun uppboðs hefur verið auglýst í dagblöðum,
landsmálablöðum eða á annan samsvarandi hátt, skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.

d) Upplýsingum um töku búa til gjaldþrotaskipta, sem fengnar eru í skrám þeim, sem héraðsdómstólar halda,
sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 226/1992.

Er yður hér með sérstaklega bent á að starfsleyfið veitir yður ekki heimild til að safna og vinna með aðrar
upplýsingar en þær sem að framan greinir. Er yður t.d. óheimilt að safna og miðla upplýsingum um uppboð
nema byrjun uppboðs hafi verið auglýst, um skiptalok og um "löghöld og lögbann". Eruð þér hér með
áminntur um að fara í starfsemi yðar í einu og öllu að skilmálum framangreinds starfsleyfis ef þér óskið að
stunda starfsemina áfram."3.11.22. – Neytendasamtökin (96/261) kvörtuðu yfir starfsemi fyrirtækisins Framsýni ehf. og mögulegri skráningu þess á
upplýsingum um viðskipti einstakra fríkortshafa. Af tilefni kvörtunarinnar, og í ljósi þess að Tölvunefnd taldi nokkra
annmarka hafa verið á að fyrirtækið hefði farið að fyrirmælum nefndarinnar, tók hún málið til umfjöllunar og afgreiddi það
með eftirfarandi hætti:

"Tölvunefnd hefur kannað þá skráningu upplýsinga sem fram fer hjá fyrirtækinu Framsýni ehf varðandi
notkun svokallaðra fríkorta. Hefur annars vegar verið aflað greinargerðar um málið frá lögmanni
fyrirtækisins og fylgir afrit hennar hjálagt. Þá var þann 19. þ.m. farið í eftirlitsferð í fyrirtækið. Sú eftirlitsferð
staðfesti það sem fram kemur í framangreindri greinargerð og leiddi ekki í ljós að hjá fyrirtækinu færi fram
söfnun eða skráning upplýsinga um vörukaup einstakra korthafa. Varð ekki séð að annað væri skráð en
upplýsingar um þá punkta sem safnast á hvern kortareikning, hvar og hvenær.

...

Tölvunefnd hefur lagt fyrir fyrirtækið Framsýni að gera breytingar á 6. og 7. gr. í notkunarskilmálum.
Samkvæmt fyrirmælum Tölvunefndar skal 6. gr. vera svohljóðandi:

"Framsýni mun, skv. fyrirmælum Tölvunefndar, ekki skrá sundurliðaðar upplýsingar um vöruútttektir
einstakra korthafa. Verða aðeins skráðar upplýsingar um þá punkta sem safnast, hvar og hvenær. "

7. gr. mun hljóða svo:

"Með notkun kortsins hefur korthafi samþykkt aðild að Fríkortinu og jafnframt notkunarskilmála þessa.
Með skriflegri tilkynningu geta korthafar sagt sig úr Fríkortinu, hætt þátttöku og þannig fengið sig afmáða
úr skrám félagsins."

...

Með vísun til framangreinds verður að áliti Tölvunefndar ekki séð að hjá fyrirtækinu Framsýni ehf. fari fram
slík söfnun og skráning persónuupplýsinga að brjóti í bága við ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og
meðferð persónuupplýsinga. Mun Tölvunefnd samkvæmt því ekki aðhafast frekar af tilefni kvörtunar yðar,
nema sérstök atvik gefi tilefni til þess. "3.11.23. – Rannsóknarnefnd umferðarslysa (97/254) fékk heimild til að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar. Í
heimild Tölvunefndar segir m.a.:

"Rannsóknarnefnd umferðarslysa er skipuð á grundvelli 114. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari
breytingum. Mun starf nefndarinnar einkum felast í því að velja alvarleg umferðarslys og rannsaka orsakir
þeirra í þeim tilgangi að gera tillögur að úrbótum í umferðarmálum. Vegna slíkra rannsókna hyggst nefndin
annars vegar fá aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum og hins vegar viðhafa vissa skráningu þeirra
persónuupplýsinga sem þannig safnast. Er samkvæmt því um tvíþætt erindi að ræða, og er afgreiðsla hvors
þáttar um sig sem hér segir:

1.

Aðgangur að skráðum persónuupplýsingum

- söfnun persónuupplýsinga.

Vegna einstakra rannsókna mun m.a. vera fyrirhugað að fá aðgang að gögnum sem öll hafa að geyma
viðkvæmar einkalífsupplýsingar, þ.e. lögregluskýrslum, sjúkraskýrslum, krufningarskýrslum og
dánarvottorðum. Um aðgang að slíkum persónuupplýsingum gildir ákvæði 5. gr. laga nr. 121/1989 þar sem
segir, í 1. mgr., að hann sé óheimill án samþykkis hins skráða. Í 2. mgr. segir hins vegar að þrátt fyrir ákvæði
1. mgr. geti Tölvunefnd heimilað að skýrt verði frá slíkum upplýsingum ef sýnt sé fram á að brýnir
almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þ.m.t. hagsmunir hins skráða, krefjist þess og ótvírætt sé að
þörfin á að fá upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.

Með vísun til framangreinds, og þess að Tölvunefnd telur fullnægt skilyrðum framangreinds lagaákvæðis,
heimilar hún, fyrir sitt leyti, aðgang rannsóknarnefndar umferðarslysa að umræddum gögnum með
eftirtöldum skilyrðum:

1. Að aðganginn hafi einungis einn nefndarmaður, þ.e. sá sem hefur sérþekkingu á sviði slysalækninga. Það
mun nú vera Jón Baldursson, yfirlæknir á slysa- og bráðmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur.

2. Að aðgangur takmarkist við þau gögn sem máli geta skipt við mat á því slysi sem til rannsóknar er hverju
sinni. Er samkvæmt því óheimill aðgangur að öðrum sjúkragögnum en þeim sem viðkomandi slysi tengjast.

3. Að fyrir liggi skriflegt samþykkis hins skráða, nema hann sé látinn eða ógerlegt sé af öðrum orsökum að
afla þess. Skal á hinu skriflega samþykki vera nákvæmlega tilgreint hvaða gögn hann samþykki að læknirinn
fái aðgang að.

2.

Skráning persónuupplýsinga

og varðveisla þeirra.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1989 er kerfisbundin skráning persónuupplýsinga heimil að því marki sem
skráningin er eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og að því marki sem hún tekur til þeirra sem
tengjast starfi hans eða verksviði. Samkvæmt því, og með vísun til 4. mgr. 14. gr. umferðarlaga, telur
Tölvunefnd rannsóknarnefnd umferðarslysa vera heimilt að halda skrá með persónuupplýsingum, með
eftirfarandi skilmálum:

1. Að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar verði gætt um öll þau atriði sem sanngjarnt er og eðlilegt að
leynt fari.

2. Að hvorki verði gengið lengra í skráningu persónuauðkenna né einkalífsupplýsinga en nauðsyn krefur til
að kanna orsakir umrædds slyss og gera tillögur að úrbótum.

3. Að upplýsingar þær sem skráðar hafa verið verði aldrei notaðar til annars en þess sem var upphaflegur
tilgangur með skráningu þeirra og í samræmi við hlutverk nefndarinnar.

4. Að nöfn einstaklinga eða önnur persónuauðkenni komi ekki fram í skýrslum nefndarinnar og þess ávallt
gætt að birta niðurstöður einungis á þann hátt að ekki megi rekja atvik til ákveðinna einstaklinga.

5. Að öll frumgögn (gögn sem hafa að geyma persónuauðkenndar upplýsingar) verði eyðilögð að
einstökum rannsóknum loknum og Tölvunefnd tilkynnt um eyðingu gagna. "3.11.24. – Ríkislögreglustjóri (97/302) fékk leyfi til aðgangs að fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins, með
leitarmöguleikum eftir kennitölu en árið 1996 hafði Tölvunefnd samþykkt aðgang Rannsóknarlögreglu ríkisins að
fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins með leitarmöguleikum eftir kennitölum. Gilti sú heimild til 1. júlí 1997. Þar sagði m.a.:

"... um aðgang að persónuupplýsingum gildir sú meginregla, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989, að án
heimildar í öðrum lögum er aðgangur að þeim óheimill nema fyrir liggi samþykki hins skráða eða einhvers
sem heimild hefur til að skuldbinda hann. Hvorki er að finna í sérlögum ákvæði sem heimila lögreglu slíkan
aðgang að fasteignaskrám né liggja fyrir samþykki allra þeirra sem þær varða. Í 2. mgr. 5. gr. segir að þrátt
fyrir ákvæði 1. mgr. geti Tölvunefnd heimilað að skýrt verði frá slíkum upplýsingum ef sýnt er fram á að
brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir hins skráða, krefjist þess. Skal þá ótvírætt að þörfin á að fá
upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.

Tölvunefnd ræddi mál þetta á fundi sínum þann 12. þ.m., og skoðaði m.a. þá hagsmuni sem hér vegast á og
þau rök sem þér hafið fært fyrir umbeðnum aðgangi, bæði í bréfi yðar, dags. 11. desember 1995 og á fundi
með nefndinni þann 12. þ.m. Með vísun til rannsóknarhlutverks Rannsóknarlögreglu ríkisins, sbr. IX. kafla
laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, og að öðru leyti með vísun til þess sem hjá yður hefur komið
fram um þörf Rannsóknarlögreglunnar fyrir umræddan aðgang, samþykkti nefndin hann fyrir sitt leyti. Er
heimild þessi bundin því skilyrði að slíkur aðgangur verði einungis veittur tveimur starfsmönnum RLR, þ.e.
yfirmönnum deildar 4 sem fer með rannsókn skatta- og efnahagsbrota og stærri fjármunabrota, og einungis
nýttur þegar ástæða er til að ætla að upplýsingar, sem skipt geti miklu máli fyrir rannsókn máls, fáist með
þeim hætti.".

...

Í beiðni Ríkislögreglustjóra sagði m.a.:

"Með bréfi, dags. 30. janúar 1997 fékk Rannsóknarlögregla ríkisins aðgang að fasteignaskrá Fasteignamats
ríkisins með ákveðnum tilgreindum skilyrðum. Leyfið tók til uppflettingar í skránni skv. heiti fasteignar,
greinitölum en auk þess eftir kennitölum eigenda skv. sérstöku leyfi Tölvunefndar. Leyfið var bundið einum
starfsmanni, Arnari Jenssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni í 4. deild embættisins en þar voru meiri háttar
fjármunabrot og peningaþvættismál rannsökuð. Í umsóknarbréfi RLR fyrir þessum aðgangi voru færð
sérstök rök fyrir nauðsyn þess að hafa aðgang að uppflettimöguleikum eftir kennitölum eigenda. Aðgangur
þessi féll niður við niðurlagningu RLR þann 1. júlí sl.

Í samræmi við ný Lögreglulög var þann 1. júlí sl. stofnað embætti ríkislögreglustjóra þar sem m.a. er
starfsrækt efnahagsbrotadeild. Sú deild tók við hlutverki 4. deildar RLR en sérstök reglugerð nr. 406/1997
var sett um hlutverk og starfsemi þeirrar deildar. Skv. Lögreglulögunum og reglugerðinni annast deildin
rannsókn og saksókn efnahagsbrota, þ.m.t. alvarleg brot á XXXVI. og XXVII. köflum alm. hgl. Þá eru mál
varðandi peningaþvætti rannsökuð í deildinni en þegar grunur um peningaþvætti vaknar ber bönkum og
fjármálastofnunum að afhenda rannsóknaraðila öll þau gögn sem hann óskar í þágu rannsóknarinnar, sbr.
lög um aðgerðir gegn peningaþvætti nr. 80, 1993 og reglugerð um hlutverk fjármálastofnana við aðgerðir
gegn peningaþvætti nr. 272 frá 16. maí 1994. Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að hafa aðgang að
uppflettimöguleikum eftir kennitölum í fasteignaskrá, sérstaklega þegar verið er að kortleggja afrakstur
alvarlegrar brotastarfsemi. Af sömu ástæðum og áður hafa verið skýrðar og fyrri beiðni var byggð á, er því
óskað eftir leyfi til uppflettinga í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins - m.a. eftir kennitölum eigenda - enda
verði heimildin háð sömu skilmálum og fyrri heimild til RLR og bundin við Arnar Jensson,
aðstoðaryfirlögregluþjón efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra."

...

Niðurstaða Tölvunefndar var svohljóðandi:

"Með vísun til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989, og allra þeirra röksemda sem greinir í ákvörðun Tölvunefndar,
dags. 13. febrúar 1996, sbr. og með vísun til þess sem fram kemur í bréfi Ríkislögreglustjóra, dags. 1.
september 1997, hefur Tölvunefnd fallist á að veita embættinu heimild til aðgangs að fasteignaskrá
Fasteignamats ríkisins með leitarmöguleikum eftir kennitölum. Skal aðganginum hagað með þeim hætti sem
embættið leggur til þ.e. að hann fá aðeins einn starfsmaður embættisins, þ.e. aðstoðaryfirlögregluþjónn
efnahagsbrotadeildar."3.11.25. – Sjúkrahús Reykjavíkur (97/082) sendi Tölvunefnd erindi varðandi skráningu persónuupplýsinga við notkun
svokallaðs matskerfis fyrir aðstoðarlækna við sjúkrahúsið. Í erindinu sagði m.a.:

"Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er fyrirhugað að tekið verði upp á næstunni matskerfi fyrir aðstoðarlækna á
kandidatsnámi og á fyrstu árum sérnáms við sjúkrahúsið. Matskerfi þetta er til samræmis við
viðmiðunarreglur sem læknadeild Háskóla Íslands hefur sett fyrir kennslusjúkrahús. Eins og fram kemur í
meðfylgjandi gögnum er gert ráð fyrir því að ýmsir þættir í störfum aðstoðarlækna verði metnir reglulega í
þeim tilgangi að fylgjast með framvindu þjálfunar þeirra og að fyrir liggi skriflegur vitnisburður um
frammistöðu þeirra í starfi.

...

Mat aðstoðarlækna er trúnaðarmál og geyma skal gögnin sem slík hjá fræðslustjóra sjúkrastofnunarinnar
eða skrifstofu læknadeildar. Aðgangur að þessum gögnum er takmarkaður. Aðstoðarlæknirinn sjálfur svo
og leiðbeinandi hans yfirfara umsagnir jafnharðan. Ritarar meðmælabréfa hafa aðgang að umsögnunum svo
og fræðslustjóri sjúkrahússins"Í niðurstöðu Tölvunefndar sagði m.a.:

"Af gögnum málsins má ráða að um sé að ræða frammistöðumat sem byggist á samtali aðstoðarlæknis og
leiðbeinanda hans um starfið og starfstengd mál, s.s. læknisfræðilega þekkingu, kliníska dómgreind, áhuga
og framtak, ábyrgð og samviskusemi, framkomu við samstarfsfólk o.fl. Að því búnu fer fram gagnkvæmt mat
á störfunum og eru aðalatriðin úr samtalinu dregin saman á eyðublað eins og það sem fylgdi erindi þessu.

Umrædd erindi hefur verið rætt og farið yfir meðfylgjandi gögn. Er niðurstaðan sú að telja verði tilhögun
umrædds frammistöðumats, eins og henni er lýst í gögnum málsins, vera ásættanlega út frá sjónarmiðum um
vernd persónuupplýsinga, og samþykkir hana því fyrir sitt leyti með eftirfarandi skilmálum:

1. Að fullkomins trúnaðar verði gætt um efni frammistöðumats. Skulu eigi aðrir hafa aðgang að
frammistöðumati en aðstoðarlæknirinn sjálfur, leiðbeinandi hans, ritarar meðmælabréfa og fræðslustjóri
sjúkrahússins.

2. Að ekki verði skráðar aðrar upplýsingar en þær sem eru sjúkrahúsinu nauðsynlegar til samræmis við þær
viðmiðunarreglur sem læknadeild Háskóla Íslands hefur sett fyrir kennslusjúkrahús. Er óheimilt að skrá
upplýsingar um þau atriði er greinir í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989 nema fyrir því liggi sérstakt samþykki
hins skráða.

3. Að hver aðstoðarlæknir eigi hvenær sem er aðgang að eigin starfsmannamati.

4. Að við starfslok geti aðstoðarlæknir fengið afhent öll gögn úr eigin frammistöðumati og/eða krafist þess
að öllum persónuupplýsingum um sig verði eytt úr gögnum sjúkrahússins.

Skal þess ávallt gætt að kynna aðstoðarlækni rétt sinn skv. 1. mgr.

5. Að frammistöðumatsupplýsingar verði ekki notaðar í öðrum tilgangi en þeim sem upphaflega var með
söfnun þeirra og skráningu.

6. Að gögnum um frammistöðumat verði eytt þegar liðin eru 10 ár frá starfslokum viðkomandi
aðstoðarlæknis, hafi þau þá eigi þegar verið afhent honum eða þeim eytt að hans beiðni."3.11.26. – Sjúkrahús Reykjavíkur (97/126) óskaði umsagnar Tölvunefndar um hvort sjúkrahúsinu væri heimilt að
afhenda samtökunum Lífsvog afrit sjúkraskýrslna. Í bréfi sjúkrahússins sagði m.a.:

"Þrátt fyrir ótvíræða heimild sjúklinga til að fá sjálfir afhent afrit sjúkragagna sinna tel ég það orka tvímælis
að samtök eða félagsskapur, hverju nafni sem hann nefnist, geti í umboði sjúklinga kallað eftir
sjúkraskýrslum. Fer ég fram á það við Tölvunefnd að hún úrskurði um hvort samsöfnun slíkra upplýsinga á
vegum félagasamtaka geti verið kerfisbundin söfnun persónuupplýsinga og farið í bága við lög nr. 121/1989
um skráningu og meðferð persónuupplýsinga."Í framhaldi af fyrirspurn Sjúkrahúss Reykjavíkur aflaði Tölvunefnd upplýsinga frá samtökunum Lífsvog um hvort starfsemi
þeirra gerði söfnun sjúkragagna nauðsynlega og hvernig þar væri hagað varðveislu gagna og aðgangi að þeim. Í svari
Lífsvogar sagði m.a.:

"Eins og fram kemur í lögum samtakanna, er hlutverk þeirra að veita ráðgjöf og stuðning til handa þeim er
telja sig hafa orðið fyrir mistökum í læknismeðferð.

...

Samtökin veita einnig aðstoð við að setja fram formlegar kvartanir, til opinberra rannsóknaraðila, s.s.
Landlæknisembættisins, Nefndar um ágreiningsmál, Tryggingastofnunar og annarra þeirra aðila, er kvörtun
beinist að hverju sinni. Þótt sjúklingar gerist félagsmenn í Lífsvog, höfum við óskað eftir umboði þeirra
hinna sömu ef óskað er aðstoðar við málaleitan einhvers konar.

...

Lífsvog hefur varðveitt sjúkragögn sjúklinga. Geymsla gagna er í læstum skjalaskáp, er samtökin fengu að
gjöf. Aðgangur að upplýsingum þessum er eingöngu í höndum stjórnarmanna Lífsvogar, er sinna störfum á
skrifstofu samtakanna. Þeir hinir sömu starfsmenn eru að sjálfsögðu bundnir þagnareiði, varðandi
upplysingar þær er að starfinu lúta. Að lokinni rannsókn eða málsmeðferð, tekur sjúklingurinn síðan
sjúkragögn sín aftur. Það er því ekki um að ræða söfnun sjukragagna af hálfu samtakanna.

Kvartanir þær er berast samtökunum skráum við hins vegar niður, sem og nöfn þeirra er bera fram þær hinar
sömu kvartanir, efni kvörtunar, sem og hverjum kvartanir beinast að. Tölvuvinnsla slíkra upplýsinga er ekki
fyrir hendi því Lífsvog hefur enn ekki séð sér fært að festa kaup á tölvu, hvað þá haft yfir mannafla að ráða
er sinnt gæti slíku starfi. Í raun hafa samtökin vart haft undan að veita viðtöku hinum ýmsu kvörtunum og
aðstoða við framsetningu þeirra í formleg erindi, til hinna opinberu rannsóknaraðila."Tölvunefnd komst að svohljóðandi niðurstöðu:

"Af því sem að framan greinir er ljóst að samtökin Lífsvog kunna í starfsemi sinni að safna og skrá
upplýsingar um einkamálefni og heilsuhagi í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 1. mgr. 4. gr. 121/1989 um
skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Fellur meðferð slíkra upplýsinga undir gildissvið laga nr.
121/1989 og lýtur þar með eftirliti og úrskurðarvaldi Tölvunefndar.

Í svari Lífsvogar til Tölvunefndar kemur fram að samtökin safni ekki sjúkraskrám þ.s. þær séu afhentar
sjúklingi á ný þegar afskiptum samtakanna af viðkomandi máli lýkur. Hins vegar segir að samtökin skrái þær
kvartanir sem þeim berist, þ.e. að skráðar séu upplýsingar um nöfn þeirra sem bera fram kvartanir, um efni
kvartana og um hverjum kvartanir beinast að.

Skráning þeirra upplýsinga sem um ræðir í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989 er óheimil nema til hennar standi
sérstök lagaheimild. Frá þessu gildir sú undantekning að hinn skráði getur veitt samþykki sitt til
skráningarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr., eða Tölvunefnd veitt slíkt leyfi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Af því leiðir að
Lífsvog er með samþykki þolenda mistaka í læknismeðferð heimilt að færa á skrá nöfn þeirra sjálfra, en ekki
nöfn þeirra sem kvartað er undan. Tölvunefnd gerir því ekki athugasemd við skráningu upplýsinga um nöfn
þolenda, svo framarlega sem hún hefur farið fram með samþykki þeirra. Hins vegar er samtökunum óheimilt
að færa á skrá upplýsingar um meinta fremjendur mistaka með þeim hætti að þeir verði persónugreindir.

Hvað afhendingu sjúkraskráa varðar bendir Tölvunefnd á að lækni er, samkvæmt 2. mgr. 16. gr. læknalaga
nr. 53/1988, með síðari breytingum, skylt að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár, allrar
eða að hluta. Með vísun til þess telur Tölvunefnd sjúkrahúsinu bera að afhenda Lífsvog afrit sjúkraskrár
gegn framvísun fullgilds umboðs. Við mat á því hvort um fullgilt umboð sé að ræða leggur Tölvunefnd til að
miðað verði við eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:1) Að vottorð sé dagsett og undirritað í votta viðurvist. 2)
Að í umboði komi fram: a) Að samtökin safni ekki sjúkraskrám, þ.e. staðfest að þegar afskiptum Lífsvogar af
einstökum málum ljúki verði skrárnar verði annað hvort afhentar viðkomandi sjúklingi eða þeim eytt. b) Að
um skráningu upplýsinga sé farið að lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga og
þess gætt að færa ekki á skrá nöfn meintra fremjenda mistaka með þeim hætti að þeir verði persónugreindir.
d) Að samtökin muni hvorki miðla upplýsingum um nöfn þolenda né meintra fremjendur mistaka til
óviðkomandi aðila og ekki upplýsa óviðkomandi aðila um atvik einstakra mála, sem samtökin hafa afskipti af
í starfsemi sinni."3.11.27. – Sjúkrahúsið og heilsugæslan á Húsavík (96/170) óskaði umsagnar nefndarinnar varðandi svokallað RAI-mat á
langlegusjúklingum skv. reglugerð nr. 546/1995 um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldunarstofnunum. Í bréfi
sjúkrahússins sagði m.a.:

"Hér er um að ræða mjög umfangsmikla og ítarlega skráningu á upplýsingum, sem varðar stóran hóp
einstaklinga. Upplýsingarnar eru skráðar undir nafni íbúa á þar til gerð eyðublöð, síðan skal senda
upplýsingarnar til svokallaðrar RAI-nefndar, sem skipuð er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og mun
nefndin senda niðurstöður sínar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, þar sem þær skulu varðveittar
á tölvutæku formi."Að fenginni þessari fyrirspurn sendi Tölvunefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu svohljóðandi bréf:

"Tölvunefnd hefur borist erindi [...], yfirlæknis, varðandi svokallað RAI-mat sem til stendur að láta fara fram
á langlegusjúklingum, á grundvelli reglugerðar nr. 546/1995 um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á
öldrunarstofnunum.

Tölvunefnd hefur af tilefni þessa erindis skoðað eyðublað fyrir umrætt heildarmat. Við þá skoðun kemur í
ljós að m.a. er leitað eftir mjög viðkvæmum persónuupplýsingum sem ekki er auðvelt að sjá að skipti máli við
að tryggja almenna þjónustu við aldraðra. Ljóst er að ýmsar upplýsingar eru nauðsynlegar við mat á
heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldunarstofnunum en svo virðist sem óþarflega nærri einstaklingum sé gengið
í fjölmörgum spurningum eyðublaðsins.

Tekið skal fram að samkvæmt 4. gr. laga um meðferð og skráningu persónuupplýsinga nr. 121/1989 er
almennt óheimilt að skrá upplýsingar um einkamálefni einstaklinga nema til þess standi samþykki hins
skráða eða sérstök heimild samkvæmt öðrum lögum.

Af því tilefni er þess hér með óskað að ráðuneytið skýri hvort slík sérstök lagaheimild sé fyrir hendi. Þá er
þess ennfremur óskað að fram komi hvort ráðuneytið telji nauðsynlegt að viðhafa söfnun
persónuupplýsinga með þeim hætti sem að framan er lýst og hvort það telji nauðsynlegt að skrá þær undir
nafni íbúa."Í svarbréfi ráðuneytisins sagði m.a.:

"Áðurnefnd reglugerð nr. 546/1995 kveður á um að markmið hennar sé að tryggja að þjónusta við aldraða í
þjónustu- og hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum og sjúkrahúsum sé sambærileg og í samræmi við 18. gr.
laga nr. 82/1989. Í reglugerðinni er mælt fyrir um að til að ná umræddu markmiði skuli byggt á RAI
mælingum, sem er staðlað alþjóðlegt matstæki. Hefur reglugerðin að geyma nánari fyrirmæli um framkvæmd
slíkra mælinga. Það er mat þeirra sérfræðinga, sem ráðuneytið hefur leitað til, að ekki sé unnt að ná
tilætluðum markmiðum mælinganna, nema því aðeins að skráningu upplýsinga verði háttað á þann veg að
upplýsingar um hlutaðeigandi einstaklinga séu auðkenndar með sama auðkenni við endurtekið mat, ásamt
deild og stofnun. Á þann hátt sé unnt að koma í veg fyrir að sömu einstaklingar séu margtaldir þegar kemur
að uppgjöri viðkomandi stofnunar. Einnig sé nauðsynlegt að fella út úr gagnaskránni þá eintaklinga, sem
látist hafa milli mælinga. Til að slíkt sé framkvæmanlegt verði auðkenni hlutaðeigandi einstaklinga að liggja
til grundvallar upplýsingum hverju sinni. Í ljósi þessa telur ráðuneytið núverandi tihögun mælinganna
forsendu þess að markmiðum RAI mats skv. reglugerð nr. 546/1995 verð náð."Tölvunefnd bárust og skýringar RAI-hópsins en þar sagði m.a.:

"Nefndin um RAI matið hafði rætt og er með í vinnslu kerfi til að rugla kennitölu einstaklingana, þó þannig
að sama kennitala leiði til sama auðkennis sé einstaklingur metinn oftar en einu sinni. Hugmyndin er að setja
inn forskrift að hinni rugluðu kennitölu í forrit það sem upplýsingarnar eru skráðar á og mun viðkomandi
stofnun því senda gögnin frá sér undir dulnefni. Ómar Harðarson hjá Hagstofu Íslands vinnur að gerð
þessa kerfis. Með þessu móti vonast RAI nefndin til þess að persónuhagir eintaklingsins eru verndaðir án
þess að möguleikar hins opinbera á því að veita bestu hugsanlegu þjónustu á sem hagkvæmastan hátt séu
skertir."Þá barst Tölvunefnd umsögn landlæknis þar sem sagði m.a.:

"Hið svokallaða RAI-mat byggir á umfangsmikilli og ítarlegri skráningu upplýsinga um heilsufar aldraða á
öldrunarstofnunum og þörf þeirra fyrir læknismeðferð, hjúkrunar, umönnun og stuðning. Upplýsingarnar
eru á allan hátt hliðstæðar þeim upplýsingum sem skráðar eru í sjúkraskrá og hjúkrunarskrá. Það er álit
Landlæknisembættisins að hér sé um að ræða gögn sem eru hluti af sjúkraskrá sjúklings og beri því að
meðhöndla þau á allan hátt sem slík."Niðurstaða Tölvunefndar var svohljóðandi:

"Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum er að finna ákvæði um
grundvallarmannréttindi þegnanna. Þar er í 71. gr. m. a. mælt fyrir um þau mannréttindi sem felast í því að
njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr.
121/1989 er svo kveðið nánar á um réttindi til friðhelgi einkalífs að því er meðferð skráðra
persónuupplýsinga varðar.

Samkvæmt 1. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 121/1989 er með persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða
einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Má sem dæmi
nefna fjölskyldumálefni manna, heilsuhagi, kynlíf og brotaferil. Að áliti Tölvunefndar er ótvírætt að í máli
þessu er um að ræða skráningu slíkra persónuupplýsinga og söfnun þeirra í skipulagsbundna heild í
skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna. Af því leiðir að umrædd skráning fellur undir gildissvið laga nr. 121/1989, og
lýtur þar með eftirlits- og ákvörðunarvaldi Tölvunefndar, skv. 33. gr. laganna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1989 er þeim einum heimilt að skrá persónuupplýsingar sem það gerir í þágu
einhvers konar starfsemi sem hann hefur með höndum og má skráningin einungis taka til þeirra sem tengjast
starfi hans eða verksviði. Er skilyrði að skráningin sé "eðlilegur þáttur" í starfsemi viðkomandi aðila. Af efni
persónuupplýsingalaganna leiðir fyrst og fremst að því skal setja hömlur vegna tillits til einkalífs hvaða
upplýsingar megi skrá og um hverja. Samkvæmt 4. gr. laganna er óheimilt að skrá persónuupplýsingar sem
eru mönnum sérstaklega viðkvæmar. Þrenns konar undantekningar frá þessu banni er að finna í 2. og 3. mgr.
4. gr. Í fyrsta lagi getur slík skráning verið heimil standi til þess sérstök lagaheimild. Í öðru lagi er slík
skráning heimil ef hinn skráði hefur sjálfur gefið upplýsingarnar eða þeirra verið aflað með hans samþykki. Í
þriðja lagi er slík skráning heimil ef til hennar stendur sérstök heimild Tölvunefndar. Ljóst er að hvorugu
síðarnefndu skilyrðanna er hér fullnægt. Er þá til þess að líta hvort til skráningarinnar standi lagaheimild.
Um lagaheimild til þeirrar skráningar sem hér um ræðir vísar ráðuneytið til 18. gr. laga nr. 82/1989 þar sem
skýrt er hvað átt sé við með stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Ekki verður hins vegar séð að það ákvæði feli í
sér heimild til þeirrar umfangsmiklu skráningar um viðkvæm einkalífsatriði sem ráðuneytið stofnaði til með
umræddu RAI-mati, sbr. reglugerð nr. 546/1995. Þá verður heldur ekki talið að umrædd skráning geti talist
eðlilegur þáttur í starfsemi ráðuneytisins í skilningi 3. gr. laga nr. 121/1989. Tekur Tölvunefnd fram að hún
telur engu máli skipta í því sambandi þótt ráðuneytið hafi falið öðrum (RAI-matsnefnd) framkvæmd verksins
fyrir sína hönd.

Samkvæmt framanrituðu verður ekki séð að framangreindum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. hafi verið fullnægt,
þannig að af megi ráða að heimild standi til umræddrar skráningar. Með vísun til þess verður að telja
umræddri RAI-matsnefnd vera óheimilt að safna þeim viðkvæmu upplýsingum sem hér um ræðir nafngreint
eða með öðrum þeim hætti sem gerir henni kleift að rekja upplýsingar til einstaklinga. Því leggur Tölvunefnd
fyrir að við útfyllingu umræddra eyðublaða verði þess gætt að þau verði með öllu án persónuauðkenna.
Hins vegar vill Tölvunefnd benda á að ná má tilgreindum markmiðum ráðuneytisins með því að viðhafa þá
aðferð að viðkomandi sjúkrahús gefi hverjum sjúklingi verkefnisnúmer, eða annað auðkenni, og geri
greiningarlykil sem það eitt hafi aðgang að."3.11.28. - Skráningarstofan hf. (97/319). Tölvunefnd setti Skráningarstofunni starfsreglur um meðferð upplýsinga í
ökutækjaskrá. Þær reglur lúta að því með hvaða hætti Skráningarstofan hf. megi veita einstaklingum, fyrirtækjum og
stofnunum upplýsingar um ökutæki úr ökutækjaskrá. Þar segir :

1.gr.

Skráningarstofan hf. má veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum upplýsingar um ökutæki úr
ökutækjaskrá með eftirfarandi aðferðum:

a) Með því að veita uppflettiaðgang með beinlínutengingu (á skjámynd). Annars konar aðgangur á
tölvutæku formi er óheimill nema að fengnu sérstöku leyfi Tölvunefndar.

Með slíkum uppflettiaðgangi má fletta upp:

a1) einstöku ökutæki út frá fastnúmeri þess, áletrun á skráningarmerki eða verksmiðjunúmeri og kalla fram á
skjá þær upplýsingar um ökutækið sem tilgreindar eru í 5. gr. Bannmerking skv. 2. gr. hindrar ekki að
upplýsingar um nafn eiganda birtist á skjámynd.

a2) hópum ökutækja völdum út frá þeim svæðum í ökutækjaskrá sem eru með "opinn aðgang" skv. 5. gr.
Skal hámarksfjöldi nafna í slíkri uppflettingu vera 100 nöfn.

b) Með því að veita símleiðis eða með bréfi þær upplýsingar sem birtast á skjá við uppflettingu um einstök
ökutæki skv. a-lið. Hafi verið óskað bannmerkingar, skv. 2. gr., skulu upplýsingar um nöfn núverandi eða
fyrrverandi eigenda/umráðamanna ekki veittar símleiðis. Þær má hins vegar veita bréfleiðis telji
Skráningarstofa hf. ástæður beiðninnar vera eðlilegar, t.d. grun um aðild að árekstri. Ekki má, með þessari
aðferð, veita upplýsingar um fleiri en 3 ökutæki í senn.

Allir sem fá aðgang að Ökutækjaskrá samkvæmt a-lið skulu gera samning við Skráningarstofuna hf. um
aðganginn. Þar skal m.a. taka fram að áskrifendum sé einungis heimilt að nota skrána í sinni reglubundnu
starfsemi og megi ekki miðla upplýsingum úr skránni. Skal sérstaklega áréttað að bannað sé að miðla þeim
upplýsingum sem eru með "skilyrtan aðgang" samkvæmt 5. gr. og að brot á því varði uppsögn
samningsins.

2.gr.

Bannmerking.

Einstaklingar og lögaðilar geta óskað bannmerkingar í ökutækjaskrá til að hindra notkun nafns síns í
markaðssetningarstarfsemi og upplýsingagjöf í síma, sbr. b-lið 1. gr. Er Skráningarstofunni hf. heimilt að
flytja bannmerkingar í þjóðskrá Hagstofunnar sjálfkrafa yfir í ökutækjaskrá.

3.gr.

Miðlun ópersónugreindra upplýsinga.

Afhenda má skrár með tæknilegum upplýsingum um ökutæki eða hópa ökutækja sem hvorki hafa að geyma
upplýsingar um auðkenni eigenda/umráðamanna né þau atriði sem lúta skilyrtum aðgangi skv. 5. gr.

Birta má opinberlega og/eða selja í áskrift tölfræðilegar upplýsingar byggðar á upplýsingum úr
ökutækjaskrá, enda komi þar hvergi fram auðkenni eigenda/umráðamanna né ökutækja.

4.gr.

Óheimil er miðlun upplýsinga um eignastöðu einstakra aðila samkvæmt Ökutækjaskrá. Skal áskrifendum að
Ökutækjaskrá því vera ókleift að fletta upp einstökum aðilum, eftir nöfnum þeirra eða kennitölum, og fá
upplýsingar um ökutækjaeign þeirra, nema til þess standi sérstök heimild Tölvunefndar. Þó er
Skráningarstofu hf. heimilt að gera saminga við eftirfarandi aðila um slíkan aðgang:

a. Lögmann í innheimtustarfsemi - gegn framvísun yfirlýsingar um að honum hafi verið falið að innheimta
kröfu á hendur þeim sem hann óskar upplýsinga um og hafi heimild til að gera aðför til fullnustu þeirri kröfu,
skv. 1. gr. aðfaralaga nr. 90/1989. Skal Skráningarstofan hf. halda skrá og varðveita í tvö ár upplýsingar um
nöfn þeirra lögmanna sem hafa fengið slíkar upplýsingar.

b. Lögmann - sem á grundvelli sérstaks samnings við Bílastæðasjóð annast innheimtur álagðra en
vangoldinna stöðvunarbrotagjalda.

c. Tryggingastofnun ríkisins vegna sjúkra-, slysa- eða lífeyristryggingadeildar. Skal aðgangurinn heimill
þessum deildum við afgreiðslu umsókna um bensínstyrk, bílalán, styrk til að kaupa hjálpartæki eða styrk
vegna umferðarslyss sem skilyrtur er við bifreiðaeign umsækjanda, gegn skuldbindingu um að einungis
verði flett upp í skránni að því marki sem nauðsyn krefur vegna afgreiðslu slíkra umsókna.

d. Mann sem skipaður hefur verið skiptastjóri í þrotabúi eða dánarbúi þess aðila sem óskað

er upplýsinga um, enda framvísi sá maður endurriti af úrskurði héraðsdóms þar sem hann

er skipaður skiptastjóri í viðkomandi búi.Hinum skráða er hvenær sem er heimill aðgangur að öllu því sem um hann og ökutækjaeign hans er skráð í
Ökutækjaskrá.

Ekki má veita upplýsingar um hópa eigenda/umráðamanna ökutækja, s.s með afhendingu lista, límmiða eða
annars prentaðs efnis, nema samkvæmt þeim skilmálum sem um slíka afhendingu gilda samkvæmt sérstöku
starfsleyfi Tölvunefndar á grundvelli 21. gr. laga nr. 121/1989. Í slíkri starfsemi má eingöngu veita
upplýsingar um eða velja hópa út frá þeim svæðum í ökutækjaskrá sem eru með "opinn aðgang" skv. 5. gr.
Þó er heimilt að afgreiða útskrift sem inniheldur upplýsingar eða er valin út frá þeim svæðum sem eru með
"skilyrtan aðgang" samkvæmt 5. gr., ef til þess stendur sérstök heimild Tölvunefndar þar sem fram komi
hvort heimiluð sé ein eða fleiri útskriftir af sama tagi.

Skráningarstofu er heimilt að loka fyrir aðgang einstakra aðila og innkalla útskrifaða lista ef rökstuddur
grunur er um misnotkun á upplýsingum úr ökutækjaskrá.5. gr.

Þær upplýsingar sem færðar eru í ökutækjaskrá

...6.gr.

Samtenging ökutækjaskrár við aðrar skrár

Skráningarstofan hf. má tengja ökutækjaskrá við aðrar skrár sem hér segir:

a) Þjóðskrá.

Upplýsingar um nöfn og heimilisföng eigenda og umráðamanna eru byggðar á upplýsingum úr þjóðskrá
Hagstofu Íslands. Breytingar eru sóttar með runuvinnslu í þjóðskrá á hverju kvöldi.

b) Tekjubókhald ríkisins.

Upplýsingar um álögð opinber gjöld skv. tekjubókhaldskerfi ríkisins. Upplýsingarnar eru birtar á
upplýsingamynd um ökutæki og vistaðar tímabundið í ökutækjaskrá. Tekjubókhaldskerfið sækir
upplýsingar í ökutækjaskrá í hvert sinn sem álagning fer fram á opinberum gjöldum eða breyting á þeim. Hér
er um daglegar runuvinnslur að ræða. Einnig sækir Tekjubókhaldskerfið upplýsingar um
eigendur/umráðamenn ökutækja vegna álagningar á stöðvunarbrotagjöldum.

c) Tollakerfi.

Upplýsingar um forskráð ökutæki eru fluttar með reglulegu millibili yfir í Ríkistölvukerfi tollstjóra.
Staðfesting á tollafgreiðslu er flutt í daglegri runuvinnslu eða eftir þörfum úr tölvukerfi tollstjóra yfir í
ökutækjaskrá.

d) Tryggvi, kerfi Tryggingastofnunar ríkisins.

Upplýsingar um ökutækjaeign eru sendar í tölvukerfi TR þegar verið er að reikna út bílastyrki. Upplýsingar
um undanþágur vegna örorku eru sóttar úr tölvukerfi tryggingastofnunar yfir í ökutækjakerfið þegar birtar
eru upplýsingar um áætluð gjöld. Upplýsingarnar eru ekki vistaðar í ökutækjaskrá.

e) Þinglýsingakerfi.

Upplýsingar um eigendur ökutækja eru sóttar úr ökutækjaskrá yfir í þinglýsingakerfi við þinglýsingu
veðskulda. Upplýsingar um hvort veð sé áhvílandi á bifreið eru sóttar eftir þörfum úr þinglýsingakerfi yfir í
ökutækjaskrá til birtingar á upplýsingamynd um ökutæki. Upplýsingarnar eru ekki vistaðar í ökutækjaskrá.

f) Álestraskrá.

Upplýsingar um eigendur ökutækja eru fluttar úr ökutækjaskrá yfir í álestraskrá við skráningu álestra af
ökutækjum sem greiddur er af þungaskattur samkvæmt mæli. Upplýsingar um síðasta álestur og stöðu
akstursmælis eru sóttar úr álestrakerfi og birtar á skjámynd ökutækjakerfis eftir þörfum. Upplýsingarnar eru
ekki vistaðar í ökutækjaskrá.

g) Skrár tryggingafélaga.

Flest tryggingafélög eru aðilar að sameiginlegri skrá yfir vátryggð ökutæki (s.k. tryggingabanka) sem
varðveittur er hjá Skýrr hf. Upplýsingar eru fluttar úr ökutækjaskrá yfir í þessa skrá við nýskráningu
ökutækja. Upplýsingar um tryggingafélag og stöðu trygginga eru sóttar úr tryggingabanka og skráðar í
ökutækjaskrá bæði með reglubundnum hætti og eftir þörfum.

Tryggingafélög sem ekki eiga aðild að tryggingabanka senda sömu upplýsingar á myndsendi eða með
tölvupósti.

h) Skoðunarstofur.

Skoðunarfyrirtæki senda upplýsingar um skoðunarniðurstöður til ökutækjaskrár ýmist á myndsendi eða
beint úr tölvukerfum sínum með tölvupósti eða með öðru formi skjallausra samskipta.

i) Innflytjendur ökutækja.

Innflytjendur ökutækja senda upplýsingar um innflutt ökutæki til ökutækjaskrár ýmist á myndsendi eða
beint úr tölvukerfum sínum með tölvupósti eða með öðru formi skjallausra samskipta."3.11.29. - Skrifstofa Reykjanesbæjar (97/290). Tölvunefnd hafði afskipti af starfsemi skattanefndar bæjarins sem ætlað
var að skapa aðhald gegn skattsvikum. Af hálfu bæjarins var því lýst sem hans hlutverki að skapa aðhald, vekja umræðu
og andúð á skattsvikum og að fulltrúar bæjarins hefðu í því skyni borið uppgefnar tekjur samsveitunga sinna saman við
lífsmáta þeirra og gert samanburð milli ára. Af því tilefni áminnti Tölvunefnd bæjaryfirvöld um að samkvæmt 3. gr. , sbr. 1.
gr. laga nr. 121/1989, er kerfisbundin skráning persónuupplýsinga, þ. á m. upplýsinga um fjárhagsmálefni fólks, því aðeins
heimil að skráningin sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi og taki einungis til þeirra sem tengjast starfi hans eða
verksviði, svo sem til viðskiptamanna hans, starfsmanna eða félagsmanna. Benti Tölvunefnd á að meðferð slíkra
upplýsinga gæti verið heimil þeim sem hafa til þess heimild Tölvunefndar, heimild hins skráða eða sérstaka lagaheimild
(sbr. t.d. heimildir skattyfirvalda) en að athugun Tölvunefndar hefði ekki leitt í ljós að slíkri heimild væri til að dreifa
varðandi starfsemi bæjarins. Af tilliti til sjónarmiða um frihelgi einkalífs sem varin er í 71. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr.
121/1989 lagði Tölvunefnd áherslu á mikilvægi þess að skattanefnd Reykjanesbæjar gætti hófs og safnaði hvorki né skráði
upplýsingar um fjárhagsmálefni né önnur einkamálefni samsveitunga sinna umfram það sem hún hefði heimild til lögum
samkvæmt.3.11.30. – Tryggingastofnun ríkisins (97/005) bað um að fá framlengda þá heimild sem Tölvunefnd veitti stofnuninni
þann 3. desember 1992 til að mega tölvuskrá upplýsingar af lyfseðlum og samtengja upplýsingar lyfjabúða við skrár
Tryggingastofnunar, en sú heimild gilti til 31. desember 1996. Um rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu og efni málsins að
öðru leyti vísast til ársskýrslu Tölvunefndar fyrir árið 1992. Tölvunefnd óskaði umsagnar landlæknis og heilbrigðis- og
tryggingamálaráðuneytisins um beiðni stofnunarinnar. Í umsögn ráðuneytisins sagði m.a.:

"Ráðuneytið telur sömu rök eiga við um veitingu þess leyfis, sem óskað er af hálfu Tryggingastofnunar
ríkisins og leyfisveiting Tölvunefndar þann 3. desember 1992 grundvallaðist á. Af hálfu ráðuneytisins er
lögð áhersla á mikilvægi þess að ítrustu varkárni sé gætt við meðferð þeirra upplýsinga, sem um ræðir. Er
þar einkum átt við nafnleynd hlutaðeigandi einstaklinga og að aðgangur að upplýsingunum verði
takmarkaður við þá starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins, sem brýna nauðsyn hafa að slíkum aðgangi
starfs síns vegna.

Í ljósi ofanritaðs mælir ráðuneytið með því að Tölvunefnd veiti Tryggingastofnun ríkisins áframhaldandi
leyfi til skráningar þeirra upplýsinga, sem erindi hennar lýtur að og samtengingar þeirra upplýsinga við
skrár stofnunarinnar."Í umsögn landlæknis sagði hins vegar:

"Bent skal á að í nágrannalöndum okkar eru einstaklingsbundnar upplýsingar um lyfjaneyslu fólks taldar
varða friðhelgi einkalífsins. Stofnunum sem gegna samsvarandi hlutverki og Tryggingastofnun ríkisins á
Íslandi er hvorki leyfður aðgangur að persónubundnum upplýsingum né veitt heimild til þess að halda skrár
um lyfjaneyslu einstakra borgara. Jafnvel lögbundnir eftirlitsaðilar þurfa dómsúrskurð til þess að fá aðgang
að slíkum upplýsingum.

Upplýsingar um kostnað vegna lyfjakaupa og hlut sjúkrasamlags eru skráðar í lyfjabúðum. Í Svíþjóð eru
sjúkrasamlögum eða öðrum greiðendum sendir reikningar fyrir þeirra hlut með reglulegu millibili. Þar koma
ekki fram einstaklingsbundnar upplýsingar, heldur aðeins skipting kaupenda lyfja eftir sveitarfélögum,
lénum eða landinu í heild.

Í Danmörku senda lyfjabúðirnar upplýsingar um lyfjakaup á disklingum með kennitölum einstaklinga til
viðkomandi sjúkrasamlags. Lyfjabúðirnar mega lengst geyma þessar upplýsingar í þrjá mánuði og
sjúkrasamlögin í aðra þrjá mánuði, þ.e. meðan verið er að ganga frá öllum greiðslum. Hins vegar er algjörlega
bannað að byggja upp persónubundnar skrár eða samtengja þessar upplýsingar við aðrar skrár.

Með hliðsjón af framansögðu og mikilvægi þess að standa vörð um rétt sjúklinga og friðhelgi einkalífsins,
leggst landlæknir gegn því að Tryggingastofnun ríkisins verði veitt umrætt leyfi."Tryggingastofnun ríkisins var veittur kostur á að gera athugsemdir við umsögn landlæknis og gerði hún svofelldar
athugasemdir:

"Síðastliðin tíu ár hafa apótek tölvuskráð alla lyfseðla. Lagt hefur verið í mikinn kostnað til að apótekin geti
sent Tryggingastofnun reikninga sína á tölvutæku formi og fylgja þá lyfseðlarnir með sem fylgigögn.
Bráðlega verður kerfið tilbúið þannig að skeytasendingar geti hafist.

Til að unnt sé að greiða eftir gögnum apótekanna þarf að vera hægt að bera upplýsingarnar sem þaðan
koma saman við ýmsar aðrar upplýsingar.

Þær eru:

þjóðskrá - gefur til kynna hvort sjúklingur sé sjúkratryggður

læknaskrá - gefur til kynna hvort læknir sem ávísar sé til

lyfjaverðskrá - gefur til kynna hvort lyf sé til

Auk þess eru þrjár skrár útbúnar innan Tryggingastofnunar sem tryggja réttindi sjúklinga. Þær eru:

örorkubótaskrá - örorkulífeyrisþegar greiða lægra gjald fyrir lyf en aðrir

lyfjaskírteinaskrá - handhafar skírteina greiða lægra gjald fyrir lyf en aðrir

leguskrá - skrá yfir þá sem skráðir eru inn á stofnanir (stofnanir eiga að útvega sjúklingum/vistmönnum
sínum lyf)

Á Íslandi eru ekki til aðrar tölfræðilegar upplýsingar um lyfjanotkun en þær sem fram koma hjá heildsölum
yfir lyfjasölu. Tryggingastofnun ríkisins greiðir um 70% af lyfjakostnaði landsmanna utan sjúkrahúsa. Það
er ótvírætt hagur stofnunarinnar að hafa aðgang að tölfræðilegum upplýsingum sem gefa rétta mynd af
lyfjanotkun í landinu og breytingum sem þar verða. Þá fyrst má hafa áhrif á lyfjakostnað sem eykst ár frá ári,
beina notkun að hagkvæmari valkostum og nýta þannig betur þá fjármuni sem varið er til kaupa á lyfjum.
Vekja má lækna til umhugsunar um stöðu sína með því að gefa þeim upplýsingar um eigin ávísanavenjur og
miða þær við aðra hópa. Þær upplýsingar ásamt fræðslu eru einnig mótvægi við gríðarleg markaðsöfl
lyfjaiðnaðarins. Hvar sem slík leið hefur verið valin hefur það leitt til tryggari og betri lyfjameðferðar auk
þess sem fé hefur sparast. Þá eru góðar tölfræðilegar upplýsingar um lyfjanotkun forsenda þess að hafa
megi áhrif á greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjum á skynsamlegan hátt landsmönnum öllum til
hagsbóta.

Varðandi það sem fram kemur í umsögn landlæknis:

Í nokkur ár hafa dönsk yfirvöld unnið að því að koma á hagkvæmari lyfjameðferð í samvinnu við lækna. Í
þeim gögnum sem unnið er með í Enhed for rationel farmakoterapi í Kaupmannahöfn hafa kennitölur
einstaklinga verið fjarlægðar. Gögnin greina aðeins aldur og kyn sjúklinga, búsetu og lækni, auk lyfjanna.

Í Svíþjóð hafa apótek ekki önnur samskipti við Riksförsäkringsverket en að senda þangað reikning fyrir
greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjum einu sinni í mánuði. Aðstæður þar eru ólíkar því sem tíðkast á
Íslandi því í Svíþjóð eru öll apótek í eigu Apoteksbolaget sem er að stærstum hluta í eigu ríkisins.

Tryggingastofnun ríkisins tekur undir það sjónarmið að standa beri vörð um rétt sjúklinga og friðhelgi
einkalífsins og vill brýna nauðsyn þess að tryggja verndun upplýsinga sem safnað er og geymdar eru á
tölvutæku formi."Í júlí 1997 var lögð fram skýrsla Ríkisendurskoðunar um TR. Þar sagði m.a.:

"Tryggingastofnun ber að sinna eftirliti með lyfseðlum vegna greiðsluskyldu ríkisins. Það er tvíhliða,
annars vegar eftirlit með því að ríkissjóður greiði aðeins þann lyfjakostnað sem honum ber lögum
samkvæmt að greiða, og hins vegar eftirlit með formi lyfseðla.

Núverandi eftirlit með lyfseðlum er ótölvuvætt en því er ætlað að ganga úr skugga um greiðsluskyldu
ríkisins. Það felst í því að tveir starfsmenn skoða úrtak úr u.þ.b. 1,2 milljónum lyfjaávísana á ári sem kosta
ríkissjóð 3,6 milljarða. Það liggur í augum uppi að með slíkum eftirlitsaðferðum er ekki hægt að uppfylla
ákvæði laga um eftirlit með lyfjakostnaði. Ríkisendurskoðun telur því ákaflega brýnt að bæta fyrirkomulag
þessa eftirlits.

Með breytingu á almannatryggingalögunum á síðastliðnu ári var Tryggingastofnun gert skylt að leita ávallt
bestu kjara við kaup á vörum og þjónustu og sýna aðhald í hvívetna, einkum og sér í lagi varðandi
lyfjaverð. Telja verður að til þess að Tryggingastofnun geti uppfyllt þessa nýju lagaskyldu þurfi hún að
leita allra leiða sem leitt geta til lægra lyfjaverðs, meðal annars með öflun upplýsinga, fræðslustarfi o.fl.

...

Tímabundið leyfi tölvunefndar til Tryggingastofnunar vegna tölvuskráningar á lyfseðlum og samkeyrslu
skráa sem veitt var á árinu 1992 rann út í árslok 1996. Ekki liggur fyrir samþykki tölvunefndar vegna
lyfjaeftirlitskerfis Tryggingastofnunar en beiðni um nýtt leyfi er nú til meðferðar hjá nefndinni.

Ef tölvunefnd hafnar beiðni Tryggingastofnunar um fyrirhugaða útfærslu lyfjaeftirlitskerfisins, telur
Ríkisendurskoðun mjög mikilvægt að samkomulag náist um ásættanlega útfærslu á kerfinu fyrir alla aðila
málsins. Hafa ber í huga að bæði eftirlit Tryggingastofnunar og tölfræðilegar upplýsingar um lyfjamál hér á
landi eru nú mjög ófullnægjandi.

...

Þar sem vernd persónuupplýsinga er rík hefur Ríkisendurskoðun kannað hvort aðrar útfærslur
lyfjaeftirlitskerfis séu mögulegar sem tryggja hana betur en veita Tryggingastofnun samt þær upplýsingar
sem hún þarf á að halda, bæði til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu og tillögugjöf til ráðherra.

Huga mætti að því hvort fyrirhuguð ruglun kennitalna að liðnum geymslutíma gagna skv. bókhaldslögum,
þ.e. eftir 7 ár, sé ekki talin óásættanleg og frekar ætti að skoða þann möguleika að rugla kennitölur um leið
og tiltekinn lyfseðill hefur verið samþykktur til greiðslu. Með slíku fyrirkomulagi safnast lyfseðlar upp í
fyrirhuguðum gangagrunni með ruglaðri kennitölu. Ef þörf er fyrir óruglaða kennitölu t.d. vegna
bókhaldslegra atriða, úrskurða á bótum skv. 2. mgr. 48. gr. almannatryggingalaga eða annars, yrði mögulegt
að vinna út frá kennitölum samkvæmt sérstökum heimildum tiltekinna einstaklinga.

Ekki hefur verið kannað hvernig þessi útfærsla yrði í framkvæmd og kann hún að vera illframkvæmanleg."Í framhaldi af athugun á skýrslu Ríkisendurskoðunar fór Tölvunefnd þess á leit við Tryggingastofnun að fá bréflega
lýsingu annars vegar á núverandi aðferð við úrvinnslu lyfseðlaupplýsinga og hins vegar á þeirri aðferð sem stofnunin
hygðist viðhafa í framtíðinni. Þá var þess óskað að fram kæmi hvort, og þá hvaða, breytingar yrðu gerðar af tilefni
ábendinga í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í svarbréfi Tryggingastofnunar sagði m.a.:

"Tryggingastofnun ríkisins mun taka tillit til allra beinna athugasemda sem fram koma í skýrslu
Ríkisendurskoðunar.

Rétt er að leggja áherslu á að athugasemdir Ríkisendurskoðunar eru mis mikilvægar og viðbrögð okkar taka
mið af því. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar eru taldar upp hér í áhersluröð Tryggingastofnunar ríkisins,
þær mikilvægustu fyrst:

1. Möguleiki á óeðlilegum aðgangi starfsmanna Tryggingastofnunar að
gögnum hennar

2. Gerð neyðaráætlunar

3. Gerð öryggishandbókar

4. Gerð samskiptasamnings við einstök apótek

5. Gerð skýrslna sem auðvelda starfsmönnum TR yfirsýn yfir fjármagnsstöðu
reikninga

Til útskýringar á viðbrögðum Tryggingastofnunar við einstökum athugasemdum fylgir hér stutt lýsing á
þeim:

Athugasemd 1

Möguleiki á óeðlilegum aðgangi starfsmanna Tryggingastofnunar að gögnum hennar.

Þessi athugasemd hefur forgang innan tölvudeildar Tryggingastofnunar enda mikilvægt að koma í veg fyrir
hugsanlega misnotkun starfsmanna Tryggingastofnunar á tölvukerfum hennar. Verið er að hanna leið sem
byggist á huldu raunlykilorði innan gagnagrunna stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið
að fullu gagnvart öllum kerfum stofnunarinnar fyrir næstu áramót. Þessi leið tryggir að enginn starfsmaður
Tryggingastofnunar geti tengst gagnagrunnum hennar nema gegnum sérsmíðuð kerfi tölvudeildar með
úthlutuðu lykilorði sínu. Fyrsta kerfið verður tilbúið með hinn nýja aðgang 1. október 1997.

Athugasemd 2

Gerð neyðaráætlunar

Neyðaráætlun Tryggingastofnunar lýsir fyrirfram skilgreindum viðbrögðum og afleiðingum hjá stofnuninni
gagnvart stórfelldum náttúruhamförum, stórbruna eða öðru því sem valdið getur víðtækri eyðileggingu á
búnaði og/eða missi frumgagna stofnunarinnar. Gagnvart tölvumálum stofnunarinnar er neyðaráætlunin
hluti af öryggishandbók tölvudeildar.

Athugasemd 3

Gerð öryggishandbókar

Til eru drög að öryggishandbók tölvudeildar. Unnið verður að því á þessu ári að fullgera drögin og leggja
þau fyrir yfirstjórn TR. Drögin gera ráð fyrir eftirfarandi efnistökum:

1. Starfssvið tölvudeildar

2. Innra aðgengi að gögnum

3. Ytra aðgengi að gögnum

4. Afritunar á gögnum

5. Uppsetning öryggisbúnaðar

6. Eftirlit með tölvukerfum/hugbúnaði

7. Neyðaráætlun vegna tölvumála

8. Afrit samninga við birgja vegna neyðaráætlunar

Athugasemd 4

Gerð samskiptasamnings við einstök apótek

Gerður verður sérstakur samskiptasamningur við hvert apótek um leið og apótek fer í formlegan rekstur
EDI-kerfa gagnvart Tryggingastofnun.

Athugasemd 5

Gerð skýrslna sem auðvelda starfsmönnum Tryggingastofnunar yfirsýn yfir fjármagnsstöðu reikninga

Þar sem kerfið var enn á lokastigi þegar athugun Ríkisendurskoðunar var gerð hvað snertir frágang
einstakra mála, svo sem útprentun ýmissa skýrslna, kom fram athugasemd um að skýrslur vantaði.
Tölvudeild er með í smíðum sérstakt óháð kerfi sem halda mun utan um alla þætti reikninga og
reikningagerðar fyrir innra upplýsingakerfi stofnunarinnar. Áætlað er að kerfið verði gangsett um næstu
áramót. Kerfinu er þannig ætlað að halda utan um öll nauðsynleg gögn af fjárhagslegum toga. Í því verður
sú skýrsla sem ábending kom um frá Ríkisendurskoðun.

...

Í bréfi ykkar er beðið um skriflega lýsingu á núverandi vinnuferli Tryggingastofnunar á lyfseðlum og því
fyrirkomulagi sem stefnt er að. Vinnuferlið er sem hér segir:

1. Tekið er á móti bunka af lyfseðlum ásamt útprentuðu yfirliti yfir þá.

2. Lyfseðlarnir eru greiddir beint til apótekara án athugasemda.

3. Einhvern tíma síðar er bunkinn opnaður og lyfseðlar bornir saman við meðfylgjandi yfirlit.

4. Sú handavinna sem notuð er við lyfseðlana sjálfa er sem hér segir:

· Gildistími er skoðaður.

· Greiðsluhluti sjúkl. er skoðaður m.t.t.
lyfjaskírteina, örorku osfrv.

· Heimild til fjölda afgreiðslna.

· Ef lyf er óskráð er leitað eftir undanþágu vegna lyfsins.

· Athugað er hvort sjúklingur sé sjúkratryggður.

5. Ef mismunur kemur fram er hann leiðréttur með næsta innsenda bunka af lyfseðlum.

Ferlið innan hins nýja LEK-kerfis er sem hér segir:

1. Hver lyfseðill er sendur vélrænt til Tryggingastofnunar ríkisins ásamt sérstökum reikningi.

2. Lyfseðillinn er yfirfarinn vélrænt með yfir 50 sérhæfðum athugunum.

3. Lyfseðlar sem ekki komast í gegnum vélræna athugun eru handyfirfarnir og ákvörðun tekin um hvort þeir
skuli greiddir.

4. Hver lyfseðill er síðan skoðaður, hann greiddur eða honum hafnað.

Helsti munurinn á þessum tveimur ferlum er sá að ekki er nema lítið brot af heildarfjölda innsendra lyfseðla
handyfirfarið. Einungis er unnið með þá seðla sem athugasemdir eru gerðar við og búið er að tífalda fjölda
þeirra athugana sem beitt er þá á alla innsenda lyfseðla."Niðurstaða Tölvunefndar var svohljóðandi:

"Með vísun til 3. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989, og allra þeirra röksemda sem greinir í
ákvörðun Tölvunefndar, dags. 3. desember 1992, sbr. og með vísun til þess að Tryggingastofnun ríkisins
fær í hendur fjölda lyfseðla frá landinu öllu vegna greiðslu á lyfjakostnaði, sbr. 1. mgr., c-liður, 36. gr. laga
um almannatryggingar nr. 117/1993, og reglugerð nr. 158/1996 um greiðslur almannatrygginga í
lyfjakostnaði, með síðari breytingum, hefur Tölvunefnd fallist á að endurnýja þá heimild sem hún veitti
Tryggingastofnun ríkisins þann 3. desember 1992 til að tölvuskrá upplýsingar af þeim lyfseðlum sem henni
berast vegna greiðslu á lyfjakostnaði. Þá hefur Tölvunefnd og samþykkt, með vísun til 3. mgr. 6. gr. sömu
laga, að endurnýja heimild Tryggingastofnunar til að tengja þær skrár sem þannig verða til saman við
þjóðskrá, lyfjaskírteinaskrá og örorkubótaskrá. Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar hvorki heimilt að
safna upplýsingum um allar afgreiðslur lyfjabúða né að safna upplýsingum um aðra lyfseðla en þá sem
krafist er greiðslu á hjá stofnuninni.

Framangreind vinnsla persónuupplýsinga af lyfseðlum skal fara fram með þeirri aðferð sem
Tryggingastofnun ríkisins leggur til, og lýst er hér að framan, þó þannig að fara skal að eftirfarandi
skilmálum:

1. Um leið og tiltekinn lyfseðill hefur verið samþykktur til greiðslu skal rugla kennitölur og færa allar
upplýsingar í gagnagrunn stofnunarinnar undir rugluðum kennitölum. Gera má einn greiningarlykill sem geri
kleift að afrugla kennitölur en þá skal varsla hans falin tveim tilsjónarmönnum Tölvunefndar, Guðmundi
Sigurðssyni, kt. 200742-3709, og Svönu Helen Björnsdóttur, kt. 201260-2489, og þóknun vegna starfans
greidd af Tryggingastofnun ríkisins. Skal öll notkun lykilsins háð samþykki Tölvunefndar og ber að eyða
honum að 4 árum liðnum nema Tölvunefnd heimili frekari varðveislu með sérstakri ákvörðun þar að lútandi.

2. Öll umferð gagna á Internetinu skal vera á dulkóðuðu formi og skal miðað við að ekki sé gætt lakara
öryggis en mælt er fyrir um skv. SSL og lykillengd ekki vera skemmri en 56 bitar."

3.11.31. – Umboðsmaður Alþingis (97/240) óskaði skýringa Tölvunefndar af tilefni kvörtunar Jóns & Jóns,
auglýsingastofu ehf. annars vegar yfir meðferð nefndarinnar á kæru þess yfir starfsháttum Reiknistofunnar ehf. og hins
vegar yfir þeirri ákvörðun nefndarinnar að láta Reiknistofuna ehf. halda starfsleyfi sínu. Þau atriði sem umboðsmaður
óskaði eftir að nefndin skýrði sérstaklega voru :

a) Hvaða upplýsinga Tölvunefnd hefði aflað í tilefni af kæru Jóns & Jóns ehf. 14. júní 1996 og hvort Tölvunefnd hafi talið,
að bréfum nefndarinnar frá 4. júlí 1996 og 16. ágúst s.á. hafi verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu Reiknistofunnar
ehf., þannig að ekki hafi verið tilefni til frekari könnunar málavaxta. Jafnframt var óskað skýringa Tölvunefndar á þeim
ummælum í bréfi nefndarinnar 4. febrúar 1997, að um staðreyndaágreining væri að ræða, sem ekki yrði skorið úr, nema með
vitnaleiðslum og öðrum sönnunaraðgerðum, sem ekki yrði viðhafðar af stjórnvaldi eins og Tölvunefnd, og hvernig slík
takmörkun samrýmdist eftirlitshlutverki nefndarinnar samkvæmt X. kafla laga nr. 121/1989.

b) Hvort kæra Jóns og Jóns ehf. hefði gefið tilefni til athugasemda af hálfu Tölvunefndar við starfshætti Reiknistofunnar
ehf. og, ef svo væri, hvort og með hvaða hætti þeim hafi verið komið á framfæri við Reiknistofuna ehf. Í þessu samhengi
var óskað upplýst, hvort Tölvunefnd hefði kannað sérstaklega og tekið afstöðu til viðbragða Reiknistofunnar ehf. við
málaleitunum Jóns & Jóns ehf. um leiðréttingu þeirrar skráningar, sem í málinu greinir.

c) Hvaða sjónarmið væru lögð til grundvallar og hvaða upplýsinga aflað við veitingu starfsleyfis af því tagi, sem um ræðir í
máli þessu, meðal annars í tilefni af þeirri ákvörðun nefndarinnar, að endurnýja starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. hinn 22.
október 1996.Til að skýra málið gerði Tölvunefnd svofellda grein fyrir starfsemi Reiknistofunnar ehf. og þeim skilmálum sem um hana
gilda:

"Reiknistofan efh. starfar samkvæmt starfsleyfi Tölvunefndar við að safna og skrá upplýsingar sem varða
fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögpersóna, í því skyni að miðla öðrum upplýsingum um það
efni, sbr. 15. gr. laga 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Starfsemin er háð ýmsum
skilmálum sem taldir eru upp í gildandi starfsleyfi hverju sinni. Hefur Tölvunefnd eftirlit með starfsemi
Reiknistofunnar ehf. í samræmi við X. kafla laganna og úrskurðar í ágreiningsefnum sem tengjast þeirri
starfsemi. Upphaflega var Reiknistofunni hf. veitt starfsleyfi árið 1982. Var það endurnýjað árið1990
(bráðabirgðaleyfi var útg. 4. apríl 1990 en fullnaðarleyfi 4. september 1990) og gildistími þess ákveðinn til 31.
desember 1994. Þann 30. mars 1995 var Reiknistofunni hf. veitt nýtt starfsleyfi og ýmis ný skilyrði sett um
hvaða upplýsingar mætti vinna með og hvernig. Fyrst er að geta þeirrar reglu 4. gr. starfsleyfisins að ekki
mætti færa nafn tiltekins aðila í upplýsingaritið nema honum hefði verið gefinn kostur á að gera við það
athugasemdir innan tiltekins frests, sem skyldi að lágmarki vera tvær vikur. Í öðru lagi var það skilyrði sett í
5. gr. starfsleyfisins að frá þeim tíma er starfsleyfishafi sendi út tilkynningar þær sem greinir í 4. gr., og fram
að útgáfu skrárinnar, skyldi hann hafa starfsstöð sína opna frá kl. 9:00 - 17:00 hvern virkan dag og veita þar
viðtöku kvörtunum vegna skráningarinnar. Í þriðja lagi var sett sú regla í 10. gr. starfsleyfisins að einungis
mætti skrá upplýsingar dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á stefnur ef
um væri að ræða skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem næmu a.m.k. kr. 200.000,- að
höfuðstól, hver skuld. Þá var sett ákvæði um að aðeins mætti skrá upplýsingar um fjárnám með árangri
þegar fjárhæð fjárnámskröfu næmi a.m.k. kr. 200.000,- en öll árangurslaus fjárnám mátti skrá. Að öðru leyti
mátti skrá upplýsingar um byrjun uppboðs og um töku búa til gjaldþrotaskipta. Í fjórða lagi var það nýmæli
sett í 11. gr., að ef aðili, sem fengið hefði tilkynningu skv. 4. gr. starfsleyfisins, sýndi skrárhaldara fram á það
með yfirlýsingu frá kröfueiganda, að hann hefði greitt kröfuna, eða henni með öðrum hætti verið komið í
skil, væri óheimilt að taka/hafa nafn hans á skrá. Starfsleyfið var aftur endurnýjað þann 22. október 1996,
efnislega að mestu óbreytt en nokkrar orðalagsbreytingar þó gerðar. Var gildistími þess ákveðinn til 1. júlí
1998. Hjálögð fylgja afrit starfsleyfa Reiknistofunnar ehf., dags. 30. mars 1995 og 22. október 1996."Síðan sagði í skýringum Tölvunefndar til umboðsmanns:

"Það mál sem fyrirspurn yðar lýtur að hófst með því að þann 19. júní 1996 barst Tölvunefnd kvörtun frá Jóni
& Jóni auglýsingastofu ehf., annars vegar vegna skráningar tiltekins árangurslauss fjárnáms í upplýsingarit
Reiknistofunar ehf. og hins vegar yfir framkomu og meintum brotum Reiknistofunnar ehf. á
starfsleyfisskilyrðum. Var þess krafist að umrætt starfsleyfi yrði afturkallað. Með bréfi, dags. 4. júlí sama ár,
kynnti Tölvunefnd Reiknistofunni ehf. efni málsins, óskaði viðhlítandi skýringa og gaf Reiknistofunni ehf.
kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Í svarbréfi Reiknistofunnar ehf., dags. 22. júlí 1996, kom fram að skráð hefði verið árangurslaust fjárnám hjá
Jóni & Jóni ehf. og að til þess að fá það afmáð nægði Jóni & Jóni ehf. ekki að hringja heldur þyrfti fyrirtækið
að senda inn gögn sem sýndu "sátt" aðila. Þar sem önnur atriði í kvörtun Jóns & Jóns ehf. voru hins vegar
ekki skýrð lagði Tölvunefnd fyrir Reiknistofuna ehf., með bréfi dags. 16. ágúst 1996, að veita nánari
skýringar. Þar segir m.a.:

"... Þar sem ekki er í svarbréfi yðar nema að takmörkuðu leyti gerð tilraun til að skýra þau atriði sem umrædd
kvörtun lýtur að er hér með lagt fyrir yður að skýra þau nánar. Er þess í fyrsta lagi óskað að þér skýrið
málavöxtu frá yðar bæjardyrum séð. Í öðru lagi er þess óskað að þér skýrið eftirfarandi atriði:

A. Kvörtunin lýtur m.a. að því að Reiknistofan ehf hafi brotið ákvæði starfsleyfis síns um frest til að koma
að athugasemdum vegna birtingar upplýsinga um Jón & Jón ehf. í upplýsingaskrána.

Samkvæmt 4. gr. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf. er henni óheimilt að færa nafn tiltekins aðila í
upplýsingarit það sem gefið er út skv. starfsleyfinu nema honum hafi áður verið send um það tilkynning og
honum gefinn kostur á að gera við það athugasemdir innan frests sem skal að lágmarki vera tvær vikur.
Umrædd tilkynning er dags. 11. apríl 1996 og er viðkomandi gefinn tveggja vikna frestur frá dagsetningu
bréfsins til að koma að athugasemdum. Af hálfu Jón & Jón ehf. er því haldið fram að umrædd tilkynning hafi
ekki borist fyrr en 22. apríl. Er þess óskað að þér skýrið hvenær umrædd tilkynning var póstlögð og ef unnt
er sendið gögn því til staðfestingar.

B. Kvartað er yfir að Reiknistofan ehf. hafi, þrátt fyrir mótmæli viðkomandi í síma, birt rangar upplýsingar um
hann í tölvutækri skrá í byrjun maí. Kvartandi telur að Reiknistofan ehf. hafi verið komin með
leiðréttingargögn í hendur áður en tölvutæk útgáfa skráarinnar var send til áskrifenda. Er þess óskað að þér
greinið frá því hvenær yður bárust athugasemdir hins skráða, hvenær leiðrétting fór fram, hvaða
upplýsingar um viðkomandi Reiknistofan ehf. hafði þá látið frá sér og til hverra, hvenær það var gert og á
hvaða formi. Þá skal bent á að með tilkynningu þeirri sem Reiknistofan ehf. sendi Jóni og Jóni ehf. var
honum boðið að koma athugasemdum að bréflega eða símleiðis. Í bréfi yðar, dags. 4. júlí sl., segir hins
vegar: "...það hringir enginn til Reiknistofunnar ehf. og skammast og fær niðurfellingu á þann hátt." Er
óskað skýringa á þessu.

C. Í kvörtun Jóns og Jóns ehf. er fullyrt að Reiknistofan ehf. hafi aftur brotið ákvæði starfsleyfis síns með
birtingu upplýsinga í prentaðri skrá þar sem hún hafi ekki fært inn leiðréttingar samkvæmt gögnum sem hún
hafi fengið í hendur í maíbyrjun. Er fullyrt að Reiknistofan hf. hafi prentað og dreift skránni með nafni Jón &
Jón ehf um og eftir miðjan maí.

Er þess óskað að þér skýrið hvort rétt sé að ekki hafi verið færðar í prentaða skrá þær leiðréttingar sem þá
höfðu þegar borist. Er þess óskað að gögn berist er staðfesti svar yðar, ef til eru.

D. Því er haldið fram í umræddri kvörtun að Reiknistofan ehf. meini mönnum aðgang að starfsstöð sinni milli
kl. 09:00 og 17:00 á virkum dögum. Samkvæmt 5. gr. starfsleyfis Reiknistofunnar ehf. ber henni, frá þeim tíma
sem hún sendir út tilkynningar þær sem greinir í 4.gr., að hafa starfsstöð sína opna frá kl. 9:00 - 17:00 hvern
virkan dag og veita þar viðtöku kvörtunum sem berast vegna skráningarinnar. Er þess óskað að þér svarið
hvort Reiknistofan ehf. brjóti framangreint ákvæði þannig að ekki sé unnt að ná sambandi við starfsmenn
hennar á umræddum tíma og koma kvörtunum á framfæri.

E. Umrædd kvörtun lýtur að því að Reiknistofan ehf. svari seint og illa bréfum og fyrirspurnum og
forsvarsmenn fyrirtækisins neiti að uppfylla upplýsingaskyldur sína skv. 1., 4. og 6. grein starfsleyfis
félagsins. Er óskað afstöðu yðar til þessa liðs kvörtunarinnar.

F. Í bréfi Jóns og Jóns ehf. kemur fram að óljóst sé hvort Reiknistofan ehf. fari að fyrirmælum 8. gr.
starfsleyfis, þ.e. um að birta í upplýsingaritinu upplýsingar um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi
upplýsinga. Er þess óskað að þér skýrið þetta atriði.

G. Að lokum er þess óskað að þér skýrið afstöðu yðar til þess að tilgreina í þeim tilkynningum sem sendar
eru út skv. 4. gr. starfsleyfisins nafn gerðarbeiðanda, hinum skráða til glöggvunar."

Þessu bréfi svaraði Reiknistofan ehf. með bréfi, dags. 23. september 1996. Þar segir m.a.:

"Jón og Jón ehf. fær sömu fyrirgreiðslu og aðrir. 11. apríl 1996 er Jóni og Jóni ehf. sent bréf til athugunar.
Þann 13. maí 1996 sendir Jón og Jón ehf. svar með eigin rökstuðningi og aftur 14. maí 1996. Síðan berst
endurrit úr gerðabók og greiðslukvittun, er dugði til að senda niðurfellingu til Reiknistofu bankanna 18. júní
1996.

Ef forráðamaður Jón og Jón ehf. hefði hagað sér með sama hætti og aðrir, sent inn gögn er sýndu að mál
séu í skilum hefði hann fallið af skrá 2. maí eða 15. maí, þá voru leiðréttingar sendar til Reiknistofu bankanna.

A: Ef tölvunefnd hefur áhuga á áreiðanleika Pósts og síma, þá er best að hafa samband við Reiknistofu
bankanna, þeir setja öll bréf í póst.

B: Skrár voru afhentar í byrjun maí áður en fullnægjandi gögn bárust frá Jóni og Jóni ehf. Farið er með mál
Jóns og Jóns ehf. skv. 11. gr. 2. mg. í starfsleyfi Reiknistofunnar ehf. frá 30. mars 1995.

C: Fyrstu dagana í maí 1996 er skrá Reiknistofunnar ehf. fullleiðrétt og prentun og dreifing hafin.

D: Sjá bréf Gústafs Þórs Tryggvasonar HRL til Tölvunefndar dagsett 14. október 1993. Sjá skýrslu
Rannsóknarlögreglunnar í Hafnarfirði 24. október 1995. Niðurstöðu er enn beðið.

E: Sjá afrit af bréf til Jóns og Jóns ehf. 11. apríl 1996. Það er móttekið 13. maí 1996. Mál Jóns og Jóns ehf.
fellur vel að lögum No. 37, 30. apríl 1993.

F: Sjá meðfylgjandi lista yfir niðurfellingar. Sjá 3. síðasta orðið í 11. gr. 2. mg. starfsleyfis Reiknistofunnar
ehf.

G: Nei, sjá 3. mg. 18. gr. laga No. 121, 28. desember 1989."

...Tölvunefnd tók kvörtun Jóns & Jóns ehf. til umfjöllunar á fundi sínum þann 21. október 1996 og fór yfir öll
gögn málsins, þ. á m. athugasemdir frá Jóni & Jóni ehf., dags. 15. ágúst 1996. Sá þáttur kvörtunarinnar sem
varðaði opnunartíma og símsvörun Reiknistofunnar ehf. var rannsakaður sérstaklega í því skyni að fá málið
nægjanlega vel upplýst til þess að taka mætti ákvörðun í því. Af hálfu framkvæmdastjóra var ítrekað hringt
til Reiknistofunnar efh. og auk þess fóru formaður og einn nefndarmaður á starfstöð Reiknistofunnar ehf. til
að kanna aðstæður þar. Þessi athugun Tölvunefndar leiddi ekki í ljós að aðstæður og umbúnaður væru með
þeim hætti sem lýst var í kvörtun Jóns & Jóns ehf.

Við umfjöllun Tölvunefndar um þá kröfu Jóns & Jóns ehf. að Reiknistofan ehf. yrði svipt starfsleyfi sínu
var, auk framangreinds, haft í huga annars vegar að Reiknistofan ehf. hafði þegar orðið við beiðni Jóns &
Jóns ehf. um afmánun nafns úr upplýsingaskrá sinni og hins vegar að ekki varð með óyggjandi hætti ráðið
af gögnum málsins að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá tímafresti til slíks sem henni eru settir skv. gildandi
starfsleyfi. Var og höfð að leiðarljósi meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur
að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki
náð með öðru og vægara móti. Með vísun til framangreinds taldi Tölvunefnd sig hvorki hafa haldbærar
sannanir né að öðru leyti nægt tilefni til að byggja á svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem svipting
starfsleyfis og lokun atvinnustarfsemi er eðli sínu samkvæmt. Ákvað hún því að synja beiðni Jóns & Jóns
ehf. þar að lútandi og kynnti fyrirtækinu þá ákvörðun með bréfi dags. 22. október 1996.

Af tilefni fyrirspurnar yðar um hvort Tölvunefnd hafi talið að bréfum sínum frá 4. júlí 1996 og 16. ágúst s.á.
hafi verið svarað með fullnægjandi hætti af hálfu Reiknistofunnar ehf., skal tekið fram að Tölvunefnd taldi
þeim ekki hafa verið svarað af eðlilegri og sjálfsagðri kurteisi, en taldi, eins og á stóð, að slíkt gæti ekki orðið
sjálfstæður grundvöllur starfsleyfsissviptingar.

Þann 28. október barst Tölvunefnd síðan krafa Jóns & Jóns ehf., dags. 25. október 1996, um skýringar á
niðurstöðu nefndarinnar og var henni svarað með vísun til fyrri niðurstöðu nefndarinnar og þess
rökstuðnings sem þar kemur fram.

Þann 23 desember 1996 kynnti Tölvunefnd Jóni & Jóni efh. síðan þá ákvörðun sína að taka málið upp að
nýju af tilefni kvörtunar hans til yðar um að hann hefði ekki fengið afrit tiltekinna gagna. Voru umbeðin
gögn send honum án tafar og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við efni þeirra.
Athugasemdir hans bárust Tölvunefnd með bréfi, dags. 17. janúar 1997. Þar er því haldið fram að
Reiknistofan efh. fari með ósanna lýsingu á atburðarás. Er dregin í efa sú fullyrðing Reiknistofunnar ehf. að
hin prentaða skrá hafi farið í dreifingu í byrjun maí 1996 og fullyrt að þá hafi fyrirtækið Jón & Jón ehf. verið
búið að gera munnlegar athugasemdir. Varðandi hina tölvutæku skrá er sagt að Reiknistofan ehf. hafi, eins
og meðfylgjandi móttökukvittun Pósts og síma beri með sér, fengið gögnin í hendur þann 13. maí 1997, og
því getað tekið nafn Jóns & Jóns ehf. af skránni áður en leiðréttingar voru sendar til Reiknistofu bankanna,
þann 15. maí 1997. Þá er, varðandi misbresti á opnunartíma Reiknistofunnar efh., vísað til meðfylgjandi
útprentunar úr dagbók lögreglu þar sem fram kemur að lögreglumenn hafi, þann 6. desember 1996, farið á
staðinn og komið að læstri hurð. Að öðru leyti vísast um efni athugasemda Jóns & Jóns efh. til
meðfylgjandi afrits af bréfi fyrirtækisins.

Á fundi sínum þann 3. febrúar 1997 fór Tölvunefnd ítarlega yfir allar athugasemdir Jóns & Jóns ehf., fór yfir
öll gögn málsins og lagði mat á hagsmuni og málsatvik með þeim hætti sem henni ber skv. X. kafla laga nr.
121/1989. Varðandi ágreining aðila um einstök málsatvik taldi nefndin ekkert nýtt hafa komið fram þannig að
nú mætti með óyggjandi hætti ráða að Reiknistofan ehf. hefði brotið þá skilmála sem henni er gert að starfa
eftir skv. gildandi starfsleyfi. Taldi nefndin enn vera til staðar ágreining um vissa málavexti sem erfitt yrði að
skera úr nema með sérstökum sönnunaraðgerðum, s.s. með vitnaleiðslum sem aðeins verða viðhafðar fyrir
dómi. Hins vegar þótti Tölvunefnd ekki sjálfgefið að lyktir málsins réðust einvörðungu af niðurstöðu
sönnunarfærslu um þessi atriði heldur jafnframt af mati á þeim hagsmunum sem vógust á í málinu. Taldi
nefndin málið nægilega vel upplýst til að hún gæti tekið í því ákvörðun og að ekki væri þörf frekari
sönnunaraðgerða um framangreind atriði. Taldi nefndin sig og hafa fullnægt eftirlitshlutverki sínu, skv. X.
kafla laga nr. 121/1989, m.a. með þeirri athugun sem lýst er hér að framan. Þá skoðaði nefndin þá hagsmuni
sem uppi voru og vógust á í máli þessu. Varð niðurstaða hennar sú að telja hagsmuni Reiknistofunnar ehf.,
af því að fá að halda starfsleyfi sínu, vega þyngra en hagsmuni Jóns & Jóns ehf., sem hafði þá þegar fengið
leiðréttingu sinna mála með afmáun nafns fyrirtækisins úr umræddri skrá, af því að fá Reiknistofuna ehf.
svipta starfsleyfi sínu. Ákvað Tölvunefnd, að virtum öllum framangreindum ástæðum, að staðfesta þá
ákvörðun sína að synja beiðni Jóns & Jóns ehf. um að svipta Reiknistofuna ehf. starfsleyfi sínu. Var Jóni &
Jóni ehf. kynnt niðurstaða Tölvunefndar með bréfi dags. 4. febrúar 1997.

Geta má þess að Tölvunefnd barst enn á ný beiðni Jóns & Jóns ehf., dags. 17. febrúar 1997, um rökstuðning
fyrir framangreindri ákvörðun en með bréfi, dags. 25. febrúar 1997, vísaði hún til fyrri rökstuðnings og
ítrekaði að meðferð málsins væri lokið af sinni hálfu.

...

Frá því að Reiknistofan ehf. tók fyrst til starfa hafa Tölvunefnd borist fjölmargar kvartanir vegna hennar
bæði frá einstaklingum og lögaðilum, flestar þó munnlega. Hafa þessar kvartanir einkum beinst að tilvist
starfseminnar, að því að nafn aðila hafi án tilefnis verið fært í upplýsingaskrá Reiknistofunnar ehf., að
Reiknistofan ehf. hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni í samræmi við 6. gr. starfsleyfisins, að skrifstofan sé
ekki opin samkvæmt fyrirmælum starfsleyfisins eða að Reiknistofan ehf. hafi safnað upplýsingum um önnur
atriði en þau sem talin eru upp í gildandi starfsleyfi. Þegar slíkar kvartanir hafa borist hefur Tölvunefnd lagt
fyrir Reiknistofuna ehf. að gefa viðhlítandi skýringar og eftir atvikum að leiðrétta skrá sína. Auk slíkra
almennra kvartana yfir einstökum skráningum hefur nokkuð borið á kvörtunum yfir framkomu Gylfa
Sveinssonar, forsvarsmanns Reiknistofunnar ehf.

Segja má að almennt hafi Reiknistofan ehf. orðið nokkuð fjótt og vel við tilmælum um að gera leiðréttingar
og er Tölvunefnd ekki kunnugt um að Reiknistofan ehf. hafi neitað að verða við beiðni um afmáun nafns,
hafi aðili sýnt fram á með yfirlýsingu frá kröfueiganda að hann hafi greitt kröfuna eða henni hafi verið með
öðrum hætti komið í skil... Varðandi kvartanir sem lúta að ókurteisi Gylfa Sveinssonar, forsvarsmanns
Reiknistofunnar efh., er hins vegar ljóst að þar hefur Tölvunefnd sýnt nokkurt langlundargeð. Hefur við
afgreiðslur slíkra kvartana, eins og annarra sem tengst hafa starfsemi Reiknistofunnar ehf., verið leitast við
byggja einvörðungu á málefnalegum sjónarmiðum og hlutlausu mati á aðstæðum öllum. Taka má fram að af
hálfu Tölvunefndar hefur m.a. verið virt Reiknistofunni ehf. til tekna að hún hefur alla jafna orðið vel við
beiðnum um leiðréttingar auk þess sem Tölvunefnd hefur reynt að sýna skilning á því oft á tíðum erfiða
verkefni Reiknistofunnar ehf. að mæta þeirri óánægju og hörðu viðbrögðum sem slík starfsemi hlýtur að
kalla á eðli málsins samkvæmt.

Af tilefni fyrirspurnar yðar um hvort kvörtun Jóns & Jóns ehf. hafi leitt til athugasemda af hálfu
Tölvunefndar við starfshætti Reiknistofunnar ehf. skal tekið fram að ekki var af tilefni kvörtunar þess
ákveðið að veita Reiknistofunni ehf. sérstaka áminningu. Tölvunefnd vill hins vegar greina frá því að hún
hefur af tilefni ýmissa annarra mála veitt Reiknistofunni ehf. áminningar og sérstakar aðvaranir. Til frekari
glöggvunar þykir rétt að gera þeim nokkur skil hér á eftir. Þessi mál eru:

....

Eins og fram er komið hefur Tölvunefnd, á þeim tíma sem Reiknistofan ehf. hefur starfað, haft all nokkur
afskipti af starfsemi hennar. Hafa tilefni þeirra afskipta einkum verið ýmsar kvartanir, sem annars vegar hafa
beinst að beinni framkvæmd starfsleyfisins, þ.e. aðferð Reiknistofunnar ehf. við skráningu
fjárhagsupplýsinga og miðlun þeirra, og hins vegar að framkomu Gylfa Sveinssonar, forsvarsmanns
fyrirtækisins. Hefur Tölvunefnd í nokkrum tilvikum beitt áminningum en enn sem komið er ekki talið nægt
tilefni vera til að svipta hana starfsleyfi sínu. Afstaða Tölvunefndar hefur verið sú að svo íþyngjandi
ákvörðun sem svipting starfsleyfis og lokun atvinnustarfsemi er þurfi ekki aðeins að eiga sér verulegt tilefni
heldur þurfi og að vera fullreynt að önnur úrræði dugi ekki til að bæta úr vinnubrögðum og öðrum
annmörkum á framferði hlutaðeigandi. Því hefur Reiknistofunni ehf. ítrekað verið gefinn kostur á að bæta
ráð sitt og þess jafnan gætt að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn bar til hverju sinni. Hefur þar m.a. verið
tekið mið af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að stjórnvald skuli því
aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og
vægara móti.

Vegna lokafyrirspurnar yðar um þá ákvörðun Tölvunefndar að endurnýja starfsleyfi Reiknistofunnar ehf.
hinn 22. október 1996, skal tekið fram að þar var m.a. til þess litið sem áður segir um hve slík starfsemi hlýtur,
eðli málsins samkvæmt, oft á tíðum að kalla fram hörð viðbrögð og mikla óánægju skráðra aðila. Þegar
heildstætt mat var lagt á málið, metnar innkomnar kvartanir og tilefni þeirra og tillit til þess tekið hve
Reiknistofan ehf. hefur, alla jafna, orðið vel við tilmælum um að gera leiðréttingar, þóttu Tölvunefnd ekki
vera næg rök til að synja beiðni Reiknistofunnar ehf. um að fá leyfið endurnýjað, en ákvað þó, í ljósi fram
kominna hnökra á starfseminni, að hafa gildistíma þess aðeins tæp tvö ár í stað fjögurra, svo sem venja er.
Bæði var við afgreiðslu á beiðni Reiknistofunnar ehf. um endurnýjun starfsleyfisins og við afgreiðslu þess
máls sem fyrirspurn yðar lýtur að, þ.e. kvörtun og kröfu Jóns & Jóns ehf. um að Reiknistofan ehf. yrði svipt
starfsleyfi sínu, byggt á athugun málavaxta í heild sinni þar sem Tölvunefnd reyndi, eins og endranær, að
gæta meðalhófs, líta einungis málefnalegra sjónarmiða og meta á hlutlægan hátt þá hagsmuni aðila og
réttindi sem í húfi voru. Því aðeins að Tölvunefnd telji fullreynt að ná megi settu marki með beitingu
áminninga, kann svipting starfsleyfis að reynast óhjákvæmilegt úrræði."3.11.32. – Umboðsmaður barna (97/188) gerði athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar á erindi Rannsóknarstofnunar
uppeldis- og menntamála varðandi könnun á högum og líðan íslenskra ungmenna, og spurði um ýmis atriði sem tengdust
framkvæmd könnunarinnar, s.s. um tilgang spurninga í umræddri könnun, með hvaða hætti könnunin hafi verið kynnt
nemendum og aðstandendum þeirra o.s.frv. Af tilefni þessara spurninga upplýsti Tölvunefnd umboðsmann barna um að
afgreiðsla umrædds erindis byggðist á því sem fram kom í beiðni Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála, og sendi
honum afrit hennar, þar sem er að finna allar upplýsingar um markmið könnunarinnar o.fl. sem hann spurði um. Að öðru
leyti var umboðsmanni bent á að leita beint til RUM til að fá upplýsingar um einstök atriði varðandi framkvæmd
könnunarinnar. Að því er varðar þátt Tölvunefndar var eftirfarandi hins vegar útskýrt fyrir umboðsmanni barna:

"... hlutverk hennar er að vernda friðhelgi einkalífs að því er meðferð skráðra persónuupplýsinga varðar.
Með vísun til þess takmarkaðist umfjöllun hennar við skoðun á því hvort verkefnið væri unnið í samræmi
við ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Yður til glöggvunar fylgir
sérprentun þeirra hjálögð og er athygli yðar einkum vakin á almennum ákvæðum 3. og 4. gr. um heimild til
skráningar persónuupplýsinga. Að þeim ákvæðum gættum beindist athugun Tölvunefndar að því hvort um
væri að ræða söfnun og skráningu persónugreindra upplýsinga. Gögn málsins báru hins vegar með sér að
lögð var áhersla á að nemendur myndu hvorki skrifa nöfn sín á spurningalista né auðkenna þá á annan
þann hátt að hægt yrði að rekja þá til þeirra. Með hverjum lista fylgdi ómerkt umslag sem ætlast var til að
nemendur settu listann í þegar þeir hefðu lokið við að fylla hann út. Starfsmenn Rannsóknastofnunar sáu
um að leggja könnunina fyrir. Var ábyrgst að á öllum stigum yrði fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar gætt
til hins ýtrasta og að frumgögnum yrði eytt að loknum innslætti. Þá kom fram að upplýsingar úr könnuninni
yrðu einungis birtar á þann hátt að tryggt væri að ekki yrði hægt að rekja svör til einstakra nemenda. Með
vísun til þessarar rannsóknaraðferðar taldi Tölvunefnd ákvæði laga um skráningu og meðferð
persónuupplýsinga, nr. 121/1989, ekki standa umræddri könnun í vegi þar sem ekki yrði með nokkru móti
unnt að rekja upplýsingar til einstakra nemenda."3.11.33. – Upplýsingaþjónustan ehf. (96/082) kvartaði yfir umsögn sem Tölvunefnd hafði veitt Ríkisskattstjóra varðandi
beiðni fyrirtækisins um að fá skattskrár frá öllum umdæmum landsins afhentar á tölvutæku formi til að nota við mat á
fjárhag og lánstrausti einstaklinga og fyrirtækja. Í kvörtuninni sagði m.a.:

"Í svari Tölvunefndar kemur skýrt fram að engar hömlur er að finna í lögum um tekju- og eignaskatt né í
starfsleyfi UÞ fyrir því að fyrirtækið fái skattskrárnar afhentar í tölvutæku formi.

Þrátt fyrir þetta og það sem fram kemur í f. lið bréfs tölvunefndar frá 9.11.1995 til UÞ varar Tölvunefnd RSK
við því að afhenda UÞ skrárnar í tölvutæku formi. Hér telur UÞ að Tölvunefndin fari gróflega út fyrir
verksvið sitt, enda segir nefndin sjálf að stefnumótun á þessu sviði sé í höndum RSK og
fjármálaráðuneytisins.

Nefndin blandar einnig saman með mjög óheppilegum hætti tveimur alls óskyldum atriðum. Annars vegar
ósk UÞ um aðgang að skrám sem er í fullu samræmi við ákvæði laga, fyrri ákvarðanir Tölvunefndar og
starfsleyfi UÞ og hins vegar áhyggjum og vangaveltum um það að upplýsingar á tölvutæku formi séu
almennt til þess fallnar að auka hættu á misferli. Þetta er gert í sömu setningu og því ekki hægt að draga aðra
ályktun en þá að UÞ sé, að mati Tölvunefndar, alls ekki treystandi til þess að fara með skrár af þessu tagi."Í svari Tölvunefndar til Upplýsingaþjónustunnar ehf. sagði:

"Efnislega eru athugasemdir yðar tvíþættar. Annars vegar teljið þér að Tölvunefnd hafi, með því að veita
umsögn um afhendingu skattskrár á tölvutæku formi, farið út fyrir valdsvið sitt og hins vegar að ekki sé
hægt annað en að draga þá ályktun af umsögn nefndarinnar en að hún telji Upplýsingaþjónustunni ehf.
ekki vera treystandi. Verður hér á eftir leitast við að svara framangreindum athugasemdum. Ekki verður
sérstaklega fjallað um athugasemd yðar við að í umsögn Tölvunefndar skuli tveggja viðhorfa vera getið "í
sömu setningu".

...

Varðandi þá fullyrðingu að Tölvunefnd hafi, með veitingu umræddrar umsagnar, farið "gróflega út fyrir
verksvið sitt" skal eftirfarandi tekið fram:

Um birtingu og útgáfu upplýsinga úr skattskrá er mælt fyrir í lokamálslið 2. mgr. 98. gr. laga um tekju- og
eignaskatt, með síðari breytingum. Þar segir að opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem
fram koma í skattskrá sé heimil, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta. Þegar sleppir
sérákvæðum skattalaga um framlagningu, birtingu og útgáfu þeirra upplýsinga sem fram koma í álagningar-
og skattskrám gilda hin almennu ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga
hvað þessi atriði varðar og lýtur meðferð þeirra upplýsinga, sem fram koma í álagningar- og skattskrám, því
eftirlitsvaldi og lögsögu Tölvunefndar, að svo miklu leyti sem ákvæði sérlaga mæla ekki annan veg. Í ljósi
þess afgreiddi Tölvunefnd það erindi sem þér vísið til í bréfi yðar um birtingu skattskrár á Internetinu (sbr.
f-lið í bréfi TN til yðar, dags. 9. nóvember 1995), enda afgreiddi Tölvunefnd þá slíkar beiðnir og batt
heimildir þeim skilyrðum sem hún mat nauðsynleg hverju sinni. Í mars 1996 gerðist það að fjármálaráðherra
setti, að fenginni unsögn Tölvunefndar, reglugerð nr. 176/1996 um birtingu, útgáfu og aðra meðferð
upplýsinga úr álagningar-, skatt- og virðisaukaskattskrám. Reglugerð þessi varð tilefni umræðna á Alþingi
og harðrar gagnrýni á tiltekin ákvæði hennar. Fór svo að ráðuneytið felldi reglugerðina úr gildi og ákvað að
skattyfirvöld skyldu afgreiða beiðnir um útgáfu og vinnslu upplýsinga úr þessum skrám að undangenginni
umsögn Tölvunefndar hverju sinni. Frá þeim tíma hefur Tölvunefnd talið markalínuna milli forráðasvæðis
fjármálaráðherra/skattyfirvalda og nefndarinnar, varðandi ákvarðanir um meðhöndlun umræddra skráa, vera
óljósa og talið nauðsynlegt að löggjafinn taki af skarið og setji skýrar reglur í þessum efnum. Meðan þeirra
nýtur ekki við hafa beiðnir um vinnslu upplýsinga úr umræddum skrám hins vegar verið afgreiddar í
samræmi við framangreinda ákvörðun fjármálaráðherra, þ.e.a.s. skattyfirvöld afgreiða beiðnirnar að fenginni
umsögn Tölvunefndar. Verður með vísun til framanritaðs ekki á það fallist að Tölvunefnd hafi, með því að
veita umbeðna umsögn um afhendingu skattskrár á tölvutæku formi, farið út fyrir valdsvið sitt.

...

Varðandi hinn lið kvörtunarinnar, þ.e. að af umsögn nefndarinnar um afhendingu skattskrár á tölvutæku
formi sé ekki "hægt að draga aðra ályktun en þá að Upplýsingaþjónustunni ehf. sé, að mati Tölvunefndar,
alls ekki treystandi til þess að fara með skrár af þessu tagi" skal eftirfarandi tekið fram:

Aukin vinnsla og varðveisla upplýsinga á tölvutæku formi hlýtur, eðli málsins samkvæmt, að auðvelda alla
vinnslu þeirra, bæði til góðs og ills. Því verður ekki hjá því komist að telja afhendingu tölvutækra skráa með
persónuupplýsingum varhugaverða út frá sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Í ljósi þess
hefur Tölvunefnd jafnan, þegar rætt hefur verið um afhendingu skattskrár á tölvutæku formi, verið þeirrar
skoðunar að gjalda beri varhug við slíkri afhendingu nema fyrir liggi skýrar reglur um meðferð skránna, þ. á
m. um verndun þeirra persónuupplýsinga sem þær hafa að geyma og að gerðar hafi verið ráðstafanir til
tryggja framkvæmd þeirra. Þetta er almennt viðhorf sem ekki tengist sérstaklega starfsemi
Upplýsingaþjónustunnar ehf. Athugasemd Tölvunefndar um að afhending skattskrár á tölvutæknu formi
auki möguleika á að misfara með skrána ber engan veginn að skilja sem vantraust á Upplýsingaþjónustuna
ehf. Þvert á móti er það álit Tölvunefndar að samstarf hennar og Upplýsingaþjónustunnar hf. hafi verið með
ágætum."3.11.34. – Upplýsingaþjónustan ehf. (97/025) óskaði eftir að fá kennitöluaðgang að fasteignaskrá og ökutækjaskrá í kjölfar
breyttra laga um aðgang opinberra innheimtuaðila að þessum gögnum. Í beiðni fyrirtækisins sagði m.a.:

"Sú lagabreyting sem átt er við, tók gildi þann 18. desember s.l. og var breyting á lögum nr. 75/1981 um tekju
og eignaskatt. Hér er sérstaklega átt við 15. gr. þessara lagabreytinga sem er viðbót við 109. gr. laganna og
er breytingin þannig; "Innheimtuaðilum samkvæmt þessari grein skal heimill aðgangur að fasteigna-, skipa-
og ökutækjaskrá í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda". Í ljósi þess að
Upplýsingaþjónustan ehf. þjónustar innheimtuaðila bæði innlenda og erlenda er eðlilegt að slíkir
innheimtuaðilar sitji við sama borð og hið opinbera, sbr. jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Hér með er því farið fram á aðgang að þessum gögnum með sama hætti og hinu opinbera hefur verið
heimilað í umræddum lögum. Við teljum að verði þeirri beiðni synjað sé það brot á jafnræðisreglu
stjórnarskrárinnar."Af tilefni framangreindrar beiðni greindi Tölvunefnd Upplýsingaþjónustunni frá því að þegar umrætt fumvarp var til
afgreiðslu hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í nóvember 1996 mættu fulltrúar Tölvunefndar á hennar fund og gerðu
munnlega grein fyrir því viðhorfi sínu til frumvarpsins að af tilliti til sjónarmiða um einkalífsvernd væru verulegir annmarkar
á veitingu víðtæks aðgangur að fasteignaskrá eftir nöfnum eða kennitölum eigenda. Samkvæmt því og með vísan til
jafnræðisreglna lagðist Tölvunefnd gegn því að frumvarpið næði fram að ganga. Framgreint viðhorf er það sama og greinir
í bréfi Tölvunefndar til Fasteignamats ríkisins, dags. 16. maí 1994 (sjá ársskýrslu 1994) en þar segir m.a.:

"...

Við mat á því hvort fallast beri á beiðnir ... um aðgang að fasteignaskrá skarast, að áliti Tölvunefndar, tvö
meginsjónarmið sem líta verður til:

Annars vegar telur Tölvunefnd að til þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttar beri að líta, að stjórnvöld
skuli í ákvörðunum sínum gæta sjónarmiða um samræmi og jafnræði, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ef einungis þeir aðilar sem nú þegar hafa fengið slíkan aðgang að fasteignaskrá hafa hann framvegis, en
öðrum sem líkt stendur á um verður um hann synjað, mun slíkt hafa í för með sér brot á framangreindum
sjónarmiðum um samræmi og jafnræði. Mælir þetta að áliti Tölvunefndar með veitingu umbeðinna heimilda.

Hins vegar telur Tölvunefnd að í þessu sambandi sé til sjónarmiða um einkalífsvernd að líta. Að áliti
nefndarinnar geymir fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 121/1989,
þ.e. upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga sem eftir atvikum geti verið sanngjarnt og eðlilegt að leynt
fari. Samkvæmt þessu telur Tölvunefnd að við mat á því hvort og þá með hvaða hætti heimila skuli aðgang
að skránni verði að líta til þeirra grunnsjónarmiða um einkalífsvernd, sem lög nr. 121/1989 byggja á.

...

Af tilliti til sjónarmiða um einkalífsvernd er það álit Tölvunefndar að verulegir annmarkar séu á því að veittur
verði víðtækur aðgangur að fasteignaskrá eftir nöfnum og kennitölum eigenda......"Síðan sagði í bréfi Tölvuefndar til Upplýsingaþjónustunnar ehf.:

"Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, er með
persónuupplýsingum átt við upplýsingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni sem
sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Um aðgang að slíkum upplýsingum segir í 5. gr. laganna að hann sé
óheimill nema með samþykki hins skráða eða einhvers sem heimild hefur til að skuldbinda hann. Þó getur
Tölvunefnd, skv. 2. mgr. 5. gr., heimilað að skýrt verði frá slíkum upplýsingum ef sýnt sé fram á að brýnir
almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir hagsmunir hins skráða, krefjist þess. Skal þá
ótvírætt að þörfin á að fá upplýsingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.

Tölvunefnd tók erindi yðar til umfjöllunar á fundi sínum þann 3. þ.m. Var niðurstaða nefndarinnar sú að
ekkert hefði fram komið í bréfi yðar er staðfesti að fyrir hendi séu þau skilyrði er greinir í framangreindri 5. gr.
laga nr. 121/1989. Þá telur Tölvunefnd að umrædd breyting á 109. gr. laga um tekju- og eignaskatt, sem veitir
innheimtuaðilum ríkissjóðs aðgang að þar tilgreindum skrám, sé undantekningarákvæði sem eðli málsins
samkvæmt beri að túlka þröngt þannig að það eigi aðeins við um þá aðila sem þar eru sérstaklega nefndir.
Að því gættu og með vísun til þeirra röksemda sem að framan greinir, sbr. og bréf Tölvuefndar til
Fasteignamats ríkisins, 16. maí 1994, og áðurgreindar athugasemdir hennar á fundi Efnahags- og
viðskiptanefndar Alþingis, þann 29. nóvember 1996, hefur Tölvunefnd ákveðið að hafna beiðni yðar um
kennitöluaðgang að umræddum skrám."3.11.35. – V.A. (96/277) kvartaði yfir því að ríkislögmaður hefði lagt fram tiltekin skjöl (beiðni um rannsókn á tilteknu máli
og sálfræðiskýrslur) í máli sem hann höfðaði gegn menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til greiðslu
skaðabóta vegna kennararstöðuveitingar. Af tilefni þessarar kvörtunar sendi Tölvunefnd ríkislögmanni fyrirspurn um hvar
umrætt dómsmál væri statt, hvernig hann hafið fengið skjölin í hendur og hvers vegna hann hafi ákveðið að leggja þau
fram í umræddu máli. Í svarbréfi ríkislögmanns sagði m.a.:

"1. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 14. maí 1996, voru menntamálaráðherra og
fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, [...]. Stefnandi áfrýjaði málinu til
Hæstaréttar og er frestur til að skila greinargerð af hálfu stefndu til 27. þ.m.

2.-3. Í fylgiskjölum, sem fylgdu bréfi Tölvunefndar er vísað til "meðfylgjandi" skjala, þ.e. beiðni um
rannsókn á tilteknu máli og sálfræðiskýrslu yfirsálfræðings Fræðsluskrifstofu Suðurlands. Bréfi
nefndarinnar fylgdu ekki tilgreind skjöl, en ætla verður að átt sé við bréf fræðslustjóra Suðurlands til
sýslumannsins í Rangárvallasýslu, dags. 29. janúar 1992 og skýrslu yfirsálfræðings Fræðsluskrifstofu
Suðurlands til R.L.R., dags. 24. febrúar (sic) 1992, en skjöl þessi voru lögð fram af hálfu lögmanns stefndu í
réttarhaldi 11. janúar 1996.

Í bréfi formanns fyrrverandi skólanefndar grunnskólans að Skógum til menntamálaráðuneytisins, dags. 14.
mars 1995, er að ósk ráðuneytisins gerð grein fyrir þeim ástæðum, er lágu að baki því að skólanefndin
óskaði eftir heimild til að ráða leiðbeinanda í kennarastarf, þótt meðal umsækjenda væri [...], sem hafði
tilskilin réttindi. Ein af ákvörðunarástæðum fyrir afstöðu skólanefndar er í bréfinu tilgreind sú, að nefndinni
hafi verið "kunnugt um að til rannsóknar hafi verið meint refsiverð háttsemi [...]". Þá segir ennfremur, að
ljóst hafi verið "af samtölum við foreldra í sveitinni að [...] naut ekki trausts þeirra til kennslustarfa við skóla
sveitarinnar".

Af hálfu [...] var sú krafa aðallega gerð fyrir héraðsdómi, að ráðning meðumsækjanda hans yrði dæmd
ólögmæt. Taldi [...] að brotinn hefði verið á sér réttur og gengið fram hjá sér "við ráðningu í
grunnskólastöðuna með grófum hætti", þar sem meðumsækjandinn hafi ekki uppfyllt menntunarskilyrði fyrir
ráðningu.

Við stöðuveitinguna lá þannig fyrir eindregin ósk skólastjórnenda um ráðningu meðumsækjanda [...] í starf
kennara og ein af ástæðunum, sem tilgreindar höfðu verið fyrir afstöðu skólanefndarinnar, var sú sem að
framan greinir.

Af hálfu embættis ríkislögmanns var talið rétt og nauðsynlegt að upplýsa, hvað lægi að baki þessari
ákvörðunarástæðu. Í greinargerð stefnda til héraðsdóms 15. nóvember 1995 var skorað á [...] að leggja fram
lögregluskýrslu vegna þess atburðar, sem vísað er til í bréfi fyrrverandi skólanefndar, en hann einn hafði
tök á því að leggja fram slíkar skýrslur. Í réttarhaldi 14. desember 1995 lýsti lögmaður [...] því yfir, að
lögregluskýrslan yrði ekki lögð fram.

Embætti ríkislögmanns óskað þá eftir því við sýslumanninn í Rangárvallasýslu að fá kæruna í hendur. Er
vakin athygli á því, að í kærubréfinu og skýrslu yfirsálfræðings, sem var fskj. með kærunni er haldið
nafnleynd gagnvart aðilum máls og að skjölin eru ekki merkt sem trúnaðarmál."Að fengnu svari ríkislögmanns sendi Tölvunefnd sýslumanninum á Hvolsvelli svohljóðandi fyrirspurn:

"Vegna kvörtunar [...] beindi Tölvunefnd fyrirspurn til ríkislögmanns m.a. um hvernig hann hafi fengið
umrædd skjöl í hendur. Af svari ríkislögmanns, dags. 22. nóvember sl., sbr. hjálagt ljósrit, má ráða að þau
hafi borist frá embætti yðar. Vill Tölvunefnd af því tilefni óska þess að þér skýrið tildrög þess að þér
afhentuð ríkislögmanni umrædd skjöl, með hvaða heimild það hafi verið gert og hvort embættið hafi sett sér
reglur um afhendingu slíkra gagna - og þá hvaða."Í svari sýslumanns sagði m.a.:

"I. Gögn þau eru um ræðir voru afhent Ríkislögmanni samkvæmt ósk Fræðslustjóra Suðurlands.

II. Undirritaður vissi ekki að til stæði að leggja fram gögn í máli [...] gegn menntamála- og fjármálaráðherra.

III. Um heimild til að afhenda Ríkislögmanni gögnin, skal vitnað til óska þess er hafði forræði málsins, þ.e.
Fræðslustjóra Suðurlands.

IV. Lögregluskýrslur og/eða kærur, eru ekki afhentar öðrum en hlutaðeigandi sjálfum. Hér var því um
einstakt tilvik að ræða, en ekki á neinn hátt verklagsreglu.

V. Eðlilegt er hinsvegar, að dómsmálaráðuneytið hafi um reglur og starfsvenjur að segja hjá
sýslumannsembættum, að því er mál af þessum toga varðar, til samræmingar og varnaðar. Ráðuneytið hefur
sett fram viss sjónarmið í þessum efnum á liðnum árum, en gjarnan mætti draga þær saman og endurskoða."Um málavexti sagði m.a. í niðurstöðu Tölvunefndar:

"Mál það, er [...] höfðaði á hendur menntamála- og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs var tekið fyrir í þinghaldi í
Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 14. desember 1995. Í endurriti frá því þinghaldi segir, að skjöl málsins nr. 1 - 62
hafi legið frammi, en til viðbótar hafi verið lögð fram skjöl nr. 63 - 67.

Málið var næst tekið fyrir í þinghaldi hinn 11. janúar 1996, og segir í endirriti frá því þinghaldi, að skjöl
málsins nr. 1 - 67 hafi legið frammi. Síðan er frá því greint í endurritinu, að lögmaður stefnanda leggi fram
skjal nr. 68 og lögmaður stefndu skjal nr. 69, kæru með greinargerð, og er þar um að ræða skjöl þau, sem [...]
kvartar yfir við Tölvunefnd, að lögð hafi verið fram í málinu. Síðan er frá því greint í endurritinu, að
lögmaður stefnanda mótmæli því, að skjal nr. 69 verði lagt fram, þar eð það varði ekki stefnanda málsins eða
úrlausnarefni málsins. Þá segir orðrétt í endurriti frá þinghaldinu:

"Lögmaður stefndu óskar bókað: Í greinargerð stefndu er skorað á stefnanda að leggja fram
lögregluskýrslu, sbr. bls. 2 - 3 á dskj. nr. 54. Lögmaður stefnanda lýsti því yfir í réttarhaldi 14. desember 1995
að lögregluskýrslan yrði ekki lögð fram. Ítrekaðar eru áskoranir á stefnanda að leggja fram tilgreinda
lögregluskýrslu svo og að leggja fram bréf ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins.

Lögmaður stefnanda óskar bókað: Stefnandi hefur aldrei legið undir kæru eða grun um kynferðislega
misnotkun af neinu tagi eða hlutdeild í slíku broti. Stefnandi eða lögmaður stefanda hafa aldrei haft
lögregluskýrslu undir höndum varðandi slíkt brot.

Lögmaður stefndu óskar eftir fresti til að reyna að afla framangreinds bréfs ríkissaksóknara.

Lögmaður stefanda kveðst mótmæla því að veittir verði frekari frestir í málinu og bendir á að í greinargerð
stefndu komi fram að mál þetta mun hafa verið fellt niður hjá ríkissaksóknara og sé þeirri fullyrðingu ekki
mótmælt af hálfu stefnda og sé því þarflaust að afla frekari gagna í málinu. Lögmaðurinn kveðst lýsa öflun
gagna lokið í málinu.

Framangreint ágreiningsefni er tekið til úrskurðar og verður hann kveðinn upp mánudaginn 15. janúar nk.
..."Umrætt héraðsdómsmál var næst tekið fyrir hinn 15. janúar, og segir í endurriti frá þinghaldinu, að skjöl
málsins nr. 1 - 69 hafi legið frammi. Útivist varð af hálfu lögmanns stefnanda, en lögmaður stefndu lagði
fram dómskjal nr. 70 og lýsti því næst gagnasöfnun lokið. Þá segir í endurritinu, að með því að lögmaður
stefnanda sæki ekki þing í málinu, sé því frestað óákveðið. Umrætt dómskjal nr. 70 er bréf ríkissaksóknara til
ríkislögmanns, dags. 12. janúar 1996. Þar segir: "Með vísan til bréfs, dagsetts í dag, þar sem þér óskið
ljósrits af bréfi embættisins frá því í ágúst 1992 til RLR þar sem meðal annarra [...] er nefndur til máls."... Er
héraðsdómsmálið var tekið fyrir 30. janúar 1996 lágu frammi skjöl málsins nr. 1 - 70. Er þá bókað eftir
lögmanni stefnanda, að hann áskilji sér rétt til að leggja fram upplýsingar, sem taki af vafa um það, að ekki
sé átt við stefnanda sem geranda í bréfi yfirsálfræðings Fræðsluskrifstofu Suðurlands til RLR frá 24. janúar
1992 á dskj. nr. 69. Í þinghaldi 14. mars 1996 voru lögð fram skjöl nr. 71 - 72. Í þinghaldi 19. apríl 1996 voru
lögð fram skjöl nr. 73 - 76, og þann dag fór fram munnlegur flutningur málsins, en dómur var kveðinn upp
14. maí 1996."Niðurstaða Tölvunefndar í máli þessu var svohljóðandi:

"Kvörtun sú sem hér um ræðir er í raun tvíþætt. Annars vegar lýtur hún að því, að sýslumaðurinn í
Rangárvallarsýslu hafi án heimildar afhent ríkislögmanni bréf það, dags. 29. janúar 1992, er fræðslustjóri
Suðurlands sendi sýslumanninum, þar sem óskað er lögreglurannsóknar á því, hvort tiltekin stúlka í
umdæmi hans hefði sætt kynferðislegri misnotkun, ásamt skýrslu yfirsálfræðings Fræðsluskrifstofu
Suðurlands um málið. Hins vegar lýtur kvörtunin að því, að ríkislögmaður hafi, eftir að hann komst yfir
umrædd skjöl með framangreindum hætti, lagt þau fram í héraðsdómsmáli því, er [...] höfðaði á hendur
fjármálaráðherra og menntamálaráðherra.

Tekið skal fram, að hvorki í umræddri beiðni um lögreglurannsókn né heldur skýrslu yfirsálfræðingsins,
kemur nafn [...] fram. Gögn þessi lét sýslumaðurinn í Rangárvallarsýslu ríkislögmanni í té síðla árs 1995, og
þau voru lögð fram í umræddu héraðsdómsmáli í þinghaldi hinn 11. janúar 1996.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 92/1989 um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði fara sýslumenn, hver í
sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins, eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, þar á meðal
lögreglustjórn. Af ákvæðum IX. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála leiðir, að rannsóknari
semur skriflegar skýrslur um rannsóknaraðgerðir sínar, og skulu þar skráðar skýrslur þeirra, sem yfirheyrðir
eru, athuganir rannsóknara sjálfs og annað það, sem máli skiptir, sbr. 72. gr. laga nr. 19/1991. Hvorki er í
lögum nr. 19/1991 né heldur öðrum réttarheimildum, er varða starfsemi lögreglunnar, að finna nánari
fyrirmæli um lögregluskrár né um aðgang manna að slíkum skrám, hvort heldur sem um er að ræða aðgang
hins skráða sjálfs eða annarra en hins skráða.

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga kemur fram, að með
persónuupplýsingum samkvæmt þeim lögum er m.a. átt við upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sem
sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í 4. gr. laganna eru tilgreindar þær persónuupplýsingar, sem taldar eru
sérstaklega viðkvæmar mönnum, og eru þar í dæmaskyni m.a. nefndar upplýsingar um það, hvort maður hafi
verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Af þessu leiðir, að kærur og upplýsingar
þær, sem skráðar eru í lögregluskýrslur við lögreglurannsóknir, eru persónuupplýsingar í skilningi laga nr.
121/1989 og lúta þar með eftirlits- og ákvörðunarvaldi Tölvunefndar.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 121/1989 er það einungis í undantekningatilvikum, sem heimilt er að skrá þær
upplýsingar, sem þar eru tilgreindar. Af ákvæðum IX. kafla laga nr. 19/1991, sbr. og 3. gr. laga nr. 121/1989
leiðir, að skráning þeirra upplýsinga, sem fram koma við lögreglurannsóknir, er lögreglunni heimil.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 er að finna þá grundvallarreglu íslensks réttar, að óheimilt er að veita aðgang
að þeim persónuupplýsingum, sem mönnum eru sérstaklega viðkvæmar, þ.m.t. þeim upplýsingum, sem
nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laganna. Frá þessari meginreglu er að finna nokkrar undantekningar. Í fyrsta lagi
getur Tölvunefnd heimilað aðgang að slíkum upplýsingum, ef sýnt er fram á, að brýnir almannahagsmunir
eða hagsmunir einstaklinga krefjist þess. Í öðru lagi geta ákvæði annarra laga en
persónuupplýsingalaganna heimilað slíkan aðgang, og í þriðja lagi getur hinn skráði sjálfur heimilað slíkan
aðgang.

Við mat í þeim efnum, hvort sýslumanni Rangárvallarsýslu hafi verið heimilt að afhenda ríkislögmanni
umrædda kæru ásamt fylgigögnum, er til þess að líta í fyrsta lagi, að hvorki ákvæði laga nr. 19/1991 né
heldur ákvæði annarra laga, er varða starfsemi lögreglunnar, heimila lögreglustjórum að veita óviðkomandi
aðgang að kærum og lögregluskýrslum. Í öðru lagi er ekki fram komið í máli þessu, að [...] hafi heimilað
sýslumanni Rangárvallarsýslu að afhenda ríkislögmanni umrædd gögn. Í þriðja lagi er til þess að líta, að ekki
var aflað heimildar Tölvunefndar fyrir því, að ríkislögmaður fengi aðgang að umræddri kæru og fylgigögnum
hennar. Þegar til þessa er litið, er það álit Tölvunefndar, að ríkislögmaður hafi, eins og á stóð, ekki átt rétt til
aðgangs að kæru þeirri, er um ræðir í máli þessu og fylgigögnum hennar. Af því leiðir, að sýslumanni
Rangárvallarsýslu var að áliti Tölvunefndar ekki heimilt að afhenda ríkislögmanni gögnin. Tekur
Tölvunefnd fram, að hún telur ekki skipta máli í þessu sambandi, þótt nafn nafn [...] komi ekki fram í
gögnunum þeim, sem afhent voru, þar sem ríkislögmaður hafði gagngert óskað afhendingar á tilteknum
gögnum, er vörðuðu meint brot [...].

Seinni þátturinn í kvörtun [...] til Tölvunefndar lýtur sem fyrr segir að því, að ríkislögmaður hafi lagt kæru
fræðslustjóra og fylgigögn hennar fram í umræddu héraðsdómsmáli, eftir að ríkislögmaður hafði komist yfir
gögnin með þeim hætti, sem áður er rakinn. Samkvæmt X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eiga
dómstólar úrskurðarvald um rétt og skyldu aðila dómsmáls til þess að leggja fram skjöl og önnur sýnileg
sönnunargögn. Lýtur ágreiningur í þeim efnum því ekki eftirlits- og úrlausnarvaldi Tölvunefndar. Kemur
þessi þáttur kvörtunar [...] því ekki til frekari skoðunar af hálfu Tölvunefndar."


4.0. FJÖLÞJÓÐLEGT SAMSTARF.

4.1. Norrænt samstarf.

Árlegur fundur norrænna gagnaverndarstofnana var haldinn í Kalmar í Svíþjóð dagana 9. - 11. júní. Af hálfu
Tölvunefndar sóttu fundinn formaður og framkvæmdastjóri.

4.2. Evrópuráðið.

4.2.1. Sérfræðinganefndin (CJ-PD) um gagnavernd.

Sérfræðinganefndin hélt tvo fundi á árinu, sá fyrri var haldinn 20.-23. maí og hinn síðari 14. - 17. október.
Framkvæmdastjóri sótti báða fundina.

4.2.2. Ráðgjafarnefnd (T-PD) gagnaverndarsamnings Evrópu.

Ráðgjafarnefndin hélt einn fund á árinu, 10. - 12. desember. Framkvæmdastjóri sótti fundinn.

4.3. Alþjóðasamtök gagnaverndarstofnana.

Haldinn var árlegur fundur alþjóðasamtaka stofnana um gagnavernd í Brussel dagana 16. - 19. september.
Hann sóttu formaður nefndarinnar og framkvæmdastjóri.

4.4. Vinnuhópur samkvæmt 29. gr. ESB-tilskipunar um einstaklingsvernd í tengslum við vinnslu
persónuupplysinga.

Haldnir voru 4 fundir í þessum vinnuhópi á árinu. Þeir voru haldnir í Brussel þann 25. febrúar, 29. maí, 16.
september og 2. desember. Högni Snjólfur Kristjánsson sótti alla fundina, að undansk. þeim sem haldinn var
16. september en hann sótti framkvæmdastjóri.

4.5. Sameiginlega eftirlitsnefnd Schengen.

Tölvunefnd var á árinu falið að tilnefna fulltrúa sína til setu í þessari nefnd. Nefndin tilnefndi formann og
framkvæmdastjóra. Sjö fundir voru haldnir í Brussel (07.03., 27.03., 22.05., 04.07., 12.09., 14.10. og 11.12.) og
einn í Lissabon (22. – 23.04.). Framkvæmdastjóri sótti 3 fundi, formaður tvo fundi og Jón Thors sótti einn
fund. Aðrir fundir voru ekki sóttir.

5.0. Lög um skráningu og meðferð persónuupplysinga (Nr. 121 28. desember 1989)

6.0. Nafnaskrá

Aðalbjörg Guðsteinsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/385)

Aðalheiður Matthíasdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/019)

Aðalheiður Sigursveinsdóttir, nemi (97/222

Adolf Þráinsson (97/257)

Agnes Jóhannesdóttir (97/031)

Almar Grímsson (97/167)

Andrea Ingimundardóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/108)

Andrés Magnússon, læknir (97/264)

Anna Rut Þráinsdóttir, sálfræðinemi (97/140)

Anna Árnadóttir (97/259)

Anna B. Almarsdóttir (97/167)

Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri (97/303)

Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/119)

Anna Sigríður Sigurgeirsdóttir, nemi (97/146)

Anna Sigríður Sigurgeirsdóttir, nemi o.fl. (97/329)

Anna Þóra Óskarsdóttir, nemi (97/199)

Annadís Greta Rúdólfsdóttir, doktor (96/295)

Ari Jaakko Nyysti, tannlæknir (97/153)

Arna Björg Sævarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

Arnar Eggert Thoroddsen, félagsfræðinemi (97/393)

Arnar Eggert Thoroddsen, nemi (97/375)

Arndís Vala Arnfinnsdóttir, stud.med., (97/264)

Arnfríður Ólafsdóttir, sálfræðinemi (97/080)

Atvinnuleysistryggingasjóður (97/171)

Auðbjörg Geirsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/062)

Á.B. (97/272)

Á.B. (97/428)

Á.L. (96/303)

Á.M. (97/132)

Ágúst Mogensen (97/021)

Árna Skúladóttir (97/031)

Árni Björnsson, læknir (97/009)

Árni V. Þórsson, yfirlæknir og sérfræðingur (96/053)

Ása Sig. Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur (97/182)

Ása Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/106)

Ásdís Jónsdóttir, nemi (97/355)

Ásgeir Böðvarsson (96/297)

Ásgeir Haraldsson, læknir (97/135)

Ásgeir Haraldsson, prófessor (97/310)

Ásgeir Magnússon, hæstaréttarlögmaður (97/132)

Ásgeir Theodórsson (96/297)

Áshildur Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/189)

Áslaug Traustadóttir, sálfræðinemi (97/214)

Ásta Júlía Björnsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/155)

Ástbjörg Jónsdóttir, nemi (97/146)

Bakki hf., Bolungarvík (97/289)

Bandalag íslenskra skáta (97/284)

Berglind Karlsdóttir (97/172)

Bergþóra Hrund Ólafsdóttir, nemi (97/146)

Bjarni Össurarson, deildarlæknir (97/236)

Bjarni P. Harðar, forstöðumaður (97/186)

Bjarni P. Harðar, forstöðumaður (97/378)

Bjarni Þjóðleifsson (96/297)

Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur (97/277)

Björg Þorleifsdóttir, lífeðlisfræðingur (97/280)

Björn Guðbjörnsson, læknir (97/154)

Björn Tryggvason, læknir (97/076)

Borgarstjórinn í Reykjavík (96/256)

Bryndís Benediktsdóttir, heimilislæknir (97/304)

Bryndís Benediktsdóttir, læknir (97/277)

Bryndís Benediktsdóttir, læknir (97/280)

Bryndís Björg Þórhallsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/077)

Brynja Ingadóttir, deildarstjóri (97/049)

Brynjólfur Ingvarsson (97/002)

Brynjólfur Mogensen, forstöðulæknir, (97/138)

Brynjólfur Y. Jónsson, læknir (97/331)

Byggðastofnun, Björn G. Ólafsson (96/322)

Bylgja Kærnested, hjúkrunarfræðinemi (97/127)

Commission Europeenne (97/351)

Contact point Hungary – Dunaholding Belgium NV/SA (97/219)

Dagný Hjálmarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/003)

Dagvist barna (97/069)

Dagvist barna (97/190)

Davíð Gíslason, læknir og sérfræðingur (96/252)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (95/216)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (96/120)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/040)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/162)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/208)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/209)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/210)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/211)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/227)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/287)

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (97/352)

Dómsmálaráðherra (96/300)

Dómsmálaráðherra (97/050)

Dómsmálaráðuneytið (97/229)

Dóra Vigdís Vigfúsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/385)

Drífa Þorgrímsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/063)

E.Þ.S. (97/054)

Einar Guðmundsson, doktor (97/009)

Einar Oddsson (96/297)

Eiríkur Örn Arnarson, doktor (97/093)

Elías Ólafsson, læknir (97/177)

Elín Arndís Margrétardóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/155)

Elín Úlfarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/029)

Elísabet Guðmundsdóttir, nemi (97/355)

Ellen Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/047)

Elliði Vignisson, nemi (97/414)

Elmar Þórðarson (97/010)

Elsa Sigríður Jónsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/308)

Elvar Örn Arason, nemi (97/149)

Emil L. Sigurðsson, Jón Steinar Jónsson og Guðmundur Þorgeirsson, læknar (97/413)

Emil L. Sigurðsson, læknir (heilsugæslustöðinni Sólvangi) (97/413)

Erla Kristófersdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/118)

Erlingur Hugi Kristvinsson, læknir (97/235)

Erna Jóhannesdóttir, kennslufræðinemi (97/234)

Erna Valdimarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/027)

Ernir Snorrason (97/002)

Ernir Snorrason, læknir (96/053)

Ester Gunnsteinsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/373)

Evangelia Mitrou, Greece (97/253)

Eygló Traustadóttir, sjúkraþjálfaranemi (97/379)

Eyrún Ísfold Gísladóttir, kennsluráðgjafi (97/037)

Fangelsismálastofnun ríkisins (97/181)

Fangelsismálastofnun ríkisins (97/348)

Fanney Jónsdóttir (97/066)

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands (97/046)

Félagsmálaráðuneytið (95/226)

Félagsmálaráðuneytið (97/049)

Félagsvísindastofnun H.Í. (97/122)

Félagsvísindastofnun H.Í. (97/198)

Finnbogi Jakobsson, læknir og sérfræðingur (96/244)

Fjármálaráðuneytið (96/227)

Fjármálaráðuneytið (97/083)

Fjóla Valborg Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/062)

Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/279)

Framleiðsluráð landbúnaðarins (97/349)

Framsýni ehf. (96/261)

Freydís Jóna Freysteinsdóttir, nemi í félagsráðgjöf (97/341)

Freyja Hálfdánardóttir, sjúkraþjálfaranemi (97/386)

Friðrik H. Jónsson, dósent (97/224)

Friðrik Rúnar Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur (97/009)

Friðrik Rúnar Guðmundsson, talmeinafræðingur (97/010)

Friðrik Vagn Guðjónsson, læknir (97/154)

Fullorðinsfræðsla fatlaðra (97/056)

G. Elísa Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/127)

G.A. (97/115)

G.V. (97/383)

G.Þ.T. (97/137)

Geir Friðgeirsson, læknir f.h. starfshóps á vegum hjúkrunarstjórnar og læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
(97/094)

Geir Jón Þórisson (97/021)

Gerður Árnadóttir (97/011)

Gestur Guðmundsson, háskólakennari (97/170)

Gestur Pálsson, sérfræðingur (97/305)

Gígja Magnúsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/371)

Girish Hirlekar, læknir (97/076)

Gísli Árni Eggertsson f.h. félagsmiðstöðvanna Ársels, Bústaða, Fellahellis, Fjörgynjar, Hólmasels og Þróttheima (97/072)

Golfklúbbur Reykjavíkur (97/078)

Gréta Björk Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari (97/091)

Grétar Guðmundsson, læknir og sérfræðingur (96/276)

Grétar L. Marinósson (97/051)

Gróa Ingunn Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/026)

Guðbjörg H. Birgisdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/029)

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir (97/313)

Guðbjörn Björnsson (96/298)

Guðfinna B. Sigvaldadóttir, nemi (97/372)

Guðjón Ágúst Gústafsson, kennaraháskólanemi (97/363)

Guðlaug Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/370)

Guðlín K. Jónsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/029)

Guðmundur Vikar Einarsson, yfirlæknir (97/294)

Guðmundur Þorgeirsson, læknir (heilsugæslustöðinni Sólvangi) (97/413)

Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir (97/242)

Guðmundur Þorgeirsson, yfirlæknir (97/248)

Guðrún Alda Harðardóttir, leikskólakennari (97/067)

Guðrún Ammendrup (97/203)

Guðrún Árnadóttir (97/224)

Guðrún Árnadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/027)

Guðrún Einarsdóttir, nemi (97/199)

Guðrún Guðmundsdóttir (97/232)

Guðrún Guðmundsdóttir (97/273)

Guðrún Ingadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/026)

Guðrún K. Steingrímsdóttir, tannlæknir (97/153)

Guðrún K. Þórsdóttir, framkvæmdastjóri (97/317)

Guðrún Karlsdóttir, deildarlæknir (97/425)

Guðrún Katrín Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/385)

Guðrún Þóra Björnsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/047)

Gunnar H. Gunnarsson, yfirlæknir (97/158)

Gunnar Haugen, sálfræðinemi (97/314)

Gunnar Haugen, sálfræðinemi (97/323)

Gunnar Mýrdal, læknir (97/298)

Gunnar Sigurðsson (97/068)

Gunnhildur Sveinsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/131)

Gunnlaugur Ólafsson, lífeðlisfræðingur (97/279)

Gyða Haraldsdóttir, lektor (97/259)

H.H. (95/253)

H.H. (97/143)

H.H. (97/187)

Hafsteinn Hafsteinsson, nemi (97/149)

Hagvangur hf. (97/296)

Halla Björk Marteinsdóttir, meðferðarfulltrúi (97/249)

Halla Sigurjóns, lektor (97/252)

Halldór Skúlason, læknanemi (97/177)

Halldóra M. Halldórsdóttir, sálfræðinemi (97/080)

Hallgrímur Geir Gylfason og Númi Arnarson, nemar (97/033)

Hallgrímur Guðjónsson (96/297)

Hanna Dís Margeirsdóttir, læknir (97/142)

Hannes Petersen, yfirlæknir (97/235)

Hannes Petersen, yfirlæknir (97/257)

Hannes Petersen, yfirlæknir (97/309)

Haraldur Briem, yfirlæknir (97/228)

Háskóli Íslands, kennslusvið (97/043)

Háskóli Íslands, kennslusvið (97/432)

Háskóli Íslands, starfsmannasvið (97/097)

Heiðlóa Ásvaldsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/127)

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (96/170)

Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis (97/041)

Heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis (97/087)

Helena Sveinsdóttir, deildarlæknir (97/158)

Helga Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/003)

Helga Björg Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/163)

Helga Sól Ólafsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/014)

Helga Tryggvadóttir, sálfræðinemi (97/080)

Héraðsbókasafn Kjósasýslu, Marta Hildur Richter (97/157)

Hertha Jónsdóttir (97/031)

Hildigunnur Gunnarsdóttir (97/292)

Hildigunnur Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/064)

Hildur E. Pétursdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/019)

Hildur Svavarsdóttir, læknir (97/053)

Hinrik Pálsson, afbrotafræðinemi (97/261)

Hinrik Pálsson, afbrotafræðinemi (97/328).

Hjördís Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/189)

Högni Óskarsson, læknir (97/264)

Hulda Rafnsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/062)

Hulda Þórey Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/064)

Icecredit-Info, Jóhann Þorvarðarson (97/008)

Inga B. Árnadóttir, tannlæknir (97/252)

Inga Dóra Kristjánsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/118)

Inga Vala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/077)

Inga Þórsdóttir, forstöðumaður (97/305)

Ingi Jón Hauksson, sálfræðingur á BUGL (97/194)

Ingibjörg Ásta Gunnarsdóttir, mannfræðingur (97/317)

Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/062)

Ingibjörg Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/027)

Ingibjörg Símonardóttir (97/010)

Ingibjörg Þórdís Þórisdóttir, námsráðgjafsnemi (97/075)

Ingunn Björnsdóttir (97/167)

Íris Árnadóttir, sálfræðinemi (97/345)

Ísleifur Ólafsson (97/068)

Íslensk erfðagreining hf. (96/926)

Ívar S. Helgason, læknanemi (97/177)

Íþrótta- og tómstundaráð Selfoss (97/129)

J.G. (97/125)

Jakob Smári, doktor (97/079)

Jakob Smári, doktor (97/100)

Jakob Smári, doktor (97/128)

Jakob Smári, dósent (97/144)

Jóhann Axelsson, prófessor (97/264)

Jóhanna Einarsdóttir (97/030)

Jóhanna Guðmundsdóttir, nemi (97/146)

John Benedikz, læknir og sérfræðingur (96/244)

John Benedikz, læknir og sérfræðingur (96/276)

Jón Ólafur Skarphéðinsson, lífeðlisfr. (97/230)

Jón & Jón, auglýsingastofa ehf. (96/180)

Jón Bragi Bergmann, læknir (97/076)

Jón Jóhannes Jónsson (97/278)

Jón G. Stefánsson, dósent (97/264)

Jón Hólm Gunnarsson (97/022)

Jón Ólafur Skarphéðinsson, prófessor (97/279)

Jón Óttar Ólafsson, nemi (97/099).

Jón Steinar Jónsson, læknir (heilsugæslustöðinni Sólvangi) (97/413)

Jón Þ. Hallgrímsson (97/053)

Jóna Björg Freysdóttir (97/259)

Jóna Björg Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/373)

Jóna Eggertsdóttir (97/066)

Jóna Sigríður Valbergsdóttir, aðstoðarskólastjóri (97/152)

Jónas G. Halldórsson, sálfræðingur (97/244)

Jónína Elva Guðmundsdóttir, sálfræðinemi (97/214)

Jónína Hafliðadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/026)

Júlíus K. Björnsson, læknir (97/280)

Júlíus K. Björnsson, sálfræðingur (97/398)

K. Stella Ingvarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/108)

Kári Stefánsson (96/297)

Kári Stefánsson (96/298)

Kári Stefánsson (97/002)

Kári Stefánsson (97/068)

Kári Stefánsson, læknir (96/053)

Kári Stefánsson, læknir og sérfræðingur (96/244)

Kári Stefánsson, læknir og sérfræðingur (96/252)

Kári Stefánsson, læknir og sérfræðingur (96/276)

Karitas Ólafsdóttir, sjúkraþjálfari (97/066)

Karl G. Kristinsson, sérfræðingur (97/226)

Karl Steinar Valsson, afbrotafræðingur (97/021)

Katrín Edda Snjólaugsdóttir, nemi (97/199)

Katrín Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/155)

Kennslusvið Háskóla Íslands (97/071)

Kirsti Beate Fagerli, heilbrigðisfræðinemi (97/344)

Kirsti Beate Fagerli, hjúkrunarfræðinemi (97/077)

Kjartan B. Örvar (96/297)

Kjartan Kjartansson, geðlæknir (97/273)

Kolbrún Björnsdóttir, sálfræðinemi (97/133)

Kristín Eggertsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/106)

Kristín Einarsdóttir (97/031)

Kristín H. Siggeirsdóttir, iðjuþjálfi (97/331)

Kristín Karlsdóttir, kennari (97/437)

Kristín Lára Friðjónsdóttir, sérkennslufræðinemi (97/306)

Kristín Pétursdóttir, viðskiptafræðinemi (97/192)

Kristín Steingrímsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/131)

Kristín V. Gísladóttir (97/018)

Kristinn Sigvaldason, læknir (97/076)

Kristinn Tómasson, geðlæknir (97/304)

Kristinn Tómasson, læknir (97/398)

Kristinn Tómasson, sérfræðingur (97/236)

Kristján Steinsson, yfirlæknir (97/105)

Kristleifur Kristjánsson (96/297)

Kristleifur Kristjánsson (96/298)

Kristleifur Kristjánsson (97/068)

Kristleifur Kristjánsson, læknir (96/053)

Kristleifur Kristjánsson, læknir og sérfræðingur (96/244)

Kristleifur Kristjánsson, læknir og sérfræðingur (96/252)

Kristleifur Kristjánsson, læknir og sérfræðingur (96/276)

Læknafélag Íslands (96/296)

Landspítalinn (97/278)

Landspítalinn, sr. Bragi Skúlason (97/243)

Landssamtök sauðfjárbænda (97/387)

Landssamtök sláturleyfishafa (97/160)

Lánstraust ehf. (97/137)

Lánstraust ehf. (96/227)

Lánstraust ehf. (97/114)

Lánstraust ehf. (97/286)

Lára Hjaltested, hjúkrunarfræðinemi (97/119)

Lára Valgerður Emilsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/320)

Lífeyrissjóður bænda (97/271)

Lífsvog (97/126)

Lilja Petra Ásgeirsdóttir, yfirmeinatæknir (97/174)

Lilja Petra Ásgeirsdóttir, yfirmeinatæknir (97/175)

Lilja S. Jónsdóttir (97/011)

Linda Björk Árnadóttir, nemi (97/146)

Löggildingarstofa (97/169)

Lyfjaeftirlit ríkisins (97/205)

Magnea Rán Guðlaugsdóttir, nemi (97/146)

Magnús Böðvarsson, læknir (97/142)

Magnús Brynjólfsson, héraðsdómslögmaður (97/182)

Magnús Einarsson f.h. Jafningjafræðslu framhaldsskólanna (97/111)

Málfríður Stefanía Þórðardóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/077)

Manneldisráð Íslands (96/323)

Marga Thome, dósent (97/031)

Margrét Rós Jósefsdóttir, kennaraháskólanemi (97/346)

Margrét Sigmundsdóttir, deildarstjórar (97/439)

María Albína Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

María Dóra Björnsdóttir, sálfræðinemi (97/133)

María Egilsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/077)

María Magnúsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/371)

Markaðsbankinn ehf. (97/164)

Markaðssamskipti ehf. (97/148)

Markhúsið (97/381)

Marta Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/136)

Marta Kristjana Pétursdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/155)

Marta Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/203)

Menntamálaráðuneytið (97/038)

Menntamálaráðuneytið (97/061)

Menntamálaráðuneytið (97/269)

Menntamálaráðuneytið (97/315)

Nanna Rögnvaldsdóttir (97/045)

Navís hf. (97/202)

Navís hf. (97/263)

Neytendasamtökin (96/261)

Nick Cariglia (96/297)

Oddný S. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/003)

Ólafur Guðmundsson, læknir (97/277)

Ólafur Gunnlaugsson (96/297)

Ólöf Másdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/189)

Óskar Ragnarsson, læknanemi (97/220)

Páll Magnússon, sálfræðingur á BUGL (97/194)

Páll Skúlason, prófessor (97/159)

Peter Holbrook, prófessor (97/252)

Póst- og fjarskiptastofnun (97/283)

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna (97/204)

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna (97/417)

Ragna Sara Jónsdóttir, nemi (97/355)

Ragna Valdimarsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/400)

Ragnar Árnason, prófessor (97/265)

Ragnheiður Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/108)

Ragnheiður Ólafsdóttir, kennaraháskólanemi (97/346)

Ragnhildur Bjarnadóttir (97/107)

Ragnhildur Helgadóttir (97/173)

Ragnhildur Reynisdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/047)

Rannsóknarlögregla ríkisins (97/166)

Rannsóknarnefnd umferðarslysa (97/254)

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (96/188)

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (97/012)

Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála (97/055)

Rannveig Birna Hansen, hjúkrunarfræðinemi (97/047)

Rannveig Bjarnadóttir, sjúkraþjálfaranemi (97/379)

Reisswolf International Akten- und Datenvernichtung GmbH (97/365)

Research Business in London (97/272)

Reykjavíkurborg (96/256)

Reynir Arngrímsson (97/011)

Reynir T. Geirsson (97/053)

Reynir Tómas Geirsson, prófessor (97/011)

Reynir Tómas Geirsson, prófessor (97/310)

Ríkislögreglustjóri (97/302)

Ríkisskattstjóri (96/082)

Rósa Einarsdóttir (97/031)

Rósa Hlín Óskarsdóttir, kennaraháskólanemi (97/147)

Rut Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/047)

S.Á.Á. (97/366)

S.L. (97/404)

Samgönguráðuneytið (97/109)

Samtök fámennra skóla (97/095)

Sæmundur Knútsson, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

Sara Hafsteinsdóttir (97/066)

Selma Maríusdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/027)

Sigfús Þór Elíasson, prófessor (97/252)

Sigmundur Sigfússon (97/002)

Sigríður Elín Ólafsdóttir, námsráðgjafsnemi (97/075)

Sigríður Guðmundsdóttir, sálfræðinemi (97/140)

Sigríður Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/131)

Sigríður Jakobínudóttir, rannsóknarfulltrúi (97/016)

Sigríður K. Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/118)

Sigríður Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/064)

Sigrún Aðalbjarnardóttir (97/007)

Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðinemi (97/389)

Sigrún Elva Einarsdóttir, sjúkraþjálfunarnemi (97/370)

Sigrún Hjartardóttir, sérkennari (97/051)

Sigrún Júlíusdóttir, dósent (97/299)

Sigrún Klara Hannesdóttir, prófessor (97/001)

Sigrún Kristín Barkardóttir, hjúkrunarfræðingur (97/246)

Sigrún Ólafsdóttir, félagsfræðinemi (97/393)

Sigrún Þórisdóttir, námsráðgjafsnemi (97/075)

Sigurbjörn Birgisson (96/297)

Sigurðar Rúnar Sæmundsson, tannlæknir (97/252)

Sigurður Björnsson (96/297)

Sigurður Grétar Sigurðsson, nemi (97/151)

Sigurður Ólafsson (96/297)

Sigurjón Þorbergsson (97/218)

Sigurveig Alfreðsdóttir (97/203)

Sigurveig Dögg Þormóðsdóttir, sjúkraþjálfaranemi (97/386)

Sjöfn Guðmundsdóttir, nemi (97/372)

Sjöfn Kristjánsdóttir (96/297)

Sjúkrahús Reykjavíkur (97/0126)

Sjúkrahús Reykjavíkur (97/082)

Sjúkrahús Reykjavíkur (97/126)

Sjúkrahúsið og heilsugæslan á Húsavík (96/170)

Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin Húsavík (96/170)

Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi (vegna Sigurjóns Þorbergssonar) (97/102)

Skráningarstofan hf. (97/319)

Skrifstofa Reykjanesbæjar (97/290)

Sólborg Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/026)

Sólborg Ingjaldsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/108)

Sólveig Jakobsdóttir, verkefnisstjóri (97/233)

Starfsmannasvið Háskóla Íslands (97/097)

Stefán Bergmann, lektor (97/084)

Stefán Finnbogason, tannlæknir (97/252)

Stefán G. Jónsson, dósent (97/084)

Steinn Jónsson, læknir (97/076)

Steinunn Jónatansdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/064)

Steinunn Thorarensen, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (97/223)

Svafa Grönfeldt (97/408)

Svandís J. Sigurðardóttir, lektor (97/104)

Sveinbjörg Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/019)

Sveinn Kjartansson, barnalæknir (97/310)

Tækniskóli Íslands (97/191)

Tjörvi E. Perry, læknanemi (97/135)

TNT-hraðflutningar (97/263)

Tóbaksvarnarnefnd (97/036)

Tómas Helgason, læknir (97/398)

Torfi Magnússon, sérfræðingur (97/425)

Trausti Hafsteinsson, kennaraháskólanemi (97/363)

Trausti Hrafnsson, sjúkraþjálfaranemi (97/150)

Trausti Þorsteinsson, framkvæmdastjóri (97/322)

Trygging hf. (97/307)

Tryggingamiðstöðin hf. (97/318)

Tryggingastofnun ríkisins (97/005)

TVG - Zimsen (97/268)

Úlfur Agnarsson (96/297)

Umboðsmaður Alþingis (97/240)

Umboðsmaður barna (97/188)

Unnsteinn Ingi Júlíusson, læknir (97/154)

Unnur Steina Björnsdóttir, læknir og sérfræðingur (96/252)

Upplýsingaþjónustan ehf. (96/082)

Upplýsingaþjónustan ehf. (97/025)

Upplýsingaþjónustan ehf., Agnar Kofoed-Hansen (96/062)

V.A. (96/277)

Valgeir Sigurðsson, sjúkraþjálfaranemi (97/150)

Verzlunarskóli Íslands (97/195)

Viðar Örn Eðvarðsson, læknir (97/135)

Viðar Örn Eðvarðsson, læknir (97/142)

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/039)

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/042)

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/130)

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/395)

Vilhjálmur Rafnsson, yfirlæknir (97/396)

Vinnueftirlit ríkisins (97/120)

Virði sf. (97/141)

Þjóðminjasafn Íslands (97/285)

Þóra Björk Jónsdóttir, kennslufulltrúi (97/015)

Þórarinn Gíslason, læknir (97/206)

Þórarinn Gíslason, læknir og sérfræðingur (96/252)

Þórarinn Gíslason, lungnalæknir (97/304)

Þórarinn Sveinsson, doktor (97/104)

Þórarinn Tyrfingsson (96/298)

Þorbjörg Ásdís Árnadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/062)

Þorbjörn Broddason, prófessor (97/085)

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/119)

Þórdís Kristjánsdóttir, grunnskólakennari (97/429)

Þórður Óskarsson, yfirlæknir (97/310)

Þórey Ósk Sæmundsdóttir, kennaraháskólanemi (97/147)

Þórhallur Ágústsson, læknir (97/310)

Þórir Þórðarson, framkvæmdastjóri (97/182)

Þorkell Guðbrandsson, hjartasérfræðingur (97/279)

Þórólfur Jónsson, laganemi (97/238)

Þórólfur Þórlindsson (95/229)

Þórólfur Þórlindsson (97/088)

Þorsteinn Sv. Stefánsson, læknir (97/076)

Þórunn Sævarsdóttir, hjúkrunarfræðingur (97/168)

Þorvaldur Ingvarsson, bæklunarskurðlæknir (97/213)

Þorvaldur Jónsson, læknir (97/298)

Þröstur Björgvinsson (97/225)

Þuríður Geirsdóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/101)

Þuríður Guðnadóttir, hjúkrunarfræðinemi (97/019)Var efnið hjálplegt? Nei