Umfangsmiklar endurbætur á persónuverndarlöggjöf Evrópu samþykktar

Í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í dag, 14. apríl 2016, kemur fram að ný evrópsk persónuverndarlöggjöf hefur verið samþykkt af Evrópuþinginu í dag. Evrópuráðið afgreiddi löggjöfina fyrir sitt leyti 8. apríl 2016. Formleg undirritun af forsetum bæði Evrópuþingsins og Evrópuráðsins þarf hins vegar að koma til svo löggjöfin sé formlega samþykkt.

14. apríl 2016

Í fréttatilkynningu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í dag kemur fram að ný evrópsk persónuverndarlöggjöf hefur verið samþykkt af Evrópuþinginu í dag, 14. apríl 2016. Evrópuráðið afgreiddi löggjöfina fyrir sitt leyti 8. apríl 2016. Formleg undirritun af forsetum bæði Evrópuþingsins og Evrópuráðsins þarf hins vegar að koma til svo löggjöfin sé formlega samþykkt.

Þær endurbætur á evrópskri persónuverndarlöggjöf sem hér um ræðir samanstanda annars vegar af nýrri reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálst flæði slíkra upplýsinga (Evrópureglugerð) og hins vegar að tilskipun um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá löggæslu- og dómsyfirvöldum (löggæslutilskipun).

Samþykkt endurbótanna markar tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi. Í tilkynningunni frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem birt var í dag segir að hinar nýju reglur staðfesti að sá grundvallarréttur sem felst í vernd persónuupplýsinga einstaklinga verði tryggður fyrir alla. Reglurnar munu einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu með því að tryggja öryggi í þjónustu sem veitt er yfir netið og veita fyrirtækjum réttarvissu (e. legal certainty) sem byggist á skýrum og samræmdum reglum. Þá segir að Evróputilskipun á sviði löggæslu og refsivörslu muni tryggja öryggi vinnslu persónuupplýsinga ásamt því að efla samvinnu löggæsluyfirvalda í Evrópu í baráttunni gegn hryðjuverkum og öðrum alvarlegum glæpum. Í tilkynningunni er jafnframt tekið fram að þessar lagabreytingar eigi að gagnast öllum borgurum Evrópu og að einstaklingum þurfi að vera veitt vald til að þekkja rétt sinn svo þeir viti hvernig unnt sé að verja þann rétt ef hann er ekki virtur.

Eftir undirritun forseta Evrópuþingsins og forseta Evrópuráðsins munu fyrrnefndar gerðir öðlast formlegt gildi. Hefst þá tveggja ára innleiðingarferli fyrir aðildarríki Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Persónuvernd mun kynna efni endurbótanna og veita einstaklingum sem og aðilum sem vinna persónuupplýsingar leiðbeiningar um efni reglugerðarinnar og tilskipunarinnar á komandi vikum og mánuðum. 

Fréttatilkynningu framkvæmdastjórnarinnar frá 14. apríl 2016 má finna hér. 


Drög að hinni nýju Evrópureglugerð má finna hér.


Drög að hinni nýju löggæslutilskipun má finna hér.


Frekari upplýsingar um reglugerðina má finna í frétt Persónuverndar frá 16. desember 2015. Þá er einnig að finna umfangsmiklar upplýsingar um efnisákvæði reglugerðarinnar á heimasíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

 Var efnið hjálplegt? Nei