Ný persónuverndarlöggjöf 2018

Þann 27. apríl 2016 skrifuðu forsetar Evrópuþingsins og -ráðsins undir nýja evrópska persónuverndarlöggjöf en löggjöfin kemur til framkvæmda þann 25. maí 2018 í Evrópu. Vernd persónuupplýsinga er talinn hluti af EES-samningnum og mun löggjöfin því verða tekin upp í íslenskan rétt. Rétt er þó að taka fram að löggjöfin mun hljóta þinglega meðferð Alþingis áður en hún tekur að fullu gildi hérlendis.

Þær endurbætur á evrópskri persónuverndarlöggjöf sem hér um ræðir samanstanda annars vegar af nýrri reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og frjálst flæði slíkra upplýsinga (Evrópureglugerð) og hins vegar að tilskipun um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá löggæslu- og dómsyfirvöldum (löggæslutilskipun).

Samþykkt endurbótanna markar tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi. Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 14. apríl 2016 segir að hinar nýju reglur staðfesti að sá grundvallarréttur sem felst í vernd persónuupplýsinga einstaklinga verði tryggður fyrir alla. Reglurnar munu einnig efla hinn stafræna innri markað Evrópu með því að tryggja öryggi í þjónustu sem veitt er yfir netið og veita fyrirtækjum réttarvissu (e. legal certainty) sem byggist á skýrum og samræmdum reglum. Þá segir að Evróputilskipun á sviði löggæslu og refsivörslu muni tryggja öryggi vinnslu persónuupplýsinga ásamt því að efla samvinnu löggæsluyfirvalda í Evrópu í baráttunni gegn hryðjuverkum og öðrum alvarlegum glæpum. Í tilkynningunni er jafnframt tekið fram að þessar lagabreytingar eigi að gagnast öllum borgurum Evrópu og að einstaklingum þurfi að vera veitt vald til að þekkja rétt sinn svo þeir viti hvernig unnt sé að verja þann rétt ef hann er ekki virtur.

Nánari upplýsingar um helstu atriði reglugerðarinnar má finna í bæklingum og glærukynningum Persónuverndar hér til hliðar.
 
Þá er fyrirhugað að Persónuvernd muni kynna efni endurbótanna og veita einstaklingum sem og aðilum sem vinna persónuupplýsingar leiðbeiningar um efni reglugerðarinnar og tilskipunarinnar á komandi vikum og mánuðum.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica